Sjómannadagurinn 1947/ Radio-merkin og talstöðvarnar-Farmannsins öryggi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


ÁRNI ÁRNASON, símritari:


Radio-merkin og talstöðvarnar
Farmannsins öryggi

Höfundur þessarar greinar, Árni Árnason, símritari í Vestmannaeyjum hefir um áratugi starfað við Loftskeytastöðina í Vestmannaeyjum. Samstarf hans og sjómannanna hefir ætið verið hið bezta. Ótalin mun þau tilfelli er beint eða óbeint má þakka honum að björgun hefir tekizt úr sjávarháska við Vestmannaeyjar.

Eitt af mestu framfarasporum tækninnar var stigið, þegar þráðlaus firðsending var uppfundin. Það gjörbreytti svo lífi manna og samgöngum til lands og sjávar, að slíkt er með fádæmum í sögu vorra tíma. Enda þótt samgöngurnar til lands gætu fagnað yfir þessum nýju möguleikum, gátu sjómenn það ekki síður, því fátt hefir breytt lífi þeirra meir, hvað öryggi snertir, en þráðlausa firðsendingin.
Merkjasending þessi gerði skipunum kleift að vera í stöðugu sambandi við land, svo ávallt varð vitað, hvað ferðum þeirra leið, senda þeim fréttir og fyrirmæli o.s.frv. Yrði eitthvað að hjá þeim, gátu þau með þessum tækjum sínum kallað á hjálp annarra skipa eða frá landi og þar við oftlegast borgið skipi, mönnum og farmi. Þau eru líka óteljandi mannslífin, sem þannig hafa bjargazt, jafnvel óteljandi frá ári til árs.
Hverjum helzt ber að þakka þessi tæki, er álitamál, þar eð svo margir hafa lagt þar til sinn skerf. Fyrstan verður þó að nefna Englendinginn T.C. Maxwell, sem 1873 lagði grundvöllinn fyrir reikningslega nútíma rafmagnsfræði og sá, að rafbylgjurnar líktust mjög ljósbylgjunum. Á þeirri hugmynd byrjaði svo þýzki prófessorinn Heinrich Hertz sínar tilraunir og sannaði kenningu Maxwells 1888, er hann framleiddi rafmagnsgeislann, sem þráðlaus firðsending byggist á. Svo kom hver af öðrum til skjalanna, sem eitthvað lögðu til þessara mála, svo sem: Righi, Lodge, Popov, Fessender, Edison o.m.fl. — En Guglielmo Marconi mun þó ávallt verða talinn höfundur loftskeytasambandsins. Að rekja þá sögu hér, yrði allt of langt mál og óþarft, þar eð hún er flestum kunn. Þó má nefna, að hann byrjaði tilraunir sínar á grundvelli Hertz kenningar og reynslu, árið 1895. Þær tilraunir tókust vel og árið 1896 fór hann til Englands og sýndi þáverandi yfirsímaverkfræðingi Sir William Preece árangur tilrauna sinna. Sir William leizt svo vel á byrjun þessa, að hann útvegaði Marconi alla þá aðstoð, er hann þurfti til þessa merka starfs. Árið 1897 tókst honum að láta rafbylgjurnar flytja hljóð yfir „Bristolflóann“, er þótti undursamlegt afrek. En stærsta augnablikið í lífi Marconis var þó, þegar honum í desember 1901 tókst að senda fyrstu merkin og síðar skeyti fram og til baka yfir Atlantshafið milli Írlands og Canada. Þar með reit Marconi nafn sitt óafmáanlega í sögu tækninnar. Merki hans höfðu sigrað 4000 kílometra fjarlægð.
Svo líður langur tími. Þá kemur Thomas A. Edison með glóðarlampann lofttóma fram á sjónarsviðið, þar eftir Lee de Ferrest með þriggja skauta lampann, sem gerði það mögulegt að senda tal og tóna gegnum himingeiminn og svo hver eftir annan með sínar endurbætur á endurbætur ofan, betra, stórvirkara og varanlegra.
