Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2010/Uppruni bátanafna í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
JÓHANNA LILJA EIRÍKSDÓTTIR


Uppruni bátanafna í Vestmannaeyjum



Jóhanna Lilja Eiríksdóttir skrifaði ritgerð um Formannavísur í Vestmannaeyjum, frá 1760 til 1960. Í öðrum hluta ritgerðarinnar er hugað að nöfnum í formannabálkum og byggt á nafnfræði. Formannabálkarnir eru skoðaðir í sögulegu ljósi og bátanöfnin tekin út og flokkuð í tvo flokka, aðalflokka og undirflokka. Aðalflokkarnir eru mannanöfn, heiti sem sótt eru til örnefna og önnur nöfn. Undirflokkarnir eru karlmannsnöfn, kvenmannsnöfn, goðfræðileg nöfn, dýranöfn, gælunöfn sem vitað er um eða algengar styttingar á nöfnum, erlend áhrif og nöfn sem fela í sér ósk um gott gengi. Til að fá betri yfirsýn yfir nöfn báta og lengra tímabil til að vinna með eru heimildir einnig sóttar í Skipaskrá Fiskistofu Íslands og verður því heildarsýn á nafnaflóruna stærri. Í þessum hluta ritgerðarinnar er horft til þess hvaða flokkar eru ráðandi og hver þróun þeirra er, jafn- framt því sem uppruni nafnanna er rakinn. Stuðst er jöfnum höndum við orðabækur, sem nafnabækur. Einkum er stuðst við bókina Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson. Auk þess voru fjölmörg viðtöl tekin við einstaklinga sem þekktu uppruna einstakra nafna.
Sjómannadagsblaðið birtir hér hluta úr öðrum kafla.

Nafnfræði
Útgerð í Vestmannaeyjum hefur trúlega verið frá því eyjarnar byggðust. Í Landnámu segir að eyjarnar hafi verið veiðistöð en veturseta lítil sem engin, menn stunduðu fisk- og fuglaveiðar. Eftir að eyjarnar byggðust hófst útgerð Eyjamanna. Síðar einkenndist útgerðin af einokun, fyrst Englendinga og síðar Dana eftir stofnun konungsverslunarinnar á seinni hluta 16. aldar. Bátar Danakonungs voru flestir um tuttugu og var aðalskipastóll Vestmannaeyja lengi framan af. Bændur voru skikkaðir til að róa á skipum konungs (Sigfús M. Johnsen 1946:81- 82).
Árið 1586 voru konungsbátarnir sautján. Þeir sem eru tilgreindir í Sögu Vestmannaeyja voru flestir með dönskum nöfnum en Eyjaskeggjar kölluðu þá alltaf íslenskum nöfnum, þeir voru: Morgenstjernen (Morgunstjarnan), Davidt (Davíð), Sallomon (Sal- ómon), Haabett (Vonin), Moyses (Móses), en einnig má finna nöfnin Sankti Mortens, Sankti Kristófer, Nýi Engill, Jósúa, Fortúna, Ísak, Jónas og Péturpostuli. Nöfn sem komu seinna voru Björninn, Sakarías, Gabríel, Nýi Davíð, Jónas, Nýi Salómon, Martíníus og Rafael (Sigfús M. Johnsen 1946:84-85).
Á tíma konungsskipanna voru biblíunöfnin greinilega langflest og ákveðið þema hjá konungi að nota kristileg nöfn, en það gæti einnig hafa verið algeng nafnahefð á þessum tíma. Undir lok einokunartímans hafði útgerðin dregist mikið saman og eftir að honum lauk voru bátarnir seldir. Árið 1790 var uppboð haldið á bátunum. Aðeins einn þeirra seldist enda voru þeir illa farnir og höfðu staðið ónotaðir í mörg ár (Sigfús M. Johnsen 1946:85).
