„Blik 1969/Dularfullur ferðalangur“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: '''Ingibjörg Ólafsdóttir''' =Dularfullur ferðalangur= Þegar Sigríður Ólafsdóttir, móðir mín, var tvítug, fluttist hún frá foreldrum sínum í Múlakoti og giftist f...) |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 1: | Lína 1: | ||
[[Blik 1969|Efnisyfirlit 1969]] | |||
[[Ingibjörg Ólafsdóttir]], [[Bólstaðarhlíð]] | |||
=Dularfullur ferðalangur= | =Dularfullur ferðalangur= | ||
Lína 31: | Lína 35: | ||
<br> | <br> | ||
''<small>Þessa sögu skráði ég eftir frásögn móður minnar sjálfrar.</small>'' | ''<small>Þessa sögu skráði ég eftir frásögn móður minnar sjálfrar.</small>'' | ||
{{Blik}} |
Útgáfa síðunnar 16. maí 2010 kl. 14:57
Ingibjörg Ólafsdóttir, Bólstaðarhlíð
Dularfullur ferðalangur
Þegar Sigríður Ólafsdóttir, móðir mín, var tvítug, fluttist hún frá foreldrum sínum í Múlakoti og giftist fyrri manni sínum, Þóroddi Magnússyni í Dalseli.
Á fyrstu búskaparárum móður minnar gerðist það, sem hér verður sagt frá.
Það var um vor. Karlmennirnir höfðu farið að heiman, sumir í kaupstaðarferð, aðrir til sjóróðra. Kvenfólkið hafði því allan veg og vanda af heimilisstörfunum, bæði utan bæjar og innan, þann tíma, sem þeir voru fjarverandi.
Erfiðast var að annast smalamennskuna, en hún var einkum fólgin í því að halda ánum í heimahögum, því að komið var að fráfærum. Sérstaklega sóttu ærnar út á víðáttuna og smáragrundirnar inn af Stóru-Dímon eða Rauðuskriðum, eins og hún hét í fornöld.
Það var venja Sigríðar móður minnar að heimsækja foreldra sína haust og vor og dveljast hjá þeim orlofsnæturnar, en í þetta sinn hafði það dregizt einhverra hluta vegna. Nú bar svo til, að Sveinn bróðir hennar var á ferð í Dalseli. Hann flutti henni skilaboð frá foreldrum þeirra þess efnis að láta það ekki mikið lengur undir höfuð leggjast að koma uppeftir til þeirra.
Þar sem karlmennirnir voru ekki heima og hún hafði því ekki fylgdarmann yfir vötnin, talaðist svo til milli systkinanna, að hún færi upp að Múlakoti strax daginn eftir, ef veður leyfði.
Á þeim árum háttaði svo til, að mikill farartálmi var á leiðinni upp í Fljótshlíð. Þá rann Þverá stuttan spöl frá túnfætinum í Múlakoti. Eins og kunnugt er, var hún vatnsmikil og gat verið slæm yfirferðar. Bræður móður minnar vildu því fylgjast vel með ferðum hennar og koma til móts við hana, svo að þeir gætu fylgt henni yfir ána.
Þegar þetta gerðist, átti heima í Dalseli stúlka, sem Þórdís hét. Í daglegu tali var hún æfinlega kölluð Dísa. Næsta dag átti hún að huga að ánum og smala þeim í heimahaga. Dísa átti því langa leið fyrir höndum, og áttu þær samleið, hún og móðir mín, langleiðina upp í Fljótshlíð. Báðar höfðu þær góða hesta, sem enginn hörgull var á í sveitinni.
Næsta dag var ágætt ferðaveður, — logn og sólarlítið. Létt ský voru á lofti og þokan beltaði sig um brúnir fjallanna.
Fyrri hluta dagsins var svo lagt af stað í ferðalagið. Þær fóru fyrst sem leið liggur inn Ljósárdílann, en þar eru heimahagar frá Dalseli. Dílinn er sléttur og mjög greiðfær yfirferðar. Eftir það taka við Markarfljótsaurarnir alla leið inn fyrir Stóru-Dímon. En þar breytir landslagið um svip. Þarna tekur við víðlent og gróðurríkt graslendi, þar sem fjárhópar og hrossastóð dreifir sér um grænar grundirnar. Þarna skildu leiðir þeirra. Móðir mín hélt ferð sinni áfram, en Dísa fór að huga að ánum, sem hún vissi að voru þarna saman við annað fé.
Dísa hafði Snata, fjárhundinn, með sér til aðstoðar við smalamennskuna. Hún hafði ekki farið langt, er hún sá mann á ferð. Þetta var hár og vörpulegur maður, sem reið fallegum, hvítum hesti, og var hann svo léttstígur, að engu var líkara en hann snerti varla jörðina. Hann bar því óvenjulega hratt yfir. Dísa sá til ferða hans dálitla stund. En þegar hann var kominn skammt frá móður minni, stefndi hann í veg fyrir hana. Þegar hann svo mætti henni, nam hann staðar. Þá laut hann fram á makka hestsins og virtist horfa til hennar eins og hann væri að tala við hana.
Þessi maður leit jafn eðlilega út og hver annar ferðamaður. En hann var í svo mikilli fjarlægð frá Dísu, að hún gat ekki lýst honum nánar.
