Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Herjólfur til Honduras
Hinn 23. september 1977 birtist svohljóðandi frétt í blöðum:
Gamli Herjólfur seldur úr landi.
Skip Skipaútgerðar ríkisins, Herjólfur hefur nú verið selt til Honduras, og verður skipið afhent hinum nýju eigendum í Reykjavík í dag, en þeir munu sjálfír sigla því út.
Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, sagði í símtali við blaðið í gær, að söluverð skipsins væri 210 þús. dollarar, eða yfir 43 millj. króna. Kvað Guðmundur þetta nettóverð. Þegar skip væru seld, afhentu seljendur það yfirleitt í hinu nýja heimalandi, og af því hlytist töluverður kostnaður. Að sögn Guðmundar hefur Herjólfur verið til sölu í rúmt ár, og ætlaði Skipaútgerðin sér að fá hærra verð fyrir skipið upphaflega en fékkst að lokum. Herjólfur er 495 rúmlestir að stærð, smíðaður í Hollandi árið 1959.
Herjólfur gamli lagði frá bryggju í Vestmannaeyjum í síðasta sinn þriðjudagskvöldið 6. júlí 1977, og var þá fjölmennt á bryggju til að kveðja hann og þakka honum og áhöfnum hans fyrir dygga og heillaríka þjónustu í 17 ½ ár á leiðinni Reykjavík - Vestmannaeyjar - Hornafjörður um nokkurt árabil - Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn - Reykjavík. Heimahöfn skipsins var Vestmannaeyjar.
Áður en Herjólfur hóf ferð sína til nýrra heimkynna, hafði hann hlotið nýtt nafn, „Little Lil.“ Heimahöfn hans nú er Roatan í Honduras, einu af ríkjum Mið-Ameríku. Meðal þeirra, sem sigldu skipinu til hinnar nýju heimahafnar, var Guðmundur Guðmundsson, útgerðarstjóri hjá Hafrannsóknastofnuninni í Reykjavík, en skipstjóri í ferðinni var Magnús Bjarnason.
Hér fer á eftir stutt frásögn af ferðinni, byggð á dagbókarbrotum Guðmundar Guðmundssonar, tekin saman af Eiríki Þ. Einarssyni, bókaverði á Hafrannsóknastofnun.
Lagt var af stað til Honduras laugardaginn 1. október 1977 kl. 13:00. Ferðin gekk vel og siglt var í góðu veðri 2 fyrstu dagana, en þriðja daginn gerði slampanda, og losnuðu þá tunnur sem voru á dekki. Ekkert markvert gerðist á leiðinni til Ameríku. Þegar komið var á móts við Halifax, sýndi loggið 1897 sjm. frá því lagt var af stað frá Reykjavík, eftir 8 daga siglingu. Þann 8. október var komið til smábæjarins LeHave á austurströnd Nova Scotia. Þar var legið í góðu yfirlæti í 4 daga. Þar hitti skipshöfnin eiganda skipsins, William Randolf að nafni, elskulegan mann. Hann hafði keypt gamlan dráttarbát í Le Have og átti Herjólfur að draga hann til Honduras, þar sem dráttarbáturinn hafði ekki haffærisskírteini.
Fimmtudaginn 13. október var haldið af stað með dráttarbátinn, sem hét Bill Tide. Ferðin gekk vel þennan dag, en um nóttina hvessti af SV og gekk þá hægt.
Snemma um morguninn slitnaði taugin á milli skipanna. Vélin í dráttarbátnum var gangfær, svo að hann gat keyrt með, en oft þurfti að bíða eftir honum, og sóttist því ferðin seint. Þann 15. var enn vitlaust veður af S V. og þurfti oft að snúa við vegna Bill Tide. Ekki hafði tekist að koma trossu á milli skipanna vegna veðurs, en loks gekk veðrið niður eftir þriggja daga óveður og var þá hægt að kom trossunni á milli. Um kvöldið þann 16. október gekk hann upp í vitlaust veður aftur, og hélst það allan næsta dag. Gangurinn var 12 - 16 sjm. á vakt. Lægði um kvöldið. Við komum til Miami á Florida þann 21. október. Veðrið var mjög gott síðustu 4 sólarhringana og gekk ferðin þá mjög vel.
Í Miami var stoppað til 28. október. Randolf, eigandi beggja skipanna, hafði sagt, að Bill Tide hefði átt áð vera fullur af olíu, þegar lagt var af stað frá Le Have. Átti hann að sjá Herjólfi fyrir olíu á leiðinni, en eftir að skipin fóru frá Miami, kom í ljós, að hann var olíulaus, og varð því að taka olíu á leiðinni. Þetta kvöld sáust fjöllin á Kúbu.
Þann 31. október var lokadagur siglingarinnar, en þá var komið til eyjarinnar Wahama, sem Randolf á meirihlutann af.
William Randolf keypti Herjólf til að þjóna ríkum Ameríkönum og öðrum sem áhuga hafa á köfun í Karabíska hafinu. Síðast þegar fréttist, var búið að mála Herjólf hvítan, og hafði hann farið 2 ferðir með fólk um hafið, en ekki er viðhaldið á skipinu eða kostnaður við umhirðu mjög mikill, eftir því sem næst verður komist.
En gamli ljóti dráttarbáturinn, Bill Tide, var gerður upp og leigður til þjónustu við olíuborpalla. Er hann búinn að borga sig upp og langt kominn með að borga Herjólf líka.