Kaupmenn sáu um að reka konungsskipin og voru Eyjabændur skyldugir til að róa á þeim. Á meðan það ástand varði var ekki mikið um sjálfstæða útgerð Eyjamanna. Þeir voru mergsognir af kaupmönnum. Skipaeign Eyjamanna var helst smáfleytur fram undir lok 18. aldar þegar hún fer að aukast. Árið 1855 voru í Vestmannaeyjum 25 vertíðarskip, þar af 13 Eyjaskip. Um aldamótin 1900 var skipaeign orðin 20 áttæringar, 30 sexæringar og 16 fjögurra-mannaför. Eftir að vélbátaútgerðin hófst tóku opnu bátarnir að hverfa (Sigfus M. Johnsen 1946:86-88). Tveir síðustu teinæringamir hétu Daníel og Fortúna og voru í Eyjum fram undir miðja 19. öld. Sömu nöfnin og voru á konungsskipunum héldust hér lengi vel. Ef báturinn hafði verið happaskip trúðu margir því að gæfa fylgdi nafninu (Sigfús M. Johnsen 1946:89). Vertíðarskipin, stórskipin í Eyjum, voru að mestu byggð úr eik, traust og sterk. Með góðu viðhaldi gátu þau gengið um 70 vertíðir og jafnvel fleiri. Fyrsti vélbáturinn kom árið 1904 og hét Eros, eftir það fjölgaði vélbátum mikið og smám saman hurfu opnu bátarnir.

Skipaskrá 1928
Hér verður fjallað um nöfn skráðra skipa í Vestmannaeyjum árið 1928 en þau eru fengin úr Íslenska sjómannaalmanakinu sem Fiskifélag Íslands gaf út í mörg ár. Þau verða skoðuð og flokkuð með sama hætti og nöfn formannabálkanna.
Karlmannsnöfnin eru: Ari, Baldur, Bragi, Enok, Enok gamli, Friðþjófur, Friðþjófur Nansen, Garðar I, Garðar II, Garðar III, Geir goði, Gideon, Gissur hvíti, Gunnar Hámundarson, Gústaf, Gylfi, Haraldur, Haukur, Huginn, Ingólfur, Ingólfur Arnason, Kári, Kári Sölmundarson, Karl, Leó, Magnús, Njörður, Ófeigur, Skallagrímur, Skúli fógeti, Soffi, Svanur, Valdimar, Víkingur, Þorgeir goði og Þór, samtals 36 nöfn.
Nöfn sem bera merki norrænnar goðafræði eru: Baldur, Bragi, Huginn, Njörður og Þór. Karlmannsnöfn sem eru einnig dýranöfn era: Haukur, Leó og Svanur. Nöfn sem vitna um erlend áhrif eru Friðþjófur Nansen, Gideon og Leó. Engin nöfn fela í sér ósk um gott gengi. Gælunafn er einungis eitt: Soffi. Það sem er merkilegast við þetta ár eru sterk tengsl við forna kappa og má þar nefna: Friðþjófur, Geir goði, Gissur hvíti, Gunnar Hámundarson, Ingólfur, Ingólfur Arnarson, Kári, Kári Sölmundarson, Skallagrímur og Þorgeir goði. Nöfnin Enok og Gideon eru sérstök. Enok þýðir ,hinn vígði‘ en svo hét sonur Kains, það er því biblíunafn. Einnig kemur Enok fyrir í Niðurstigningar sögu (Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson 1991:210). Gídeon var ísraelskur dómari. Gideon er ekki þekkt nafn hér á landi en Enok er þekkt en sjaldgæft. Í manntalinu árið 1910 báru fjórir Íslendingar nafnið (Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson 1991:209).
