„Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Hvern segir þú Krist vera?“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 33: | Lína 33: | ||
„Jesús kemur. Jesús talar. Hann kemur til þín í dag og talar til þín. Þú ert skírður í hans nafni. Hann hefur kallað þig til þess að fylgja valdi sínu til sigurs í lífi og dauða. Lát hann ekki koma til einskis og tala til einskis í dag.“ Guð styrki ykkur og verndi í sérhverju góðu verki.<br> | „Jesús kemur. Jesús talar. Hann kemur til þín í dag og talar til þín. Þú ert skírður í hans nafni. Hann hefur kallað þig til þess að fylgja valdi sínu til sigurs í lífi og dauða. Lát hann ekki koma til einskis og tala til einskis í dag.“ Guð styrki ykkur og verndi í sérhverju góðu verki.<br> | ||
Í Jesú nafni. Amen.<br> | Í Jesú nafni. Amen.<br> | ||
<center>[[Mynd:Hvern_segir_þú_Krist_vera_3.png]]</center><br> | |||
{{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} | {{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} |
Núverandi breyting frá og með 3. febrúar 2016 kl. 13:33
Ræða á sjómannadegi 1977.
Mt. 28: 18.20.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.
Þú þekkir þessi orð sem tilheyra guðspjalli dagsins í dag. Þau eru höfð yfir í hvert sinn sem lítið barn er borið að helgri skírnarlaug. Það er vegna þessara orða sem kristniboð er stundað í öllum löndum heims. Það er vegna þessara orða að ég hef fundið hjá mér köllun til að standa hér í húsi Drottins og flytja ykkur fagnaðarboðskapinn um Jesú Krist, hinn krossfesta og upprisna.
Það er vissulega einnig þörf á kristniboði hér í landi okkar með þjóð okkar, þó að svo eigi að heita að íslensk þjóð hafi játað kristni í tæplega 1000 ár og samkvæmt manntalsskýrslum séu meira en 90% landsmanna kristinnar trúar.
En kristin trú er ekki spurning um skrásetningaratriði. Kristin trú er spurning um athöfn í orði og á borði. Kirkjurækni er að sjálfsögðu ekki endanlegur mælikvarði á trúrækni, en þó hlýtur það að vera nauðsyn þeim manni sem vill vera lærisveinn Jesú Krists að sækja trúarlífi sínu næringu í kirkju Krists, þar sem hann á að öðlast þekkingu á því hvaða veg honum ber að fylgja, þar sem lærisveinninn í söng, tilbeiðslu og í Guðs orði fær samfélag með öðrum kristnum mönnum. Ef þú leitast ekki við að þekkja þann Krist sem þú vilt þjóna, er hætt við að þú villist frá honum. Í orði Guðs, heilagri ritningu, þar er að finna vegvísa sem leiðbeina manninum og varða leiðina til frelsarans.
Trúin á Krist er ekki hugsmíð hvers einstaklings.
Það er ekki nóg að segja ég trúi að Guð sé til og ég trúi á það góða í manninum og telja sig þar af leiðandi kristinn. Múhameðstrúarmenn trúa líka á einn Guð, en þeir eru ekki kristnir. - Grundvallarspurningin er, hvern segir þú Krist vera? Það er ekki nóg að telja hann afbragð annarra manna að visku og kærleika, það er ekki nóg að telja siðaboðskap hans háleitan og göfugan. Ef þú vilt teljast kristinn þá verður þú að viðurkenna, að Jesú frá Nazaret sé Guðssonur, að hann hafi opinberað vilja Guðs, að hann hafi vald til að fyrirgefa syndir og með dauða sínum og upprisu hafi hann gefið öllu mannkyni fyrirheit um sigur lífsins yfir dauðanum.
Hér er mikið sagt og þó ekki nóg. Stutt stund á helgum degi nægir ekki til að boða Krist allan. En þér er boðið til samfélags í kirkju Krists hvern helgan dag. Og samkvæmt fyrirheiti Krists þá er heilagur andi að starfi í kirkju hans. Og hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í Jesú nafni, þar er hann mitt á meðal. Hann er hér nú og býður þér til samfélags, og ekki bara á helgum degi, heldur alla daga, allar stundir.
Kirkjan er söfnuður kristinna manna og allt frá frumbernsku kristninnar hafa kristnir menn komið saman fyrsta dag vikunnar til að minnast upprisu frelsarans.
Það er gert enn í dag. Það er gert hér í Vestmannaeyjum.
Það skiptir ekki máli hvort presturinn er háfleygur ræðuskörungur eða fánýtur orðabelgur. Það sem skiptir máli er að þú heyrir og íhugar Guðs orð og þú átt sameiginlega tilbeiðslustund með öllum kristnum mönnum.
Þegar Landakirkja var byggð þá rúmaði hún alla íbúa Vestmannaeyja. Í dag rúmar hún tæplega 10 prósent bæjarbúa, en því miður er Landakirkja oftast miklu meira en nógu stór til að rúma þá kirkjugesti, sem hlýða kalli kirkjuklukkna Landakirkju á helgum degi. Þó er það vissa mín, að trúhneigð í dag er meiri en oft áður, en það vantar samfélagsþráðinn í trúrækni fólksins. Það finnur ekki hvöt hið innra hjá sér til að sækja kirkju, ef til vill er það að sumu leyti okkur prestunum að kenna, við erum stundum leiðinlegir og andlausir. En presturinn er ekki kirkjan og Guðs orð er jafn lifandi í dag og það hefur ávallt verið.
Fagnaðarboðskapurinn á brýnt erindi við þig, hvort sem þú ert ungur eða gamall, hvort sem þú vinnur til sjós eða lands.
