„Blik 1961/Þáttur nemenda, seinni hluti“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 45: | Lína 45: | ||
skorið í tré. Í það var grafið: ,,Til Signýjar“.<br> | skorið í tré. Í það var grafið: ,,Til Signýjar“.<br> | ||
Haustið eftir fluttist Gunnlaugur vestur um haf með fjölskyldu sinni. <br> | Haustið eftir fluttist Gunnlaugur vestur um haf með fjölskyldu sinni. <br> | ||
— — —<br>[[Mynd: 1961 b 115.jpg|thumb|300px|''HLJÓMSVEIT HALLGRÍMS HALLGRÍMSSONAR,<br> | — — —<br>[[Mynd: 1961 b 115 A.jpg|thumb|300px|''HLJÓMSVEIT HALLGRÍMS HALLGRÍMSSONAR,<br> | ||
nem. í 4. bekk.<br> | ''nem. í 4. bekk.<br> | ||
''Frá vinstri: Hallgrímur Hallgrímsson, Karl E. Karlsson, Svavar Sigmundsson, Arnar Einarsson og (fyrir framan hann) Hafþór Guðjónsson.]] | ''Frá vinstri: Hallgrímur Hallgrímsson, Karl E. Karlsson, Svavar Sigmundsson, Arnar Einarsson og (fyrir framan hann) Hafþór Guðjónsson.]] | ||
Lína 113: | Lína 113: | ||
:::::::::::::::::::::2. bekk C. | :::::::::::::::::::::2. bekk C. | ||
[[Mynd: 1961 | [[Mynd: 1961 b 121 A.jpg|left|thumb|400px]] | ||
Núverandi breyting frá og með 31. ágúst 2010 kl. 20:20
Palladómar um sessunauta
(Eitt stílsefnið í 3. bekk bóknáms í vetur var palladómur um sessunautinn. Blik birtir hér tvo slíka stíla.)
Sessunautur minn er Sigurður Jónsson Vigfússonar frá Holti í Vestmannaeyjum, landfrægrar hetju fyrir manndáð. Sigurður er hár maður vexti en frekar renglulegur, enda á grálegasta gelgjuskeiðinu eins og við hin. Hann er mjög eldhærður og skarpeygur, athugull og hæglátur, en kempa hin mesta og kappsfullur, þegar það á við. Þá er hann áræðinn vel nema við hið veika kyn. Gagnvart því er hann hugdeigur, og mun það mest stafa af vorkunnsemi og samúð sökum veikleikans. Að öðru leyti en þessu sker Sigurður sig í ætt sína, en hann er að eigin sögn kominn í beinan karllegg af Agli Skallagrímssyni bónda og skáldi að Borg á Mýrum.
Sigurður er fégírugur með afbrigðum, sérstaklega í þágu Málfundafélags nemenda, ferðasjóðs þeirra, enda á hann að njóta hans sjálfur á næsta vori.
Ætlan mín er sú, að fáir séu honum jafnslyngir að græða fé, enda er hann ,,vætu“málaráðherra í stjórn Stefaníu Þorsteinsdóttur og aflar þannig fjár í ferðasjóð.
Fáir standa Sigurði á sporði í reikningi, einkum í vaxtareikningi, og sérílagi, ef vextirnir eiga að renna í hans eigin pyngju eða ferðasjóðsins.
Sigurður er að eðlisfari rólegur og grandvar maður, og er kjörorð hans þetta: „Allt er bezt með forsjá“. Hann getur þó verið fyndinn mjög og meinhæðinn, ef svo ber undir. Það þekki ég vel og hefi sjálfur fengið á því að kenna. — Ekki er mér grunlaust um það, að Amorsörvarnar séu teknar að stinga hann. Þóttist ég bezt sjá sönnun þess, er hann lék hlutverk söngvarans í leikþættinum Romeo og Júlía á árshátíð Gagnfræðaskólans s.l. 1. des. Það hlutverk lék hann af mikilli tilfinningasemi og nærfærni, enda hneigður til listar og lofnar. En spyrji maður hann um Amor, verður hann að stóru spurningarmerki, og þá þykist hann ekkert skilja. Þetta er fyrsti veturinn, sem ég sit hjá Sigurði og okkur hefur komið vel saman. Hann er að mínum dómi fyrirmyndarpiltur, sem hefur góð áhrif á alla, (enda ber ég þess bezt vitni).
