„Ritverk Árna Árnasonar/Tólf ára háseti“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: <br> <br> <br> <center>Úr fórum Árna Árnasonar</center> <br> <big><center> Tólf ára háseti</center></big> <br> Það er mjög trúlegt, að þú, lesandi góður, haldir, að s...)
 
m (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Tólf ára háseti“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 4. september 2013 kl. 21:43




Úr fórum Árna Árnasonar


Tólf ára háseti


Það er mjög trúlegt, að þú, lesandi góður, haldir, að svo jarðgróinn landkrabbi sem ég er, hafi aldrei á sjó komið og gegnt þar stöðu sem háseti á bát, svo að ekki sé nú talað um hærri stöður né stærri skip. Ekki t.d. eiturbrasari á vélbát eða skútu, viðurnefni, sem sjómennirnir hafa um matreiðslumenn sína, hversu góðir sem þeir eru í starfi sínu. En þarna skjöplast þér í hugmyndum þínum gagnvart mér. Ég var einu sinni lítið brot úr sjómanni, reri til fiskjar með handfæri part úr einni vor- og sumarvertíð, og var háseti hjá ágætum formanni, sem hafði góða fiskimenn. Ég komst meira að segja í mjög hættulegt ævintýri á sjó og stóð mig eftir atvikum vel og hreystilega. (Það sagði reyndar enginn, nema ég sjálfur).
Mér datt í hug að segja þér frá þessum fyrsta virkilega róðri mínum sem háseta, frá formanni mínum og meðhásetum. Mér er það í fersku minni, þótt liðin séu nær 50 ár síðan. Ef til vill hefur þú gaman af að heyra um þetta...
Ég hafði legið vakandi í rúminu síðasta klukkutímann og hlustað, horft upp í loftið og hlustað. Ég svaf inni hjá foreldrum mínum og hafði sem allra minnst bært á mér, til þess að vekja þau ekki, bæði örþreytt eftir erfiði dagsins.
Loks heyrði ég fótatak nálgast húsið og beið í ofvæni um, hvað gerast mundi. Skyldi það vera formaðurinn? Fótatakið kom nær glugganum, alveg að honum, en svo varð allt hljótt fyrir utan. Nokkur augnablik liðu. Svo var drepið ofurlétt á rúðuna, svo létt, að ef ég hefði ekki verið vakandi, hefði ég alls ekki orðið þess var, auk heldur, að ég hefði vaknað við það, ef ég hefði verið sofandi. Formaðurinn hefur áreiðanlega ekki ætlað sér að vekja pabba og mömmu. Hann hefur vitað, að þau voru hvíldarþurfi, blessaður karlinn.
Ég læddist fram úr rúminu, teygði höndina inn undir gluggatjaldið og bankaði örlítið í rúðuna. Það var svarmerki frá mér um það, að ég væri vaknaður. Formaðurinn fjarlægðist þá húsið léttum skrefum. Hann hafði verið að kalla mig á sjóinn, ófermdan strákhvolpinn, sem enginn réði við fyrir bannsettri óþekkt, héraðsfrægan ólátabelginn, sem nú hafði legið andvaka meiri part næturinnar af tilhlökkun yfir að fara að róa.
Ég leit á klukkuna. Hún sýndi 15 mínútur yfir fimm. Ég klæddi mig í flýti og ekki alveg hávaðalaust, greip sjóbitann, sem mamma hafði útbúið mér kvöldinu, áður og gekk að rúmi foreldra minna. Þau voru þá bæði vakandi. Ef til vill höfðu þau verið það lengi, þótt ég yrði þess ekki var og höfðu fylgst með því, hvernig ég útbyggi mig á sjóinn. Ég var viss með að gleyma að fara í einhverja flíkina af tilhlökkuninni. Vafalaust hafa þau líka hugsað margt viðkomandi mér, þar eð þetta var í fyrsta skipti, sem ég fór í fiskiróður sem ráðinn háseti og átti að lúta stjórn vandalausra.
Ég settist á rúmið hjá þeim og hélt í hönd pabba. Þau báðu mér velfarnaðar á sjónum, vera formanninum hlýðinn, hásetunum góður félagi og taka öllum leiðbeiningum vel. „Mundu eftir, Addi minn,“ sagði pabbi, „að gera eins og þeir segja þér. Þeir vilja þér vel, eru ágætis menn og er þér óhætt að treysta þeim í öllu, vinur minn.“ Ég lofaði þessu fúslega, kyssti þau svo innilega og flýtti mér til skips, með matarbitann í annarri hendinni, en færið mitt og tvo varaöngla í hinni.