Presturinn hefur háleitara og alvarlegra hlutverk í lífi samfélagsins en að þjóna sem rós í hnappagatið á tillidögum. Honum er fengið í hendur fagnaðarerindið um Jesúm Krist og rödd frelsarans segir: Far þú og gjör menn að lærisveinum mínum.
Og Kristur sagði einnig - og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Þetta er fyrst og síðast hlutverk prestins og við getum verið sammála um að þjóðfélaginu er þörf á því að hefja til vegs boðorð Krists um kærleika og frið og umburðarlyndi, því víða er blóðrautt sólarlag í samfélagi okkar.
Guðspjallið í dag eru bein fyrirmæli - tökum eftir því hvernig þau eru tengd yfirlýsingu hans: „Mér er gefið allt vald á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðirnar að lærisveinum.“ Hann segir: Af því að valdið er mitt, valdið til að gera mennina heila, frjálsa, af því eigið þér að fara og vinna menn mér til handa, hjálpið þeim til þess að átta sig á því, hvert er hið eina sanna vald, svo að það leysi þá undan annarlegum áhrifum og yfirráðum og geri þá heilbrigða og gæfusama, svo að ríki miskunnar, friðarins og kærleikans nái tökum á þeim og hugir þeirra og þar með jörðin þeirra færist nær þeim himni, þar sem allt er gott.
Þessari skipun hefur verið hlýtt. Þeir fóru með þetta erindi, í upphafi 11 menn, fiskimenn sumir, allir venjulegir almúgamenn. Þeir hlýddu, þeir yfirgáfu allt og fylgdu honum, hlýddu orðunum hans. Svo ómótstæðilegt var vald hans yfir þeim. Og hver er svo árangurinn eftir tæplega tvö þúsund ár? Víst er það, að hans stóra áætlun er ekki komin í mark. Enn eru margar þjóðir sem hafa ekki heyrt um hann eða nær ekki. Og þær nær 900 milljónir manna, sem teljast til kristinnar trúar nú, „þeir eru margir hálfshuga og haltrandi og efablandnir, margir í hjarta sínu fráfallnir og fráhverfir. En það sem gerst hefur frá þeirri stundu, er Jesú sendi lærisveinana 11, hikandi hóp, er þó þrátt fyrir allt furðulegt ævintýri og einstætt. Síðan hefur Jesús verið vald í sögu jarðar, virkur máttur, mótandi afl. Hann hefur gengið í fararbroddi með lið sitt, brigðult og hrasandi, alltaf átt gegn andstöðu að sækja, alltaf mátt ganga sína bröttu þyrnibraut móti klókskap heimsins, en samt í sókn.“
Kristur er í sókn, einnig hér í Vestmannaeyjum. Það er stór stund í lífi hvers manns þegar það rennur upp, að valdið hans, eina valdið, sem skiptir máli, mátturinn góði og sanni, sem blekkir ekki og bregst ekki, bugar ekki né brytur undir sig, heldur býður þér samfélag, leysir þig úr fjötrunum og gerir þig frjálsan.
Kristur talar enn. Enn berst hans stillta rödd gegnum háreysti róstusamrar og glaummikillar aldar: Mér er gefið allt vald á himni og jörðu. Ég er með yður alla daga. Dagar okkar eru sumir glaðir, aðrir daprir, ýmist bjartir eða dimmir og margir sviplausir.
Í dag er gleðidagurinn, Sjómannadagurinn, á morgun er verkfallsdagur. Kristur er með okkur í dag og á morgun. Hann er með okkur alla daga. Hann fer ekki í verkfall, heldur er hann stöðugt að starfi.
Það eru blikur á lofti í lífi samfélagsins, fólk knýr á um bætt kjör. Hið árvissa þref um kaup og kjör stendur nú yfir og skapar óvissu. Það er von mín, að oddvitar deiluaðila beri gæfu til að koma þessum málum heilum í höfn til heilla fyrir land og þjóð. Það er réttlætismál, að þeir sem auðinn skapa njóti þess og fái lifað mannsæmandi lífi án óhóflegrar vinnu. Án vinnu þeirra væri hér ekki sjálfstætt ríki eða sjálfstæð þjóð.
Á síðustu mánuðum höfum við Íslendingar unnið stórkostlegan sigur í sjálfstæðismáli þjóðarinnar, nú ráðum við yfir auði lands og sjávar. Spurningin nú er þessi: Erum við menn til að hagnýta þá möguleika til uppbyggingar og farsældar eða föllum við á prófinu og reynumst skynlaus veiðidýr, sem aðeins tjöldum til einnar nætur? Ef við föllum á þessu prófi, fáum við þá annað tækifæri?
Við hér í Vestmannaeyjum eigum allt undir því að vel takist til. Sjómennskan, höfnin er lífæð okkar bæjarfélags. Hagur okkar allra er tvinnaður því hvernig þar gengur. Þess vegna segjum við á Sjómannadegi, heiður og þökk sé þér, sjómaður. Guð blessi þig og starf þitt. Guð gefi þér og fjölskyldu þinni giftu og farsæld nú og um alla framtíð. Guð blessi íslenska sjómenn og bræður þeirra um allan heim.
„Jesús kemur. Jesús talar. Hann kemur til þín í dag og talar til þín. Þú ert skírður í hans nafni. Hann hefur kallað þig til þess að fylgja valdi sínu til sigurs í lífi og dauða. Lát hann ekki koma til einskis og tala til einskis í dag.“ Guð styrki ykkur og verndi í sérhverju góðu verki.
Í Jesú nafni. Amen.