Kvenmannsnöfnin eru: Auður, Ása, Ásdís, Emma, Esther, Guðrún, Gúlla, Hansína, Helga, Kristbjörg I, Kristbjörg II, Olga, Sigga, Sigríður, Sísí, Soffía, Sæbjörg, Unnur og Úndína, samtals 19 nöfn. Einungis eitt nafn ber merki norrænnar goðafræði: Unnur. Erlend áhrif eru engin. Gælunöfnin eru: Emma, Gúlla, Sigga og Sísí. Mjög algengt er að gælunöfnin Sigga og Sísí séu stytting á nafninu Sigríður. Gúlla er mjög sérstakt gælunafn og trúlega stytting á Guðlaug, Guðbjörg eða einhverju álíka nafni. Gúlla var smíðuð í Noregi árið 1924 en brann og sökk í róðri 7. maí 1932, áhöfnin bjargaðist um borð í spánskan togara sem hét Leon Port. Ósk um gott gengi endurspeglast í nöfnunum: Auður, Kristbjörg I og Kristbjörg II. Ef skoðuð eru fleiri áhrif en undirflokkarnir segja til um eru kristin áhrif í nöfnum eins og Guðrún, Helga, Kristbjörg I og Kristbjörg II. Eitt nafn hefur forliðinn Sæ-, Sæbjörg og annað með forliðinn Ás-, Ásdís.
Heiti sótt til örnefna eru: Atlantis, France, Gullfoss, Hebron, Lagarfoss, Mýrdælingur, Skógarfoss og Stakkárfoss, samtals átta nöfn. Mikil erlend áhrif sjást í þessum flokki: Atlantis, France og Hebron. Hebron er borg á Vesturbakkanum. France merkir „Frakkland“. Annað sem er einnig eftirtektarvert við þennan flokk er að fjögur nöfn eru með viðliðnum -foss. Eins er íbúanafnið Mýrdælingur. Ekkert nafn er sótt í örnefni á heimaslóðum.
Önnur nöfn era: Aldan, Austri, Bliki, Faxi, Gammur, Glaður, Halkion, Happasæll, Hjálpari, Höfrungur II, Kap, Kópur, Lundi I, Lundi II, Maí, Mars, Neptúnus, Pipp, Síðuhallur, Skuld, Skuld II, Sleipnir, Snyg, Tjaldur og Örninn, samtals 25 nöfn. Halkion og Neptúnus bera með sér erlend áhrif. Goðfræðileg nöfn eru: Skuld, Skuld II og Sleipnir. Sleipnir var hestur Óðins. Dýranöfnin eru: Gammur, Höfrungur II, Kópur, Lundi I, Lundi II, Tjaldur og Örninn. Einungis er eitt nafn sem ber með sér ósk um gott gengi: Happasæll. Nafnið Snyg er mjög sérstakt. Nafnið er engu síður þekkt í öðrum landshlutum. Magnús Stephensen landshöfðingi skrifaði um að Pétur Björnsson á Bíldudal hafði fengið bætur því franskt skip að nafni Etincelle hafi siglt á bát hans, sem hét Snyg, 17. október árið 1894 (Þjóðskjalasafn Íslands 2009). Síðuhallur er einnig sérstakt nafn. Síða er reyndar hlið á báti en hér getur líka verið um orðaleik að ræða þar sem Síðuhallur er skrifað eins og Skallagrímur en Síðu-Hallur er persóna í fornsögum. Nafnið Pipp er mjög sérstakt, en sá bátur var skírður í höfuðið á syni fyrsta eigandans. Ástþór Matthíasson átti bátinn og sonur hans, Gísli Ástþórsson (f. 1923) blaðamaður og teiknari, var kallaður Pipp sem strákur (Arnar Sigurmundsson 2007). Nafnið á sér engar rætur í hinni frægu sögupersónu Pipp, sem Sid Roland skrifaði um, því fyrsta bókin kom út árið 1948 og í íslenskri þýðingu 1960.

Yngri formannabálkar
Þeir formannabálkar sem eru yngri en bálkar Óskars Kárasonar eru ekki eins nákvæmir. Þar eru valdir formenn teknir úr hópnum og samið um þá fyrir skemmtun sjómanna. Bálkurinn sem kemur næst í aldursröðinni er bálkurinn hans Ása í Bæ.