Ég mætti fyrstur til skips og þótti mér það ekki slæm byrjun. Gerði ég ráð fyrir, að hinir væru að sækja bösl sín og farviðu bátsins upp í kró, svo að ég eyddi tímanum, meðan ég beið þeirra, með því að skoða skipið, sem ég átti að róa á. Það var reyndar ekki hægt að kalla það skip, en það var allra fallegasti bátur. Hann var grár á lit með svartri rönd, svonefnt fjögramannafar.
Formaður minn var Sigurður Ólafsson í Vegg, alltaf kallaður Siggi í Vegg. Hann átti bátinn, sem var stolt hans og dýrmætasta eign. Sigurður hafði lofað pabba að taka mig með á sjóinn fram að lundaveiðitíma þetta sumar og kenna mér til sjómennsku. Hann var vanur að hafa stráka sem háseta, þótti afbragðs kennari og laginn við það að fá það besta fram, sem í strákunum bjó. Í þeirri sérgrein hafði Sigurður ærinn starfa, marga slíka háseta seinni árin og stundum tvo samtímis. Það munu því margir minnast Sigga í Vegg, síns fyrsta formanns og lærimeistara, með hlýju og þakklæti.
Veður var mjög gott þennan yndislega sumarmorgun eins og þeir eru svo margir á okkar fögru Heimaey. Aðeins örlítill blær af austri, heiðskírt loft og ládeyða, glansandi sólskin og hiti. Þegar ég hafði beðið nokkrar mínútur, fóru skipverjarnir að koma.
Fyrstur kom Sigurður gamli Sæmundsson. Hann var háseti á bátnum. Var hann um þetta leyti nær sjötugu, (f. 1845 að Steinum undir Eyjafjöllum), með mikið og grátt skegg, loðnar augabrúnir og miklar. Sigurður var mjög geðugur maður, góður félagi í reynd og kær að börnum og unglingum. Þrátt fyrir aldur sinn, var hann, blessaður karlinn, vel hlutgengur háseti Sigurðar formanns í Vegg.
Næstur kom Ólafur Ingvarsson, í daglegu tali nefndur Óli í Miðhúsum, með pípuna í munninum eins og venjulega og brosandi út í annað munnvikið. Hann reykti mikið pípu og sást helst aldrei án hennar. Óli var allra besti karl, bráðskemmtilegur og síkátur. Hann gat hlegið mjög innilega að allri fyndni og hreif alla með sér, svo að ómögulegt var annað en að hlæja með honum.
Síðastur skipverja kom Sigurður formaður til skips. Tuggði hann skroið ákaft, sem var vani hans, því að hann var munntóbaksmaður mikill. Voru ekki ósjaldan dökkbrúnir taumar af tóbakslegi úr munnvikum hans, þegar hugur var í karli. Hann var hinn mætasti maður, mjög skemmtilegur og kátur í sínum hópi, vel skýr og orðheppinn. Sigurður var einn af þessum óskiljanlega netfisknu mönnum, sem jafnvel drógu óðan fisk í ördeyðu.
Sigurður kom og bar árar og fleira lauslegt, sem nota skyldi í róðurinn. Hann bauð góðan daginn og sagði, að gott mundi sjóveður verða í dag. Hann bauð mig velkominn til skips og sagðist vona, að ég yrði aflasæll eins og faðir minn. Síðan bað hann mig að skreppa með sér upp í kró og sækja fleira smálegt, sem vantaði til skips, en Siggi og Óli gerðu klárt á meðan. Ég trítlaði tindilfættur með formanninum og fannst vegur minn vaxa ekki svo lítið við það að fara með honum og geta gert eitthvert gagn. Ég hef víst gengið nokkuð hratt, því að hann sagði við mig: ,,Við þurfum ekki að hlaupa, drengur, við komumst á sjóinn fyrir því.“ Svo heyrði ég hann tauta, eftir að hann hafði spýtt kolmórauðum tóbakslegi langt út fyrir veginn:

„Allir vilja eitthvað fá,
eins er líka fyrir mér.
