Kynning á Kór Landakirkju

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. desember 2024 kl. 20:34 eftir GummiGHG (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. desember 2024 kl. 20:34 eftir GummiGHG (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Hér á Heimaslóð hefur verið hlaðnar inn upptökur sem gerðar voru á tónleikum Kórs Landakirkju allt frá árinu 1980, en þá var haldið upp á 200 ára afmæli Landakirkju og Ríkisúvarpið kom og tók upp tónleikana. Þá var mikið lagt upp úr að þau tímamót yrðu eftirminnileg og um leið öllum til sóma. Safnaðarstjórnin bauð biskupi Íslands og prestum Kjalarnessprófastdæmis ásamt góðum velunnurum Landakirkju.

Ætlast var til að Kór kirkjunnar kæmi þar við sögu.

Kór Landakirkju var stofnaður 1911 og á sér því langa og merka sögu. Guðmundur H. Guðjónsson kom til starfa hjá Landakirkju sem organisti 1970 og tók þá við góðum kór frá fyrirrennara sínum Marteini H. Friðrikssyni, en hann var organisti kirkjunnar frá 1966  til 1970. Þegar eldgosið reið yfir Heimaey  í janúar 1973 tvístruðust Eyjamenn út og suður sem og kórfélagarnir. Kirkjan reyndi að halda uppi helgihaldi eins og mögulegt var upp á landi og síðan í Eyjum um haustið sama ár. Guðmundur organisti fylgdi prestunum meðan þeir messuðu í útlegðinni og mætti svo til Eyja í janúar 1974. Kórfélagar voru þá fáir komnir tilbaka en samt nokkrir.

Á ársafmæli eldgossins 23. janúar 1974 var haldin þakkarmessa vegna hinnar giftulegu björgunar Eyjamanna sem urðu að flýja Heimaey í skyndingu um nóttina árið áður. Þáverandi biskup yfir Íslandi, herra Sigurbjörn Einarsson kom og hélt eftirminnilega ræðu, eins og  honum  einum var lagið. Mælti hann svo til að haldin skyldi þakkarmessa á þessum degi ársins meðan mönnum þætti ástæða til. Var það svo gert næstu níu árin.  

Kór kirkjunnar fór svo smátt og smátt stækkandi eftir því sem fjölgaði í bænum og gamlir kórfélagar mættu á staðinn og svo bættust nýir félagar við. Þann 23. janúar 1977 í minningarmessu um gosið, var Sigríður Ella Magnúsdóttir söngkona stödd í heimsókn hjá Hallgrími lækni bróður sínum heitnum (hann var búsettur í Eyjum á þeim tíma) og bauðst hún til að syngja með okkur í messunni, sem var sko vel þegið.

Um haustið 1977 var skipt um orgel í Landakirkju, gamla danska Starup orgelið var selt og nýtt orgel frá Ítalíu keypt í staðinn. Það var svo vígt kl. 18:00 í messu á aðfangadagskvöld. Nýja orgelið var smíðað hjá Vincenzo Mascioni, frægu orgelfirma, stofnað1829. Raddavalið í orgelið gerði fyrrverandi kennari Guðmundar og fyrrverandi organisti Péturskirkjunnar í Róm, Fernando Germani. Hann kom hingað til Íslands árið 1974 og hélt marga orgeltónleika, þar á meðal  í Landakirkju á gamla orgelið. Þegar hann var svo beðinn um að velja raddir í nýtt orgel í Landakirkju vissi hann mjög vel hverskonar orgel myndi henta í þá kirkju, sem er lítil og með lítinn eftirhljóm.

Danska orgelið frá Starup er almekanískt með spilaborðið hálfpartinn inn í orgelhúsinu. Við það orgel varð kórinn að vera til hliðar við organistann og svo á bak við hann og því vart hægt að stjórna kórnum frá orgelinu sjálfu. Hjá Mascioni var hægt að láta spilaborðið vera aðskilið frá orgelhúsinu enda er það rafmagnstengt. Þar með var hægt  að hafa hluta kórsins á milli orgels og spilaborðs og áfram til hliðanna, en þá er kórinn samfelldur fyrir framan organistann. Getur hann þá  bæði stjórnað kórnum og leikið jafnframt  með á orgelið. Með tilkomu nýs orgels var því komið tækifæri til að flytja flóknari verk sem einn maður gat stjórnað.

Aftur að Sigríði Ellu. Í framhaldinu af að hún söng með okkur í janúar 1977 fór hún að sýna okkur mikla velvild og áhuga og kom hún  til Vestmannaeyja hvað eftir annað til að raddþjálfa kórinn. Þetta framlag hennar til kórstarfsins var öllum ómetanlegt  því hún náði að kveikja mikinn áhuga hjá kórfélögunum, sem þar með urðu viljugri til að leggja á sig langar æfingar og mikla vinnu. Kórinn varð betri og betri og lagði hún til  að hann skyldi halda til Wales á Englandi í kórakeppni í Llangollen í júlí 1978,  en þar stóð kórinn sig mjög vel. Hún söng svo með kirkjukórnum á tónleikum í London og í Kantaraborg. Í desember 1978 kom hún svo aftur til að halda jólatónleika í Landakirkju. Það gerði mikla lukku og kirkjan troðfylltist svo færri komust að en vildu. Kórinn gerði það svo að venju sinni ár hvert að halda jólatónleika eftir það og er hann enn að.

