„Blik 1937, 2. tbl./Holtsós“: Munur á milli breytinga
m (Verndaði „Blik 1937, 2.tbl./Holtsós“ [edit=sysop:move=sysop]) |
|
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 17. október 2009 kl. 11:25
HOLTSÓS
Niðurl.
Holtsós er ekki eingöngu til gagns með því að hann flæðir yfir engið og gerir það að frjósömu graslendi. Í honum er einnig mikil veiði, sérstaklega selur og silungur. Silungurinn er veiddur bæði í lagnet og dráttarnet. Vanaleg þyngd silungsins, sem veiðist í ósnum, er 4 merkur en það er ekki óalgengt, að það veiðast allt að 20 marka silungar. Töluverður selur er í honum, og hefir hann spillt mikið fyrir silungsveiðinni, en nú síðustu ár hefir verið unnið að útrýmingu hans. Hann er veiddur í net við útfallið, og hafa verið allt að 7 til 8 selir í einni umvitjun, og er það mikill hagur fyrir þá, sem það stunda, þegar skinnið selst fyrir allt að 30 kr. Einnig eru kópar rotaðir í fjörunni. Lax sést þar aðeins örsjaldan. Mikið fuglalíf er við ósinn, sundfuglar og vaðfuglar og er yndi á kyrrum haustdegi að horfa á svani og endur og aðra fugla synda um á ósnum, og heyra hinn stórfenglega söng svananna. Ósinn er einnig mikið til skemmtunar. Á sumrin er skemmt sér á bát á honum, og er það skemmtilegt og hollt að róa á bát á rennisléttum ósnum í blæjalogni og fjöllin speglast í rennisléttum vatnsfletinum. Þegar sólin er hæst á lofti og allir eru sveittir og þreyttir við engjasláttinn, og gömlu mennirnir fá sér miðdagsblund, þá kasta drengirnir klæðum og kæla sig í ósnum. Á veturna er rennt sér á skautum á honum.
Oft er þar fjölmennt á vetrarkvöldum, þegar stjörnurnar tindra og ísinn er spegilsléttur.
Í suðausturhorni óssins er að mestu þurr leira og er hún svo slétt og hörð sem hefluð fjöl. Þar þykir mörgum gaman að spretta úr spori á góðum gæðingum.
Undir Holtsós hafa eyfellskir bændur, sem við hann búa, átt að nokkru leyti efnalega afkomu sína, þar sem hann hefir frjóvgað jörð þeirra og verið til margskonar nytja. Hann Holtsós er og hefir verið miðstöð félags- og skemmtanalífs unga fólksins.
- F. J. 2. b.