Á Sjómannadaginn árið 1957 kom Siggi Vídó til Ása og bað hann um að gera vísur fyrir ballið eða heimtaði, eins og Ási segir sjálfur frá. Ekki þorði Ási að neita þessum 300 kílóa skrokk þegar hann reyndi að koma koníaki ofan í hann fyrir hádegi til að fá sitt fram. Því hélt hann upp í hraun með koníak og samdi vísurnar þar. Vísurnar urðu til og var hann nákvæmlega 27 mínútur að hnoða þeim saman. Um kvöldið vom þær sungnar undir vinsælu dægurlagi, Davy Crockett (Ási í Bæ 1966:100).
Í tveimur erindum er bátsnafnið ekki nefnt en þeir formenn voru með bátana Blátind og Hannes lóðs (Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967:51). Nöfnin sem koma fram í vísunum gefa ekki góða mynd af nafnaflórunni en þau eru: Bessi, Emma, Freyja, Rúna og Sæfari. Eins og við sjáum á þeim nöfnum þá eru komin tvö ný nöfn, Bessi og Rúna einungis einu ári eftir að bálkurinn hans Óskars Kárasonar var ortur. Hin nöfnin voru hér árið 1956.
Yngsti bálkurinn er í sama mót steyptur og bálkur Ása. Þar eru valdir úr nokkrir formenn og ort um þá, en bálkurinn var sunginn á skemmtun hjá Verðandi undir þekktu lagi eftir Vilhjálm Vilhjálmsson. Ekki er öruggt hver samdi bálkinn en trúlega hefur það verið Jón Stefánsson. Ég tel mig hafa nokkuð áreiðanlegar upplýsingar um að kvæðið sé eignað réttum höfundi (Eyjólfur Gíslason 2009). Það sem skilur á milli bálkanna tveggja er að Ási velur úr sjómenn sem stunda sjóinn en Jón er með nokkra sem voru hættir sjómennsku og byrjaðir að vinna í landi. Einn þeirra var tekinn til starfa sem hafnsögumaður og er ýjað að því í vísunni þar sem sagt er að hann sætti sig ekki við neitt minna en -fell eða -foss. Annar var útgerðarstjóri hjá Fiskiðjunni en lengi vel var hann aflamaður mikill á bát sínum Stíganda. Tveir voru orðnir vigtarmenn, annar hjá Vinnslustöðinni, hinn hjá Fiskiðjunni. Nöfn báta þeirra formanna sem enn stunduðu sjóinn koma ekki alltaf fram í vísunum sjálfum en eru í skýringum sem fylgdu þegar bálkurinn var birtur. Nöfn bátanna voru: Elías Steinsson, Halkion, Huginn, Kópur, Lundinn, Suðurey og Sæbjörg (Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi 70 ára 2008:30-31). Þau nöfn sem eru ný hér eru Elías Steinsson, Huginn og Kópur.
Þar sem þessir bálkar gefa ekki góða mynd af nafnabreytingunni sem orðið hefur ætla ég að fjalla um aðrar heimildir sem gefa betri mynd af nafnaflórunni. Hér að framan er gott yfirlit yfir árin 1944, 1950 og 1956. Til viðbótar ætla ég að taka árin 1928, 1980 og 2004 upp úr Skipaskrá.

Skipaskrá 1980
Hér verður fjallað um skráð skip í Vestmannaeyjum árið 1980. Þau eru fengin úr íslenska sjómannaalmanakinu 1980.
Karlmannsnöfnin eru: Árni í Görðum, Árntýr, Baldur, Benzi, Bergur, Breki,
Dala-Rafn, Danski Pétur, Draupnir, Erlingur, Erlingur Arnar, Gandí, Hafliði, Herjólfur, Huginn, Ísleifur, Jökull, Kári, Ófeigur III, Sigurbjörn, Sindri, Sævar, Sæþór Árni, Valdimar Sveinsson og Þórir, samtals 25 nöfn.
Þau nöfn sem voru á bátum hér í Eyjum árið 1956 eru: Baldur, Erlingur, Ísleifur, Kári, Ófeigur og Sigurbjörn. Baldur og Ísleifur voru einnig nöfn á bátum í Eyjum árið 1944. Árið 1928 var Baldur bátsnafn í Eyjum, en það ár hét enginn bátur Ísleifur. Nafnið Baldur virðist því eiga sér lengstu samfelldu söguna af karlmannsnöfnum Eyjabáta.