Sessunautur minn hér í 3. bekk bóknáms er Kristín Bergsdóttir, sem borin er í þennan heim hér í Eyjum. Ættuð er hún undan Eyjafjöllum eins og margt annað efnisfólk hér í Eyjum og þess vegna ekki undan sínum eins og ég og ýmsir aðrir hér um slóðir.
Kristín er stór og fönguleg og öll hin hressilegasta í viðmóti. Til marks um manndóm hennar og myndugleik, þegar hún fæddist, má geta þess, að allir gormar í mælitækjum ljósmóðurinnar brustu, þá er mæla skyldi þunga hennar, enda undan fjöllum, eins og þar stendur. Kristín hefur síðan haldið áfram að stækka bæði andlega og líkamlega. Nú er svo komið, að búast má við, að fara kunni svo með einkunnarstigann okkar, að hann bresti sem gormarnir í ljósmóðurvoginni forðum, þegar meta skal úrlausnir Kristínar Bergsdóttur.
Einhvern grun hef ég um, að Kristin lesi töluvert um austurlenzk trúarbrögð svona í tómstundum sínum frá lestri skólabókanna, en dult fer hún með þá iðju sína.
Kristín tekur dag hvern þátt í morgunleikfimi útvarpsins og iðkar jókaæfingar í laumi, drekkur lýsi og etur hákarl, er kólna tekur. Þannig er hún þegar farin að búa sig undir hjónabandið. Á sumrum tekur hún virkan þátt í íþróttalífinu í bænum. Handknattleikur er yndisíþrótt hennar. Þar er hún miðframvörður, skothörð og markviss. Heyrzt hefur, að hún hafi borið það við lítilsháttar að æfa sleggjukast og kúluvarp með mjög góðum árangri. Munu þær iðkanir vera einn liðurinn í undirbúningi hjónabandsins. Hinn væntanlegi ektamaki mun öðlast traust athvarf og hlýlegt skjól hjá Kristínu sinni, hvort sem það verður Dalli í dáinu, Siggi síglaði eða Kristmann.
- Sigríður Jakobsdóttir,
- 3. b. bókn.
- Sigríður Jakobsdóttir,
Signý frá Solveigarstöðum
Hún átti heima á Solveigarstöðum og hét Signý. Hún var aðeins 13 ára gömul og hafði fermzt þá um vorið.
Signý var stúlka björt yfirlitum með langar gullnar hárfléttur, sem náðu niður undir mitti. Hún var ákaflega draumlynd stúlka, sem sat tímunum saman uppi í móa og naut þar sólarinnar og fuglasöngsins í ríkum mæli. Hann hljómaði sem tónar úr hörpu Davíðs forðum.
Allir bændur í Hámundarfirði höfðu farið á fjall þá um morguninn, því að nú var orðið áliðið sumars og slátrun senn að hefjast. Og nú sat Signý litla og beið, því að hún átti að gæta þess, að féð rynni ekki austur með Kömbunum, eins og það gerði jafnan, og því var títt.
Skyndílega hrökk hún við og áttaði sig von bráðar. Uppi í hlíðinni var féð á hraðri ferð niður brekkuna. Þegar svo jarmið í kindunum, geltið í hundunum og hóið í bændunum og búaliðunum myndaði samklið, varð úr því mikill hávaði.
Um kvöldið, þegar Signý gekk heim á leið, var hún bæði syfjuð og þreytt.
Morguninn eftir var hún snemma á fótum, því að hún ætlaði að fara upp í réttir, þar sem flestir bændur og búaliðar sveitarinnar voru saman komnir og í óða önn að draga í dilka. Mamma Signýjar hafði tekið það loforð af henni að hún færi með Jóríði gömlu til að færa heimamönnunum kaffið ... „Því í ósköpunum gátu þær ekki flýtt sér heldur meir?“ Hún var svo áköf og óróleg. Hún var í þann veginn að leggja af stað einsömul, þegar mamma hennar kom fram í bæjardyrnar til að tjá henni, að nú ætti hún að bera kaffið með Jóríði gömlu, vera henni hjálpleg og gæta þess að fara ekki á undan gömlu konunni.
