„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1953/ Um réttindi og skyldur sjómanna“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 1: | Lína 1: | ||
<br> | <br> | ||
<big><center>''[[Jón Eiríksson|JÓN EIRÍKSSON]]:</center></big> | <big><center>''[[Jón Eiríksson skattstjóri|JÓN EIRÍKSSON]]:</center></big> | ||
<big><big><center>Um réttindi og skyldur sjómanna.</center></big></big><br> | <big><big><center>Um réttindi og skyldur sjómanna.</center></big></big><br> |
Núverandi breyting frá og með 7. janúar 2018 kl. 21:12
Betri er mögur sætt en feitur dómur segir gamall íslenzkur málsháttur. Deilur hafa ætíð í för með sér ýmislegt óhagræði svo sem aukinn kostnað, en sérstaklega þó það, að oft vill gleymast sjálfsagður drengskapur og vilja þá falla orð, sem eru þeim, sem talar þau, til álitshnekkis, en særa þann, sem þeim er beint til. Mér er það ljóst, að mér mun ekki takast í stuttri grein að gefa tæmandi greinargerð um réttindi og skyldur sjómanna, enda er það ekki ætlunin. Ég ætla aðeins að geta þeirra atriða, sem mér virðast helzt til þess fallin að valda ágreiningi. En þó vil ég leiða hjá mér, að fjalla um hina almennu kaup- og kjarasamninga, en þeir eru sem kunnugt er gerðir af þeim fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna, sem færastir eru til þeirra hluta.
Sérhver sjómaður, hvort sem hann er hátt eða lágt settur, hefur skyldum að gegna. Á móti þessum skyldum koma aftur réttindi honum til handa. Allar deilur stafa jafnan af því, að þessara réttinda eða skyldna hefur ekki verið gætt, eða því er haldið fram að svo hafi ekki verið.
Í íslenzkri löggjöf eru, eftir því sem við verður komið, ýtarleg fyrirmæli um það, hvernig sjómaður eigi að framkvæma skyldur sínar og hver sé réttur hans. Að sjálfsögðu verður slíkt aldrei talið upp svo tæmandi sé, en þó má finna þar glögglega leiðsögu. Þessi óvenju nákvæma löggjöf um þetta efni er þess ljóst dæmi, hversu þýðingarmikið löggjafinn telur það vera, að réttindi og skyldur sjómanna séu greinilega tilteknar.
Skyldur sjómannsins eru fyrst og fremst vinnuskylda. Sá samningur, sem hann gerir við útgerðarmenn skyldar hann fyrst og fremst til að leysa af hendi ákveðin störf. En réttur hans er sá, að taka við þeim launum, sem samningurinn skyldar útgerðarmanninn til að greiða. Sé þessara skyldna ekki gætt, er um brot á samningum að ræða. Ef útgerðarmaður hættir að greiða skipverja kaup sitt, er honum óskylt að starfa áfram á skipinu og getur fengið útgerðarmanninn dæmdan til að greiða kaupið. En skylda útgerðarmannsins er víðtækari. Sjómaðurinn þarf að búa við önnur kjör, en aðrir starfandi menn. Oft þarf hann að dvelja langdvölum á sjálfu skipinu. Sjórinn er oft óblíður og starfið áhættusamt. Skipverji getur vegna sjúkleika orðið ósjálfbjarga fjarri sínum nánustu. Af þessum sökum er útgerðarmanni eða skipstjóra fyrir hans hönd lagðar sérstakar skyldur á herðar. Eftir sjómannalögum má íbúð skipverja ekki vera heilsuspillandi. Nú á tímum eru gerðar strangari kröfur um íbúðir en áður var, og er það til bóta og vafalaust verður í nánustu framtíð um frekari kröfur í þessa átt. Eðlilegt finnst mér, að tekið sé tillit til þess, hvort skipverja er ætlað að dvelja lengur eða skemur á skipinu, þannig að meiri kröfur séu gerðar til gæða á íbúðum skipverja á skipum, sem sigla í langferðir, heldur en t.d.á landróðrabátum.
Ef skipverjar þykjast hafa ástæðu til að óttast, að skipið sé ósjófært, geta þeir borið fram kröfu um að skoðun fari fram. En þar sem kostnaðarsamt er að sinna slíkri kröfu verða skipverjar að ábyrgjast að hún sé á rökum reist. Sérhver skipverji á rétt á vernd. Hvorki skipstjóra né öðrum skipverjum er heimilt að misþyrma honum. Hann á rétt á því að fæði sé gott. Það mundi teljast ófullnægjandi fæði, ef það inniheldur ekki nauðsynleg bætiefni, eða er of lítið.
Sé þessara atriða ekki gætt getur sjómaður riftað samningi sínum og á jafnframt rétt á bótum, ennfremur kaup meðan á heimferð stendur, en þó eigi skemur en uppsagnarfrestur nam.
Auk þess á skipverji rétt á umönnun í veikindum sínum, læknishjálp og fyrir greiðslu við heimferð, þegar þannig stendur á. Að jafnaði skal þetta vera honum að kostnaðarlausu.
Þau tilvik, sem talin eru upp í sjómannalögum um þetta efni eru engan veginn tæmandi. Vel geta komið fyrir aðrar vanefndir af hálfu útgerðarmanns, sem hefðu sömu eða svipaðar réttarverkanir og þau atriði, sem ég gat um áðan. Löggjafinn ætlar sér ekki annað en að skapa meginreglu, sem getur orðið almennt leiðarljós um skyldur útgerðarmanns gagnvart skipverjum.
