Stefanía Einarsdóttir (húsfreyja)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Stefanía Guðrún Einarsdóttir.

Stefanía Guðrún Einarsdóttir frá Steinavöllum í Flókadal í Skagafirði, húsfreyja fæddist þar 19. janúar 1904 og lést 22. september 1982.
Faðir hennar var Einar bóndi á Steinavöllum í Flókadal í Skagafirði, f. 23. október 1869, d. 26. desember 1941 á Siglufirði, Baldvinsson bónda lengst á Sjöundastöðum í Fljótum, mikils hagleiksmanns, spónasmiðs m.m., f. 7. febr. 1841 í Höfn í Fljótum, d. 31. des. 1909 í Sigríðarstaðakoti í Flókadal, Skag., Sveinssonar bónda í Höfn í Fljótum 1845, f. 24. ágúst 1792 á Siglunesi, d. 2. maí 1855 á Bjarnargili í Fljótum, Sveinssonar, og konu Sveins Sveinssonar, (7. október 1816) Halldóru húsfreyju, f. 2. ágúst 1797 í Skarðdal í Siglufirði, d. 25. maí 1878 á Illugastöðum í Fljótum, Torfadóttur.
Móðir Einars á Steinavöllum og kona Baldvins (1863) var Björg húsfreyja, f. 27. september 1836, d. 1904 á Sigríðarstöðum, Einarsdóttir bónda, lengst og síðast í Garðakoti í Hjaltadal, f. um 1797 á Hrappsstöðum í Hólasókn, d. 1863 í Garðakoti, Guðbrandssonar, og konu Einars í Garðakoti, Þórdísar húsfreyju, f. um 1800 í Hofssókn í Skagafirði, d. 1855 í Garðakoti, Bjarnadóttur.

Móðir Stefaníu og kona Einars á Steinavöllum var Anna Sigurbjörg húsfreyja á Steinavöllum, f. 30. ágúst 1872, d. 29. júlí 1918, Jónsdóttir bónda á Steinavöllum og á Ljótsstöðum í Hofssókn, f. 1835 á Þrándarstöðum á Höfðaströnd, d. 1899 á Steinavöllum, Stefánssonar bónda víða í Skagafirði, en síðast bónda og ekkjumanns í Garðshorni 1845, f. 1810 í Stóru-Brekku á Höfðaströnd, d. 1866 á Miklabæ, Jónssonar, og barnsmóður Stefáns, Sigurbjargar, síðar húsfreyju í Hornbrekku á Höfðaströnd, f. 1802, d. 1887, Ólafsdóttur .
Móðir Önnu Sigurbjargar húsfreyju á Steinavöllum og kona (1857) Jóns bónda Stefánssonar var Guðrún húsfreyja, f. 12. október 1835 á Bjarnastöðum í Unadal í Skagafirði, d. 1910 í Nesi í Flókadal, Sigmundsdóttir bónda á Bjarnastöðum í Unadal, f. 31. júlí 1795 á Hamri í Hegranesi, d. 14. maí 1858 á Bjarnastöðum, Jónssonar, og konu Sigmundar, Þuríðar húsfreyju, f. um 1794, d. 11. júní 1838, Erlendsdóttur bónda á Vatni á Höfðaströnd Jónssonar.

Systir Stefaníu í Eyjum var
1. Kristín Einarsdóttir húsfreyja, f. 29. apríl 1914, d. 7. febrúar 1995. Maður hennar Bjarni Bjarnason.

Stefanía var með foreldrum sínum fyrstu þrjú ár ævinnar, en 1908 var hún tökubarn í Nesi í Fljótum í Skagafirði og þar var hún til 1920.
Móðir Stefaníu lést, er Stefanía var á fimmtánda árinu.
Stefanía var hjú á Brekkugötu 19 á Akureyri 1920.
Hún eignaðist Erlu með Guðmundi Vigfússyni í Hafnarfirði 1929, en flutti á Siglufjörð og þar var barnið skírt 26. desember 1930. Barnið var síðan fóstrað í Hafnarfirði hjá Guðbjörgu Einarsdóttur systur Stefaníu og manni hennar Helga Þórarinssyni.
Þau Guðmundur fluttust til Eyja og giftu sig 1933. Þau eignuðust Vigfús Sverri í Eyjum, bjuggu á Skjaldbreið 1932, Þingeyri 1933.
Þau byggðu húsið við Helgafellsbraut 15 1937 og bjuggu þar, uns þau fluttu til Hafnarfjarðar 1957, fluttu á Hrafnistu í Hafnarfirði 1978 og bjuggu þar síðan.
Stefanía lést 1982 og Guðmundur 1997.

I. Maður Stefaníu, (31. desember 1933), var Guðmundur Vigfússon frá Holti, skipstjóri, útgerðarmaður, f. þar 10. febrúar 1906, d. 6. október 1997.
Börn þeirra:
1. Erla Guðmundsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, f. 19. febrúar 1929. Maður hennar Stefán Vigfús Þorsteinsson.
2. Vigfús Sverrir Guðmundsson sjómaður, listmálari, rithöfundur, f. 4. ágúst 1932 á Skjaldbreið, d. 13. febrúar 1988.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur
  • Skagfirskar æviskrár – Tímabilið 1890-1910. Margir höfundar. Ritstjóri: Eiríkur Kristinsson. Sögufélag Skagfirðinga, Sauðárkróki 1964-1972.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.