Samt þér liggur ekkert á,
enginn segir flýttu þér.“

,,Veistu, hver gerði þessa vísu, drengur?“ Ég neitaði því. ,,Óli í Nýborg gerði hana. Hann er snillingur, skáld og formaður og besti fiskimaðurinn í Eyjunum.“ „Það er hann líklega,“ sagði ég, og hefur sennilega kennt einhvers efa í málrómi mínum“, því að Sigurður var fljótur að svara: „Líklega? Það er ábyggilegt, drengur, alveg ábyggilegt.“ Svo spýtti hann stærðar bunu af tóbakslegi á króarpallinn, sem við stigum upp á.
Við tókum fjórar árar í krónni, austurstrog og fleira og bárum það í bátinn. Að því búnu var ýtt á flot. Það gekk fremur seint, því að engir vorum við kraftamenn á bátnum. Þó flaut um síðir og var þá lagt af stað úr Íshúshrófunum.
Ekkert sérlegt bar til tíðinda á leiðinni til miða, annað en það, að fram af húsum Brydesverslunarinnar, vestan við Skansinn, lögðu karlarnir upp, tóku ofan höfuðfötin og störðu niður í bátinn hátíðlegum svip. Siggi gamli Sæmunds hnippti í mig, og gerði ég þá eins og þeir. Hann laut að mér og sagði hljóðlega: „Farðu með sjóferðabænina.“
Ég starði á hann, hristi örlítið höfuðið og sagði lágt: „Ég kann hana ekki.“ „Farðu þá með eitthvað fallegt,“ sagði hann, lygndi aftur augunum og drúpti höfði. Ég heyrði þá alla muldra eitthvað í barm sér. Það var víst bænin, sem þá tíðkaðist, ófrávíkjanlegur siður, sem allir kunnu. Ég kunni ekki stakt orð í bæninni og hafði aldrei heyrt hana. Ég lét mér því nægja að biðja guð að vera með mér í dag og alla daga og sagði svo bara stutt og laggott Amen. Það var víst ekki tímabært, því að fyrstur lauk ég bænagjörðinni, langt á undan hinum, þó að ég byrjaði síðastur. En allt fór þetta vel. Fékk ég engar ákúrur fyrir vankunnáttu mína aðra en þá, að samþóftungur minn, Siggi Sæmunds, sagði, að ég yrði að vera búinn að læra bænina fyrir næsta róður. Ég yrði að kunna sjóferðamannsbænina. Þessu lofaði ég og efndi það.
Eftir þessa hátíðlegu stund var svo lagt af stað. Var haldið austur fyrir Ystaklett, vestur úr Faxasundi og „inn á Flúðir“ sem eru fiskimið, inn og vestur af Heimaey. Veður var dásamlegt og sjórinn eins og heiðartjörn. Ekki var greitt róið vestur eftir, en ég var þó rennsveittur og feginn, þegar formaðurinn sagði: „Hér rennum við, drengir.“ Ég reyndi að bera mig sem allra mannalegast að, en í hálfgerðum handaskolum fór það þó hjá mér að koma færinu í sjóinn. Það gekk þó um síðir.
Ekki hafði Sigurður formaður keipað lengi, máske tvisvar, þrisvar, þegar hann setti í fisk. Það var stærðar þyrsklingur. Hann dró víst sex eða sjö fiska, áður en við hinir urðum varir. Þótti mér frammistaða mín aumleg og skrambi hart að sjá karlinn draga hvern af öðrum, en verða ekki var sjálfur. Ekki leið á löngu, áður en hinir fóru að draga líka, fyrst Sigurður Sæmunds og svo Óli gamli. Ég varð enn ekki var. Fannst mér þó ég bera mig mjög fiskimannslega til, mjög líkt og hinir. Ég keipaði, tók nýtt og nýtt grunnmál og keipaði á ný. En allt kom fyrir ekki. Ég varð ekki var við fisk.
