„Blik 1936, 2. tbl./Æska og heilbrigði“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
|
(Enginn munur)
|
Núverandi breyting frá og með 12. október 2010 kl. 20:34
H V E R J U M manni ætti að vera það sönn gleði, að styðja gott málefni, og mér hefir skilizt, að tilgangur Málfundafélags Gagnfræðaskólans með útgáfu Bliks, væri að auka manngildi æskumanna og efla hróður eyjunnar okkar, og verður vart annað sagt, en þetta sé gott og háleitt, og ekki með öllu ófyrirsynju nú á þessum síðustu og verstu tímum. Mér er því ánægja að leggja fram hönd þessu til stuðnings.
Æska og heibrigði eru orð, sem helzt alltaf ættu að fara saman, en sem því miður allt of sjaldan gera það. Allir hafa einhvern tíma verið ungir, en sumir eru alltaf veikir frá vöggunni til grafarinnar, aðrir meira eða minna. Sumt af krankleika manna er óviðráðanlegt enn sem komið er, annað er utanaðkomandi og stendur til bóta með bættum lifnaðarháttum og húsakynnum, og síðast en ekki sízt bættu heilbrigðiseftirliti. Loks eru svo kvillar og sjúkdómar, sem menn leggja sjálfir grundvöll að í æsku og sem með hyggilegu líferni er hægt að fyrirbyggja, eða eru jafnvel bein sjálfskaparvíti.
Heilsan er hið dýrmætasta, sem einstaklingurinn á og getur nokkuru sinni eignazt hér í lífi. Æskunni hættir til að fara of gálauslega með þennan gimstein, og súpa svo seyðið af síðarmeir, og er þá allt of seint að iðrast eftir dauðann. Heilsan er uppspretta starfsgleði og vellíðanar, og er sjaldan metin að verðleikum fyrr en menn eru búnir að missa hana. Mannslíkaminn er það dásamlegasta listaverk, sem til er á jörðu hér, jafnvel þótt aðeins væri litið á hann sem orkuframleiðanda, þá kemst þar engin vél, sem enn þekkist, í hálfkvist.
Nú munu menn spyrja: Hvað get ég þá gert til að varðveita og jafnvel bæta heilsu mína, á ég að setjast í helgan stein, eins og kallað er, og fara ekki á skemmtanir, þar sem ég með hverjum andardrætti fylli lungun með dansryki, eða vera úti á síðkvöldum og nóttum og syngja á götum bæjarins, þangað til hanarnir taka við um kl. 3, eða aka syngjandi um göturnar, eða út í Höfða, standandi á pallinum á vörubíl? Allt þetta mætti að vísu gjarnan missa sig, því að ekkert af þessu er hollt. Það er mjög óhollt að syngja mikið úti í köldu næturlofti, eða móti storminum uppi á þjótandi bílapöllunum. Það ofreynir lungun og raddfærin, auk þess sem vafasamt er, hvort hægt er að kalla þetta söng á stundum. Sönglistin er fullkomin út af fyrir sig og í henni er það samræmi og sú fegurð, sem menn oft sakna svo mjög í daglegu striti. En því hraklegra er að heyra henni misbeitt.
Þeim blæs aldrei byr úr réttri átt, sem ekki veit hvert á að sigla. Það er því frekar ætlun mín að benda á leiðir heldur en að letja menn þess að ýta úr vör. Hér vill nú svo til, að leiðirnar eru mjög margar og mun ég því aðeins drepa á þær helztu, einkum með tilliti til staðhátta hér á eyjunni okkar, sem þótt ekki sé hún stór, hefir mikla fegurð að geyma, hressandi heilnæmt sjávarloftslag og fremur lág fjöll og flest auðveld að ganga upp á. Frændur vorir Norðmenn temja sér mjög fjallgöngur. Klukkan átta á sunnudagsmorgnana sjást stórir hópar af ungu og jafnvel öldruðu fólki leggja af stað upp á fjöllin í kringum Bergen, sem eru dálítið hærri en fjöllin hérna, og ruddir vegir neðantil. Hér ættu ungir menn að taka sig saman, og ryðja veg t.d. upp á Klif.
Þá er sjórinn og sólin heimsins mest eftirsóttu heilsubótameðul nú á tímum. Sundlaugin hérna er góð, það sem hún nær, en galli er það á gjöf Njarðar, að ekkert er séð fyrir sólbaði. Víða er hér hægt að fá sér sólböð. Þau auka starfsþrótt og lífsfjör og vernda gegn sjúkdómum og lækna sjúkdóma. Sólargeislarnir fara ekki inn í líkamann, heldur staðnæmast í húðinni og valda þar efnabreytingum, vakningu á efnum, sem fara um líkamann, og valda áhrifum á innvortis líffæri.
Boðskapur minn verður þá í stuttu máli þessi:
Notaðu frístundir þínar til að fara í göngur og fjallgöngur, sjó- og sólböð; kynntu þér hina undursamlegu náttúru eyjanna okkar, og lærðu að dást að, hversu þær standa á móti heljartökum Ægis og lærðu af því að sigrast á örðugleikum og holskeflum lífsins.
- Vestmannaeyjum 26. apríl, 1936