„Skaftfellingur VE-33“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
(2 millibreytingar ekki sýndar frá 2 notendum) | |||
Lína 74: | Lína 74: | ||
== Skipstjóratal == | == Skipstjóratal == | ||
* [[Jón Högnason (skipstjóri)|Jón Högnason]], 1918—1919 | * [[Jón Högnason (skipstjóri)|Jón Högnason]], 1918—1919 | ||
* [[Finnbogi Finnbogason (Rvk | * [[Finnbogi Finnbogason (Rvk)]], 1919—1935 | ||
* [[Kristján Kristjánsson]], 1936—1937 | * [[Kristján Kristjánsson]], 1936—1937 | ||
* [[Ingibjartur Jónsson]], 1938—1939 | * [[Ingibjartur Jónsson]], 1938—1939 | ||
* [[Bjarni Benediktsson]], 1939 | * [[Bjarni Benediktsson]], 1939 | ||
* [[Ásgeir Ásgeirsson]], 1940—1941 | * [[Ásgeir Ásgeirsson]], 1940—1941 | ||
* [[Hallgrímur Júlíusson]], 1942 | * [[Hallgrímur Júlíusson (skipstjóri)|Hallgrímur Júlíusson]], 1942 | ||
* [[Páll Þorbjörnsson]], 1942—1945 | * [[Páll Þorbjörnsson]], 1942—1945 | ||
* [[Kristinn Árni Finnbogason]], 1946 | * [[Kristinn Árni Finnbogason]], 1946 | ||
Lína 85: | Lína 85: | ||
* [[Helgi Bergvinsson]], 1948—1951 | * [[Helgi Bergvinsson]], 1948—1951 | ||
* [[Einar Sveinn Jóhannesson]], 1951—1954 | * [[Einar Sveinn Jóhannesson]], 1951—1954 | ||
* [[Stefán Björnsson]], 1954 | * [[Stefán Björnsson (Skuld)|Stefán Björnsson]], 1954 | ||
* [[Edvin Jóelsson]], 1955—1957 | * [[Edvin Jóelsson]], 1955—1957 | ||
* [[Bjarni Jónasson]], 1958—1959 | * [[Bjarni Jónasson]], 1958—1959 |
Núverandi breyting frá og með 12. mars 2019 kl. 11:14
Skaftfellingur VE-33 var vöruflutningaskip sem lengst af var gert út frá Vestmannaeyjum en einnig nýtt til fiskveiða. Það var án efa eitt frægara sjóskip Vestmannaeyja fyrr eða síðar. Það var smíðað árið 1918 fyrir hlutafélag sem stofnað var um strandsiglingar til Víkur og Vestur-Skaftafellssýslu.
Skipið var smíðað í Troense í Danmörku undir stjórn færeysk-ættaðs skipasmiðs að nafni Jakobsen. Hann þótti vanda verkið gríðarlega mikið, enda tafðist smíði skipsins um marga mánuði vegna þess. Það var ekki fyrr en í mars 1918 sem skipið var tilbúið til brottfarar, en áhöfn skipsins — Jón Högnason, skipstjóri, Finnbogi Björnsson, stýrimaður, Ormur Ormsson, fyrsti vélstjóri og Elías Högnason, annar vélstjóri — höfðu farið út til Danmerkur með varðskipinu Islands Falk í maí 1917. Við komu þeirra kom í ljós að eingöngu var búið að leggja hluta bandanna, og þeir urðu að bíða í tíu mánuði eftir sjósetningu skipsins.
Skipið fékk nafnið Skaftfellingur og var fyrst um sinn skráð í Reykjavík. Það hlaut ekki sérstakt skráningarnúmer fyrr en árið 1948, þegar Helgi Benediktsson tók við sem útgerðarmaður þess. Skipið var með 48 hestafla Alfa-vél og bar 60 smálestir. Það var fermt í Kaupmannahöfn, ýmsum varningi. Skipið varð að bíða í Kaupmannahöfn fram til 1. apríl, vegna þess að heimstyrjöldin fyrri, sem þá stóð sem hæst, gerði það illmögulegt að útvega olíu til heimfarar. Enn fremur var ómögulegt að vátryggja skipið fyrr en 1. apríl.