Goðfræðinöfnin eru: Baldur, Draupnir og Huginn. Draupnir er bæði til sem dverganafn í völuspá (Eddukvæði 2002: 6) og hringur Óðins, einkennisgripur hans (Edda Snorra Sturlusonar 1954:82). Erlend áhrif koma einungis fram í nafninu Gandí. Trúlega er nafnið dregið af Mahatma Gandhi, hinum pólitíska leiðtoga Indverja í sjálfstæðisbaráttu þeirra við Breta. Karlmannsnöfn, sem eru dýranöfn, eru engin. Ósk um gott gengi endurspeglast í nöfnunum Ófeigur III og Sigurbjörn. Eitt gælunafn: Benzi. Önnur áhrif sem hægt er að sjá eru tengsl við fornsögulega kappa: Herjólfur, Ísleifur og Kári. Nöfn sem sótt eru til aðstandenda era t.d. Valdimar Sveinsson en faðir eigandans, Sveins Valdimarssonar, hét því nafni (Friðrik Ásmundsson 2009). Bátsnafnið Árntýr er sérstakt en komið til vegna þess að eigendurnir, Gunnar Árnason og Ástvaldur Valtýsson, nefndu bátinn eftir feðrum sínum og skelltu nöfnum þeirra saman ,Árn‘ og ,týr‘ (Gunnar Árnason 2009).
Tvö nöfn skera sig úr og þau eru: Danski Pétur og Dala-Rafn. Eigandi Danska Péturs, Emil Marteinn Andersen skírði bátinn eftir föður sínum sem hét Hans Peter Andersen og var kallaður Danski Pétur (Oktavía Andersen 2009). Uppruni nafnsins Dala-Rafn er sérstakt því þegar móðir eigandans gekk með hann, dreymdi hana draum. Í draumnum kom Rafn nokkur til hennar og ákvað hún því að gefa drengnum nafnið Rafn. Rafn þessi var uppi á 14. öld og bjó að Úlfsdölum vestan við Siglufjörð. Hann var ríkur maður sem hafði marga vinnumenn. Einn daginn komu vinnumenn hans snemma úr róðri með lítinn fisk og sögðu vestanuppgang vera í loftinu. Rafn varð reiður og fór sjálfur með syni sína út á sjó. Ekki vildi betur til en svo að báturinn fórst. Eftir dauða Rafns fóru menn að sjá skrímsli skammt fram undan Úlfstöðum og af og til skammt fram undan Dalalandi. Skrímslið líktist hval með tveimur kryppum upp úr, en stundum var það líkara tré með rót á enda. Þessi sýn er kölluð Dala Rafn (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri 2003:369). Drengurinn sem fékk nafnið Rafn fluttist frá Siglufirði til Vestmannaeyja. Eftir að hann eignast bát skírði hann bátinn Dala-Rafn (Steingrímur Sigurðsson 2009).
Kvenmannsnöfnin eru: Bára, Björg, Bylgja, Emma, Helga Jó, Júlía, Katrín, Kristbjörg, Kristín, Sigurbára, Sjöfn, Sæbjörg og Þórunn Sveinsdóttir, samtals 13 nöfn. Árið 1956 voru þessi kvenmannsnöfn á bátum í Eyjum: Björg, Emma, Júlía, Kristbjörg, Sjöfn og Sæbjörg. Árið 1944 var ekkert þessara nafna í notkun og má því telja að algjör endurnýjun hafi átt sér stað. Árið 1928 kemur í ljós að nokkur nafnanna sem eru á bátum í Eyjum árið 1980 voru einnig bátanöfn árið 1928. Hafa því gömul nöfn verið tekin upp aftur: Emma, Kristbjörg I, Kristbjörg II og Sæbjörg. Reyndar er Kristbjörgin ekki númeruð árið 1928.
