Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2010/Siglt á tuðrum frá Vestmannaeyjum til Færeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÓLAFUR TÝR GUÐJÓNSSON
PÉTUR STEINGRÍMSSON
Greinarhöfundar ásamt Martin Juul.


Ævintýraferð til Færeyja, sumarið 2009


Siglt á tuðrum frá Vestmannaeyjum til Færeyja


Ógleymanleg ferð, ógleymanlest fólk


Málin rædd, næsta plan skoðað.

Það sem mönnum dettur í hug
Það var í kaffispjalli hjá þeim félögum Himma Nínon og Snorra Jóns. sem það kom til tals að það væri gaman að fara að sumarlagi á nokkrum tuðrum frá Vestmannaeyjum og alla leið til Færeyja. Þetta var á haustmánuðum 2008 og þá voru menn ekkert að hika þó alheimskreppa væri skollin á heldur söfnuðu liði. Nú var hafinn undirbúningur að ferð sem átti svo eftir að verða mikil ævintýraferð fyrir alla sem þátt tóku í henni. Haldnir voru margir fundir hér heima og eins úti í Færeyjum en mjög margir voru boðnir og búnir til að leggja hópnum lið m.a. fólk hér í Eyjum sem á rætur að rekja til Færeyja.
Haldnir voru nokkrir undirbúningsfundir á kaffistofunni hjá Snorra á Standveginum, menn komu saman og ræddu málin af glaðværð og eftirvæntingu. Ákveðið var að fara af stað frá Eyjum upp úr miðjum júní en þá er lengstur sólargangur og von um að veðrið yrði gott. Fram eftir vetri var nokkuð á reiki hve margir færu með í ferðina, slógu menn ýmist úr eða í. Sama mátti segja um fjölda báta, einn daginn voru það fimmtán tuðrur og tveir björgunarfélagsbátar af fullri stærð en á næsta fundi voru tuðrurnar fjórar og óvíst með áhöfn. Það var því enginn hægðarleikur að panta gistingu og annað í Færeyjum en hlutirnir skýrðust þegar leið á veturinn.
Þau sem í ferðina fóru voru eftirtalin: Hilmar Kristjánsson, Árni Hilmarsson, Pétur Steingrímsson, Hjálmar Baldursson, Einar Sigþórsson, Friðrik Stefánsson, Ólafur Týr Guðjónsson, Davíð Guðmundsson, Þorsteinn Viktorsson, Erlendur Bogason, Jóhannes Guðmundsson, Erling Þór Gylfason, Gunnar Birgisson, Snorri Jónsson, Smári Harðarson, Sigurlína Guðjónsdóttir, Hreinn Pétursson, Þórir Stefánsson, Baldvin Johnsen og Aldís Gunnarsdóttir

Veðrið lék við mannskapinn í ferðinni.


Fljótlega var ákveðið að sigla aðeins aðra leiðina, þ.e. að sigla til Færeyja en fljúga heim og senda tuðrurnar til baka með Eimskip. Þetta setti ferðinni nokkrar skorður þar sem panla þurfti flug frá Færeyjum upp á von og óvon með siglinguna. Ein og ein hjáróma bölsýnisrödd heyrðist á næsta fundi. Hvað ef veðurspá yrði slæm þegar liði að farardegi, hvað ef stórsjór og ofsaveður kæmu í veg fyrir ferðina? Og ekki stóð á svari; „Það verður bara ekki vont veður...“, málið útrætt.
Mikið er nú gott hvað Íslendingar eru alltaf fullir bjartsýni þegar vaðið er af stað út í óvissuna!
„Við förum ekki af stað nema í blíðu“ var setning sem var rifjuð upp með reglulegu millibili alla ferðina og á sér sérstakan sess í hugum ferðalanga.

Risinn og Kerlingin.