Um miðjan apríl var siglt heim til Íslands, með viðkomu í Björgvin í Noregi vegna bilunar á stýri. Þar þurftu skipverjar að sigla hættusiglingu inn fjörðinn sem alsettur var skerjum og tundurduflum.
Skaftfellingur var alls 17 daga á leiðinni frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur, en hann gekk bæði fyrir vél og segli á leiðinni. Skaftfellingur var ekki smíðaður sem seglskip, en hann gekk vel undir seglum og náði, að sögn fyrsta skipstjórans, allt að 10 sjómílna hraða undir seglum.
Skaftfellingar nutu góðs af þeim breytingum sem urðu við tilkomu skipsins. Lifnaðarhættir breyttust mjög og menn fóru að tala um Skaftfelling sem bátinn í daglegu tali.
Skaftfellingsfélagið
- „Tilgangur fjelagsins er að bæta samgöngur á sjó við Vestur-Skaftafellssýslu og Öræfi í Austur-Skaftafellssýslu, með því að reka siglingar milli hafna á Suðurlandi.“
Skaftfellingsfélagið var stofnað um smíði og rekstur vélbáts til vöruflutninga við suðurströnd Íslands, og eftir stofnfund sem boðaður var af Sigurjóni Markússyni þann 7. febrúar 1917 þar sem þrettán fulltrúar mættu, kjörnir úr öllum hreppum sýslunnar og austan úr Öræfum, var stofnfé safnað, 30.225 kr, sem þótti töluverð upphæð á þeim tíma. Fimm manna stjórn var kjörin undir formennsku Lárusar á Klaustri, og var ákveðið í félagslögum að einn stjórnarmanna skyldi flytjast til Reykjavíkur og sinna þaðan bókhaldi, ritstörfum og útgerðarstjórn fyrirtækisins. Hannes Thorarensen, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, var kjörinn í það embætti. Stjórnin hafði heimild til þess að tvöfalda hlutafé félagsins og veðsetja skipið fyrir því. Skaftfellingur kostaði um 70-80 þúsund krónur í smíði og heimflutningi.
Forstjóri Eimskipafélagsins aðstoðaði Skaftfellingsfélagið með að festa kaup á bát, sem var í smíði í Troense í Danmörku, en það var systurskip Svans, SH 183, sem var kallaður Breiðafjarðar-Svanurinn. Hlutafélagið auglýsti í upphafi 1917 eftir áhöfn og fóru þeir út í lok maí.
Félagið var lagt niður sumarið 1941 eftir að Alþingi hafði lagt af ríkisstyrk sinn við rekstur félagsins. Þá keypti Helgi Benediktsson skipið og var það flutt til Vestmannaeyja. Hluthafar fengu greidda inneign sína hjá félaginu, en það hljóðaði upp á um helming upphaflegs hlutafjár.
Siglingar
Mynd:Siglingaleid skaftfellings.PNG Skaftfellingur stóð fyrir áætlunarsiglingum austur með suðurströnd landsins. Hann flutti vörur og farþega frá Reykjavík til Vestmannaeyja, þaðan til Víkur og þaðan að Skaftárósi og að Hvalsíki. Tvisvar til þrisvar á ári fór hann alla leið austur undir Öræfi. Oft var sjólag við sandana það slæmt að Skaftfellingur varð að bíða í Vestmannaeyjum í marga daga eftir að fært yrði til Víkur og austar. Sú viðmiðun var höfð að ef að öldu braut á sunnanverðri Bjarnarey, þá braut í sandinum við Vík, og þá var ófært — en jafnvel þótt farið væri af stað um leið og fært varð, þá tók siglingin til Víkur upp í fjóra tíma, og gat veður versnað mjög á þeim tíma.
Skaftfellingur flutti oft allt að 60-70 farþega en eingöngu var aðstaða um borð fyrir tíu manns (áhöfnina) - sex kojur í lúkar skipsins og fjórar aftur í. Gert var ráð fyrir því í upphafi að byggja skýli fyrir tíu farþega, en það var aldrei gert. Á sumrin flutti hann fólk og vörur fram í miðjan október, þegar sláturtíð lauk. Þá var bátnum að jafnaði lagt ef ekki var hægt að leigja hann út til flutninga á vegum annarra. Þannig gekk Skaftfellingur fram og til baka í um 20 ár, en þá var lagður bílfær vegur austur með söndunum að Síðu, og þá varð þörfin fyrir sjóflutninga minni. Þá var Skaftfellingur leigður til langs tíma í aðra flutninga.