Þegar þær komu upp í réttirnar, var þar margt manna, og urðu þeir Solveigarstaðamenn fegnir að fá kaffisopann.
„Hvað heitirðu?“, var sagt fyrir aftan Signýju. Hún snéri sér við og sá þá, að á móti henni stóð piltur á líku reki og hún. „Ha — ég? — Signý.“ — „Signý, það þykir mér fallegt nafn.“ „Hvað heitir þú?“ „Gunnlaugur.“ — „Já, ekki er það nafn síður fallegt,“ segir hún. — „Hvar áttu heima?“ spyr hann. — „Á Solveigarstöðum.“ — „En þú?“ — „Ég á heima á Grímslæk. — Eigum við að koma og vita, hvort við finnum lontur í læknum?“ — Já, Signý var til í það. Þegar þau höfðu unað við að gægjast eftir lontum góða stund, settust þau niður og hvíldu sig. Þá sagði Gunnlaugur: „Mikið hefurðu fallegt hár, Signý. Það er eins og hárið á henni systur minni, sem dó í fyrra.“ Signý varð vandræðaleg og sagði ekkert en leit upp, er hún heyrði kallað á sig. Þá sá hún, að Grímur fjósamaður var að koma. Hann hafði verið sendur til að leita hennar, því að enginn vissi, hvað um hana hafði orðið.
Um jólin fór Signý með föður sínum í kirkju ásamt fleira heimilisfólki. Þegar hún kom út úr kirkjunni, var gripið lítið eitt í aðra fléttuna á henni. „Sæl, Signý.“ — „Já, sæll. Ert það þú?“ — Svo var samtalinu slitið, því að Jón bóndi á Grímslæk togaði í son sinn og skipað honum að hafa hraðann á, því að þeir þyrftu að flýta sér heim.
Næsta haust kom Gunnlaugur ekki í réttirnar. Signý þorði ekki að hafa orð á því við nokkurn mann, enda þótt orðin lægju oft á vörum hennar.
Næstu jól fór Signý einnig í kirkju, og sá hún þá Gunnlaug á fremsta bekk, þar sem hann sat við hliðina á föður sínum.
Þegar Signý var 16 vetra og Gunnlaugur 17, hittust þau í réttunum sem fyrr og gengu þá út að læknum, eins og þau höfðu gert, þegar þau sáust í fyrsta sinni. Þau voru bæði þögul, unz Gunnlaugur mælti: „Signý, viltu gefa mér lokk úr hárinu á þér?“ Svo rétti hann henni hjarta, sem var haglega
skorið í tré. Í það var grafið: ,,Til Signýjar“.
Haustið eftir fluttist Gunnlaugur vestur um haf með fjölskyldu sinni.
— — —
Fimmtíu árum seinna sat gömul kona í baðstofunni á Hóli. Hún sat á rúmstokknum sínum og var að prjóna sokka. En hugurinn var ekki hjá prjónunum, heldur hvarflaði hann 50 ár aftur í tímann, að litlum læk, þar sem lontur löptu straum undir bakkanum. Síðan hvarflaði hann að litlu, fagurlega skornu hjarta í tré, sem piltur hafði einu sinni gefið henni og varð henni því kærara, sem æviárin urðu fleiri.
- Sonja J. Hansen,
- 4. bekk.
Kveljandi samvizkubit
Það var heitt í veðri þennan dag fyrir 6 árum, reglulega mollulegt veður. Ég var á leið inn á Eiði og gekk fjöruna norður af Friðarhafnarbryggju. Fjöruangan eða þaralykt lagði að vitum mínum, en ég fann það varla. Það var svo algengt.
— Fuglarnir flugu yfir spegilsléttum sjávarfletinum í leit að æti. Vélbátur kom öslandi inn höfnina.