Lagt af stað
Stóri dagurinn rann upp. Ákveðið var að sigla af stað áleiðis til Hafnar í Hornafirði um miðnættið, fimmtudaginn 18. júní og áttu allir að vera mættir á bryggjuna kl. 23:00. Ferðinni var flýtt þar sem ætlunin var að vera í samfloti við hraðfiskibátinn Ólaf HF-51 frá Höfn í Hornafirði og út til Færeyja. Himmi, okkar maður, hafði verið í sambandi við Karel Karelsson skipstjóra. Hann var á leið út til að sýna bátinn víðs vegar um Færeyjar. Báturinn er af gerðinni Cleopatra, smíðaður hjá Trefjum. Veðrið var ágætt en ekkert meira en það.
Mikill mann fjöldi var mættur á bryggjuna, ættingjar og vinir til að kveðja og óska hópnum góðrar ferðar yfir hafið. Guðmundur Örn Jónsson, presturinn okkar, fór með sjóferðabæn og bað góðan Guð um að varðveita og passa alla þá sem sigldu þetta kvöld.
Nú var stóra stundin runnin upp, kl. 00:20, aðfaranótt föstudags 19. júlí var haldið af stað út úr höfninni á Heimaey, á fimm tuðrum. Þó nokkur norðvestan skælingur var til að byrja með og eftir 1 1/2 tíma siglingu ákváðu þau Baldvin og Aldís að snúa við heim til Eyja. Þá var búið að vera erfitt sjólag og tuðran þeirra að dragast aftur úr, vélin afllítil og báturinn tók töluvert inn á sig. Þau hjónin voru ekkert að gefast upp og flugu daginn eftir á Bakka og óku sem leið lá til Hafnar í Hornafirði, þar sem þau sameinuðust hópnum aftur. Karel munstraði þau strax sem háseta á Ólaf.
Það voru því fjórir gúmbátar sem héldu leið sinni áfram á vit ævintýranna. Siglingin austur með suðurströndinni kom verulega á óvart og þá fyrst og fremst vegna þess hve breytilegt sjólagið var á leiðinni, allt frá því að vera logn og sléttur sjór, í kaldafýlu og veltubrim. Á leiðinni sigldi hópurinn í gegnum gatið á Dyrhólaey og þótti það magnað. Besta veðrið var út af Jökulsárlóni, logn og spegilsléttur sjór en þar vorum við um kl. 07:00 og þar var ákveðið að stoppa aðeins svo hægt væri að fá sér eitthvað í svanginn. Komið var til Hafnar í Hornafirði kl. 10:20 eftir tæplega 10 tíma siglingu.

Vestmannabjörgin stórkostleg og hrikaleg.
Út af Jökulsárlóni í renniblíðu.
Fulltrúar Dressmann-gengisins á góðri stund. Fremst Einar Sigþórsson, Árni Hilmarsson, Hjálmar Baldursson og Friðrik Stefánsson

Haf og meira haf
Eftir góða svefn og hvíld á Höfn var allt gert klárt fyrir næsta áfanga, fyllt á alla bensíntanka og þess háttar.
Upp í hugann kemur hin ábyrga setning „Við förum ekki af stað nema í blíðu“ og vongóð héldum við af stað áleiðis til Færeyja, á föstudagskvöldi, 19. júní, kl. 20:20. Búast mátti við pusi fyrsta hluta leiðarinnar en síðan átti að vera renniblíða. Skemmst er frá að segja að blíðan var hvergi sjáanleg á leiðinni yfir hafið. Ölduhæð var frá 5 metrum og upp í 7 metra nær allan tímann. Óneitanlega var gríðarleg hjálp í þvi að hafa Ólaf með í för. Allur farangur var þar um borð sem og hluti bensíns og þurfti á 50-60 mílna fresti að stoppa og tanka tuðrurnar, nú eða sinna mannlegum þörfum leiðangursmanna svo sem klósettferðum og slíku. Á hinn bóginn fórum við heldur hægar yfir en ætlunin hafði verið. Þegar kostir og gallar í samflotinu voru vegnir og metnir þá eru kostirnir ótvírætt meiri og viljum við flytja Karel okkar bestu kveðjur og þakkir.
Gúmmíbátarnir fóru auðvitað misvel með mannskapinn, Nínon-báturinn langöflugastur í þessu veðri en hinir bátarnir stóðu sig líka vel. Menn höfðu á orði að Suðureyjartuðran hefði staðið sig ótrúlega vel þrátt fyrir að vera með fæstu hestöflin en Steini Vitta sagði að það hefði nú bara verið sér að þakka vegna mikillar leikni hans í stjórnun bátsins. Þá hefur því verið komið til skila og verður hver að trúa því sem hann vill helst.
Óneitanlega var það undarleg tilfinning að sjá Ísland hverfa undir sjávarrönd upp úr miðnætti og mikið ósköp er mannskepnan litil í miðju Atlantshafinu, í snertihæð frá sjávarfleti í gúmmíbát með rassmótor. Þetta er yndislega geggjað!
Fuglalíf á leiðinni var með minnsta móti, þó mátti sjá súlu, skúm og lunda auk múkkans. Einn færeyskur línubátur varð á vegi okkar og heldur var skrítinn svipurinn á körlunum þar um borð þegar við renndum upp að þeim þar sem þeir voru að draga línuna.
Enginn lenti í sjónum á leiðinni en litlu mátti muna þegar bakfesting á sæti í einum bátnum gaf sig og Jonni var næstum floginn aftur úr. Heimasmíðaði bekkurinn hjá Suðureyingunum hélt allan tímann og þrátt fyrir háðsglósur annarra leiðangursmanna þá fór vel um mannskapinn þar um borð, að þeirra eigin sögn. Stefna þeir að einkaleyfi á hönnun eldhúskróksins.
Undir morgun risu Vestmannabjörgin úr hafi og eflaust hefðu menn hoppað af kæti og gólað eins og álfar ef þeir hefðu haft krafta til. Menn glöddust hér aðeins hóflega en þó af innileik því sjá mátti fyrir endann á skælingnum.