Mér fannst formaðurinn verða nokkuð brúnaþungur og gjóta til mín augunum. Hann setti húfuna ofan í augu, tuggði ótt og títt skroið og spýtti í ákafa, ýmist út fyrir borðstokkinn eða niður í bátinn. „Hertu þig, drengur,“ sagði hann við mig, „hafðu uppi og athugaðu, hvort ekki er uppundið hjá þér.“ Ég gerði það. Kom þá í ljós, að taumurinn var margvafinn yfir um sökkuna og fyrir ofan hana, svo að ekki var von á góðu. „Ha, ha, hí, hí,“ skríkti góðlátlega í Óla. „Þetta er lagleg koppgjörð. Hí-hí.“
Sigurður formaður gat víst varla varist brosi yfir vandræðasvipnum, sem á mér var, því að hann sagði góðlátlega og brosandi: „Renndu nú aftur, drengur, keipaðu ekki með rykkjum, en jafnt og þéttingsfast, og taktu svona einn faðm í grunnmál.“ Ég gerði þetta og jókst ásmegin við orð formannsins. Það leið heldur ekki á löngu, þar til ég festi í fiski. Það var ansi fallegur stútungur. Varð ég eitt sólskinsbros og harla glaður, þegar ég kippti honum inn fyrir borðstokkinn. „Já, seigur varstu, lagsi minn,“ sagði Siggi Sæmunds. „Ekki er hann ljótur, sá fyrsti hjá þér.“ Svo skar hann með hníf sínum krossskurð á sporð stútungsins og lét hann í rúmið hjá mér.
„Er þetta Máríufiskurinn?“ spurði Siggi í Vegg og spýtti rösklega út fyrir borðstokkinn. „Ha... þetta?“ svaraði ég, leit á fiskinn, og vissi ekki, hvern skrambann sjálfan karlinn átti við. „Þetta... nei-ne-nei... .“ stamaði ég, „það held ég ekki. Þetta er bara venjulegur stútungur.“ Mér var ómögulegt að sjá neitt sérstakt við fiskinn. Það var stútungur, ekkert ólíkur þeim, sem Sigurður formaður dró sjálfur, rétt áður.
Karlarnir fóru að skellihlæja, þeir veinuðu af hlátri. Tóbakstuggan fauk út úr Sigga formanni niður í bátinn, taumar af tóbakslegi runnu í stríðum straumum niður munnvik hans og hökuna. Hann tók andköf af hlátri, karlinn. Óli gamli híaði og hvissaði, fyrst ósköp hóglátlega, en þreif svo pípustertinn út úr sér í mesta ofboði og hló hátt og innilega. Ég held, að hann hafi engu minna hlegið að Sigurði formanni, hlátri hans og tilburðum en svari mínu við Máríufiskinum. Siggi Sæmunds tók um ennið, lét fallast á þóftuna og hló hýrlega í skeggið. Og hlátur hans jókst, þangað til hann hristist allur. Ég varð auðvitað eitt spurningarmerki fyrst, en fór svo að hlæja líka. Ég vissi þó ekkert að hverju var verið að hlæja, en ég hló að körlunum. Þeir voru snarvitlausir í hlátri. „Bara venjulegur stútungur,“ stundi Siggi Sæmunds, og svo varð allt vitlaust aftur.
Ég hafði á samviskunni, að ég hefði gert einhverja bölvaða vitleysu, en hvað það gat verið, vissi ég ekki. Stútungurinn var ekkert frábrugðinn öðrum! Eftir nokkra stund fór skipshöfnin að jafna sig. Var þá farið að útskýra fyrir mér þetta með Máríufiskinn. Held ég, að ég muni aldrei gleyma því eða nafni þessa fræga fiskjar í sögu íslenskra sjómanna.
En þessi fallegi stútungur var hins vegar ekki fyrsti fiskurinn, sem ég dró úr sjó og því ekki Máríufiskur minn. Þann fyrsta dró ég nokkru fyrr í róðri með föður mínum, innan við Elliðaey. Ekkert vissi ég, hvað varð um þann sérstaka fisk, og nafnið á honum og venjur hans vegna þekkti ég þá ekki. Faðir minn hefur sennilega gleymt að segja mér frá þessu. Ég sagði Sigurði formanni frá drætti þess fiskjar, en hann vildi ekki viðurkenna, að það væri Máríufiskur minn. Þá hefði ég ekki verið „Jústeraður“ háseti eins og hann orðaði það. Máríufiskur minn væri þess vegna þessi stútungur. Allir strákar hefðu veitt smáufsa við bryggjuna og aldrei væru þeir nefndir Máríufiskar. Nei, maður yrði að vera háseti á bát, jústeraður háseti. Fyrsti fiskurinn þá, hann væri sá rétti.
Nú fór allt að ganga betur hjá mér, og dró ég svona álíka og þeir Siggi Sæmunds og Óli. Mér fannst formaðurinn veita mér þó nokkra athygli og brún hans léttast, þegar ég dró fisk. Það áleit ég þegjandi hrós og þótti vænt um. Sjálfur dró hann stanslaust, að heita mátti, og ávallt var hann fyrstur að setja í fisk, eftir að kippt hafði verið. Sigurður var í sannleika sagt nær yfirnáttúrulega fiskinn eins og sagt var um Ólaf skáld í Nýborg.
