Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2010/Starfsemi í Hafrannsóknarstofnunnar í Vestmannaeyjum
Kerfisbundnar haf- og fiskirannsóknir Íslendinga hófust með frumkvöðlastarfi Bjarna Sæmundssonar í upphafi 20. aldar. Árið 1931 hófust fiskirannsóknir á vegum Fiskifélags Íslands og veitti Árni Friðriksson, fiskifræðingur, þeirri starfsemi forstöðu. Árið 1937 urðu þáttaskil í Íslenskum haf- og fiskirannsóknum með stofnun Fiskideildar Atvinnudeildar Háskólans. Árni Friðriksson var fyrsti forstöðumaður hennar og viðraði hann oft þá hugmynd sína, að Vestmannaeyjar væru ákjósanlegur staður fyrir alþjóðlega hafrannsóknastöð. Helsta ástæðan fyrir þessari hugmynd var sú að í námunda við Vestmannaeyjar eru mikilvægustu hrygningarstöðvar helstu fiskistofna, auk ýmissa annarra sjávardýra.
Hafrannsóknastofnuninni var síðan komið á fót með lögum nr. 64 frá 31. maí árið 1965. Stofnunin hefur höfuðstöðvar að Skúlagötu 4 í Reykjavík og rekur í dag fimm útibú, auk tilraunaeldisstöðvar á Stað við Grindavík. Fyrsta útibú stofnunarinnar tók til starfa árið 1974 á Húsavík og fluttist síðan til Akureyrar árið 1991. Næst komu útibú á Höfn í Hornafirði og Ísafirði árið 1976. Árið 1983 tekur til starfa útibú á Ólafsvík. Útibúið í Vestmannaeyjum tekur síðan til starfa 1. október 1986.
Aðdragandinn að stofnun útibúsins í Eyjum var langur og má rekja hann allt til ársins 1972 en þá höfðu Eyjamenn fullan hug á að opna útibú frá Hafrannsóknastofnun. Ekkert varð úr þessu vegna eldgossins í janúar 1973. Þá var hreyft við málinu á Alþingi 1980 - 1981 en náði ekki fram að ganga, en vorið 1985 fékk Árni Johnsen, alþingismaður, veitt fjármagni til að undirbúa opnun útibús í Eyjum sem var síðan opnað, eins og áður segir, árið 1986 með aðsetur í Vinnslustöðinni.
Þegar Rannsókna- og fræðasetrið í Vestmannaeyjum (nú Þekkingarsetur Vestmannaeyja) var opnað í október 1994 þá fluttist starfsemin í húsnæði þess að Strandvegi 50. Frá árslokum 1993 hefur útibúið haft yfir að ráða rannsóknabátnum Friðrik Jessyni VE 177, en hann er 10 tonna plastbátur smíðaður 1989.
Öll útibúin gegna þýðingarmiklu hlutverki við gagnasöfnun og vegur þar þyngst sýnataka úr lönduðum afla. Þessi sýnataka er mikilvægur þáttur í stofnmati og felst hún í því að safna m.a. upplýsingum um aldurs-, lengdar- og þyngdarsamsetningu hjá hinum ýmsu nytjastofnum. Fjöldi sýna sem tekinn er af bolfiski ræðst af lönduðum afla í hverri tegund og gerð veiðarfæris. Áður var fjöldi sýna í hverri tegund og fyrir hvert veiðarfæri miðaður við sóknarmynstur ársins á undan, en frá 1999 hefur verið stuðst við forrit er kallast Sýnó. Forritið fylgist með lönduðum afla um gagnagrunn Fiskistofu og gefur viðvaranir um sýnatöku þegar magn tegundar, í veiðarfæri og eftir höfnum, hefur náð fyrirfram skilgreindu marki.
Þegar líða fer að sýnatökubeiðni fara starfsmenn útibúsins af stað á Fiskmarkað Vestmannaeyja og í fiskvinnsluhúsin og leita eftir sýni af þeirri tegund og úr því veiðarfæri sem beðið var um. Einnig er stundum haft beint samband við báta og beðið um að taka frá kar til sýnatöku.
Gagnasöfnun á tegundum sem ekki eru í þessu kerfi eins og til dæmis síld, loðnu, kolmunna og makríl er framkvæmd af sjómönnum um borð í skipunum í hverri veiðiferð. Þeir skila síðan þessum sýnum inn til útibúsins þar sem þau eru unnin. Vestmannaeyjar eru vel staðsettar til rannsókna á uppsjávartegundum og ýmsum vannýttum tegundum. Sýnataka vegna veiða á makríl og gulldeplu hefur til dæmis bæst við á undanförnum árum. Frá því að útibúið í Eyjum var opnað hefur það staðið fyrir og tekið þátt í fjölmörgum rannsóknarverkefnum, bæði staðbundnum og á landsvísu. Í dag er unnið að nokkrum rannsóknarverkefnum í útibúinu.