Hópurinn á góðri stund í Færeyjum. Aftari röð f.v: Snorri Jónsson, Hilmar Kristjánsson, Árni Hilmarsson, Þórir Stefánsson, Erlendur Bogason, Jóhannes Guðmundsson , Þorsteinn Viktorsson, Ólafur Týr Guðjónsson, Baldvin Johnsen, Aldís Gunnarsdóttir, Fremri röð f.v: Friðrik Stefánsson, Pétur Steingrímsson, Einar Sigþórsson, Erling Þór Gylfason, Hjálmar Baldursson, Davíð Guðmundsson, Sigurlína Guðjónsdóttir, Smári Harðarson og Hreinn Pétursson.
Johan Hendrik Winter Poulsen, orðabókin, fyrir utan heimili sitt í Kirkjubæ.


Ekki var þó ástæða til að gleðjast of snemma því margir klukkutímar voru enn eftir. Mikið ári nálguðust Færeyjar hægt. Þegar 10 mílur voru eftir þá kom að því að eitthvað gæfi sig í bátunum eftir alla skellina og lætin sem voru búin að vera nánast alla leiðina frá Höfn. Hnakkurinn í tuðrunni hjá Gunnari kafara losnaði upp og varð að binda hann fastan. Skömmu síðar var kallað í talstöðina „stoppið það er kviknað í hjá okkur“ Allt fór þó vel, rafmagnsvírar höfðu slegið saman og neisti hlaupið í bensínbrúsa. Honum var snarlega hent í sjóinn og vírarnir einangraðir. Það var líka eins gott því ekki gátu menn alls staðar átt von á aðstoð. Um borð í Suðureyjartuðrunni lá við uppþoti, vildu þeir Óli Týr og Davíð snarlega snúa við og veita þá aðstoð sem þeir gætu veitt en Steini Vitta ætlaði vitlaus að verða. „Hvað ætlið þið eiginlega að gera? Pissa á eldinn? Þarna er land, þangað förum við!“ Eftir að upplýst hafði verið að allt væri í lagi um borð og eldur slökktur þá var snúið í átt til lands. Því stutt var eftir í Eiði.

Kaffi og vöfflur á veitingastaðnum í Gjógv.


Landtaka og fyrstu dagarnir
Eiði var fyrsti viðkomustaður og þar tók tollurinn á móti okkur ásamt fjölda Færeyinga, gaf hann grænt ljós á veru okkar í eyjunum. Það hefði tæplega gengið að vísa okkur heim til Íslands aftur eftir 19 klukkustunda ferð. Mannskapurinn var úrvinda af þreytu og sumir voru farnir að rugla og sjá undarlegustu sýnir. Mikið var nú gott að hafa fast land undir fótum. Töluverð sjóriða var í ferðalöngunum og mátti halda að sumir væru út úr drukknir þarna á bryggjunni. Eftir tollskoðun var lagt af stað til Runavíkur þar sem hótelrúm biðu okkar. Eftir að hafa matast þá var langþráður svefn í uppábúnu rúmi kærkominn.