Fjárhundurinn hagaði sér mjög einkennilega. Hann hljóp eins og elding frá henni og var í svo miklu uppnámi, að hárin risu á höfði hans. Hann hljóp síðan urrandi og geltandi umhverfis manninn. Dísa fór þá að stugga saman ánum, en þær voru erfiðar, svo að henni gekk illa að smala þeim saman. Hún afréð því að bíða við og reyna að lokka Snata til sín. Það bar engan árangur. Hann virtist gjörsamlega upptekinn af öðru og sinnti hvorki boðum né banni.
Ennþá var ókunni maðurinn þarna og virtist vera í samræðum við Sigríði. Dísa gizkaði á, að hann væri sveitungi hennar eða einhver annar, sem hún þekkti. Samt þótti henni það einkennilegt, hversu Sigríður virtist óróleg og var alltaf að kippa í beizlistauminn, eins og hún vildi komast sem fyrst af stað.
Að lokum hélt ókunni maðurinn áfram leiðar sinnar. Hvíti hesturinn sporlétti bar hann hratt yfir enn sem fyrr. Dísa sá það síðast til ferða hans, að hann var kominn æðispöl í burtu og var þá rétt framan við Markarfljót. Snati kom þá hlaupandi til hennar, og gaf hún sig þá að smalamennskunni.
Nú víkur sögunni til Sigríðar móður minnar. Þegar hún hafði farið dálítinn spöl áleiðis, bar tvennt að í einu: Jarpskjóni, sem hún reið á, snarstanzaði og stóð síðan hreyfingarlaus, án þess að hún kæmi honum úr sporunum með nokkru hugsanlegu móti. Jafnframt fann hún leika um sig kaldan gust, sem næddi gegnum merg og bein. Henni fannst eitthvað vera í návist sinni, sem hafði mjög lamandi áhrif á hana — eitthvað, sem dró frá henni lífskraft og þrótt. Enginn sýnilegur farartálmi var á leið hennar framundan. Hún sá Dísu nokkurn spöl frá sér og heyrði, að hún reyndi að lokka Snata til sín, en aldrei þessu vant hljóp hann í kring um Jarpskjóna og var í versta ham, en sinnti ekki hót skyldum sínum við féð og smalann. Þannig var hvutti ekki vanur að haga sér við ókunnuga hvað þá heimafólkið.
Móður minni fannst þessi dvöl vera orðin nógu löng. Henni hljóp kapp í kinn, svo að hún kippti snöggt í tauminn og gat þá snúið hestinum við. Fór hún þá dálítið úrleiðis. Gekk þá allt vel. Hún jafnaði sig fljótlega, og fannst þá sem hún væri komin í annan og betri heim. Það var sem þungu fargi væri af henni létt. Hún komst fljótlega að Þverá, þar sem bræðurnir biðu hennar fyrir handan ána, sem var greiðfær yfirferðar í þetta sinn.
Móðir mín sagði svo síðar frá, að aldrei hefði henni fundizt Fljótshlíðin, þessi gróðursæla og undurfagra sveit, brosa jafn hlýtt við sér eins og í þetta sinn. Hún var svo heima hjá foreldrum sínum, þar til hún bjóst til heimferðar. Ekki minntist hún á það við heimilisfólkið í Múlakoti, að nokkuð óvenjulegt hefði tafið ferðir hennar á leiðinni upp eftir.
Hún mæltist til þess við bróður sinn, sem fylgdi henni yfir Þverá, að hann kæmi með henni alla leiðina. Hún gat ekki losað sig við beig, sem hún fann innra með sér, er hún hugleiddi, að hún þyrfti að fara aftur ein um sömu slóðir heim.
Á heimleiðinni bar ekkert til tíðinda, sem í frásögu er færandi.
Þegar hún kom heim, innti Dísa hana eftir því, hvaða manni hún hefði mætt, eftir að þær skildu fyrir ofan Stóru-Dímon. Þá sagði móðir mín henni, hvað fyrir hana hefði komið og fyrr er frá sagt. Dísa hafði þá líka sína sögu að segja, þó að hún væri á allt annan veg.
Dísa var fyrst í stað hálf vantrúuð á frásögn móður minnar, svo skýrt og eðlilega sem hún hafði séð ókunna manninn. En við nánari íhugun fannst henni það harla einkennilegt, hvað hestur mannsins var svifléttur og hann bar hratt yfir. Og þegar Dísa hugsaði sig betur um, var það augljóst, að Sigriður móðir mín virtist alls ekki vilja tala við ókunna manninn, heldur ákveðin í því að komast sem fyrst leiðar sinnar.
Fyrir sitt leyti var móðir mín sannfærð um það, að Dísa sagði satt og rétt frá því, sem fyrir hana bar, og líkindi voru til þess, að bæði Snati og Jarpskjóni hefðu orðið einhvers varir, ekki fundizt allt þar með felldu, eftir því sem þeir gátu látið það í ljós.
Þó að móðir mín sæi ekki þennan einkennilega ferðalang, varð hún samt fyrir lamandi og óhugnanlegum áhrifum, sem hún átti erfitt með að útskýra. Hún hafði það einnig mjög á tilfinningunni, að eitthvað dularfullt væri í návist hennar, þó að hún sæi ekkert, sem benti til þess að svo væri.
Móðir mín fór oftsinnis þessa sömu leið, en hún gat aldrei hugsað sér að vera ein á ferð eftir þetta.
Þessa sögu skráði ég eftir frásögn móður minnar sjálfrar.