Sú öld var þá ríkjandi, að næstum hver strákur hafði með sér teygjubyssu (baunabyssu), hvert sem hann fór. Einnig ég hafði á mér slíkt vopn.
Ég tók nú upp byssuna og tók að skjóta á netakúlur og flöskur, sem í fjörunni voru. Allt í einu tók ég eftir grámáf, er synti makindalega á sjónum skammt frá mér. Vild ég nú reyna skothæfni mína. Setti því hnöttótta blágrýtisvölu í leðrið og miðaði. Steinninn hafnaði í haus máfsins. Fyrst tók hann nokkra kippi en flaut síðan hreyfingarlaus á sjónum. Ég varð all glaður við og hrósaði byssunni óspart, horfði á máfsa um hríð, en hugði síðan til brottferðar. Þá sá ég allt í einu, að fætur hans hreyfðust. Mér varð illt við. Nú vaknaði sektartilfinningin í huga mínum. Ég iðraðist þess sáran, sem ég hafði gert. Ekki gat ég staðið þarna og horft á ósjálfbjarga dýrið kveljast. Eitthvað varð ég að gera. Svo hrærður var ég, að ég vildi gera allt, sem tök voru á, til þess að ná fuglinum og losa hann við þjáningarnar, sem hann nú þurfti að þola mín vegna. Mér kom margt í hug. T.d. að ná í árabát suður í Slipp. Þá sá ég fram á, að það yrði tímafrekt. Loks datt mér gott ráð í hug. Ég klæddi mig úr skónum og sokkunum, bretti upp buxurnar og óð í áttina að máfinum. Þegar ég hafði vaðið svo að sjórinn náði upp á mið læri, var enn langt til máfsins. Þá dýpkaði ört, og átti ég þann kost vænstan að leggja til sunds. Að vísu var ég illa syndur, en það hugsaði ég ekki út í. Svamlaði ég nú að máfinum, greip utan um hann og buslaði síðan með hann að landi. Þegar ég hafði fótað mig, varð það mitt fyrsta verk að deyða máfinn. Það gerði ég svo samvizkusamlega, að ekki loddi höfuðið við hálsinn á eftir.
Ég tók byssuna úr vasa mínum. Nú hrósaði ég henni ekki lengur. Ég henti henni eins langt út á höfn og ég orkaði. Þá hét ég því með sjálfum mér að snerta aldrei teygjubyssu framar. Nú fór ég að finna til kulda, holdvotur upp fyrir höfuð. Ég hraðaði mér heim til að skipta um föt og hlýja mér.
- Jóhann Runólfsson,
- 4. bekk.
- Jóhann Runólfsson,
Skólinn og ég
Skólaárin álít ég vera einhver allra skemmtilegustu ár bernskunnar og æskunnar. Svo mun það yfirleitt vera með þeim unglingum, sem hafa heilbrigða hugsun.
Gaman hefi ég að hugleiða, þegar ég nú er komin í 3. bekk Gagnfræðaskólans, hve mikið ég hefi breytzt þessi ár. Tökum til dæmis hegðun mína. Ég hefi jafnan átt erfitt með að stjórna mér og haga mér vel í þeim efnum. Þegar ég hóf nám í 1. bekk Gagnfræðaskólans, fannst mér mikið til um sjálfa mig, og að ég væri orðin fullorðin stúlka, þó að ég væri aðeins 13 ára. Mér fannst m.a., að ég hefði fullan rétt til að brúka munn við kennarana og láta eins og mér sýndist bezt sjálfri. Ekki vantaði mikilmennskuna! — Mér fór að skiljast annað, þegar reyndin kom til skjalanna. Það mun fleirum en mér lærast í Gagnfræðaskólanum.
Núna, þegar ég verð fyrir því, að fundið er að við mig, sem mjög sjaldan á sér stað, sem betur fer, þá iðrast ég alltaf. Þetta sannar mér sjálfri, hve mikið ég hefi þroskazt andlega. Ég hefi lært að skilja sjálfa mig og aðra þessi rúm tvö ár, sem ég hefi dvalizt í skólanum.