Áhrif frá goðafræði má sjá í nafninu Sjöfn en ósk um gott gengi í nöfnunum Björg, Kristbjörg, Sigurbára og Sæbjörg. Til gælunafna má telja nafnið Emmu. Nöfn sem sótt era til aðstandenda eru t.d. Sigurbára sem kemur frá tengdamóður eigandans Sigurbáru Sigurðardóttur en eigandinn, Óskar Kristinsson skírði einnig dóttur sína þessu nafni (Sigurbára Óskarsdóttir 2009). Jóhannes Kristinsson, eigandi bátsins Helgu Jó, skírði bátinn eftir móður sinni, Helgu Jóhannesdóttur. Það sama gerði eigandinn Óskar Matthíasson með sinn bát Þóranni Sveinsdóttur (Friðrik Ásmundsson 2009).
Heiti sótt til örnefna eru: Álsey, Bergey, Bjarnarey, Elliðaey, Heimaey, Suðurey, Surtsey, Vestmannaey og Vestmannaey (grafskipið). Samtals níu nöfn. Það sem er mjög merkilegt við þennan hóp er að öll skipin hafa viðliðinn -ey og eru því sótt í örnefni á heimaslóðum. Einungis eitt nafnið var hér á vertíðinni 1956 og það er Suðurey. Árið 1944 og árið 1928 eru þessi nöfn ekki á bátum í Eyjum, því er þetta algjör nýjung.
Önnur nöfn eru: Andvari, Frár, Gjafar, Glófaxi, Gullberg, Gullborg, Hvítingur, Kap II, Klakkur, Kópur, Léttir, Lóðsinn, Lundi, Sjöstjarnan, Skuld, Sómi, Stígandi, Sæfaxi, Þristur og Ölduljón, Samtals 20 nöfn. Töluvert mikið af þessum nöfnum voru í bálknum árið 1956: Andvari, Gjafar, Gullborg, Kap, Léttir, Lundinn, Sjöstjarnan, Skuld, Stígandi og Þristur. 10 af 35 nöfnum hafa því haldið sér, en ein breyting hefur orðið á nafninu Lundi því þá var Lundinn með ákveðnum greini. Ef við skoðum nöfnin sem voru nefnd árið 1944 eru Lundinn og Sjöstjarnan enn í notkun. Árið 1928 voru nöfnin: Kap, Kópur, Lundi I, Lundi II, Skuld, Skuld II. Kap, Kópur og Skuld hafa því dottið úr notkun um tíma en komið inn aftur. Árið 1928 var Lundi ekki með ákveðnum greini, því er að hann er kominn aftur í sinni gömlu mynd árið 1980.

Til dýranafna má telja: Kóp og Lunda. Áhrif frá goðafræði má sjá í nafninu Skuld. Tvö nafnanna hafa forliðinn Gull-, Gullberg og Gullborg. Nafnið Sómi er dregið af plastbátum sem smíðaðir voru á þessum tíma og kölluðust einu nafni Sómabátar. Ef nafnið Hvítingur er rakið kemur margt til greina. Samkvæmt Íslenskri orðabók getur það verið skáldamál og þýtt ,freyðandi haf „fægt sverð“ eða „drykkjarhorn“ en einnig er það sækonungsheiti. En á almennu máli væri merkingin fisktegundin lýsa eða mjaldur sem er hánorrænn tannhvalur og flækingur við Íslandsstrendur (Íslensk orðabók, tölvuútgáfa 2000). En sú þjóðtrú að illt væri að skíra eftir hvölum virðist ekki vera enn við lýði þar sem þó nokkrir bátar heita nú nöfnum hvala, t.d. Sléttbakur frá Akureyri, en minni hætta er líka á að hvalur geti grandað skipum sem nú eru smíðuð. Virðist því sem hjátrúin sé liðin undir lok því minni bátar eru einnig nefndir hvalanöfnum í dag.


Skipaskrá 2004
Fiskifélag Íslands gaf út Íslenska sjómannaalmanakið til ársins 1999 en þá breyttist nafnið í Skipaskráin, Íslensk skipa- og hafnaskrá. Í þessum kafla er Skipaskráin árið 2004 notuð. Eftir nafnbreytingu varð ritið efnismeira og myndir fylgja flestöllum bátanöfnunum.
