Vernharður Linnet
Vernharður Henriksson Linnet kennari, tónlistarmaður, dagsskrárgerðarmaður, útgefandi, gagnrýnandi fæddist 31. ágúst 1944 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Henrik Adolf Linnet Kristjánsson læknir, f. 21. júní 1919 á Sauðárkróki, d. 6. júní 2014, og kona hans Svana Vernharðsdóttir Linnet frá Hvítanesi í Skötufirði við Djúp, húsfreyja, hjúkrunarfræðingur, f. 12. mars 1916, d. 29. janúar 2011.
Börn Svövu og Henriks:
1. Vernharður Linnet kennari, f. 31. ágúst 1944. Fyrrum kona hans Margrét Aðalsteinsdóttir. Sambúðarkona hans Anna Bryndís Kristinsdóttir.
2. Kristján Henriksson Linnet lyfjafræðingur, f. 12. maí 1946. Kona hans Jónína Guðnadóttir.
3. Jóhanna Linnet tækniteiknari, f. 11. júní 1952. Maður hennar Gunnar Þór Gunnarsson Benjamínsson.
4. Svanhildur Jóna Linnet myndlistamaður í Grikklandi, f. 26. júní 1954. Maður hennar Theodore Vujuklakis.
Vernharður var með foreldrum sínum, flutti með þeim til Eyja 1960, bjó með þeim við Landagötu.
Hann lauk landsprófi í Gagnfræðaskólanum 1961, lauk kennaraprófi 1968, nam í Danmarks Lærerhøjskole 1973-1974. Hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1959-1961, lærði saxófónleik hjá Abndrési Ingólfssyni.
Vernharður kenndi við Grunnskóla Þorlákshafnar til 1980 nema árið, sem hann var við nám í Danmörku, kenndi tónlist við skólann. Hann kenndi í Breiðholtsskóla 1980-2004 nema fimm ár, er hann var fastráðinn dagsskrárgerðarmaður í Ríkisútvarpinu. Hann hefur kennt djasssögu í Tónlistarskóla FÍH, seinna MÍK, frá 2014.
Fyrir útvarpið vann hann m.a. leikgerðir úr fornsögunum fyrir unga hlustendur, Kappar og kjarnakonur úr Íslendingasögunum 1988 og Garpar, goð og valkyrjur úr Fornaldarsögunum 1989. Hann vann að gerð djassþátta fyrir Ríkisútvarpið. Hann hefur unnið að rannsóknum á Íslenskri djasssögu lengi og unnið að útvarpsþáttum um efnið ásamt Hreini Valdimarssyni tæknimanni. Fyrsta þáttaröðin um árin 1919 til 1943 var útvarpað 2011 og fleiri síðar.
Vernharður vann ýmis störf fyrir Æskulýðsfylkinguna 1963-1972. Hann sat í stjórn Kennarasamtaka Suðurlands, í fulltrúaráði SÍB 1976-1978, sat í stjórn Jassklúbbs Reykjavíkur 1966-1968, var formaður Jassvakningar frá 1980. Hann var formaður Leikfélags Þorlákshafnar 1971-1980, var ritstjóri Jassmála 1967, Lostafulla Lystræningjans 1979-1980, tónlistratímaritsin TT 1980-1982, sat í ritstjórn Neista 1969, Lystræningjans 1978-1982.
Hann stofnaði Cotton Jass Club í Melaskóla 12 ára.
Frá 2004 starfaði Vernharður eingöngu við djasstónlist, greinahöfundur, gagnrýnandi, þáttagerðarmaður og kennari.
Ritstörf.
Fjölfaldað tímarit, Cotton Jass Club, 1955.
Greinar um djass í ýmis tímarit og dagblöð, íslensk og erlend.
Ritstýrði m.a. Jassmálum, 1967.
Hann var jassgagnrýnandi Helgarpóstsins 1979 til 1988 og Morgunblaðsins 1997 til 2017.
Vernharður skrifaði kaflann um djasssögu Íslands í fyrstu bókinni, sem gefin hefur verið út um evrópskan djass: The History of European Jass (Equinox Publishing Ltd.) 2018.
Hann gaf út Fáfniskver 1973, Skóhljóð aldanna 1976, í samstarfi við Ólaf Ormsson og Þorstein Marelsson tímaritið Lystræningjann, 1976-1981.
Lystræninginn gaf út tvær bækur: Sjáðu sæta naflann minn og Haltu kjafti og vertu sæt.
Þýðingar:
Skáldsögur eftir Jannic Storm og Hans Hansen fyrir Lystræningjann.
Vernharður hefur verið Formaður Jassvakningar frá 1980, var framkvæmdastjóri RúRek-jasshátíðarinnar 1991-1996. Hann hefur flutt fyrirlestra um djass hjá ýmsum félagasamtökum og skólum, allt frá grunnskólum til háskóla.
Vernharður hefur verið sæmdur gullheiðursmerki FÍH 2007 og Bjarkarlaufið 2009 fyrir kynningu á íslenskri djasstónlist.
Þau Margrét giftu sig, eignuðust tvö börn, en skildu.
Þau Anna Bryndís giftu sig, eignuðust ekki barn saman, en Vernharður er stjúpfaðir barns hennar.
I. Kona Vernharðs, (31. ágúst 1976, skildu), er Margrét Aðalsteinsdóttir, f. 4. febrúar 1955. Foreldrar hennar Aðalsteinn Eyjólfsson forstöðumaður í Reykjavík, f. 18. apríl 1935, og Guðrún Árnadóttir, f. 7. febrúar 1932.
Börn þeirra:
1. Henrik Linnet Vernharðsson kvikmyndagerðarmaður í Reykjavík, f. 27. september 1978. Sambúðarkona hans Katrín Ósk Kjellsdóttir.
2. Steinn Linnet Vernharðsson tölvutæknir, býr í Danmörku, f. 23. september 1980. Kona hans Áróra Traustadóttir.
II. Kona Vernharðs er Anna Bryndís Kristinsdóttir fulltrúi, f. 24. júlí 1960. Foreldrar hennar Kristinn Þorleifur Hallsson söngvari, f. 4. júní 1926, d. 28. júlí 2007 og kona hans Hjördís Þorbjörg Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1. maí 1925, d. 31. ágúst 1983.
Barn hennar og stjúpbarn Vernharðs:
3. Steinberg Þórarinsson öryggis- og tæknistjóri í Reykjavík, f. 18. júlí 1981. Barnsmóðir hans Berglind Dögg Óskarsdóttir. Sambúðarmaður hans er Sturla Kaspersen.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
- Morgunblaðið 31. ágúst 2019. Dægradvöl.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.