Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Yngsti skipstjóri flotans

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Yngsti skipstjóri flotans


Ragnar við stjórnvölinn.


Sigurjón Ragnar Grétarsson er yngsti skipstjórinn í flota Vestmannaeyinga í dag. Hann er á 24. aldursári, fæddur í Vestmannaeyjum 21. október 1954, sonur hjónanna Kristbjargar Sigurjónsdóttur, skipstjóra Ingvarssonar frá Skógum, og Grétars heitins Skaftasonar, sem var um skeið dugandi sjómaður og skipstjóri hér. Hann fórst með m/b Þráni 5. nóv. 1968 með allri áhöfn.
Ragnar, eins og hann er nefndur í daglegu tali manna á milli, var staddur á bryggjunni inni í Botni að búa skip sitt, Stíganda II, V.E. 477, á togveiðar, þegar Sjómannadagsblaðið hitti hann og rabbaði við hann stutta stund.
Ég byrjaði á sjónum 1971, þá með Rafni heitnum Kristjánssyni á Gjafari. Haustið 1972 fór ég í Stýrimannaskólann hér og lauk þaðan skipstjórnarprófi 1974, eftir tveggja vetra nám. Milli námstíma var ég stýrimaður á Marsinum með Friðrik Má Sigurðssyni og á Kap sumarið 1973.
Að loknu prófi réðist ég stýrimaður á Ásver með Richard Sighvatssyni, var þar í eitt ár, en fór síðan stýrimaður á Bylgju, þegar hún kom nýsmíðuð 1976. Ég var á Gullberginu um tíma, þá sem 2. vélstjóri, ennfremur á Bjarnarey VE-501Bjarnarey.
Ég tók við skipstjórn á Stíganda II V.E. 477 haustið 1977. Vorum við þá á síldveiðum og höfðum einskonar fiskilóðs um borð. Þeir voru kallaðir „nótabassar“ í gamla daga. Var ég síðan með bátinn áfram og byrjaði á loðnuveiðum eftir áramótin. Gátum við stundað þá veiði í 20 daga, þegar alvarleg vélarbilun varð og skipt var um vél í skipinu. Vorum við frá veiðum af þessum sökum í 1½ mánuð.
Loðnuaflinn þennan veiðitíma var rúmlega 700 tonn.
Spærlingsveiðar höfum við síðan 15. apríl og vorum að til 15. maí. Aflinn varð um 1500 tonn, og fékkst hann aðallega í Háfadýpinu. Hásetahlutur þennan mánuð varð um kr. 700 þúsund.
„Nú taka við togveiðar, og má vera, að siglt verði með aflann, en það er þó ekki fullráðið enn þá.“ Talið barst síðan að ástandi og horfum í fiskveiðimálunum.
„Vertíðin í vetur var að mörgu leyti erfið, stormasamt tíðarfar. Mér sýnist fiskigegnd frekar fara minnkandi en hitt. Má þar m.a. benda á, að aflamagn, t.d. á aflahæstu bátunum, fer minnkandi ár frá ári, og í vetur finnst mér þetta hafa farið heldur versnandi. Að vísu virðist síldin vera að aukast, en það er þó ekki nóg.“
Þá vikum við tali okkar að lokun spærlingsmiðanna í Háfadýpi, og um það hafði Ragnar þetta að segja:
„Mér finnst lokun hafa verið beitt á röngum stað, því að síld innan um spærlinginn var ekki mikil á djúpslóðum, hún var miklu meiri á grunnslóðum og út við Surtsey.“
Um bátinn, Stíganda II sagði Ragnar, að hann væri af mjög hentugri stærð. Auðvelt væri að breyta til um veiðarfæri, og hægt væri á svona bátum að stunda allar veiðar, loðnutroll, fískitroll, net, spærlingstroll. Áhöfnin er yfirleitt 6 eða 7 menn, og gefur það mun hagstæðari hlutaskipti. Sem dæmi nefndi Ragnar, að 240 tonna afli í loðnutroll gæfi svipaðan hlut á þessum báti og 400 tonna afli á báti með loðnunót. Ennfremur má nefna, að eins og fyrr getur varð hlutur á spærlingsveiðum um 700 þúsund, en það er svipað og á öðrum báti, sem stundaði loðnuveiðar og net í allan vetur.
Um leið og við þökkum hinum unga skipstjóra fyrir rabbið, óskum við honum allrar velgengni í framtíðinni.

Góður afli í spærlingstrollið.