„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Í útveri á Austurlandi“: Munur á milli breytinga
Karibjarna2 (spjall | framlög) Ekkert breytingarágrip |
Karibjarna2 (spjall | framlög) Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 1: | Lína 1: | ||
<center>[[ | <center>[[ Þórarinn Magnússon]]</center> | ||
<big><center>Í ÚTVERI Á AUSTURLANDI</center></big> | <big><center>Í ÚTVERI Á AUSTURLANDI</center></big> |
Útgáfa síðunnar 18. apríl 2017 kl. 16:01
Fyrir svo sem 60 - 70 árum var algengt að Vestmanneyingar færu austur á firði yfir sumarið til að stunda þaðan fiskiróðra. Höfðu þeir þá aðstöðu í landi til dvalar, beitningar og fiskverkunar, en þá var allt verkað í salt.
Helstir þessara staða munu hafa verið Skálar á Langanesi, Bakkafjörður og svo eitthvað minna á Suðurfjörðunum.
Þeir menn, sem hvað lengst stunduðu þessar sumarveiðar frá Austfjörðunum, voru Magnús Tómasson frá Hrafnabjörgum, oft við þau kenndur sem Maggi krummó, og Áslaugur Stefánsson frá Mandal, oft nefndur Laugi í Mandal. Mun hann hafa haldið hvað lengst út á Bakkafirði, enda sérlega vel kynntur þar.
Með hvorum þessara karla voru oftast tveir menn, oft stráklingar. Síðan höfðu báðir sameiginlega ráðskonu. Þá höfðu þeir líka sameiginlega íbúð á efri hæð í húsi sem kallað var Perlan.
Þegar ég var 17 ára fór ég fyrst með Áslaugi til Bakkafjarðar. Þá var einnig með honum Óskar heitinn Valdason sem minnisstæður er m.a. fyrir ýmsar íþróttir, einkum frábæra leikni með fótboltann.
Með Magnúsi voru þetta sumar Jón sonur hans, en hann dó úr berklum á besta aldri, og Ívar Magnússon frá Kornhóli á Skansinum.
Trillubátar þeirra Magnúsar og Áslaugs voru tveggja til þriggja tonna horn. Hét Magga trilla Nonni, en Lauga trilla Víglundur.
Framan af sumrinu stunduðum við handfæraveiðar, en eftir að síldin kom, sú norsk-íslenska, en það var árvisst í þá daga, veiddum við á línu. Síldina fengum við fyrir ekkert hjá síldarskipunum, nóg var af henni. Við frystum hana í kuldablöndu sem var snjór og salt hrært saman, en síðan var síldin geymd frosin í niðurgröfnum kössum með tómu rými utan um sem fyllt var með snjó og pínulitlu salti ofan á.
Á vetrum sáu Bakkfirðingar um að fylla þar til gerð hús með snjó oft kölluð íshús.
Fyrsta daginn, sem ég réri, var ég svolítið sjóveikur svo að ég ældi gjarnan út fyrir borðstokkinn þar sem ég var að keipa. Gerði Óskar þá óspart grín að mér til þess að gera mig vondan, en ekkert hreif.
Allt í einu fann ég ókennilega, volga bleytu renna niður lærið á mér. Brá mér við þetta og leit snöggt við. Sá ég þá að Óskar hafði verið að pissa í vasa minn. Fauk þá svo illilega í mig að minnstu munaði að ég ryki í hann, en stillti mig þó, hefi líklega ekki talið bátshornið heppilegan vettvang fyrir slagsmál. Sjóveikinni gleymdi ég hins vegar alveg og mun leikurinn hafa verið til þess gerður.
Haglabyssu vorum við alltaf með um borð sem Laugi átti. Eitt sinn sáum við lunda á sundi rétt í stefnunni. Óskar þreif þá byssuna til að skjóta lundann, miðaði þar til hann var nærri búinn að reka byssuna í lundann og hleypti þá af. Lundinn stakk sér hins vegar á kaf og kom brátt jafngóður upp aftur. Sögðum við að lundinn hafi verið svona spakur af því hann hafi séð að Óskar væri hættulaus þótt hann stingi byssunni upp í hann.
Seinna um sumarið vorum við Laugi á sjó með línu. Óskar var í landi að stokka upp línuna frá deginum áður. Laugi var að draga en ég að andæfa. Öll var línan þá dregin á höndum, ekkert línuspil í trillunum, og var það hið mesta erfiði á djúpu vatni. Þá var það að ég sá hvar Laugi skókst allur til, umlaði og froðufelldi. Ég vissi að hann var flogaveikur svo að ég áttaði mig strax og endasentist fram í fremsta rúmið þar sem hann var að draga. Náði ég honum þar sem hann vó salt á borðstokknum á leiðinni útbyrðis. Lagði ég hann svo fram í barkann, setti belg á línuna og keyrði í land.
Þegar við vorum rétt að koma í land fór Áslaugur að ranka við sér, en var bæði sljór og máttlítill. Var hann eina tvo daga að ná sér.
Ég fékk svo Ágúst Pétursson, harmonikkuleikara og síðar húsgagnasmið, til að sækja með mér línuna. Þeir Hafnabræður voru í mötuneyti með okkur.
Samkomuhús var ekkert á staðnum, en pakkhús Kaupfélagsins var oft rýmt og notað fyrir dansleiki.
Margt skeði skemmtilegt á böllunum þeim sem ég hætti mér ekki út í að skrá, en þeir muna sem þar voru.
Mikið var af Færeyingum þarna sem uppsátur höfðu í landi, íbúðarbragga, beitningar- og fiskverkunaraðstöðu.
Minnisstæðastir eru mér Fuglfirðingar, Götukarlar og Lambamenn, en svo voru þeir oft nefndir.
Jogvan E. Hansen, sem býr við Breiðabliksveg hér í Eyjum, bræður hans og faðir, urðu mér kunnugastir og hinir bestu vinir. Færeyingar voru þarna allt að 70 talsins en Íslendingar voru vart mikið yfir 30 enda var færeyska helsta tungumál staðarins og gat í rauninni enginn sloppið við að læra hana að verulegu leyti. Þessir Færeyingar, sem þarna dvöldust, voru svo grandvarir og vandaðir menn, allir sem einn, að vandfundnir voru aðrir eins og gott fordæmi öðrum mönnum. Gat maður skilið hnífinn sinn, eða hvaða grip annan sem var, áhyggjulaus eftir á víðavangi, án þess hann væri hirtur, nema ef hann var talinn týndur, þá var spurst fyrir um eigandann.
Þegar haustaði komu svo skúturnar við á heimleið af síldveiðum eða öðru fiskiríi og sóttu bæði menn og fisk, oftast bátana líka. Þetta voru oftast sömu skúturnar sem höfðu flutt þá upp um vorið.
Við Vestmanneyingarnir pökkuðum okkar fiski og seldum ásamt fiski þeirra Bakkfirðinga, en bátana skildum við oftast nær eftir.
Þó nokkrir fleiri strákar og uppkomnir menn en hér eru nefndir voru á Bakkafirði sumrin undan og eftir og veit ég ekki betur en allir eigi þeir ljúfar minningar þaðan.