Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2010/Undi sér best á sjó

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÓLAFUR RAGNARSSON


Undi sér best á sjó


- Rætt við Sigurð Jónsson


Sigurður Jónsson fv. sjómaður, stýrimaður og skipstjóri, hefur marga fjöruna sopið í lífinu, Og á hann hefur verið lagt ýmislegt meira en svarar til svona eðlilegs lífs ef svo mætti að orði komast. Ég tók Sigurð tali á sjúkrastofu á Heilsugæsluni í Vestannaeyjum þar sem hann dvelur nú. Ég gef honum orðið:

Sigurður Jónsson í æsku

Ég er fæddur í Vestmannaeyjum 24. júlí 1940. í húsi er faðir minn byggði á Vestmannabraut 73, 1939. Foreldar mínir voru Karólína Sigurðardóttir, sem var fædd í Vallarhjáleigu í Hvolshreppi 1899 og Jón Sigurðsson, fæddur árið 1900 í Miklholti í Miklaholtshrepp á Snæfellsnesi en var alinn upp að mestu á Syðstu Mörk undir Eyjafjöllum. Hjá afa sínum og alnafna og föðursystur sinni Kristínu.
Foreldrar móður minnar voru Sigurður Unason en hann fórst með þilskipinu Ok 8.-9. mars 1903, og kona hans Geirlaug Guðmundsdóttir.
Foreldrar föður míns voru Sigurður Jónsson frá Syðstu Mörk og Margrét Gísladóttir frá Saurum Helgafellssveit. Sigurður og Margrét fluttu til N- Dakota USA 1901. En skildu Jón föður minn og bróður hans Gísla eftir. Gísli var svo eiginlega tekinn með valdi og fluttur til foreldra sinna.
Faðir minn heimsótti ættinga sína vestanhafs 1948.
Móðir mín var vinnukona í Arnarhóli í Vestmannaeyjum hjá Gísla Jónssyni, föður Einars í Betel, þegar foreldrar mínir kynntust. Þau byrjuðu búskap í kjallaranum í Laugardal í Vestmannaeyjum 1923. Síðan byggði faðir minn Ártún, veglegt hús við Vesturveg sem stendur enn.
1939 tekur Gunnar Ólafsson og co húsið af föður mínum. Síðan byggir pabbi húsið á Vestmannabraut 73. Og í því húsi ólst ég upp. Og ég hef átt heima í því síðan.

Ég gekk hér í barna og unglingaskóla. Byrjaði að vinna fyrir mér allra fyrst sem „gellustrákur“ en síðan sem flakari hjá Hraðfrystistöðinni.

Foreldrar Sigurðar á yngri árum.

Sjómennsku mína byrjaði ég sem háseti á togaranum Ingólfi Arnarsyni.
Hér skulum við gera hlé á frásögn Sigurðar en ég ætla mér að vitna í minningargrein Eyjólfs Gíslasonar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1980 um föður hans, Jón Sigurðsson, sem lést í Vestmannaeyjum 24. jan. 1980. Þar segir m.a.: „Jón kom ungur drengur til Eyja með Kristínu fóstru sinni til Jónasar Jónssonar á Múla en þau giftust stuttu síðar og var Kristín seinni kona Jónasar. Hjá þeim hjónum ólst svo Jón upp og var hjá þeim fram að tvítugsaldri.
Af eldri Vestmanneyingum var Jón ætíð kenndur við æskuheimili sitt Múla. Jón var sjómaður í 20 ár og byrjaði að róa hjá Illuga Hjörtþórsyni á m/b Skarphéðni VE 145 sem var tæp 9 tonn að stærð. Haustið 1923 keypti Jón 1/3 hlut í m/b Gammi VE 174 sem var 8,3 tonn að stærð. Þennan hlut í bátnum átti hann í 14 ár eða þar til báturinn sökk fyrir vestan Eyjar í apríl 1937.
Eftir að Jón gerðist meðeigandi í Gamminum vann hann allar vertíðar við þann bát. Beitti þá oftast á línunni en var á sjó á netunum.“
Einnig mun Jón hafa átt 1/6 hlut í Sleipni VE 280 sem var 12 tonna bátur. Síðan rekur Eyjólfur upp starfsferil Jóns eftir að sjómennskunni lauk. Hann sá t.d. oft um lestun á ísfiski í hina ýmsu báta á stríðsárunum. Einnig var hann verkstjóri við fiskverkun þ.á.m. saltfiskverkun. Hann var matsmaður í saltfiski, þurrum og blautum og það starf hafði hann á hendi meðan heilsa og kraftar entust honum fram á sjötugsaldurinn. Síðan heldur Eyjólfur áfram:
„Jón var góður verkmaður og sívinnandi. Á árunum 1930-40 vann hann einn að túnræktun úr hraunlandi með handverkfærum einum og bjó sér þar til grasgefið og fallegt tún um 3 dagsláttur. Jón var greindur maður og fróður og minni hans var öruggt og aðdáunarvert. Enginn mundi eins vel og hann sjóslysasögu Eyjanna á fyrstu tugum aldarinnar (skrifað 1980. Ó.R) og eru margar þeirra skráðar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja“
Þann 4. ágúst 1956 verður Sigurður Jónsson fyrir því að hann brennist alvarlega á þjóðhátíð. Atburður sem olli miklum straumhvörfum í lífi hans og átti eftir að hafa mikil áhrif á það síðan. Og við skulum gefa Sigurði orðið um atburðinn:

„Við vorum svo klárir að við ætluðum að láta 100 ltr. af bensíni leka úr síldartunnu. Ætluðum að láta þetta leka í rólegheitum út um sponsgatið. Tunnan var opinn í annan endan svo var þetta sponsgat. Ég var kominn úr bálkestinum á leið niður á Fjósaklettinn. Siggi Reim var lagður af stað með kyndilinn. Ég beið eftir að Siggi kveikti í. Mér fannst ganga eitthvað hægt að kvikna í tunnunni svo að ég fór með hálfa fötu af hráolíu og gusaði á eldinn. Ætlaði svo í burtu en þegar ég var að snúa mér við verður þessi mikla sprenging og ég hendist upp að svona móbergsgarði sem var vestanvert á Fjósakletti. Ég var orðinn rennblautur af hráolíu og bensíni svo ég varð eins og logandi eldstólpi um leið. Ég hafði nú samt að krafla mig út úr þessu.

Húsið sem Jón, faðir Sigurðar, byggði og Sigurður er fæddur í og þar hefur hann alltaf búið.

Það voru litlar sem engar brunavarnir þarna á þessum tíma. En maður að nafni Gunnar Sumarliðason, að mig minnir, nær í gamlan sjóstakk og náði að kæfa eldinn í mér. Þetta fannst mér taka ansi langan tíma. Síðan keyrði Adolf Sigurjónsson, vörubílstjóri mér í snarhasti á spítalann. Þar tók Baldur Johnsen læknir á móti mér og síðan kom Einar Guttormsson læknir að þessu líka. Ég var allur vafinn inn í einhverjar tuskur og settur upp í rúm. Ég fann ekkert til í fyrstu en þegar ég vaknaði fór þetta heldur betur að gera vart við sig og ég varð viðþolslaus af kvölum.“
Hér skulum vð gera smáhlé á samtalinu. Það má skjóta hér inn, að haft var eftir Adolf bílstjóra, sem keyrði Sigurð á spítalann, að í framsætinu þar sem Sigurður sat hefðu verið stórar skinnflyksur sem hafi verið fastar við sætið eftir að Sigurður fór úr bílnum.
Hann lá svo á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum í 6 1/2 mánuð. Þann 12. febrúar var hann fluttur á Landspítalann þar sem hann lá í aðra 6 mánuði.
Fætur Sigurðar brenndust mjög illa og bera þeir, já, og allur líkami Sigurðar, greinileg merki þessa slyss. Og Sigurður heldur áfram:

Heiðraður á sjómannadaginn 2003

„Í minningunni eru margir vinir mínir sem heimsóttu mig. Þar fara kannski helst Óli Kristinn Sigurjónsson, Óli Tótu eins og hann var alltaf kallaður, Guðjón Traustason og Skari á Háeyri (Óskar Þórarinsson). Óli fórst svo við annan mann á báti sínum Hvítingi 2. sept 1987. Þar misti ég góðan vin sem ég hef alltaf saknað sárt.
Óli og Skari á Háeyri sátu t.d. hjá mér á aðfangadagskvöld þegar ég lá á spítalanum í Eyjum. Við þessir 3 höfðum nú „brallað“ margt saman og áttum eftir að gera.”
Árið 1957 lendir Sigurður aftur í slysi, nú í bílslysi á Keflavíkurveginum og slasast hann á höfði. Á þessum tíma var þýskur læknir á sjúkrahúsinu í Keflavík þangað sem Sigurður var fluttur. Hann fékk áhuga á að reyna að græða upp hold á fótleggjum Sigurðar. En látum Sigurð halda áfram frásögn af lífshlaupi sínu:
„Ég lá í tæpan mánuð á sjúkrahúsinu í Keflavík meðan sá þýski reyndi að græða brunasárin sem ekki voru alveg gróin. Ekki gekk það nú upp hjá þeim lækni.
Eftir veru mína á Landspítalanum komst ég nú á lappirnar og upp úr því fékk ég vinnu í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja í „pappanum“ (í umbúðunum). Þessi vinna passaði mér vel þar sem ég gat ekki verið í stígvélum fyrstu mánuðina eftir að ég komst af spítalanum. Þar vann ég þar til ég byrjaði mína sjómennsku 1959. Ég byrjaði á b/v Ingólfi Arnarsyni, síðan var ég á Óla Jó (B/V Ólafur Jóhannesson frá Patreksfirði). Árið 1960 byrja ég svo á vertíð hér í Eyjum. Ég byrja á Hrímni VE með Sigga í Bæ (Sigurjóni Ólafssyni frá Litlabæ), bróður Ása í Bæ og föður Óla Tótu sem fyrr er nefndur) Síðan var ég m.a. með þeim bræðrum Óskari og Einari Gíslasonum á Gæfunni, þekktum borgurum hér í Eyjum. Síðan er ég á vertíðum hér, m.a. á Gullborginni með Binna í Gröf. Á Gullborg var ég 6-7 vertíðar. Við sigldum oft á Gullborginni. Það var alveg magnað að vera þar á þessum tíma. Vorið 1964 næ ég að bjarga manni úr Reykjavíkurhöfn. Ég hafði verið á balli á Þórskaffi og í framhaldinu boðið um borð í Brúarfoss. Þar fengum við okkur meira í staupinu, Þegar við vorum svo að yfirgefa skipið verður einum félaganum fótaskortur í landgangnum og hann fellur í sjóinn. Svona 7-8 metra fall. Ég var nú frekar illa syndur. Hafði þó synt 200 metrana um vorið. Ég treysti mér ekki til að fara á eftir honum þar sem ég sá fram á að þá gætum við drukknað báðir. En í því kemur bróðir mágs míns sá sem við höfðum farið um borð með, með kaðalstiga. Ég príla svo niður hann eins langt og hann náði en lét mig svo falla í sjóinn. Er ég kem úr kafi strýkst ég við eitthvað sem svo reyndist vera maðurinn. Ég beit í hárið á honum og kraflaði svo með hann að stiganum. Þar erum við svo þar til lögregluna bar að á lóðsbátnum. En „gestgafinn“ hafði látið hana vita og þeir fengið lóðsbátinn til hjálpar. Við vorum svo keyrðir á slysavarðstofuna við Barónstíg þar sem hlynnt var að okkur.
Þar tók ungur læknir, Örn Bjarnason, á móti okkur. En Örn átti svo eftir að vera læknir hér í Eyjum til langs tíma seinna. Logi, strákurinn sem féll í sjóinn, varð að ligga 5-6 daga á spítalanum en ég hélt „djamminu“ bara áfram eftir að fötin voru þornuð.“