Karlmannsnöfnin eru: Addi á Gjábakka, Bergur, Binni í Gröf, Breki, Dala-Rafn, Daníel, Gandí, Guðmundur, Guðni Ólafsson, Herjólfur, Hlöddi, Huginn, Ísleifur, Kári, Narfi, Sighvatur Bjarnason, Sigurður, Snorri Sturluson, Svanur, Sævaldur, Víkingur, Þorri, Þór og Þrasi, samtals 24 nöfn. Þau bátanöfn sem voru árið 1980 eru: Bergur, Breki, Dala-Rafn, Gandí, Herjólfur, Huginn, Ísleifur og Kári 8 af 25 nöfnum. Frá árinu 1956 eru Bergur, Ísleifur og Kári, 3 af 45 nöfnum. Árið 1950 voru ísleifur og Kári en ekki Bergur, 2 af 27 nöfnum. Árið 1944 var nafnið Ísleifur notað en einnig Víkingur sem kemur aftur eftir nokkuð langt hlé. Árið 1928 finnst Ísleifur ekki en sömu nöfn það ár og árið 2004 eru: Huginn, Kári, Víkingur og Þór, 4 af 37 nöfnum. Nafnið Ísleifur virðist eiga sér nokkuð óslitna sögu um langt skeið.
Ef undirflokkar eru skoðaðir kemur í ljós að til norrænnar goðafræði er hægt að rekja nöfnin: Huginn, Narfi og Þór. Narfi er sonur Loka en einnig bar jötunn einn það nafn (Snorra Edda 2002:18). Erlend áhrif em í einu nafni: Gandí. Eitt dýranafn: Svanur. Ósk um gott gengi kemur ekki fram í neinu nafni. Gælunöfnin eru: Addi á Gjábakka, Binni í Gröf og Hlöddi. Fornir kappar eru nokkrir: Herjólfur, Ísleifur, Kári og Snorri Sturluson. Bátar sem nefndir hafa verið nöfnum aðstandenda eru: Addi á Gjábakka, Binni í Gröf, Guðni Ólafsson og Sighvatur Bjarnason, trúlega eru þeir þó fleiri þó ekki sé hægt að sjá beina tengingu. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er saga um Þrasa. Hann bjó að sögn sumra í Eystriskógum að Þrasastöðum nálægt Skógarfossi. Segir sagan frá viðureign Þrasa og Loðmundar en þeir voru báðir fjölkunnugir mjög. Einnig segir sagan frá því að Þrasi hafi komið fyrir gullkistu undir Skógafossi (íslenskar þjóðsögur og ævintýri 2003:86).
Kvenmannsnöfnin eru: Beta, Birta, Bylgja, Eva, Freyja, Frú Magnhildur, Guðfinna, Guðrún, Harpa, Inga, Mardís, María Pétursdóttir, Sjöfn, Svanborg og Þórunn Sveinsdóttir, samtals 15 nöfn. Árið 1980 voru þrjú þessara nafna á bátum í Eyjum: Bylgja, Sjöfn og Þórunn Sveinsdóttir, 3 af 13 nöfnum. Árið 1956 vom nöfnin Sjöfn og Freyja, 2 af 19 nöfnum. Freyja er gamalt og hefur verið tekið aftur upp eftir hlé. Árið 1950 eru bæði Sjöfn og Freyja. Árið 1944 var einungis nafnið Sjöfn. Árið 1928 er ekkert af nöfnunum sem eru árið 2004, en Sjöfn hefur trúlega lengstu óslitnu söguna.