Fyrst voru sem sagt settar rafmagnsneistastöðvar í skipin, en síðar komu fullkomnari stöðvar; lampasenditækin, og þar eftir talstöðvarnar, sem settar voru í flest skip og síðar í öll hugsanleg farartæki.
Öllum skipum og bátum var með þessum talstöðvum gert auðvelt að hafa samband, hvert við annað, án þess að hafa sérstaka kunnáttumenn við starfrækslu þeirra; gátu talað saman eins og um síma væri að ræða. Tækin ruddu sér líka braut til almennrar notkunar með undraverðum hraða og má nú segja, að nær því hvert einasta farartæki á landi, í lofti og á legi sé útbúið með tal- og móttökutækjum.
Hingað til Íslands bárust fyrst þráðlaus firðtæki árið 1905, þegar baráttan fræga varð milli sæsíma og þráðlausa sambandsins til Íslands. Þá var í auglýsingaskyni af andstæðingum sæsímasambandsins sett upp loftskeytastöð fyrir innan Reykjavík — við Rauðará, þar sem nú er Héðinshöfði. Tók stöð þessi svo fréttaskeyti frá Poldhu í Cornwall í Englandi, er birt voru í „Ísafold“ og „Fjallkonunni“. Þetta þótti að vonum undur og býsn mikil, og má með sanni segja, að aldrei hafi íbúum Reykjavíkur fundizt meira um nokkurn viðburð. Þetta var 26. júní 1905, að fyrstu þráðlausu fregnirnar voru birtar og er það þess vegna merkisdagur í sögu þráðlausa skeytasambandsins á Íslandi. — En þrátt fyrir þessar fljótu umheimsfréttir, sigraði þó sæsímasambandið í baráttunni og komst það á milli Íslands og Bretlands 25. ágúst 1906. — Stöðin við Rauðará var svo tekin niður 5. október 1906, eða þá var síðasta fréttaskeytið birt, og þráðlausa sambandið hvarf úr vitund manna í nokkur ár.
Þegar íslenzku skipin Goðafoss og Gullfoss voru smíðuð handa Íslandi 1915, voru sett loftskeytatæki í þau, fyrst í Goðafoss svo í Gullfoss. En þegar þannig var komið málum, varð auðvitað ekki hjá því komizt að reist yrði loftskeytastöð í landi til afgreiðslu við þau og erlend skip, er sigldu við Ísland búin loftskeytatækjum.
Þrátt fyrir mikla erfiðleika vegna styrjaldarinnar tókst að koma stöð þessari upp og tók hún til starfa 17. júní 1918 og var auðvitað í Reykjavík.
Taltækin koma svo til sögu vorrar 1920-23 í ísl. skipum og landstöðvum, en árið 1927 í fyrsta íslenzka fiskibátinn. Þegar loftskeytastöðin hér var sett upp 1921, var hún nýjasta nýtt frá Marconifélaginu í London, lampasendir ½ kílówatt og talstöð ein af fyrstu talstöðvum á landinu og reyndist prýðilega. Tók stöðin hér til starfa 24. apríl 1921 til afgreiðslu við skip í hafi og meginlandið í sæsímaslitum.
Í sjómannablaðinu „Víkingi“ 1943, 8-9. tbl., er sagt að fyrsta bátastöðin hafi verið sett í Ísafjarðarbátinn ,,Auðbjörn“ árið 1928. Þetta hygg ég að sé rangt hjá greinarhöfundi. Fyrsta talstöð í íslenzkan fiskibát var sett í Vestmannaeyjabátinn ,,Heimaey“, sem smíðaður var í Danmörku og Gísli J. Johnsen var eigandi að, en það var árið 1927 (sbr. hér að ofan), einu ári á undan Ísafjarðarbátnum.
Til sanninda set ég hér frásögn Gísla Johnsens sjálfs:
,,Á ferðum mínum erlendis hafði ég kynnzt talstöðvum, en ég hafði aðeins séð þær í stórum skipum. Ég hafði lengi brotið heilann um það, hvernig hægt væri að auka öryggi sjómanna, og ég keypti mér talstöð. Það var fyrsta bátatalstöðin, sem keypt var hingað til landsins og var hún sett í vélbátinn „Heimaey“ árið 1927. Þetta var upphaf þess, að fleiri og fleiri bátar keyptu sér talstöð, og nú orðið er hver sá bátur talinn illa settur, sem ekki hefur talstöð“. (sbr. Sjómanninn jan.—maí 1941).
Mér finnst hafa farið vel á því, að Vestmannaeyja-Radio skyldi verða ein fyrsta íslenzka landtalstöðin og fyrsta talstöð íslenzka fiskibátaflotans skyldi vera látin í bát í stærstu bátaverstöð landsins — Vestmannaeyjum. Það var vissulega óvíða meiri þörf á talstöðvum en einmitt hér, sem um 80-90 bátar stunduðu veiðar við hin erfiðustu skilyrði frá náttúrunnar hendi, enda þótt um land allt væri stór þörf þessara einstaklega handhægu öryggistækja.
Hér sem annars staðar hafa talstöðvarnar komið að ómetanlegu gagni, bæði hvað fiskveiðarnar, hjálpar- og björgunarstarfsemina snertir.
Sjómenn geta nú t.d. fylgzt með fiskifréttunum frá umhverfinu, svo segja má, að þeir geti elt fiskigönguna stað úr stað, flutt veiðarfæri sín úr ördeyðunni yfir á svæði nægtanna og svo komið í land með fullfermi í stað lítils eða einskis afla.
Veiðarfæratap er miklum mun minna en áður, þar eð bátarnir geta nú gegnum talstöðina tilkynnt eftirlitsskipinu ágang erlendra skipa á netasvæðinu, sem það svo gætir og bægir skipunum frá. Við þetta sparast tugþúsundir króna árlega. Áður var allt óvarið og spilltist oft vegna skipaágangs.
Ef eitthvað bilar hjá bátunum svo þeir þarfnast hjálpar, geta þeir nú annaðhvort kallað á önnur skip — t.d. eftirlitsskipið sér til aðstoðar eða á Vestmannaeyja-Radio og berst þá hjálpin innan skammrar stundar. Því þegar svo ber við, að eitthvað verður að hjá bátunum, er ekkert til sparað í landstöðinni, hvorki menn né tæki, sem til hjálpar geta orðið. Allt fer af stað og starfið grípur um sig í allar áttir með ótrúlegum hraða. Mér finnst þessu megi líkja við stórt hjól, sem snýst hraðar og hraðar unz hámarkshraðanum er náð. Það er strax hringt í framkvæmdamenn björgunarstarfseminnar, þeir hringja eða þjóta svo til annarra hjálparaðila, gefa okkur á landstöðinni og þeim nauðsynleg fyrirmæli, sem öll ganga út á það, að hjálpin berist svo fljótt sem unnt er. Öll önnur störf verða að bíða betri afgreiðslutíma, enda er hjálparbeiðnin afgreidd af öllum aðilum í landi innan lítillar stundar, þannig, að eftirlitsskipið eða einhver bátur er þá farinn til hjálpar. Hjólið hefir þá náð hámarkshraða í það skiptið. (— „SOS cleared“, eins og Englendingurinn segir) —.
Tefjist bátarnir í róðri vegna veðurs, geta þeir látið Vestmannaeyja Radio vita af sér, og verið í stöðugu sambandi við hana, tilkynnt henni aðstæður sínar og heimkomutíma. Stöðin tilkynnir svo þær velþegnu upplýsingar til Björgunarfélagsins, Eiríks í Verkamannaskýlinu, sem nú er einn af ómissandi milliliðum í hjálparstarfseminni eða að hún símar beint til aðstandenda bátsverja.
Ef sjómennirnir gerðu þetta yfirleitt, þ.e. að láta vita um sig, mundu þeir vissulega koma í veg fyrir marga örvæntingarfulla biðstund eða þungbæra andvökunótt foreldra, eiginkonu og barna, er eiga ástvini sína um borð í bátunum, sem í það og það skiptið berjast fyrir tilveru sinni við æst náttúruöflin, við