Við skulum nú gefa Sigurði smáhvíld í frásögninni. Þegar eftir björgunarafrek Sigurðar í Reykjavíkurhöfn fer hann með þeim sem hann bjargaði á m/b Kristján Valgeir GK 417. Fyrst á síld og síðan á línu og þorsknót. Skipstjóri var Jóhann Guðbrandsson. Þennan vetur, 1964, varð Kristján Valgeir aflahæsti bátur í Sandgerði með 500 tonn Sigurður var 1 1/2 ár á Kristjáni. Eftir þá veru er Sigurður á hinum ýmsu skipum þar til 1969 að hann er á Stefáni Þór á vertíð hér í Eyjum. En í lok hennar lendir hann svo í einu slysinu enn. Sá sem þetta viðtal tekur hefur það eftir sjónarvotti að því slysi að honum hefði ekki dottið í hug að sjá Sigurð lifandi eftir slysið, allavega ekki standandi í fæturna. Því afturhjól bílsins hefði hreinlega farið yfir hann miðjan. En gefum Sigurði orðið:
„Árið 1969, í vertíðarlok, lendi ég svo í öðru bílslysi en þá varð ég undir vörubíl. Bíllinn var að koma vestur Strandgötuna og ætlaði ég að ná tali af bílstjóranum. En einhverra hluta vegna jók hann ferðina eftir að ég hafði náð taki á skjólborði pallsins. Við það missti ég takið og varð undir afturhjóli bílsins.
Í þessu slysi átti ég svo fram á haustið 1969. Ég var svo á ýmsum bátum sem háseti og stýrimaður á undanþágu þar til 1987 að ég fór í Stýrimannaskólann hér í Eyjum. Eftir það var ég svo stýrimaður á hinum ýmsu bátum hér, t.d Árna í Görðum og Emmu.
Við sigldum mikið á Árna í Görðum. Vorum oftast með kringum 100 tonn og seldum alltaf vel.“
1973 lendir Sigurður í enn einu slysinu. Það var í eldgosinu á Heimaey. Hann var nýkominn heim úr siglingu á Árna í Görðum. Þá verður hann fyrir því að glóandi hraunhnullungur lendir á öðru læri hans. Fær hann 2 stigs bruna á lærið. Hvað sem gerðist, hvort það voru afleiðingar af einhvers konar ofnæmi eða gasi þá hreinlega datt öll húð af líkama hans. Sigurður var lagður inn á Landspítalann og lá þar í rúman mánuð. Hann kom svo út af spítalanum 8. mars 1973, 70 árum, sennilega upp á dag, eftir að móðurafi hans Sigurður Unason fórst með þilskipinu Ok.
Hann byrjaði svo strax aftur til sjós eftir þessa spítaladvöl. Við gefum Sigurði orðið:
„Síðan var ég á ýmsum bátum hér í Eyjum. Eitt sumar (1976) var ég skipstjóri á m/b Sjöstjörnu, 50 tonna bát héðan. Síðan var ég stýrimaður á ýmsum bátum hér í Eyjum, t.d. mikið með Matta „spíkon“, Matthíasi Ingibergssyni á m/b Þóri og m/b llluga.
Seinna var ég svo með trillu fyrir Pál Árnason sem hét Árni Páls. Beitti þar og reri svo með línuna.
Eftir lát föður míns fékkst ég við „fjárbúskap" Tók við af honum með nokkrar kindur. En smá ljárhús var á lóðinni á Vestmannabraut 73. Var svo að snúast við þær, heyja handa þeim og þannig. Síðan hefur heilsunni hrakað og síðustu mánuði hef ég dvalið hér.”
Viðtalið hefur átt sér stað með hléum á stofu 202 á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeýja, en eins og fyrr getur hefur Sigurður dvalið þar um tíma. Meðal vina og kunningja sem heimsótt hafa Sigurð er Óskar Þórarinsson, skipstjóri og útgerðarmaður hér í Eyjum, æskuvinur hans sem fyrr er nefndur. Menn koma ekki að tómum kofunum hjá þeim félögum er þeir rifja upp gamla tíma. En báðir höfðu verið í skiprúmi hjá hinum fræga og aflasæla skipstjóra Benóný Friðrikssyni frá Gröf (Binna í Gröf) sem ávallt er kenndur við skip sitt m/b Gullborg VE. Þó voru þeir ekki samskipa með Binna.
Óskar minnir Sigurð á vertíðina 1961 sem var eiginlega svokölluð „dán vertíð“ hér í Eyjum. Við gefum þeim félögum orðið. Óskar segir að þessa vertíð hafi hann verið stýrimaður á m/b Emmu VE með Ásberg Lárentínussyni. Benóný hafi verið langhæstur þessa vertíð með 618 tonn. Enginn hafi þá talað um að það þyrfti að loka og hætta öllum veiðum þrátt fyrir þann aflabrest.

