„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1951/Dýrmætasta þjóðareignin“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 27: | Lína 27: | ||
Þessi tæki fara sópandi með eyðilegginguna í eftirdragi út á yztu nöf landgrunnsins og allt inn á grynnsta flot við strendur landsins.<br> | Þessi tæki fara sópandi með eyðilegginguna í eftirdragi út á yztu nöf landgrunnsins og allt inn á grynnsta flot við strendur landsins.<br> | ||
<center>[[Mynd:Frá kappróðri á sjómannadaginn.png| | <center>[[Mynd:Frá kappróðri á sjómannadaginn.png|500px|ctr]]</center> | ||
<center>''Frá kappróðri á sjómannadaginn. Glæsileg skipshöfn.</center> | <center>''Frá kappróðri á sjómannadaginn. Glæsileg skipshöfn.</center> |
Núverandi breyting frá og með 27. desember 2017 kl. 20:34
- Jóhann Pálsson
Enginn Íslendingur ber víst á móti því, að starfsemin á sjónum við strendur landsins, sem unnin er af landsmönnum sjálfum, sé burðarmesti hlekkurinn í rekstri þjóðarbúsins.
Sveitabóndinn grundvallar sína starfsemi og afkomu með þremur orðum, það eru:
- Rœktun, áburður, friðun.
Á þessum orðum byggist rekstur landbúnaðarins.
Hver sá bóndi, sem ekki hefur þessi orð og merkingu þeirra efst í huga, og breytir eftir þeim, gerir annað tveggja að flosna upp af jörð sinni, eða hafa fátæktina og allt er henni fylgir að förunaut sínum.
Hvert hinna þriggja orða haldið þið svo að sé þýðingarmest fyrir landbúnaðinn.
Ég fullyrði að það sé friðunin. Ræktunin, áburðurinn, áveiturnar, allt missir þetta marks, ef skepnurnar fá að rífa í sig grasið og troða gróðurinn niður á vaxtartímabilinu.
Við dáum okkar fagra landslag. Það hlýjar okkur um hjartarætur, að líta vel hirt tún, grösug engi og fagrar hlíðar og grasi vaxnar frá jafnsléttu upp að tignarlegum hamrabeltum.
Ég hef orðið nokkuð langorður um landbúnaðinn, sem þó var ekki ætlun mín að skrifa um. En ef menn íhuga það sem að framan er sagt, og þeir geta horft á með sínum eigin augum, til að sannfærast um gildi þessara orða, vona ég að þeir fái næmari skilning og meira víðsýni á framhaldi þessarar greinar.
Íslenzka þjóðin á meira land, þetta land er að vísu hulið sjónum okkar, en þrátt fyrir það er það verðmætasta eign hennar.
Þessi viðbótar landareign er landgrunnið, er nær frá brimgarðinum
umhverfis landið út að dýpi Norður-Atlantshafsins, sem landið liggur í.
Íslenzka þjóðin er svo heppin að engin þjóð á landgrunn í námunda við hana, svo að um landamæraþrætur í þessu máli er ekki að ræða.
Margar fiskveiðiþjóðir hafa fært sínar fiskveiðilandhelgislínur út frá landi sínu, eftir eigin geðþótta, og miðað við, hvað væri þeim fyrir beztu.
Séu þær aðeins nógu voldugar, hafa aðrar þjóðir orðið að beygja sig undir gerðir þeirra í þessum efnum.
Hvar er nú lýðræðið, sem stórveldi heimsins tala svo mikið um, og tryggja á smáþjóðunum sama rétt til gerða sinna og hinum stóru.
Landgrunnið er fjöregg þjóðarinnar. Á því fer fram viðhaldsþróun allra okkar nytjafisktegunda. Á því vinnur hin íslenzka sjómannastétt starf sitt að mestu leyti hvað fiskveiðar snertir. Undir þessu starfi er að langmestu komin afkoma þjóðarinnar hverju sinni.
Ef þetta fjöregg okkar verður brotið og eyðilagt með skefjalausri rányrkju og offiski, er það dauðadómur þjóðarinnar í efnahagsmálum.