Árni á syðsta odda Færeyja, Akravergi á Suðurey


Ekki er of sögum sagt af gestrisni Færeyinga. Félagar í Bjargingafélagi Norðureyja höfðu haft veður af komu okkar og hringdu því í Himma Nínon, leiðangurstjóra og buðu okkur í útsýnisferð á björgunarbátnum í Klakksvík. Við þáðum auðvitað boðið og bjuggum okkur undir tveggja til þriggja tíma siglingu. Ferðin tók sjö tíma og auk siglingarinnar að Ennibergi þá var stórsteik á Hótel Norð á Viðareyri, nyrsta bænum í Færeyjum. Þaðan er frábært útsýni og gott að vera. Það var merkilegt að skoða Enniberg sem er 750 metra hátt strandberg og það hæsta í Evrópu. Í bjarginu sást varla fugl en fyrir 7 árum var þarna krökkt af langvíu og þá var talið að 25 þúsund fuglar væru í berginu. Eitt vorið kom enginn fugl til baka. Ástæðan er ekki á hreinu en líklegasta skýringin fæðuskortur.

Ótrúlegt hafnarstæði í Gjógv.


Eftir ánægjulegan sunnudag með strákunum í Bjargingafélagi Norðureyja var haldið á hótelið í Runavík þar sem farangurinn var tekinn saman og stefnan tekin á Þórshöfn. Þar tók Birgir í Enni á móti okkur og þar skiptist hópurinn aðeins, sumir gistu í Norðurljósinu, gamalli skútu með þröngum káetum og allt eftir því. Aðrir fengu gistingu í húsi upp í bæ sem Baldvin Harðar, bróðir Smára, á og svo hittist hópurinn alltaf á bryggjunni fyrir framan Norðurljósið þar sem farið var yfir plan dagsins. Ekki er hægt að sleppa því að minnast á Hollendinginn Hank sem var einn á ferð í skútu sinni. Hann tók við spottanum hjá okkur og bauð hverjum snafs við komuna í land. Litla skútan hans varð oftar en ekki samastaður okkar og nutum við einstakrar gestrisni Hollendingsins. Við fræddum hann um Ísland og Vestmannaeyjar og það varð til þess að hann sigldi skútu sinni til Eyja og var kominn fyrir goslokahátíð og hafði bundið við bryggju fram yfir þjóðhátíð.
Mánudagurinn byrjaði á rólegu nótunum, búið var að ákveða að þetta yrði frjáls dagur hjá hópnum en allir myndu hittast og borða saman um kvöldið. Eftir hádegi fóru nokkrir úr hópnum í góða ferð út í Nólsoy en eyjan er rétt fyrir utan höfnina í Þórshöfn. Í Nólsoy búa 250 manns og eru öll húsin þarna að sjá mjög gömul, minnir svolítið á Flatey á Breiðafirði. Hópnum var boðið út í eyna af tveimur ungum mönnum sem við höfðum kynnst þama á hafn arbakkanum en þeir reka ferðaþjónustu og eru með 12 manna tuðru til afnota. Sigldum við i kringum Nólsoy og á einum stað sigldum við í gegnum hana sem var mjög athyglisvert. Frábær ferð. Um kvöldið borðaði hópurinn saman og má geta þess að Einar Sigþórsson fór á kostum þar sem hann sagði sögur af mönnum og furðuverum úr Vestmannaeyjum.

Íslenski fáninn blakti við hún í Hvalba á Suðurey.