Ég álít, að unglingar, sem ganga í skóla, þroskist mikið fyrr að hugsun og skilningi en þeir, sem ekki ljúka nema barnaprófi. Maður þarf ekki annað en að tala við þá til þess að finna, hve munurinn er mikill. Þess vegna finnst mér mjög sorglegt, þegar vel gefnir unglingar sækja ekki skóla, fyrst og fremst sökum leti.
- Ein í 3. bekk bóknáms.
Með enskri konu á stangveiðum
Síðastliðið sumar dvaldist hér um tíma stangveiðafólk, flest útlent. Einn góðviðrisdaginn fór ég og vinkona mín með einum bátnum gestunum til aðstoðar. Við vorum himinlifandi glaðar yfir því að fá aðstöðu til að koma á sjó. Ein ensk stangveiðikona var á þessum báti. Hugsuðum við vinkonurnar nú gott til þess að fá aðstöðu til að reyna enskukunnáttu okkar. Auk konunnar voru á bátnum tveir Ameríkanar og tveir Íslendingar. Og svo skipshöfnin auðvitað.
Er við fórum út úr hafnarmynninu, stóðum við vinkonurnar frammi í stafni á bátnum glaðar í bragði. Suður í Suðureyjarsundi staðnæmdist báturinn. Þarna renndi stangveiðifólkið fyrir fisk. Við stelpurnar vorum látnar skera beitu handa því. Við héldum okkur mest hjá konunni. Eftir drykklanga stund fór hún að reyna að tala við okkur. Við skildum hana all vel með miðskólaprófið okkar í ensku. Ekki gekk okkur eins vel að tala við hana. Við þóttumst vita, að það væri eitthvað ábótavant um réttan framburð. En þetta blessaðist brátt allt saman og urðum við beztu vinkonur allar þrjár. Við tvær skemmtum okkur við að kenna henni íslenzku og var hún mjög næmur og námfús nemandi. Fljótlega gat hún myndað þó nokkur orð. Þegar fiskur kom á hjá henni sagði hún t.d.: „Fisku á, fisku á“, og þegar fast var í botni, sagði hún: „Fast í botni, fast í botni.“ Hún þekkti orðið þær fisktegundir, sem hún dró og kunni að nefna þær íslenzkum nöfnum. Þegar hún dró keilu, rak hún út úr sér tunguna og hrópaði: „Keila, keila.“ Hún var auðþekkt á því, að kútmaginn kom fram úr gininu á henni, þegar hún var dregin. Einu sinni dró konan steinbít. Aldrei hafði hún séð annan eins fisk áður, sagði hún. Það lá við að hún æpti upp, þegar hún sá, hvað hún hafði krækt í, því að hún var svo hrædd við hann.
Amerísku og íslenzku stangveiðimennirnir voru líka skemmtilegir og gamansamir.
Er við komum heim aftur, fannst okkur vinkonunum, að þetta hefði verið í alla staði skemmtileg og fróðleg sjóferð.
- O.Ö.,
- 4. bekk.
Kálfurinn át kjólinn
Það bar við á árunum, þegar langafi minn átti kýr, að sá atburður átti sér stað, er hér greinir frá. Afi minn átti kálf, sem var mesti gallagripur. Hann var mjög illa þokkaður, því að hann át þvottinn á snúrunum, þegar hann kom því við. Svo var það sumar eitt, að ung stúlka dvaldist hjá langafa mínum, og þekkti ekki fyrst í stað þennan slæma galla kálfsins.
Eitt sinn sem oftar var haldinn dansleikur í Samkomuhúsinu, og þangað ætlaði stúlkan sér þetta kvöld. Hún þvoði þvott sinn til undirbúnings dansleiknum og hengdi hann út á snúru alveg grandalaus. Svo tók hún til að hreinsa skóna sína, sem voru rúskinnsskór eftir nýjustu tízku. Þeir skyldu burstast yfir gufu. Hún lagði annan skóinn yfir loklausan ketilinn á vélinni, þar sem eldur skíðlogaði: Síðan skundaði hún út til að gæta að þvottinum sínum. — Skelfingu lostin horfði hún á rytjurnar af því, sem einu sinni hafði verið undir-sparikjóllinn hennar, ljósgrænn og verulega fallegur. Nú hékk hann hálfur á snúrunni.