Upp úr 1939 dró verulega úr verkefnum skipsins á vegum Kaupfélags Skaftfellinga, en verslunin hafði flutt frá Skaftárósum að Kirkjubæjarklaustri árið 1937, og vegir lágu þangað. Skaftfellingur fór sínar síðustu ferðir til Víkur árið 1938 og í þrjár ferðir austur í Öræfi 1939.
Áhöfnina skipuðu fyrst í stað fjórir; skipstjóri, stýrimaður og tveir vélstjórar — en síðar var bætt við þremur hásetum. Flestir skipverjar voru búsettir í Reykjavík fram til um 1937 og skipstjóraskipti voru tíð á bátnum.
Skráningin VE-33
Þar til um 14. mars 1937 var Skaftfellingur skráður með heimahöfn í Reykjavík. Þá fluttist skráningin til Vestmannaeyja, og fékk skipið þá kallmerkið TFRI (TF er radíókallmerkjaforskeyti fyrir Ísland). Skipið var keypt til Vestmannaeyja af Helga Benediktssyni, kaupmanni og útvegsbónda, sem gerði það út þaðan til millilandaflutninga, sem voru þá mjög arðbærir vegna stríðsins.
Ný vél var sett í Skaftfelling og byrðingur endurbættur árið 1943, og fékk hann þá einkennisstafina VE-33.
Heimstyrjöldin síðari
Í september árið 1940 sögðu Bretar Þjóðverjum stríð á hendur, sem hafði margvíslegar afleiðingar í för með sér fyrir Íslendinga — öll skip í fiskveiðiflota Breta voru tekin af fiskimiðunum og notuð til hergagnaflutninga, þannig að greið leið opnaðist fyrir Íslendinga að fiskimörkuðum og fiskimiðum Breta. Helgi VE-333, sem smíðaður var 1939, var tilbúinn til þess að flytja varning, og Helgi Benediktsson frétti af því að Skaftfellingur væri til sölu og ákvað að tefla á tæpasta vað - hann fjárfesti í skipinu og réð Ásgeir M. Ásgeirsson sem skipstjóra á það.
Fyrsta ferðin til Fleetwood, á vesturströnd Bretlands, var farin í janúar 1940, og fór Skaftfellingur alls vel yfir 20 ferðir með um 70 tonn af ísvörðum fiski í skipstjóratíð Ásgeirs. Tveir aðrir voru skipstjórar á Skaftfellingi á stríðsárunum. Hallgrímur Júlíusson tók við af Ásgeiri, og svo Páll Þorbjörnsson .
Vélarbilunin
Eingöngu einu sinni varð alvarleg vélarbilun, svo vitað sé, en hún átti sér stað skammt undan ströndum Skotlands. Skipið var á reki einhverja stund áður en breskur togari kom því til bjargar og dró það til Fleetwood. Helgi dró Skaftfelling svo aftur til Íslands í sinni næstu ferð frá Fleetwood, en bæði skipin voru fullhlaðin varningi, þannig að ferðin tók um viku.
Kafbátsáhöfn bjargað
Aðfaranótt 19. ágúst árið 1942, rétt eftir miðnæti, hélt Skaftfellingur úr höfn í eina af sínum fjölmörgu ferðum til Fleetwood, að þessu sinni með farm af ísfiski. Páll Þorbjörnsson, skipstjóri, og Andrés Gestsson, háseti, áttu vakt aðfaranótt 20. ágúst. Mikil bræla var og austanátt þegar bandarísk sjóflugvél flaug yfir Skaftfelling í tvígang, rétt fyrir kl. fjögur að morgni, og gaf þeim morse-merki. Andrés varð var við merkið og lét skipstjórann vita, en ekki tókst þeim að ráða úr skilaboðunum. Þeir sáu aftur á móti mjög fljótlega að eitthvað var í sjónum framundan. Þeir töldu fyrst að um björgunarbát með segl væri að ræða, en svo sáu þeir að fyrirbærið virtist stinga sér í ölduna líkt og skip gera - eða kafbátar. Enda var sú raunin að um þýskan kafbát var að ræða. Skipverjar kafbátsins voru þá á þilfari hans, og veifuðu þeir til Skaftfellings með rauðum fána. Aðrir skipverjar voru ræstir, fokkan (lítið segl) var dregin niður og íslenskur fáni dreginn að húni. Fyrstur upp á dekk af þeim sem voru á frívakt, var fyrsti vélstjóri skipsins, Jóhann Bjarnason, en Páll skipaði honum að hlaða byssurnar. Skaftfellingur var búinn þremur vopnum: 5 skota riffli og 90 skota vélbyssu, auk skammbyssu sem skipstjórinn hafði.
