Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Stuggað við veiðiþjófum
Nýlega barst blaðinu í hendur frásögn af atburði, er átti sér stað á miðum Vestmannaeyjabáta fyrir 45 árum. Segir frá því, er brezkum togara var stuggað burtu úr landhelgi með einföldu, en snjöllu bragði.
Saga íslenzkrar landhelgisgæzlu hefur enn ekki verið skráð. Væri það verðugt verkefni fyrir hæfan mann að viða að sér efni og gefa út bók um sögu gæzlunnar, allt frá árinu 1920, þegar björgunar- og varðskipið Þór kom til landsins og tók til starfa. Það er upphaf þess, að landsmenn tóku sjálfir í eigin hendur landhelgisgæzluna.
Þetta gerðist í júnímánuði 1933. Vonin VE var þá á dragnótaveiðum, en skipstjórinn var sá góðkunni maður, Guðmundur Vigfússon frá Holti, en þeir Holtsfeðgar voru eigendur bátsins. Þennan dag í júnímánuði, sem hér um ræðir, hafði Vonin verið á dragnótaveiðum skammt fyrir norðan Vestmannaeyjar. Afli var dágóður af góðfiski, svo sem rauðsprettu og ýsu. Heimilt var þá dragnótabátum að veiða fyrir innan þriggja mílna landhelgina samkvæmt sérstöku leyfi stjórnvalda.
Síðari hluta þessa dags veittu bátsverjar því athygli, að nokkru norðar og dýpra var brezkur togari að veiðum, skammt fyrir utan þriggja mílna mörkin. Þegar betur var að gáð, þekktu þeir togarann. Þeir höfðu áður átt nokkur viðskipti við hann og skipstjóra hans. Þeim datt því í hug, að afloknum drætti, að sigla að togaranum og sjá, hvort hann væri að fiska. Þegar rennt var að síðu togarans, stóð skipstjóri á brúarvæng, og tók hann vel kveðju komumanna. Spurðu þeir um aflabrögð, en Bretinn lét lítt yfir, sagði þau heldur léleg hjá sér. Ekki spurði hann um afla á Voninni, enda fór það ekki fram hjá honum, að góðfiski var í kössum á þilfari. Nokkrar samræður áttu sér stað milli manna, en brátt hélt Vonin af stað og sneri aftur til síns veiðistaðar. Var dragnótinni þá enn kastað, en er því var nýlokið, sjá þeir, að togarinn er farinn að færa sig nokkru nær þeim. Innan stundar er hann kominn inn fyrir þriggja mílna landhelgina, og þar með orðinn í raun brotlegur.
Guðmundur og hans menn voru lítt hrifnir af þessu háttalagi togarans, sem von var, enda gátu þeir á hverri stundu búizt við, að hann yrði kominn á þeirra slóðir. Vildu þeir með einhverjum ráðum stugga við honum og fæla hann frá. Voru nú góð ráð dýr, en ekki of dýr.
Guðmundur minntist þess, að nokkrum dögum áður hafði komið upp með dragnótinni forláta mikil og fín einkennishúfa, er þeir voru að veiðum á svipuðum slóðum. Húfan var með gylltum borða og einkennismerkjum, greinilega húfa yfirmanns. Húfan var tekin til handargagns og geymd í lúkarnum. Biður Guðmundur einn háseta sinna að ná í þessa húfu, hreinsa hana og snurfusa, eins vel og hægt væri. Hásetinn brá þegar við og var von bráðar kominn aftur á þilfar með húfuna, eins og hún hefði aldrei í sjó komið.
Einn af mönnum Guðmundar var vel fær enskumaður. Var það Ingibergur Friðriksson frá Batavíu, sem um langt skeið var afgreiðslumaður á Skipaafgreiðslu Hafnarsjóðs. Hann er látinn fyrir nokkrum árum. Ingibergi var nú falið aðalhlutverkið í því sjónarspili, sem sett var á svið þarna úti í sjó. Hann setti upp einkennishúfuna og gerðist þar með í raun gæzlumaður landhelginnar. Jafnframt klæddist hann þeim beztu fötum, er finnanleg voru um borð. Var síðan undinn bráður bugur að því að ná dragnótinni um borð og sett á fulla ferð í átt til togarans. Hann var þá kominn um það bil eina sjómílu inn fyrir landhelgi.
Vonin renndi upp að síðu togarans svo nærri sem fært þótti, og nógu nærri til þess, að Ingibergur var í góðu kallfæri við skipstjóra. Segir hann þá hafa fyrirmæli um að taka hann fastan fyrir landhelgisbrot, en þar sem þetta sé hans fyrsta brot, muni þeir hlífast við sektum í þetta eina sinn, að því tilskyldu, að hann hypji sig þegar í stað brott og komi hér hvergi nærri í framtíðinni.
Togaraskipstjóra varð æði starsýnt á einkennishúfuna, og stóð honum greinilega stuggur af því valdi, sem hún táknaði. Gaf hann mönnum sínum þegar í stað fyrirmæli um að hífa vörpuna, og var það gert af mikilli skyndingu. Varpan var ekki fyrr komin upp en togarinn setti á fulla ferð austur með landi, og sáu þeir á Voninni það síðast til hans, að hann hvarf þeim sýnum út viðsjóndeildarhring. Þetta bragð hafði því haft tilætluð áhrif, og var mönnum dável skemmt um borð í Voninni, þegar svona vel tókst til.
Um langt skeið eftir þetta sást þessi togari ekki í námunda við fiskimið Vestmannaeyinga, og svo virtist sem skipstjórinn hefði ekki þagað yfir þessu við starfsbræður sína, því að lengi á eftir sáust brezkir togarar ekki fara inn fyrir landhelgislínuna. Þeir hafa vafalaust átt von á óblíðum viðtökum, ef þeir hættu sér of nálægt landi.