Þarna hjá stóð kálfurinn ánægjulegur á svip og reyndi að gera sér mat úr hinum helmingnum af kjólnum. Út úr öðru munnvikinu lafði drusla af honum. Vissi veslings stúlkan þá, hvað gerzt hafði. Hljóp hún nú inn til þess að segja tíðindin. Þá tók ekki betra við. Fallegi skórinn hennar hafði fallið ofan í sjóðandi vatnið í katlinum. Ónýtur var hann með öllu, þegar upp var dreginn. Ekki var þarna ein báran stök.
- Ágústa Högnadóttir,
- Vatnsdal, 4. b.
Það var þá hann pabbi eftir allt saman!
Þegar ég var yngri, fór pabbi oft í siglingar. Hann sigldi á v/s Helga Helgasyni. Skipið var oft lengi í hverri ferð.
Einu sinni sem oftar fór pabbi til Englands. Þá hef ég verið 5 eða 6 ára. Mér fannst það mjög ánægjulegt, að pabbi skyldi sigla til annarra landa, því að við systurnar áttum það alltaf víst, að pabbi kæmi aftur með eitthvað skemmtilegt handa okkur eða mömmu. Tíminn var ósköp lengi að líða, eftir að pabbi fór. Ég spurði mömmu mjög oft, hvenær pabbi kæmi aftur. Allaf fékk ég sama svarið: „Bráðum“.
Jæja, tíminn leið og leið. Svo sagði mamma einn daginn við okkur systurnar, að pabbi kæmi heim þann dag og við skyldum fara niður á bryggju, en hún ætlaði að vera heima.
Við flýttum okkur niður eftir, og þá var skipið að leggja að bryggjunni. Undir eins, þegar tök voru á, fórum við niður í bátinn og fórum að leita að pabba. En hann var hvergi sjáanlegur. Við fórum niður í vélarsalinn, því að pabbi var vélamaður. Þar stóð maður heldur hár og grannur eins og pabbi, en þessi var alskeggjaður. Við spurðum hann, hvort hann vissi, hvar pabbi væri, en hann brosti aðeins. Við litum hvor á aðra og okkur þótti þetta allt dálítið kynlegt. Ekki var laust við, að einhver uggur gripi okkur. Þegar maðurinn gætti betur að okkur, skellihló hann. Þetta var þá sem sé pabbi sjálfur eftir allt saman!
- Sigríður Magnúsdóttir,
- 3. bekk.
- Sigríður Magnúsdóttir,
Gamlárskvöld
Á gamlárskvöld var Kimi gamli Jóakimsson á leiðinni heim til sín. Hann var dálítið reikull í spori og tautaði ýmislegt fyrir munni sér. Upp Skólaveginn hóf hann upp raust sína og söng hástöfum Eldgamla Ísafold og Ísland ögrum skorið. Í kvöld sagðist hann elska landið sitt meira en „kerlinguna“.
Á Brekastígnum mætti hann vini sínum Láka í Lukku, og hann slóst í för með honum niður í bæ. Báðir voru á svipuðu stigi og elskuðu umhverfið meira en allt annað. Á Bárugötunni hittu þeir vildarvin sinn Sigga síglaða. Hann lúrði á nógu bruggi, „lútsterkum fjanda,“ sagði hann. Þegar þeir höfðu slokað í sig slurk af því, var Kimi kominn á það stig að hann fór að gráta „yfir óréttlæti heimsins“, eins og hann orðaði það. Þá tók Láki til að gráta líka honum til samlætis, en Siggi síglaði hló og hafði aldrei hlegið meira. „Elsku vinur,“ sagði Kimi og faðmaði Láka að sér, „heldurðu ekki að kerlingin bíði nú eftir mér ... hikk ... með kö ... hökukeflið ... hikk ... og steinroti mig, þegar ég kem heim. Ég vona ekki ... hikk ... einn, elsku vinur.“ Láki: „O, blessaður vertu, hafðu ekki áhyggjur af henni. Þú kemur bara heim með mér ... og ... sefur hjá mér í nótt.“ „Já, en elsku vinur, verður kerlingin þín ekki vitlaus, ... hikk ..., ef ég kem heim með þér ... hikk?“ „Iss, henni kemur það nú ekki mikið við, elsku Kimi minn, ég er sko húsbóndi á mínu heimili, lasm.“
Loks héldu þeir vinirnir syngjandi heim í Lukku. Þegar þangað kom, hringdi Láki húsbóndi dyrabjöllunni. Brátt birtist kella alvopnuð í dyrunum. „M-m-má hann ekki sofa hér í nótt, ha-nn Kimi vinur okkar? Hann þorir ekki heim til sín,“ stamaði veslings Láki út úr sér. „Ræfill, — fylliraftur,“ hrópaði frú Láka í Lukku og reiddi kökukeflið til höggs, — bjó sig til að berja Kima gamla. „Heldurðu, að mér sé ekki nóg að hafa þig einan?“ sagði hún heldur höstuglega og lét dynja yfir þá skammirnar. Síðan kippti hún Láka húsbónda inn fyrir þröskuldinn og skellti hurðinni í lás, — aflæsti. Þar næst rak hún hann inn, háttaði hann ofan í rúm og skipaði honum að fara að sofa.
Af Kima gamla er það að segja, að hann herti upp hugann undir morguninn og rölti heim til sín. Klukkan fimm knúði hann dyra heima hjá sér innarlega á Brekastígnum. Loks var opnað fyrir honum. „Hvar hefur þú verið í nótt, Kimi minn?“ spurði frúin í blíðum tón. Það kom á hann, gamla manninn. Hann vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, sem ekki var heldur von, þar sem ekkert veður var. Aðeins logn og blíða. „E..e..ég ætlaði að sækja í soðið handa þér, hei...hei...llin, en þeir vo ... voru þá ekkert á s... jó í dag ... bannsettir ... landkrabbarnir.“
- Kristján Linnet,
- 2. bekk C.
- Kristján Linnet,
MYNDIN TIL VINSTRI:
Niður frá vinstri: Á ársfagnaði skólans 1. des. s.l. létu ekki minna en 4 hljómsveitir til sín heyra og léku fyrir nemendur. Fyrst skal nefna hljómsveit skólans undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar, söngkennara og stjórnanda Lúðrasveitar Vestmannaeyja.
1. Myndin efst til vinstri er af hljómsveit Sigurðar Óskarssonar, Hvassafelli. Frá vinstri: Sævar Tryggvason, Sigurður Óskarsson, Þorgeir Guðmundsson, Friðrik Óskarsson, (snýr vanga að) og Þráinn Alfreðsson við slaghörpuna, og Ragnar Baldvinsson.
2. Myndin er af hljómsveit nemenda í 1. bekk. Það er hljómsveit Örlygs Haraldssonar. Frá vinstri: Leifur Gunnarsson, Magnús Sigurðsson og Örlygur Haraldsson.
3. Úr leikritinu „Keppni“. Sveinar og meyjar keppa í því að hafa fataskipi, fara hvort annars föt.
4. Söngflokkur stúlkna syngur létt lög. Stefanía Þorsteinsdóttir, formaður Málfundafélags skólans, leikur undir.
Niður til hægri:
1. „Bakkabræður Eyjanna“ syngja og leika listir sínar.
2. Annar sölustjóri skólans, Þórarinn Sigurðsson, prangar við „pylsumálaráðherrana“.
3. „Pylsumálaráðherrarnir“, f.v. Jón Ögmundsson og Ólafur R. Eggertsson.
4. Sigurður Jónsson leikur „hinn ástfangna“ í söngleiknum Romeo og Júlía.
LEIÐRÉTTINGAR VIB ÁRSRITIÐ 1960.
Á bls. 84. Í skýringu við mynd er Óskar Illugason. Var sagður óþekktur.
Á bls. 135. Í skýringum við mynd skal vera: Daði Jóhannesson í stað Daði Daðason.
Bls. 177, fyrri dálkur 15. lína að neðan, les Miðbælisbakka.
Á bls. 207. Í skýringu við mynd skal vera: Minna-Núpi í stað Faxastíg 27.