Ekki var ég alls kostar laus við sjóveiki, en reyndi að harka hana af mér og bera mig hressilega. Stundum laumaði ég dálítilli gubbu út fyrir borðstokkinn, en mest kyngdi ég henni jafnótt og hún kom upp í munninn. Ég hafði heyrt, að það væri besta ráðið við sjóveiki. Lystilegt var það ekki, en ég gerði það samt.
Við sátum á færum á þessum slóðum fram yfir miðdegi og fiskuðum sæmilega vel. Klukkan var nær þrjú eftir hádegi, þegar formaðurinn sagði að hafa uppi. Nú skyldi halda heim. Enn var blíðasta veður, sólskin og stafalogn, og hafflöturinn var eins og spegill.
Ekki höfðum við lengi róið í hægðum okkar, þegar allt í einu kom eitthvert ógnar ferlíki, að mér fannst, upp úr sjónum skammt frá okkur. Það tók sig upp fyrir yfirborð sjávarins, þó nokkuð hátt, en féll svo niður í hafið aftur með feikna busli og boðaföllum. Mér brá ákaflega mikið og spurði bæði hissa og hræddur, hvað þetta hefði verið. „Það er greyið hann léttir,“ svaraði formaðurinn um leið og hann smellti með tungunni við góminn eins og til þess að gefa til kynna kæruleysi sitt yfir þessari óvæntu heimsókn. Það væri svo sem ekkert að óttast. „O, — ég held, að hann geri okkur ekkert greyið að tarna,“ sagði hann. Sigurður var þó hugsandi á svipinn og all þungur á brún. Hann starði um stund á staðinn, þar sem stórfiskurinn hvarf niður í djúpið og tuggði skroið af mestu áfergju, svo að munnurinn gekk eins og vél. Svo spýtti hann stærðargusu af tóbakslegi svo langt út fyrir borðstokkinn að ég hef aldrei séð slíkan kraft og leikni í útfærslu þeirrar listar. Það var engu líkara en að hann ætlaði að drepa hvalinn með gusunni eða blinda hann með þessum dökkbrúna, rammbeiska og svíðandi vökva.
Mér flugu þegar í hug allar sögur, sem ég hafði heyrt um létti. Hvernig hann, t.d. reyndi ávallt að færa allt í kaf, sem flyti, og hversu áleitinn hann var sagður við báta. Það voru margar tegundir til af þessum stórfiskum, sem talið var, að hefðu grandað bátum með því að koma upp undir kjöl þeirra, láta sig falla ofan á þá eða með sporðakasti og boðaföllum. Ég minntist Bjarna, bónda í Svaðkoti og skipshafnar hans, sem sagt var, að stórfiskur hefði grandað 16. júlí 1883.
Nú var slík voðaskepna hér á ferðinni, og virtist meir en lítill ærslagangur í henni, jafnvel vígahugur. Það var auðséð, að skipshöfninni var ekki sama. Ég þóttist vita, að formaðurinn hefði aðeins verið að hughreysta okkur, en að hann væri smeykur um það, hvernig þessum samfundum okkar við hvalinn mundi lykta.
Litlu seinna kom fiskurinn aftur upp á yfirborðið, skammt aftan og til hliðar við okkur, og þurrkaði sig upp úr sjónum. Sá ég hann greinilega, ljósleitan á hliðinni og sennilega allt að 16 eða 18 álnir á lengd. Þetta var stærðar skepna.
Ég varð dauðskelkaður og steinhætti að róa. Varð dynkur mikill, busl og boðaföll, þegar hún skall í hafið aftur. Skil ég ekkert í, að ég skyldi ekki missa árina út úr höndunum. Ég sá nú greinilega, að körlunum hafði brugðið að mun við aðfarir fiskjarins, sem var ekki óeðlilegt. Þetta var enginn smá gullfiskur að leika við, stórhættulegur léttir, stökkullinn, rauðkembingurinn eða hvað hann nú hét.
