„Blik 1961/Ferðaminningar“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: Efnisyfirlit 1961 =''Ferðaminningar''= '''Reykjavík - Vestmannaeyjar - Vík í Mýrdal''' <br> <br> Þessi stutta ferðasaga gerðist eitt sumarið á 1. tugi 20. a...)
 
m (Verndaði „Blik 1961/Ferðaminningar“ [edit=sysop:move=sysop])
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 10. febrúar 2010 kl. 16:37

Efnisyfirlit 1961




Ferðaminningar

Reykjavík - Vestmannaeyjar - Vík í Mýrdal

Þessi stutta ferðasaga gerðist eitt sumarið á 1. tugi 20. aldarinnar. Vetrarvinnu og vorvertíð suður með sjó var lokið. Ég var kominn til Reykjavíkur og var á heimleið, og ég átti heima austur í Skaftafellssýslu.
Um tvennt var að velja: Ganga austur alla leið eða fara sjóveg. Vermenn voru vanastir göngunni, en hún var þreytandi eftir stritið á vetrarvertíð og við vorannir. Hitt var léttara og fljótara að fara sjóleiðina austur í Vík í Mýrdal, ef veður leyfði og sjór.
Á þessum árum hafði „Hið sameinaða gufuskipafélag“ tvö skip í strandferðum hér við land: „Skálholt“, vestur og norður, og ,,Hóla“, austur og norður. Bæði þessi skip sneru jafnan við á Akureyri og fóru þá sömu leið til baka.
Ég hitti nokkra Skaftfellinga, sem komnir voru í bæinn. Þeir höfðu ýmist verið til fiskjar á skútum eða unnið um vorið hjá bændum í nágrenni bæjarins. Þeir kváðust ætla austur með ,,Hólum“. Mér flaug í hug að fara eins að, enda þótt landgönguskilyrði í Vík væru jafnan tvísýn og ótrygg. Einhver sagði, að fara mætti af skipinu í Vestmannaeyjum, ef illa liti út með lendingu í Vík. Frá Eyjum væru svo oft ferðir upp í Landeyjar eða undir Fjöllin og sjaldan lengi ófær sjór um hásumarið.
Einn daginn stóð þessi auglýsing skráð stórum stöfum í glugga hjá Ziemsen: „Hólar fara austur 9. júlí kl. 9 árdegis.“ Teningnum var kastað. Sjóferðarævintýrið valið.
Ég fékk lánaðan handvagn og flutti farangur minn á afgreiðsluna. Þá voru þar hvorki hafskipabryggja né hafnargarðar. Skipin lágu við akkeri úti á höfn, þar á meðal „Hólar“. Við félagarnir tókum okkur far með litlum árabáti frá Steinbryggjunni og höfðum með okkur farangur okkar. Hann var merktur okkur og svo stóð á merkisspjaldinu orðið „passiséragóss“. Farangurinn mátti vera allt að 100 pundum (50 kg.) en var raunar talsvert meira hjá sumum.
Báturinn lagðist við stigann, sem hékk niður með skipshliðinni, en farangurinn var handlangaður upp annars staðar.
Á tilsettum tíma var pípt burtfararmerkið, létt akkeri og lagt af stað.
Við félagarnir fórum með farangur okkar niður í lest. Þar var fjöldi fólks að búa um sig, karlar, konur og jafnvel börn. Hver fjölskylda eða félagshópur afmarkaði sér rúm með kössum, pokum og skrínum, eftir því sem hægt var. Einkum voru það konur, sem lögðust þegar fyrir og breiddu ofan á sig teppi eða sængur. Aðrir sátu eða voru á ferli.
Veður var stillt. Skipið öslaði sjóinn og stefndi á Keflavík. Þar var fyrsti viðkomustaður þess og mjög stutt viðdvöl. Nokkrir farþegar bættust við og áfram var haldið.
Brátt fóru hreyfingar skipsins vaxandi. Þá breyttist lífið í lestinni. Börn tóku að gráta, konur að veina, því sjóveiki þjáði marga. Áfengispúkinn skaut upp höfði hér og þar og náði allmörgum á vald sitt. Sumir sungu eða kváðu. Aðrir öskruðu ókvæðisorð og pústrar gengu, ef svo bar undir. Margir voru líka hjálpfúsir og reyndu að leggja lið þeim, sem erfitt áttu. Sumir reyndu að stilla ofstopamennina og þá ölóðu. — Þannig bárust margsháttar hljóð að eyrum og margvíslegur „ilmur“ að vitum manna.
Sannarlega var þetta fólk, sem þjappað var saman í lestina eins og dýrum, ekki öfundsvert. Og mestur hluti þess átti sólarhringa ferð fyrir höndum því að leiðarendi þess var einhversstaðar á Austfjörðum. — Mat hafði það með sér og kaffikönnur. Heitt kaffivatn fékk það í skipseldhúsinu og mun hafa kostað 5—10 aura á könnuna. Stór tunna var fjötruð úti við borðstokkinn á lágþiljum. Þar gátu lestarbúar fengið vatn með því að sökkva blikkmáli, sem þar hékk í bandi, niður um sponsgatið, sem annars var lokað með stórum tappa. Ekki fannst manni vatnið sérlega lystugt, þar sem margir drukku af barmi málsins.