rammefldan risháan sjó
reiðan og þeysandi storm.

Já — ef þeir aðeins gerðu þetta, að láta vita af sér.
En hvernig er reynslan í því efni?
Það virðist ekkert og er ekkert eðlilegra, þegar bátarnir eru úti í óveðrum en að sjómennirnir tali við landsstöðina við og við, skýri henni frá, hvar þeir séu, hvenær þeir komi í höfn o.s.frv., svo hún geti svarað eðlilegum fyrirspurnum um þá frá aðstandendum þeirra eða t.d. björgunarfélaginu, sem vel fylgist með heimkomu þeirra og útiveru.
Slíkt firðtal kostar bátinn ekkert nema fyrirhöfn formannsins eða talstöðvarvarðar hans, þar eð landsstöðin tekur ekkert gjald fyrir þannig lagaðar upplýsingar eða uppkall.
Samkvæmt reglum í handbók um alþjóðaloftskeytaviðskipti er skipum og öðrum farartækjum heimilt, án nokkurs endurgjalds, að gefa upp til landsstöðvanna verustað sinn, fjarlægð sína frá landsstöðinni og komutíma til þessa eða hins staðarins, (uppgefa TR) og færir hún svo þessar upplýsingar inn í dagbók sína. Þetta mun heimilað í öryggisskyni, enda er mörgum mannslífum bjargað einmitt fyrir það, að þessar upplýsingar um skip, sem hurfu, fundust í dagbókum loftskeytastöðvanna.
Hér munu vera til fyrirmæli frá björgunarfélaginu til bátanna, að þeir, sem í slæmu veðri eru ekki komnir í höfn klukkan 20, skuli í gegnum talstöð sína láta Vestmannaeyja Radio vita um sig og tilkynna heimkomutíma sinn. En um báta, sem ekki hafa talstöð, skulu landmenn þeirra láta félagið vita um, ásamt öðrum upplýsingum um útiveru þeirra, ef fyrir liggja.
Þessi fyrirmæli eru vitanlega sett til þess að hægt sé að gera þá þegar nauðsynlegar ráðstafanir að leita þeirra og hjálpa, ef með þarf. Sömuleiðis til að fyrirbyggja að farið sé að leita að bát eða bátum, sem ekki þarfnast aðstoðar. Enda þótt fyrirmæli þessi séu sett, áður en stöðugur næturvörður fór að vera á Vestmannaeyja Radio, hafa þau enn sitt fulla gildi, og ættu að vera ófrávíkjanleg regla.
En þeim hefir vægast sagt ekki verið hlýtt sem skyldi, hvorki fyrr né síðar, enda verðum við að kannast við þá staðreynd, að þó bátarnir séu úti í illveðrum og menn í landi farnir að óttast um afdrif þeirra, eru það margir talstöðvarbátar, sem aldrei láta í sér heyra á heimleiðinni eða svara uppköllun lofstkeytastöðvarinnar.
Þar af leiðandi hafa svo fyrir komið þau leiðu tilfelli, að fleiri en eitt skip hafa í marga tíma verið að leita að bátum, sem engrar aðstoðar þurftu með á heimleiðinni eða lágu í vari. Skipverjum á þessum bátum láðist eða gleymdist að láta vita um sig enda þótt talstöð bátsins væri í bezta lagi. Máske var það vegna þess, að þeim leið sæmilega vel um borð eftir aðstæðum og þótti því óþarft að fara að kalla á landsstöðina. En þetta var og er herfileg hugsunarvilla. - Þeir máttu í fyrsta lagi vita, að þar eð veður var slæmt og áliðið nætur, að foreldrar, eiginkona og börn biðu heimkomu þeirra með mestu eftirvæntingu. Í öðru lagi, að undir síkum kringumstæðum mundu þegar hafa verið gerðar allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að leita þeirra. Manni finnst þess vegna, að það hafi blátt áfram verið skylda þeirra að láta landsstöðna vita hvað þeim leið. —
