„Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Uppnefni“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: <br> <big><big><center>UPPNEFNI</center></big></big> <br> SÁ ÓSIÐUR hefur verið landlægur hér frá upphafi byggðar, að uppnefna náungann. Verður ekkert hérað undanskilið, en...) |
|
(1 millibreyting ekki sýnd frá sama notandanum) | |
(Enginn munur)
|
Núverandi breyting frá og með 8. júní 2012 kl. 20:21
SÁ ÓSIÐUR hefur verið landlægur hér frá upphafi byggðar, að uppnefna náungann. Verður ekkert hérað undanskilið, en þó mun hafa misjafnlega mikið að þessu kveðið, og líklega hefur verið mest um uppnefni í margmenni. Frá síðari hluta 17. aldar er til dómur um uppnefni í verstöðvum á Snæfellsnesi og eru þar talin upp mörg kynleg nöfn, sem mönnum hafa verið gefin í óvirðingarskyni. Á 20. öldinni hefur þó dregið úr þessu, en ekki mun þessi ósiður þó með öllu horfinn.
Í Vestmannaeyjum var mikið um uppnefni á 19. öldinni, en einkum voru það þó hinir lítilsigldari, sem urðu fyrir barðinu á þeim kersknisfullu mönnum, sem upphafsmenn voru að uppnefnunum. Um miðja öldina kvað svo rammt að þessum ósið, að dönsku kaupmennirnir notuðu uppnefnin sem eins konar ættarnöfn á viðskiptamönnum sínum. Sum nöfnin voru heldur sóðaleg, og hafa Danirnir líklega ekki skilið þau. Annars hefðu þeir varla fært þau í höfuðbækur sínar. En ekki veit ég, hvort ættarnöfnin voru færð á afrit, sem afhent voru viðskiptamönnunum, kúnnunum, eins og þeir voru þá nefndir. Í höfuðbók einni frá 1852 við Garðsverzlun voru þessi nöfn nefnd, tekin upp af handahófi, og vel mega þau hafa verið fleiri: Einar grófi, Jón durgur, Ólafur jötunuxi, Jón digri, Einar stóri, Guðmundur klart, Guðmundur káfína, Sveinn loði, Jón sæli, Guðmundur frost, Páll stutti, Jón hái, Sigurður snarli, Einar stopp og Magnús kollur.
Lengi eimdi eftir af þessu. Hér koma nokkur nöfn frá síðari hluta 19. aldar: Siggi bonn, Guðmundur geglir, Ólafur kúkur, Hannes sladdi, Þóroddur sprengir, Erlendur taðauga, Bjarni skotti, Einar tólgarauga, Einar stormur og Runólfur barkrókur.