Til norrænnar goðafræði má telja: Freyju og Sjöfn. Engin erlend áhrif eru og engin dýranöfn. Ósk um gott gengi endurspeglast í nafninu Frú Magnhildur en það nafn á sér sérstaka sögu, eftir teiknimyndapersónu. Í kringum 1970 þegar eina barnaefnið sem sýnt var í sjónvarpinu var á sunnudögum var teiknimyndin um fílinn Blámann og móður hans Frú Magnhildi. Walt Disney gerði síðar myndina um fílinn Dúmbó, en það er sama teiknimyndapersóna og Blámann. Fyrirtækið sem gerir út bátinn Frú Magnhildi heitir Blámann (Jóhannes Sigurðsson 2009). Til gælunafna má telja Betu. Bátar sem eru nefndir í höfuðið á ættingjum eru: Þórunn Sveinsdóttir og María Pétursdóttir.
Heiti sótt til örnefna eru: Drangavík, Heimaey, Hrauney, Pétursey, Portland (2), Smáey, Vestmannaey og Víkurröst, samtals níu nöfn. Árið 1980 var flokkurinn einungis með nöfnum sem sótt voru í heimabyggð en hér hafa aftur orðið hvörf. Þau nöfn sem voru árið 1980 og eru einnig árið 2004 eru: Heimaey og Vestmannaey. Ný nöfn sem sótt eru í heimahagana eru meðal annars Smáey eftir Smáeyjunum en svo kallast einu nafni eyjarnar Hæna, Hani, Hrauney og Grasleysa ásamt fjölda smáskerja. Einnig er bátsnafnið Hrauney sótt til Smáeyjanna. Bátsnafnið Vestmannaey skýrir sig sjálft. Pétursey er í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu. Ætla mætti að nafnið Portland væri sótt til útlanda, væri hægt að tengja nafnið við borg í Bandaríkjunum, en svo er ekki. Nafnið er annað nafn yfir Dyrhólaey. Dyrhólaey er syðsti tangi Íslands og syðsti hlutinn sem gengur út í sjó nefnist Tóin, þar sem gatið fræga er, sem gefur henni nafnið Portland á útlensku (Dyrhólaey 2009). Nafnið Portland nota sjómenn um tangann í daglegu tali (Friðrik Ásmundsson 2009). Drangavíkin, nafnið er komið til vegna þess að eigandinn vildi halda í viðliðinn -vík því hann átti Sigurvíkina þegar hann keypti bátinn en sá bátur hafði samsett nafn úr viðliðnum -vík og forlið úr nafni konu hans, Sigurjónu. En einnig er til örnefnið Drangavík á Hornströndum (Magnús Ríkharðsson 2009).
Önnur nöfn eru: Antares, Bliki, Blíða, Bravo, Einfari, Frár, Fönix (2), Glaður, Glófaxi, Gullberg, Gæfa, Heppni, Hlýri, Kap, Léttir, Lóðsinn, Lundi, Sporður, Stígandi, Uggi og Æskan, samtals 22 nöfn. Árið 1980 eru nöfnin: Frár, Glófaxi, Gullberg, Kap II, Léttir, Lóðsinn, Lundi og Stígandi. Árið 1956 er einungis nafnið Lundinn og þá með ákveðnum greini. Greinilega hefur orðið einhver endumýjun á gömlum nöfnum aftur því þessi nöfn sem eru á Eyjabátum árið 1980 voru þar líka árið 1950: Glaður, Gæfa, Kap, Léttir og Lundinn, 4 af 17 nöfnum. Árið 1944 er einungis Lundinn og eins með árið 1956. Árið 1928 kemur síðan aftur samsvörun við árið 2004 því eldri nöfn hafa verið tekin upp og þau eru: Bliki, Glaður, Kap, Lundi 1, Lundi II, 4 af 25 nöfnum. Bátsnafnið Lundi kemur fyrir tvisvar sinnum en nafnið er ekki með ákveðnum greini og samsvarar því mynd nafnsins árið 2004 eldri myndinni. Bátsnafnið Lundi með og án greinis virðist því eiga sér lengstu og óslitnustu söguna.
Til norrænnar goðafræði má telja Frá því einn dverganna í dvergatali Völuspár heitir því nafni. Önnur nöfn sem eru einnig dýranöfn eru: Fönix (2), Hlýri og Lundi. Ósk um gott gengi kemur fram í nöfnunum Gæfa og Heppni. Erlend áhrif má sjá í nafninu Antares.