Þriðjudaginn 23. júní var siglt af stað til Klakksvíkur kl. 09:00. Þar skoðuðum við bjórverksmiðju þeirra Færeyinga undir öruggri stjóm Símons forstjóra en hann tók vel á móti hópnum. Gengum við í gegnum verksmiðjuna og sáum hvernig framleiðslan fer fram, fengum við að smakka á öllum tegundunum sem framleiddar eru í verksmiðjunni en það eru 16 tegundir af bjór. Í lok ferðar vorum við leystir út með gjöfum, bjór í bátana, bolir og húfur á mannskapinn. Við skoðuðum síðan Fuglaljörð og sigldum svo út að Gjógv.
Gjógv eða Gjótan upp á íslensku er einn af fallegri stöðum sem hægt er að heimsækja í Færeyjum. Áttum við þar góðan tíma þar sem snæddar voru vöfflur með rjóma og drukkið heitt kakó með. Siglt var frá Gjógv að Risanum og Kerlingunni, klettadröngum, og þau skoðuð ásamt mörgum hellum sem urðu á leið okkar. Á leiðinni til Þórshafnar var komið við í Tjörnuvík og á Oyrarbakka og síðan Saltnesi. Ferðin tók 9 tíma.

Suðurey
Allt frá því að ákveðið var að fara í þessa ævintýraferð var það á stefnuskrá Suðureyinganna, Óla Týs, Davíðs og Steina Vitta að heimsækja Suðurey í Færeyjum. Í gegnum Örn Hilmisson og Aniku konu hans höfðum við náð sambandi við Magna Bertholdsen sem búsettur er í Hvalba á Suðurey. Sjálfsagt var að taka á móti okkur og aðstoða með gistingu og annað. Magni hóaði saman nokkrum Íslendingum sem búa á Suðurey og voru allir boðnir og búnir að gera ferðina sem besta og eftirminnilegasta, rétt eins og Færeyinga er háttur. Ekki gekk þó þrautalaust að komast út í Suðurey. Siglingarleiðin þangað er rétt um 40 mílur eða álíka langt og Herj- ólfsferð, Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn. Til stóð að fara af stað snemma morguns, miðvikudaginn 24. júní, en veðurspáin var óhagstæð og því frestuðum við brottför. Einhver stakk upp á því snilldarbragði að sigla bara í skjóli Smyrils, ferjunnar sem fór á milli Þórshafnar og Suðureyjar.

„Við förum ekki af stað nema í blíðu“

Smyrill lagði af stað klukkan 16:00 og þá var ákveðið að leggja í hann. Skemmst er frá því að segja að Himmi Nínon, sem sigldi tuðrunni hans Gunna kafara, náði að hanga u.þ.b. tveimur metrum aftan við ferjuna og komst því þannig vandræðalaust út í Suðurey. Aðrir bátar lentu í rugli! Steini Vitta stýrði á sínum bát og vildi greinilega fá skemmtiferð fyrir allan peninginn, hann lenti í straumröst og hélt sig þar í tvo tíma! Stóri Nínon-báturinn lenti einnig í vondum sjó og 250 hestöflin nýttust lítið við slíkar aðstæður. Snorri Jóns og Smári Harðar sneru sínum bát til baka til Þórshafnar eftir nokkrar flugferðir. Þau lögðu í hann öðru sinni þegar líða tók á kvöldið og gekk þá allt miklu betur. Setningin „Við förum ekki af stað nema í blíðu“ kom vissulega til umræðu þegar allir voru komnir til Hvalba.

Misjöfn voru þægindin um borð.


Það má því segja að ferðin út í Suðurey hafi verið ævintýri útaf fyrir sig og mikið var hópurinn ánægður að sigla að lokum inn í litlu höfnina í Hvalba. Sveinbjörn Daníelsson, Íslendingur búsettur í Hvalba, tók á móti okkur í fjarðarminninu og sigldi með okkur síðasta spölinn. Sveinbjörn var okkur einstaklega hjálpsamur meðan á dvöl okkar stóð. Kaffi og kökur biðu okkar er við stigum á land og fengum við að gista í skólanum í Hvalba. Að morgni fimmtudags komu þeir Suðureyingar á einkabílum sínum og tóku Vestmannaeyingana í skoðunarferð um eyjuna, allt suður að vitanum við Akraberg sem er syðsti hluti Færeyja. Þetta var skemmtileg ferð og margt að sjá. Bjargbrúnin rís fjögur- til fimmhundruð metra og miklar straumrastir skammt undan landi.
Í lok ferðar var okkur boðið í mikla matarveislu í Vogi sem var í boði Íslendinganna á staðnum. Í lok ferðarinnar til Suðureyjar gáfum við Magna, sem fulltrúa Suðureyja í Færeyjum, mynd af Suðurey í Vestmannaeyjum.

Himmi Nínon að reykspóla.


Það er ekki hægt að fjalla svo um Suðurey að ekki sé minnst á sauðfé eða öllu heldur hrútana. Það er bókstaflega hver einasti lófastór blettur hafður undir hrúta. Þar sem þó nokkrir áhugamenn um úteyjafé voru í ferðinni þá var ekki að sökum að spyrja, skýringanna varð að leita, „Hvað hafið þið að gera við svona marga hrúta?“ Ekki stóð á svari, „Þeir eru bestir í skerpukjöt.“ Það hefur reyndar ekki komið fram að oftar en ekki var okkur boðið skerpukjöt, þurrkuð grind og hvalspik. Þessa þjóðarrétti Færeyinga bera þeir á borð með stolti í flestum matarveislum i Færeyjum. Við erum e.t.v. ekki vön þessum réttum og fór hann misvel ofaní leiðangursmenn.

Karlinn í Kirkjubæ og opinber móttaka í Þórsnöfn
Að morgni föstudagsins 26. júní tóku menn saman föggur sínar og ætluðu að flækjast hingað og þangað áður en siglt yrði í einni halarófu til Þórshafnar. Þrátt fyrir að hafa gist í Þórshöfn í tvær nætur fyrr í ferðinni þá átti opinber móttaka að fara fram þennan tiltekna dag og hrein ókurteisi af okkar hálfu að mæta ekki! Veður var dásamlegt og sjólag ágætt.

Móttaka í Götu að þjóðlegum sið.

Siglt var að Litla Dímon og Stóra Dímon. Þar er stórmerkilegur búskapur. Ung hjón með tvö börn búa ein í eyjunni og eru allar nauðsynjar fluttar til þeirra með þyrlu. Þar er því lítil hætta á nágrannaerjum! Einnig var siglt meðfram Sandey og norður undir eyjarnar Kolt og Hest en að lokum fóru þrír bátar í land í Kirkjubæ. Við vorum varla búnir að binda og farnir að teygja úr okkur á bryggjunni þegar eldri maður kemur hjólandi niður á bryggju. Þar var mættur Johan Hendrik Winter Poulsen. Hann er kallaður orðabókin í Færeyjum, fjölfróður um sögu og menningu eyjaskeggja og var með þátt til margra ára um færeysku í útvarpinu að fyrirmynd þáttarins „Íslenskt mál“ sem mikilla vinsælda naut hér á landi á árum áður.

Margt bar á góma hjá Martin Juul og Árna F.v: Árni Hilmarsson, Martin Juul. Sesselja Jónsdóttir, Kristján Hilmarsson, Heiðrún Guðbrandsdóttir, Jónína Kristjánsdóttir, Sæbjörg Helgadóttir

Talar sérstaklega góða og fallega íslensku og var ekki við annað komandi en að líta við heima hjá honum. Hann sagði það mikið lán að fá okkur í heimsókn, hann hafi átt stórafmæli síðustu helgi og fengið ógrynni af koníaki og öðrum eðaldrykkjum og sér entist ekki ævin að drekka það allt saman. Það væri því fallega gert af tuðrumönnum ofan af Íslandi að grynnka svolítið á birgðunum. Eftir að hafa hjálpað karlinum svolítið með koníakið þá var enn siglt af stað og stefnan tekin á Þórshöfn. Þangað sigldum við í fylgd félaga frá björgunarfélagi Þórshafnar og tóku nú við ræðuhöld og lúðrablástur. Þarna bættist við hópinn, nokkrar eiginkonur, ættingjar og vinir að heiman.

Greifinn í Götu og grill í Saurvogi
Laugardaginn 27. júní var siglt frá Þórshöfn öðru sinni og í þetta sinn var ferðinni heitið til Götu. Þar býr öðlingurinn Martin Juul og það má bara ekki spyrjast út að Vestmannaeyingur heimsæki Færeyjar án þess að heilsa upp á Martin Juul. Hann tók á móti okkur af þvílíkum höfðingsskap að það hálfa væri miklu meira en nóg. Samkórinn var mættur á bryggjuna til syngja fyrir okkur við komuna og stiginn var færeyskur dans á bryggjunni.