Þegar skipverjum Skaftfellings varð ljóst að skotið hafði verið á kafbátinn, þannig að hann gat ekki kafað og hann orðinn verulega laskaður, þá fóru þeir að huga að því að bjarga skipverjum, sem voru milli vonar og ótta, um borð í Skaftfelling. Reynt var fyrst að slaka til þeirra björgunarfleka sem átti að geta borið 10-12 manns, en flekinn slitnaði frá Skaftfellingi. Á meðan þeir reyndu að finna nýja leið til þess að ná Þjóðverjunum um borð byrjuðu þeir að stinga sér í sjóinn og synda að Skaftfellingi. Aðstæður við björgunina breyttust þá á svipstundu, og menn kepptust við að hífa Þjóðverjana um borð. Reynt var í fyrstu að leita á mönnum og afvopna þá ef með þyrfti en eftir því sem leið á björgunina varð það erfiðara.
Skipherra kafbátsins var síðastur um borð í Skaftfelling, en hann og tveir aðrir sökktu kafbátnum áður en þeir fóru frá borði, svo að hann endaði ekki í óvinahöndum. 52 skipverjum var bjargað um borð í Skaftfelling, en sögum ber ekki saman um, hvort um borð hafi upphaflega verið 54 eða 60. Samkvæmt skipaskrá kafbátsins voru sextíu menn um borð, en samkvæmt vélstjóra þýska kafbátsins, Reinhart Beier, voru eingöngu tveir sem lokuðust inni í skipinu þegar það sökk. Vandast málið enn frekar þegar athugað er að samkvæmt frásögn Andrésar Gestssonar var að minnsta kosti einn maður gestkomandi í kafbátnum:
- „[...] Ég man eftir því að annar þeirra var flugmaður sem kafbátsmenn höfðu bjargað. [...]“
Samkvæmt skráningum voru þeir tveir sem létust, Kurt Seifert og Karl Thiele.
Þjóðverjunum var komið um borð í tvo breska tundurspilla sem stöðvuðu Skaftfelling á för sinni. Þjóðverjarnir voru fluttir til Reykjavíkur og þeir hafðir þar í kanadískum fangabúðum um hríð.
U-464
Kafbáturinn sem sökk þessa nótt, 20. ágúst 1942, var þýskur U-kafbátur (Underseeboot) af gerð XIV, nefndur U-464. Eingöngu tíu slíkir kafbátar voru smíðaðir, en þeir fengu viðurnefnið mjókurkýr (milchkuh). Þeirra hlutverk var að flytja hergögn og vistir til kafbáta af gerð VII og IX. Fyrsta mjólkurkýrin var U-459, en U-464 var án efa sú skammlífasta. Bygging á bátnum hófst þann 18. mars 1941 og var sjósetningin þann 30. apríl 1942. Skipstjóri bátsins var kapteinleutenant Otto Harms.
U-464 fór tvær ferðir á sinni tíð, en fyrri ferðin, sem stóð frá 30. apríl 1942 til 1. ágúst 1942, var æfingaferð með 4. flotadeildinni, sem var æfingafloti fyrir kafbáta. Seinni ferðin hófst þann 1. ágúst 1942 og stóð til 20. ágúst, þegar sjóflugvél af Catalina-gerð frá bandarísku VP-73 flughersveitinni varpaði fimm djúpsprengjum á hann. Djúpsprengjurnar löskuðu skipið að ofanverðu þannig að það gat ekki kafað, en þó hefði skipið átt að geta siglt áfram á um 8 sjómílna hraða (hann komst upphaflega á um 10 sjómílna hraða).
Skotið á Skaftfelling
Bretar, í hernámi sínu á Íslandi, gerðu þá kröfu að öll skip skyldu stöðvuð til skoðunar undan Hringskersgarði, áður en siglt yrði inn fyrir hafnargarða. Bandaríkjamenn, sem tóku við hersetunni af Bretum árið 1941 hertu kröfurnar, og heimtuðu að öll skip skyldu staðnæmast á Víkinni. Skaftfellingur var á mikilli hraðferð inn í höfnina eitt sinn, vegna veikinda stýrimannsins, Jón Bergs Jónssonar. Skipið hafði lónað um stund úti af Víkinni, og ekki sást til Bandaríkjamannanna. Þar sem þeir áttu ekki von á að komast inn í höfnina þegar fjaraði, sökum þess hve grunn höfnin var á þessum tíma, þá sigldu þeir inn í höfnina.
Bandarískir hermenn hófu strax skothríð á Skaftfelling, sem sneri samstundis við og stöðvaði vélar sínar. Hermennirnir gáfu Skaftfellingi merki um að halda áfram til hafnar, en þeir áttu í miklum erfiðleikum með að komast úr stað. Þá kom í ljós að ástæða þess að þolinmæði Bandaríkjamanna brást og þeir skutu á skipið, var að tundurdufl hafði rekið inn í höfnina, og lá þar sem Skaftfellingur hafði stoppað. Vissu menn af þessu tundurdufli, en töldu það vera utar í höfninni. Tundurduflið teppti höfnina í 3-4 daga, og hefði líklega farið illa ef Skaftfellingur hefði haldið út úr höfninni aftur.
Til hafnar í hinsta sinn
Þegar heimsstyrjöldinni lauk fór Skaftfellingur aftur í sitt gamla hlutverk — vöru- og farþegaflutninga milli hafna á Íslandi. Stundum var skipið við fiskveiðar þegar lítið var að gera í flutningastarfseminni. Margar sögur eru af því hvernig Skaftfellingur stóð af sér hinar ótrúlegustu raunir; stórsjó, árásir óvina, árekstra, strand og fleira, en alltaf kom skipið heilt út úr því. Árið 1974 var skipið skoðað í síðasta sinn og árið 1975 var Skaftfellingur dreginn upp í slippinn þar sem hann stóð í um þrjátíu ár.
Eftir dapra dvöl í gamla slippnum þar sem málningin flagnaði, timbrið fúnaði og báturinn fékk á sig mosaskjöld, var hann loks tekinn í gegn að hausti ársins 2000: Yfirbyggingin var rifin af, skipið hreinsað alveg, og því lokað að ofanverðu til að hindra frekari skemmdir á því. Árið 2001 var skipið svo flutt til Þorlákshafnar með gámaskipi, og þaðan til Víkur í Mýrdal þar sem saga Skaftfellings byrjaði.
Skipstjóratal
- Jón Högnason, 1918—1919
- Finnbogi Finnbogason (Rvk), 1919—1935
- Kristján Kristjánsson, 1936—1937
- Ingibjartur Jónsson, 1938—1939
- Bjarni Benediktsson, 1939
- Ásgeir Ásgeirsson, 1940—1941
- Hallgrímur Júlíusson, 1942
- Páll Þorbjörnsson, 1942—1945
- Kristinn Árni Finnbogason, 1946
- Brynjólfur Gunnar Guðlaugsson, 1947
- Helgi Bergvinsson, 1948—1951
- Einar Sveinn Jóhannesson, 1951—1954
- Stefán Björnsson, 1954
- Edvin Jóelsson, 1955—1957
- Bjarni Jónasson, 1958—1959
- Jón Berg Halldórsson, 1959
- Sigurður Friðriksson, 1960
- Páll Kristinn Maríusson, 1962—1963
Sjá einnig greinar Einars Sigurfinnssonar í Bliki 1960: Útvörður Suðurstrandarinnar og Úr sögu vélskipsins Skaftfellings.
Heimildir
- Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.
- Saga Skaftfellings VE 33, ágrip, Arnþór Helgason og Sigtryggur Helgason.
- uboat.net, U-464. [1]
- uboatwaffe.net, áhafnarlisti U-464. [2]
Ólafur R. Guðnason sambandi við Finnboga Björnsson.