Sjöstjarnan, bátur sem Sigurður var með.

Þeir félagar tala með mikilli virðingu um þennan sameigilega vin sinn og fyrverandi aflaskipstjóra. Talið berst að trossufjöldanum hjá Gullborginni en oft gengu sögur af miklum fjölda trossa, og var þá verið að gera lítið úr þeim sem vel fiskuðu með því að segja að þeir væru með fleiri trossur eða meira af netum í sjó en hinir sem minna fiskuðu. Óskar segir svo frá að þegar hann var á vertíðinni 1961 með Begga (Ásberg Lárentínussyni, skipstjóra á Emmu þá vertíð) hafi Binni eitt sinn kallaði í hann upp í stýrishús á Gullborginni í kaffi. „Nú er ég bara með 7 trossur og þannig vil ég hafa það, við förum ekki út í neina vitleysu," á gamli maðurinn að hafa sagt. En veturinn áður þegar Óskar var með honum hafði hann gert þau mistök að bæta við áttundu trossunni. Það mun hafa verið þannig í pottinn búðið að Sævar sonur hans, sem var stýrimaður á Gullborg VE á þessum tíma, mun hafa frétt það í landi að Óskar á Leó, sem var í bullandi samkeppni við Binna, væri kominn með 8 trossur. Óskar kveðst hafa verið við stýrið á leið af Eyjabankanum vestur á Selvogsbanka, en „kallinn“ hafði lagt sig. Hann sá að Sævar ásamt strákunum voru byrjaðir að steina niður nýja trossu. Hafi hann þá kallað í Sævar og spurt hann hvort kallinn ætlaði að bæta við trossu. Nei, nei, sagði Sævar, ég ætla að bæta einni við. Hann vissi sem var að Binni stæðist ekki að vera með klára trossu í bátnum án þess að leggja hana. Þetta mun vera eina vertíðin sem hann hafði meira en 7 trossur í sjó.

Sigurður (annar til hægri í efri röð) og skólafélagar hans í Stýrimannaskólanum 1961-62

Binni var aldrei utan þessarar vertíðar með nema 6-7 trossur. Eða ekki fleiri trossur en hann gat flutt milli veiðisvæða í einu. En vertíðin 1960 var Binna töluvert erfið. Hann hafði verið aflakóngur í 5-6 ár en varð þriðji hæsti þennan vetur með rúm 900 tonn. Hann hafði fengið nýjan harðan keppinaut sem var Óskar á Leó sem kominn var með nýja Leó VE 400. Svo var það í einni landlegunni um veturinn að hann lenti einhverjum átökum þar sem augað var hreinlega „klórað“ úr honum. Upp úr því sótti mikill höfuðverkur að honum í sólskini þegar sólin glampaði á sjónum. Þá varð úr að hann fékk sér svartan lepp fyrir gleraugað sem hafði tilætluð áhrif. „Hann var helv... sætur kallinn með leppinn,” segir Óskar.
Sigurður hefur siglt með mörgum skemmtilegum manninum og er, sem fyrr segir, minnisgóður og fróður um ættfræði og útgerðarsögu Vestmannaeyja m.a. Nokkrar sögur hefur hann á hraðbergi um vin sinn dugnaðarmanninn Binna frá Gröf. Hér er lítið sýnishorn.

Sigurður með Óskari á Háeyri og Kristjáni á Emmunni.