Sigríður Ella Magnúsdóttir var á þessum tíma á toppi síns söngferils og geislaði því alltaf frá henni hvar sem hún kom. Ég vil því hér með þakka henni sérstaklega fyrir hennar aðkomu að Kór Landakirkju, en því miður eru ekki til upptökur með okkur og henni.

Þegar kom að því að að halda uppá 200 ára afmæli Landakirkju á hvítasunnu 1980 vildi kórinn virkilega láta til sín taka. Hann taldi sig vera orðinn í stakk búinn til að flytja stórt verk með hljómsveit að þessu tilefni. Sóknarnefndin samþykkti það.  Kórinn valdi að flytja messu eftir J. Haydn, „Missa Cellensis“ Mariazellermesse. Við flutning á því verki þarf 25 hljóðfæraleikara og þá var bara að finna  í Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Ég var svo heppinn að þáverandi konsertmeistari hljómsveitarinnar var vinkona mín Guðný Guðmundsdóttir. Hún tók að sér fyrir mig að finna og velja hljóðfæraleikara sem til voru í að taka þátt í þessu verkefni. Allt gekk það vel hjá henni og fékk hún bestu hljóðfæraleikara Sinfóníunnar til að koma og spila með okkur. Messan var flutt tvisvar sinnum á hvítasunndag árið 1980 að viðstöddum biskupi Íslands og öðrum mektarmönnum kirkjunnar, eins og áður var greint frá. Mikinn og góðan róm fékk kórinn fyrir flutning sinn á verkinu og þá ekki síst frá meðlimum hljómsveitarinnar. Kórinn flutti svo verkið um haustið á Selfossi og í Reykjavík.

Þetta verkefni kveikti mikinn eldmóð í hugum kórfélaga sem leiddi svo  til þess að 1983, á tíu ára goslokaafmælinu 4. júlí, fluttti kórinn aðra messu eftir J. Haydn - Nelson messuna. Hún var flutt í Samkomuhúsinu að viðstöddum Forseta Ísland ásamt sendiherrum Norðurlandanna, ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og fleiri góðum gestum. Svo í framhaldinu flutti kórinn tvær messur og önnur krefjandi verk með stórri eða lítilli hljómsveit hér í Eyjum, uppá landi og í útlöndum.

Eins og áður sagði voru fyrstu jólatónleikarnir haldnir árið 1978 með Sigríði Ellu Magnúsdóttur og svo hvert ár eftir það. Á mínum tíma með kórnum fékk ég alltaf til liðs við okkur þá söngvara sem kunnastir voru á hverjum tíma. Sem stjórnandi kórsins vil ég þakka þeim öllum fyrir samveruna því þeir söngvarar sem haft var samband við voru alltaf mjög auðfúsir til að mæta til Eyja og syngja með okkur, aldrei sagt nei.

Undirritaður hélt sína síðustu tónleika með kórnum þann 19. maí 2011, þeir voru í tilefni af 100 ára afmæli Kórsins.

Eins og áður sagði lætur Kór Landakirkju ekki deigan síga og heldur áfram með jólatónleika ár hvert undir stjórn Kitty Kovacs, arftaka þess sem hér ritar.

Það er mikið til af upptökum frá kórnum á þessum mörgu árum sem ég stjórnaði honum en af misjöfnum gæðum, eftir því frá hvaða tíma þær eru. Það hefur verið nokkuð pælt í því hvernig geyma mætti efnið því illt væri ef það færi allt forgörðum. Haft var samband við eigendur og ráðamenn netsíðunnar Heimaslóð og spurt hvort grundvöllur væri fyrir því að þeir myndu geyma upptökurnar þar. Erindinu var vel tekið og fóru þeir í að athuga hvort geymslupláss væri nógu mikið á síðunni til að geyma svona stórar skrár og þá sérstaklega myndaskrár. Það reyndist ekki vera og urðu þeir því að gera ýmsar breytingar og ráðstafanir til að gera þetta mögulegt. Þetta gerðu þeir og útkoman er að mínu viti frábær.

Að lokum vil ég Þakka þeim öllum hjá Heimaslóð fyrir þeirra velvilja, sem og Kára Bjarnasyni hjá Bókasafni Vestmannaeyja, þar sem Heimaslóð er vistuð. Davíð í Tölvun, Viktori Jónssyni  og Frosta Gíslasyni, en hann er höfundur síðunnar.

Guðmundur H Guðjónsson.

Efnisyfirlit:Kór Landakirkju