Fæða þorskfiska úr afla fiskiskipa er eitt þeirra og hófst verkefnið árið 2001. Felst verkefnið í því að fæðusýnum er safnað úr þorski, ýsu og ufsa af sjómönnum og þau síðan fryst. Sýnum er síðan skilað inn til útibúa til greiningar á fæðuinnihaldi. Verkefnið er samstarfsverkefni útibúa stofnunarinnar og er ætlunin með þessu verkefni að afla frekari upplýsinga um fæðu þorsks, ýsu og ufsa og til að fylla upp í eyður sem hafa verið í söfnun fæðusýna í rannsóknaleiðöngrum.
Endurskoðun gagnasöfnunarkerfa er verkefni sem unnið hefur verið að frá árinu 2002. Þetta verkefni felst í því að þróa og lagfæra gagnaskráningarforritið Hafvog sem notað er við sýnatöku úr lönduðum afla og í rannsóknaleiðöngrum. Einnig hefur verið unnið að endurbótum á forritinu Sýnó, en það er kerfi sem heldur undan um sýnatöku úr lönduðum afla. Þessi vinna er unnin í samstarfi við útibúið á Ísafirði og tölvudeild Fiskistofu.
Stofnmæling með netum (Netarall). Verkefnisstjórn hefur verið í höndum útibússtjóra í Vestmannaeyjum frá árinu 2004. Markmið verkefnisins er að safna upplýsingum um aldurs- og lengdar- / þyngdarsamsetningu hrygnandi þorsks, kynþroska og vöxt á helstu hrygningarsvæðum þorsks. Einnig að meta árlega magn kynþroska þorsks er fæst í þorskanet á hrygningarstöðvum og breytingar í gengd hrygningarþorsks á mismunandi svæðum.
Stofnmæling á sandsíli við Ísland hófst árið 2006 og er verkefnisstjórn í höndum útibússtjóra í Vestmannaeyjum. Markmið verkefnisins er að meta breytingar í stofnstærð sandsílis og afla upplýsinga um árgangastyrk og nýliðun í tegund sem er mikilvæg fæða nytjafiska, hvala og sjófugla. Einnig að kanna hvort fýsilegt sé að nola fæðusýni úr lunda og sandkola sem óbeinan mælikvarða á stofn sandsílis. Á árinu 2008 var sett af stað verkefni í samstarfi stofnana Þekkingarseturs Vestmannaeyja með það að markmiði að afla frekari upplýsinga um sandsíli og hefja rannsóknir á lunda
. Styrkur fékkst frá tækjakaupasjóði Rannís til að kaupa botngreip og botnsjá sem gerir kleift að kortleggja og flokka búsvæði sílis. Sama ár fékkst rannsóknastyrkur til að setja af stað rannsóknir á lunda undir forystu Náttúrustofu Suðurlands og hluti af þeim styrk er ætlaður til kortlagningar á búsvæði sílis á um 500 km2 svæði umhverfis Vestmannaeyjar. Gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir á árinu 2010.
Í október á þessu ári hefur útibúið verið starfandi í 24 ár og var Hafsteinn Guðfinnsson útibússtjóri frá stofnun þess til 1. ágúst 2000 eða í tæp 14 ár. Hann var eini starfsmaðurinn framan af en í mars 1998 hóf Georg Skæringsson störf við útibúið í hálfu stöðugildi á móti hálfu stöðugildi hjá Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum og starfaði hann við útibúið til 1. apríl 2000. Valur Bogason tók við útibússtjórastarfinu af Hafsteini í ágúst 2000 og í desember sama ár hóf Leifur Gunnarsson störf við útibúið, fyrst í hálfu stöðugildi en í fullu starfi síðustu ár.
Útibúin hafa verið að eflast víðs vegar um landið undanfarin ár og hafa verið lagðar fram tillögur til að efla starfsemi útibúsins í Vestmannaeyjum.
Samstarf sjómanna og útibúsins er talsvert. Starfsmenn útibúsins taka þátt í ýmsum rannsóknaleiðöngrum bæði á rannsóknarskipum og leiguskipum. Má þar nefna togararall, netarall, sandsílarannsóknir, gulldeplurannsóknir o.fl.
Sjómenn safna talsverðu af sýnum til mælinga, fæðurannsókna, skila inn fiskmerkjum, o.fl. Einnig hafa sjómenn séð um mælingar, kvörnun og kynþroskagreiningar fyrir rannsóknarverkefni.
Sjómenn og vísindamenn hafa lagt saman þekkingu sína sem hefur skilað betri rannsóknum. Dæmi um það er sandsílaverkefnið.