Sigurður formaður sagði okkur að róa duglega. Við skyldum fara í krókum, sveigja til bak og stjór, sitt á hvað og reyna að komast í þá aðstöðu, að bát okkar bæri í sól að sjá frá hvalnum. Léttir gerði ávallt ráð fyrir, að báturinn færi beint, en við hann vildi fiskurinn auðsjáanlega glettast og sagt væri, að honum dapraðist sjón mót sólu.
Við breyttum strax um stefnu og reyndist ályktun formanns rétt. Hvalurinn kom upp töluvert frá bátnum og fyrir innan okkur, en mjög nálægt þeim stað, sem við vorum á, áður en við breyttum um stefnu. Í hvaða átt hann stakk sér, var ekki gott að sjá, enda kom hann upp aftur eftir litla stund, rétt norðan við bátinn.
„Mikil bölvuð læti eru þetta í hval-skrattanum,“ nærri hrópaði ég, „ætli að hann hvolfi okkur ekki?“ Enginn svaraði mér, en Óli gamli renndi til mín augunum. Það var ómögulegt að misskilja það augnatillit. Ég átti að steinþegja og hugsa um árina mína. Ég laut að Sigurði Sæmunds, sem sat á þóftunni hjá mér, og hvíslaði: „Er stórfiskurinn ekki voða hættulegur, Siggi minn?“ Hann sleppti vinstri hendinni af árinni, lagði hana á handlegg mér og svaraði blíðlega: „Vertu bara rólegur, lagsi minn, hann fer bráðum í burtu.“
„Meira á bak og fljótir nú,“ skipaði Sigurður formaður. Báturinn tók beygju, og rerum við eins og við frekast gátum góða stund. Hvalurinn kom svo upp all fjarri, og breyttum við þá enn um stefnu og rerum lífróður burt frá þessum bannsetta ærslabelg, sem var alveg að sprengja okkur á árunum. Ég var alveg orðinn slituppgefinn, og fannst þessi bölvaður eltingaleikur hafa staðið einhvern eilífðartíma, þegar loks við sáum hvalinn koma upp langt í burtu, og virtist hann þá stefna til norðvesturs. Eftir það sáum við hann ekki meira.
Ég held, að ég hafi aldrei verið hræddari um líf mitt en í þetta skipti, a.m.k. ekki fram að þessum tíma. Ég hafði heldur aldrei séð stórfisk í vígahug eða að slíkum leik, sem þessum, ef um leik hefur verið að ræða. Ég hygg, að karlarnir hafi búist við því versta af hvalnum, þó að þeir ekki hefðu orð um það.
Við hvíldum okkur um stund eftir erfiðið og nörtuðum í bitann okkar. Síðan var farið að damla í rólegheitum heimleiðis. Karlarnir, sem varla höfðu sagt aukatekið orð á meðan þessi ósköp stóðu yfir, urðu nú skrafhreifir, og hófu þeir ýmsar frásagnir og hroðasögur af illhvelum og manntjóni af þeirra völdum. Var af mörgum sögum að taka, svo að mér fannst heimróðurinn ekki taka langan tíma, þótt við rerum í hægðum okkar. Siggi formaður hamaðist á nýrri tóbakstölu og spýtti við tönn til áherslu í frásögnum sínum. Óli hafði og látið í pípuna sína og tottaði hana af mikilli nautn og ánægju. Hann hafði frá mörgu að segja og sagði vel frá. Við Siggi Sæmunds hlustuðum af áfergju á mergjaðar sögurnar, og spurði ég hann, ef eitthvað var, sem mig langaði til að vita nánar.
Siggi í Vegg sagði, að aldrei mætti bölva eða tala illa um létti á sjónum. Það hefði illt í för með sér. Sagði hann við mig, að ég hefði hagað mér óskynsamlega í þessum hildarleik með bölvi og formælingum. Mér fannst það skrítið og sagði: „Ekki skilur þó hvalurinn, hvort ég bölva honum eða blessa, hvað þá, að hann heyri slíkt langar leiðir.“ „Ojú, hann skilur það, drengur, og hann heyrir allra dýra best. Skilur ekki hundurinn margt af því, sem sagt er við hann. Hvort maður skammar hann eða gælir við hann? O-jú, ég held nú það. Hví skyldi þá ekki hvalurinn, þessi stóra skepna, gera það líka?“ Mér fundust þetta óyggjandi röksemdir og sagði ekkert. Sigurður Sæmunds kímdi góðlátlega og deplaði til mín augunum. Sá ég, að hann var á öðru máli en formaðurinn, þótt hann vildi ekki kappræða þetta við hann. Siggi í Vegg hafði sínar skoðanir og mikla lífsreynslu af hafinu. Merkilegur maður og undursamleg fiskikló.