Reynsla liðinna áratuga sýnir, að víða hafa fundizt góð fiskimið en þau hafa verið eyðilögð á skömmum tíma vegna ofveiði. Eftir því sem tækni nútímans í veiðiaðferðum fer vaxandi því fljótvirkari er eyðilegging fiskimiðanna.
Ef við virðum fyrir okkur hnattlíkan, sjáum við hvað greinilegast, hvað Ísland ásamt því grunni er því fylgir er örlítill hluti af heildinni.
Jafnframt vitum við að hér hafa 12 fiskveiðiþjóðir stundað allskonar veiðiaðferðir. Margar þeirra í mjög stórum stíl, með þeim fullkomnustu og stórvirkustu tækjum er tækni nútímans hefur yfir að ráða.
Þessi tæki fara sópandi með eyðilegginguna í eftirdragi út á yztu nöf landgrunnsins og allt inn á grynnsta flot við strendur landsins.
- (Ljósm: Jóhann Þorsteinsson)
Allir hugsandi menn horfa með óttablöndnum kvíða til ókominna ára, hvert stefnir í fiskveiðum okkar, fyrst og fremst vegna hins sívaxandi ágangs erlendra þjóða á fiskimiðum okkar.
Það er heldur ekki hægt að neita því, að við sjálfir viðhöfum hina verstu rányrkju á miðum okkar á mörgum sviðum. Margir hinir blómlegustu fiskibæir okkar eru að leggjast í auðn, vegna þess að búið er að eyðileggja þeirra athafnasvæði.
Mörg af okkar beztu fiskimiðum eru komin í það hörmungarástand, að aldrei fæst orðið nein veiði á þeim.
Það er búið að drepa allan þann fisk, er haldið hefur sig á þeim og botninn er eyðilagður.
Hvernig liti graslendi út eftir stuttan tíma, sem alltaf væri verið að draga þungan slóða eftir. Það væri ekkert eftir af þeim gróðri, er var, áður en farið var að slóðadraga.
Alveg hliðstætt þessu fara hinar þungu botnvörpur með sjávarbotninn, auk þess sem niðurburðurinn (fiskúrgangur) úldnar á botninum og hrærist saman við upprótið, eftir verður svo gerbreytt botnlag frá því sem áður var.
Í upphafi greinar minnar benti ég á þjú orð er grundvölluðu starfsemi sveitabóndans, og hann yrði að fara eftir, ef hann ætlaði að fá endurgoldinn afrakstur vinnu sinnar. Þýðingarmesta orðið var friðun landsins.
Við ásökum fyrri kynslóðir þjóðarinnar fyrir vonda meðferð landsins í hendur okkar. Allt skóglendi er batt jarðveg landsins og veitti honum skjól, nær eyðilagt. Afleiðingin uppblástur og sandfok er stefndi markvisst að eyðileggingu landsins. Loks skildist þjóðinni, að við svo búið mætti ekki lengur standa. Hefur hún nú hafizt handa, bæði með sandgræðslu og skógrækt, með það lokatakmark að landinu verði forðað frá þeirri eyðileggingu sem áður stefndi að.
Íslenzkir sjómenn, og allir sannir synir þjóðarinnar! Allir sem vilja eiga þetta land fyrir föðurland, og óska þess í hendur afkomenda sinna, með lífvænlegum skilyrðum. Allir þessir óska þess nú brennandi heitt og leggja þar við heill og hamingju þjóðarinnar um ókomna tíð, að stjórnarvöld þessa lands hverjir sem með þau fara, allir
alþingismenn, hvar í flokki sem eru, taki nú allir höndum saman um þetta mál málanna. Vilji þessir aðilar vera þjóð sinni trúir, þá uni þeir sér engrar hvíldar, reyni allar leiðir, þar til markinu er náð.
Markmiðið er að fá allt landgrunnið friðað fyrir ágangi erlendra veiðiþjóða, að fá landgrunnið viðurkennt athafnasvæði hins rétta eiganda þess, íslenzku þjóðarinnar.
Þetta er mikil krafa lítillar þjóðar og vafalaust kostar það vilja og þrek og festu að fá þessu framgengt. En veri menn minnugir þess, að þetta er það eina sem tryggt getur lífvænlega afkomu okkar litlu þjóðar um ókomna tíð.
- Jóhann Pálsson.