Sjómenn góðir — þessu lík mistök mega vitanlega ekki eiga sér stað. Þau eru kaldhæðnisleg meðferð á mannlegum tilfinningum vandamanna ykkar. Það eru mistök, sem hæglega geta leitt af sér öngþveiti, ef ekki verra, við aðstoð eða björgun á öðrum bátum, sem þarfnast hennar. Sannarlega vítaverð misnotkun öryggistækjanna.
Hugsið ykkur þetta dæmi, sem er staðreynd:
Það er komið mjög slæmt veður, rok og þungur sjór. Kl. 20 vantar enn 5 báta. Um fjóra þeirra vitum við gegnum talstöðvar þeirra, þeir eru á heimleið og allt í lagi. Þann fimmta vitum við ekki annað um en það, að um hádegi var hann djúpt í landssuður að draga línuna, þá talaði hann síðast í talstöð sína. Síðan hefur ekkert í honum heyrzt og hann ekki svarað loftskeytastöðinni, þrátt fyrir stöðugar uppkallanir hennar. Það er því álitið, að eitthvað sé að bátnum, talstöðin biluð og eitthvað fleira og er því eftirlitsskipið beðið að leita hans. Það er leitað djúpt og grunnt á þessu svæði allt án árangurs. Meðan leitin fer fram, bilar vélin í einum hinna 4 bátanna og tilkynnir hann að hjálp sé nauðsynleg svo fljótt sem mögulegt sé. Hann var þá langt vestan Heimaeyjar. Nú voru góð ráð dýr. Eftirlitsskipið að leita austurfrá að hinum týnda bát, og hinir þrír höfðu nóg að gera með sig, og heimdráttur frá þeim því útilokaður. — Einasta ráðið til hjálpar vélbilaða bátnum var að reyna að fá togara, sem við Eyjar lágu að fara og sækja hann. Það var reynt að kalla á einhvern þeirra og svo heppilega vildi til, að einn þeirra svaraði landsstöðinni, fór og dró bátinn heim undir Eiði. Það gekk vel þrátt fyrir mjög slæmar aðstæður. Ef við hefðum ekki náð í þennan togara, skal ósagt látið, hvernig farið hefði um hjálp til vélbilaða bátsins. Það gat reynzt örðugt og jafnvel of seint. — Um kl. 1,30 sést ljós nálgast austan frá. Þar var fimmti báturinn að koma heim, báturinn, sem eftirlitsskipið var að leita að. Við heimkomuna sannast svo, að talstöðin var í fínasta lagi, eins og allt annað um borð. Honum fannst óþarfi að láta vita af sér. Þó var sem sagt vitlaust veður, eftirlitsskipið að leita hans í 4 tíma, annan bát vantaði hjálp á meðan og fyrir einstaka heppni varð ekki tjón í þetta skipti. —
Vissulega hafa formenn bátanna ærinn starfa í illveðrum, að stýra þeim og vernda og skila skipshöfn sinni farsællega í heimahöfn, svo þeir hafa lítinn og engan tíma til talstöðvarvörzlu, en það ætti þó ávallt einhver af skipshöfninni að gefa sér tíma til þess að uppgefa nauðsynlegar og eftirvæntanlegar fréttir af bátunum. Það er mannúðarskylda þeirra og starfsregla, sem aldrei verður nógsamlega brýnt fyrir þeim.
Í svo stórri veiðistöð sem hér, er eftirlitsstarfið að sjálfsögðu afar víðfeðmt, mikils virði og nauðsynlegt og ber því hverjum og einum að stuðla að velferð þess í hvívetna. Eitt af grundvallaratriðum þeirrar velferðar er samstillt og réttileg samvinna milli eftirlitsskipsins, bátanna og landsstöðvarinnar, sem á þessum vettvangi er einn aðal hjálparliður björgunarfélagsins.
Samvinna þessi byggist fyrst og fremst á talstöðinni, að hún sé vel og réttilega notuð, þegar

„Ægir karl og Kári,
krappan hasla völl.“

Sé þess gætt mun ávallt vel fara og kraftakarlarnir Kári og Ægir óvígir verða. Mætti sú sigursæld ávallt verða sjómönnunum hér fylgjandi.

Árni Árnason