Auðvitað tókum við þátt enda skrefin ekki flókin. Einar Sigþórsson þakkaði fyrir sig með því að syngja „greiðulagið“ á sinn einstaka hátt og Árni Johnsen söng nokkur lög við góðar undirtektir en hann hafði sameinast hópnum í Þórshöfn. Síðan hélt Martin uppboð á bátsverjum þar sem hann kallaði í kórmeðlimi og aðra félaga og vini á staðnum að þeir skyldu taka hinn eða þennan heim með sér. Gistingin var í heimahúsum vítt og breitt um Nyrðri- og Syðri Götu, okkur að kostnaðarlausu. Þarna undum við í tvo daga, gengum á fjöll, fórum í siglingar með fólk, sleiktum sólina á ströndinni, skutumst í ísferð til Klakksvíkur svo eitthvað sé upptalið. Grillveislur með tilheyrandi gleðskap bæði kvöldin og ekkert til sparað. Aðrir eins höfðingjar og fólkið í Götu eru vandfundnir.

Sauðir úr Suðurey í Suðurey:


Það var því með söknuði sem Martin var kvaddur á mánudagsmorgni en þá var ætlunin að sækja heim Baldvin Harðarson, bróður Smára, en hann býr í Saurvogi á eynni Vágar. Strákarnir á Suðureyjartuðrunni ákváðu að sigla norður fyrir Færeyjar, niður með Vestmannabjörgunum og út í Mykines áður en sest yrði í eina veisluna enn. Baldvin Johnsen og Aldís fengu tuðruna hans Gunna kafara lánaða til að fylgja þeim eftir. Davíð, Óli Týr og Erlendur launuðu gistinguna með því að bjóða húsfreyjunni, Sigvör, með í ferðina og Steini Vitta tók Díönu sína með. Skemmst er frá því að segja að Vestmannabjörgin eru hrikaleg og um leið stórkostleg og ferðin frábær. Reyndar var komin þoka og leiðinlegur sjór þegar siglt var út í Mykines en hver er svo sem að kvarta? Aðrir ferðamenn fóru í rútu í Saurvog frá Götu með viðkomu í Þórshöfn þar sem tuðrurnar voru skildar eftir. Veislan hjá Baldvini var höfðingleg og allir skemmtu sér hið besta. Þegar leið á kvöldið héldu menn aftur til Þórshafnar ýmist í rútu eða á tuðrum, reyndar í svartaþoku alla leiðina.

Lokaorð
Ferðin verður öllum þeim sem hana fóru ógleymanleg. Kemur þar margt til. Löng og ströng sigling, frábært veður í Færeyjum, góðir ferðafélagar, gestrisni og vinarþel Færeyinga, stórkostleg björg og hrikaleg náttúrufegurð. Það er greinilegt að tenging milli eyjaskeggja í Vestmannaeyjum og í Færeyjum er sterk og samhljómur í ótalmörgu. Lífsbaráttan hefur alla tíð verið hörð, náttúran óvægin og duttlungafull og jafnan stutt á milli lífsbjargar og mannskaða. Fólk sem lifir þessa baráttu virðist einnig eiga sameiginlegt að skemmta sér af krafti og með opnu hjarta og njóta samverunnar við náungann út í ystu æsar.
Hver og einn leiðangursmanna á sér án efa minningarbrot sem standa upp úr og ekki er víst að þær séu alltaf hinar sömu. Var það siglingin í kringum Sandey, Kolt og Hest? Siglingin inn í Gjogv? Siglingin niður með Vestmannabjörgum? Eða voru það sögustundir með Einari Sigþórs í skútunni hans Hank? Fiskisúpa Birgis Enni? Móttaka Martins Juul í Götu? Þannig má lengi telja því af nógu er að taka en Færeyingum verður aldrei þakkað nægilega fyrir gestrisni og vinarþel í okkar garð sem af ævintýramennsku einni saman lögðum af stað í sjóferð sumarið 2009. Það er ekki síst vegna þeirra sem ferðin verður ógleymanleg, í okkar huga eru Færeyjar ríkt land, ríkt af kærleik og ást.
Hann er mikill mannauður Færeyinga.

Ólafur Týr Guðjónsson
Pétur Steingrímsson