Á afturhluta skipsins var hærra þilfar. Þar máttu lestverjar helzt ekki vera, því að það var ætlað þeim, sem voru á 1. og 2. farrými. Samt stálust lestarbúar þangað upp öðru hvoru til að skoða sig um.
Ekki bar neitt markvert til tíðinda, nema þá það, að ofurölvi einn kvaddi tóma flösku með því að slá henni við járnsúlu, svo að glerbrotin hrukku víðsvegar um lestina og veittu nokkrum undir, sem úr dreyrði.
Áfram mjakaðist kuggurinn. Vindur fór vaxandi. Vestmannaeyjar komu í ljósmál, rismiklar og tignarlegar. Um það bil kom einkennisbúinn maður ofan í lestina og spurði um farþega til Vestmannaeyja. Einhverjir gáfu sig fram. Þeir greiddu fargjaldið og fengu farseðla. Loks var lagzt við akkeri austur á Víkinni, suður af Yztakletti. Stinningskaldi var á og sjór ókyrr. Fljótlega komu bátar frá landi með fólk og farangur, sem var tekið um borð, og eitthvað af vörum var tekið í land.
Skipstjórinn á ,,Hólum“, sem mig minnir að héti O. Jakobsen, gætti sjálfur hliðsins, sem opnað var á öldustokknum. Einhverjir, sem lengra ætluðu, vildu skreppa í land, en hann aftók það með öllu. Einn kom þar all mjög drukkinn og vildi ryðjast ofan í bátinn. Skipstjóri vék honum frá. Aftur kom sá ölvaði og stjakaði við þeim danska. Þá fékk hann allþungt högg í höfuðið. Það dugði til þess, að hann hætti við áform sitt, þó ekki orðalaust.
Ekki var lengi legið í Eyjum, eftir að afgreiðslu var lokið. Og nú var Vík í Mýrdal „næsta höfn“. Aftur kemur ,,sá gyllti“ (stýrimaður) og hrópar: ,,Farseðlar til Víkur“. Menn gáfu sig fram. Hver greiddi sitt gjald, 4 krónur, og fékk sinn seðil.
Vel sást til Mýrdalsfjalla, og voru þau vingjarnleg að venju.
Loks tókum við Skaftfellingar að bisa við að koma dóti okkar upp á þilfar og biðum svo þess, er verða vildi. Mörg féll báran hvít að söndum, það sáum við. Hitt vissum við líka, að Víkurmenn voru volki vanir og slungnir að sjá við glettum Ægisdætra. Við Dyrhólaey var skipsflautan þeytt af krafti, brátt skriðið austur fyrir Reynisdranga og lagzt á venjulegum stað.
Nokkur stund leið. Opið skip sást koma frá landi. Það lagðist að síðu „Hóla“ og menn ræddust við. Formaðurinn, Jón Þorsteinsson, sagði sjó viðsjálan. Sennilega kæmi þó annað skip út. „Aðeins konur og lasburðamenn í land“, hrópaði skipstjóri. Þessu fólki var hjálpað niður í bátinn. Ég sá, að Sigurður Ólafsson á Steinsmýri var kominn í bátinn. Ég stóð mjög nærri Jakobsen gamla og stakk farseðli mínum í hönd hans. Hann ýtti mér að hliðinu. Í þeirri andrá lyfti aldan bátnum og ég stökk ofan í skutinn. Um leið slepptu þeir og ýttu frá. „Þar skall hurð nærri hælum,“ sagði einhver bátsverjinn. „Litlu munaði, að þú lentir í sjóinn,“ sagði hann við mig. Ég veifaði til félaga minna, sem eftir voru, og þeir á móti. Farangur minn var að vísu eftir á þilfarinu. En ég vissi, að hann mundi verða tekinn til hirðingar.
Knálega var róið til lands, því að bátsverjar þóttust sjá, að sjór færi versnandi. Litla stund var biðið lags og síðan tekinn brimróðurinn. Um leið og skipið kenndi grunns, kom holsjór og fyllti það svo, að út af flóði. Allir urðu holdvotir nema þeir, sem skinnklæddir voru. Að öðru leyti sakaði engan. Hætt hafði verið við að setja fram hitt skipið, og önnur ferð var ekki farin út að ,,Hólum“. Eftir dálitla bið flautuðu „Hólar“ til brottfarar, því að ekkert varð meira aðhafzt.
Af þeim Skaftfellingum öðrum, sem ætluðu til Víkur, er það að segja, að þeir stigu af skipinu á Djúpavogi og gengu heim til sín. Svo fór um sjóferð þá.
Ég hefi brugðið hér upp smámynd af samgönguörðugleikum í upphafi aldarinnar og svo af þeirri aðbúð, sem Íslendingar yfirleitt áttu þá við að búa á strandferðaskipum þeirra tíma.

Einar Sigurfinnsson