Alltaf þegar útlit fyrir að sjóveður væri tvísýnt og hann var spurður um hvort það væri sjóveður átti hann það til að svara: „Það er alveg á „nippinu“.“ Þá var öruggt að hann lagði í'ann.
Einar Sigurðsson, sem lengi var vélstjóri á Gullborginni, sagði að það væri hægt að lesa út úr hegðun Binna hvort afli væri í trollinu eða ekki. Hann notaði lúður til að kalla í kallana frammí. Ef hann lá áhugalaus út í glugganum með lúðurinn í annari hendi var ekkert í. Ef hann kom út á brúarvænginn með báða þumalputtana í vösunum var möguleiki á einhverjum afla. Nú, ef hann kom út á vænginn og hélt í handriðið og var allur á iði, var öruggt að góður afli var í trollinu. Og hér er ein saga sem ég fann í bókinni Aflamenn þar sem Ási í Bæ skrifar um vin sinn Binna og hefur eftir Ólafi Kristjánssyni meðeiganda Binna að Sævari, fyrsta bátnum sem Binni var meðeigandi að: „Einu sinni var Binni eitthvað lasinn sem sjaldan kom fyrir og treystir sér ekki á sjó. Sendir stýrimanninn með bátinn en þeir voru á snurvoð.Þetta var þaulvanur maður. Báturinn kemur svo að landi um kvöldið. Þeir höfðu orðið fyrir því óhappi að missa veiðarfærin, voð, tóg og heila klabbið. Þeir fara nú heim til Binna, Ólafur og stýrimaðurinn óheppni, heldur niðurlútir báðir. Þegar Binni heyrir tíðindin rís hann upp í rúminu sléttir úr sænginni fyrir framan og spyr: „Hvar voruð þið á sjó?“ Sem betur fer hafði stýrimaðurinn sett á sig öll mið og sagði Binna þau. „Já auðvitað" segir Binni og strikar á sængina með fingrinum. „Sko, hraunið liggur svona, sérðu. Þú kastar svona, ekki satt, og þess vegna verður allt fast og hérna, í krikanum, er draslið.

Gömul mynd þar sem horft er til Heimakletts

Næstu nótt rís Binni úr rekkju og fer á sjó veiðarfæralaus. 2 dögum seinna kemur kall að landi með fullan bát -og aflann hafði hann náttúrlega fengið í týndu veiðarfærin sem hann hafði fundið.
Mér finnst ekki furða að Sigurður Jónsson líti á Binna í Gröf sem eins konar guð. Árið 2002 var Sigurður heiðraður á sjómannadaginn. Og hafi einhver átt það skilið, þá er það Sigurður Jónsson, að mínu áliti. Það er stundum talað um að sumir skipstjórar fiski af kröftum en fáir af núlifandi sjómönnum hafa stundað sjó af eins miklum kröftum og Sigurður Jónsson. Hann hefur alltaf talað af hreinskilni, stundum kannske of mikilli ef svo má að orði komast um menn og málefni, t.d. um ekkisjómenn. Oft af fullmikilli hörku. En ef maður setur sjómennsku hans í samhengi við það allt þá get ég ósköp vel skilið vin minn Sigurð. Óskar Þórarinsson segir svo um vin sinn Sigurð Jónsson:
„Sigurður lá í rúmt ár á sjúkrahúsum eftir brunann 1956. Þrátt fyrir það hóf hann sinn sjómennskuferil þremur árum seinna, og hún stóð í rúm fjörutíu ár. Og þrátt fyrir fötlun sína var hann afkastamikil sjómaður og urðu margir að lúta í lægra haldi fyrir honum á dekkinu. Sigga var ekki hugað líf þegar hann lenti undir afturhjólum vörubílsins. Hjólin fóru yfir hann miðjan. Sum líffærin í kviðarholi voru í tætlum. Einar Gutt, læknir, rimpaði þau saman áður en hann var sendur til Reykjavíkur með sjúkraflugvél. Sögðu læknar sem tóku við Sigga fyrir sunnan, að saumaskapur Einars hefði bjargað lífi hans. Siggi var kominn á sjötugsaldur, þegar farið var að huga að því að þessi hversdagshetja ætti rétt á almennum bótum. Og það voru vinir og velunnarar sem sáu til þess, því ekki hefði hvarflað að honum að fara fram á slíkt „Því hann undi sér best á sjó.“ Svo mörg voru þau orð Óskars sem ég geri að lokaorðum þessa viðtals.