Hinsvegar skulu sjómenn sem aðrir varast að vera ekki of fljótfærir að telja til vanefnda frá hendi útgerðarmanns. Vel kann að vera, að þar sem í fljótu bragði virðast vera vanefndir, séu þær ei fyrir hendi. Við getum hugsað okkur það, að útgerðarmanni væri vítalaus dráttur á greiðslu kaups. Þar gætu verið að verki utanaðkomandi öfl, sem útgerðarmaður fengi ekkert við ráðið. Íbúð skipverja getur orðið heilsuspilIandi vegna sjótjóns, en útgerðarmaður verður ekki krafinn um viðgerð fyrr en því verður við komið. Hegðun skipverja getur verið þannig, að hún réttlæti valdbeitingu, sem hefur meiðingu í för með sér, og þannig mætti lengi telja.
Eins og ég gat um áðan er það fyrsta skylda skipverja að vinna þau störf, sem hann er ráðinn til, með alúð, áhuga og trúmennsku. Neiti hann að gera það, má hann búast við að missa eitthvað af rétti sínum, t.d. má draga af honum kaup þann tíma, sem hann ólöglega kom sér undan því að vinna störf sín.
Í 33. grein sjómannalaganna heimilast að víkja skipverja fyrirvaralaust úr skiprúmi, ef hann reynist óhæfur til þessa starfs, sem hann var ráðinn til, ef hann kemur ekki til skips á ákveðnum tíma og skipið á að láta úr höfn, eða ráða verður annan mann í hans stað, ef hann verður sekur um mikil afglöp í starfi sínu, svo sem það, að óhlýðnast skipunum yfirboðara sinna, að beita ofbeldi við yfirmenn sína, að misþyrma öðrum mönnum á skipinu, eða er hvað eftir annað drukkinn við störf sín. Ef hann verður sekur um þjófnað eða annan meiriháttar glæp, ef hann leynir manni á skipsfjöl, eða tollskyldum varningi, eða þeim varningi, er útflutningsbann er á á fráfararstað skipsins, eða innflutningsbann á ákvörðunarstað þess. Ef hann ber ágreining, sem rís af starfi hans á skipinu, undir erlend stjórnarvöld.
Ég vil geta þess, að einn merkasti réttarfræðingur landsins, próf. Ólafur Lárusson, telur að reglur 33. gr. séu tæmandi, þannig að viðurlögum þeirrar greinar verði ekki beitt, ef öðruvísi stendur á, nema með sérstakri lagaheimild.
Auk þess má víkja manni úr skiprúmi, ef hann verður óhæfur að gegna starfi sínu vegna veikinda, en sú frávikning verður að fara fram með fullum uppsagnarfyrirvara, sé skipverji ekki sjálfur valdur að veikindum sínum eða hefur leynt þeim, er hann réðist á skipið.
Þessar reglur sjómannalaganna, svo sem aðrar reglur þeirra, sýna ljóslega, að löggjafinn telur störf skipverja æði mikilvæg. Gleggsta dæmi um það mun þá vera heimild skipstjóra til þess að þröngva skipverjum til hlýðni með valdi. En að sjálfsögðu getur skipstjóri ekki gert slíkt fyrr en nauðsyn krefur.
Það má segja að hér hafi að framan verið nefndir þeir allra grófustu vankantar, sem á skipverjum kunna að vera. Ég býst við, að sá maður væri lítt eftirsóknarverður í skiprúm, sem gerði ekki betur en að sleppa við viðurlög 33. greinar. Það er sjálfsögð siðferðileg skylda hvers og eins manns, að vinna vinnuveitanda sínum sem allra bezt og bera hag hans fyrir brjósti í öllum sínum athöfnum. Illa unnin störf á sjó geta valdið tjóni, sem tilfinnanleg eru fyrir okkar litla land. Ef skipverji hefur þetta hugfast, ætti málsstaður hans gagnvart útgerðarmanni að vera góður.
En sjómaðurinn hefur skyldum að gegna gagnvart fleirum en úttgerðarmanni. Skip er í sjálfu sér ekki ólíkt heimili, sem er einangrað frá umheiminum. Þessi sérstaða leggur skipverja á herðar þær siðferðilegu skyldur, að haga umgengni sinni gagnvart yfirmönnum sínum og öðrum skipverjum sem allra bezt. Skipverji verður að varast að vinna störf sín þannig, að þau lendi að meira eða minna leyti á öðrum. Hann má ekki að óþörfu skapa óánægju meðal skipshafnar. Hann má ekki sýna öðrum lítilsvirðingu í orðum. Hinsvegar skal hann leitast við að vekja glaðværð og vinnugleði og að vera hjálpsamur við skipsfélaga sína.
Útgerðarmaðurinn má heldur ekki gleyma, að sjómaðurinn vinnur að sumu leyti við óhagstæðari kjör en aðrir. Hann á að sjálfsögðu eftir því, sem í hans valdi stendur að leitast við að létta undir. Honum ber að vaka yfir því að allur öryggisútibúnaður sé í lagi og skipið sé sem allra traustast. Og oft gefst honum tækifæri til ýmiskonar fyrirgreiðslu.
Ég enda svo þessa grein mína með beztu óskum siómannastéttinni til handa, í þeirri vissu, að henni muni með glæsibrag takast nú sem fyrr að gegna sínu erfiða og þýðingarmikla hlutverki.
- Jón Eiríksson.