Klukkan um fimm komum við heim að bryggju. Vorum við alldasaðir, en ánægðir yfir góðum afla og farsælum fundarslitum við óróasegginn inni á Flúðum. Við höfðum fengið yfir hundrað drætti á skip. Mér þótti mikið koma til þessarar sjóferðar vegna aflans og hættunnar frá stórfiskinum. Þóttist jafnvel meiri maður en áður. Dró ég í engu úr hættunni, þegar ég var að segja strákunum söguna, og fannst mér þeir skoða mig sem einhverja hetju næstu daga.
Sigurður formaður fór svo að skipta aflanum. Þá kom Máríufiskurinn minn aftur til umræðu. Sigurður var búinn að taka hann frá, svo að hann færi ekki saman við þegar hann „valdi í köstinn“. Þarna lá fiskurinn minn einn sér, eins og settur upp til sýningar, stinnur og fallegur með krossmarkið í sporðinum. „Taktu fiskinn, sem þú dróst fyrstan í morgun, drengur, það er þinn rétti Máríufiskur,“ sagði formaðurinn. „Þú skalt gefa Gvendi gamla í Borg fiskinn í dag. Já, það skaltu gera, drengur.“ Sigurður formaður skaut ensku húfunni sinni niður á nef, klóraði sér í hnakkanum, teygði svo hökuna fram og spýtti kolmórauðri gusu af tóbakslegi rétt við tærnar á forvitnum áhorfendum, sem stóðu í töluverðri fjarlægð og horfðu á aflaskiptin. Samþóftungur minn, Siggi gamli Sæmunds, áréttaði orð formannsins og sagði hlýlega við mig: „Já, gerðu það, lagsi minn, það er gaman fyrir þig að gleðja blessaðan karlinn, blindan og fátækan.“
Ég lét þessi orð vina minna mér að kenningu verða og færði Guðmundi í Borg fiskinn. Hann varð harðla glaður við gjöfina: „Blessaður drengurinn, og það er Máríufiskurinn þinn.“ Hann klappaði mér blítt á kollinn og bað mér allrar blessunar í lífinu með fögrum orðum. „Lofaðu mér að taka í höndina á þér, Árni minn.“ Hann kyssti mig á kollinn, og ég lagði litla og granna höndina í hans stóru og sterklegu járnsmiðshönd. „Ójá, blessaður minn, ekki hefur þú sjómannshönd, og mun sjómennska ekki verða lífsstarf þitt. Nei, þér munu falin önnur störf á langri lífsleið, sem eru almenningi lítt kunn enn þá. Segðu foreldrum þínum það frá mér, heilsaðu þeim.“
Þessi spá Guðmundar á Borg rættist. Ég varð aldrei sjómaður að heitið gæti, en árið 1919 fóru grannar, smáar hendur mínar að leika á ritsíma- og loftskeytalyklum og tækjum Landsímans og gera það enn. Hvernig Guðmundur fann þetta á sér eða sá, steinblint gamalmennið, er mér hulin ráðgáta. Um það leyti, þ.e. 1913, var tæpast um aðra atvinnu að ræða hér en sjómennsku, og gengu því allflestir drengir þá framtíðarbraut. Ekki varð því annað séð en að þau yrðu örlög mín sem annarra drengja þorpsins.
Guðmundur Ögmundsson lést í Borg 27. maí 1914, 82 ára gamall. Hann var merkur maður sinnar tíðar, völundarsmiður og góðmenni. Sigurður Sæmundsson lést 10. júlí 1924, Sigurður Ólafsson í Vegg 10. mars 1931 og Ólafur Ingvarsson í Miðhúsum 20. júní 1942.
Ekki var ég lengur háseti hjá Sigurði í Vegg en umtalað var. Lauk þar með að mestu sjómannsferli mínum, en ýmis önnur störf við fiskiveiðarnar tóku við, allt til ársins 1919, sem fyrr getur. Þannig rættist spá Guðmundar í Borg.
Ég minnist þessara manna með hlýjum hug og þakklæti fyrir stutta, en góða samleið. Þeir voru, hver um sig, merkir menn og ristu nöfn sín í sögu Eyjanna með óafmáanlegu letri. Þó er saga þeirra, hvers um sig, því miður, óskráð að mestu.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit