Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2010/Sigling Adda á Gjábakka VE 220 til Reykjavíkur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÞORBJÖRN VÍGLUNDSSON


Sigling á Adda á Gjábakka VE 220 til Reykjavíkur


Bræðurnir Gunnlaugur og Arnoddur Erlendssynir ráku saman um hríð fyrirtækið Sætak. Þeir era báðir kafaramenntaðir og störfuðu sem neðansjávarverktakar bæði hér í Eyjum og á fastalandinu. Þegar skemmdir urðu á vatnslögnum okkar Eyjamanna vora þeir bræður fengnir til þess að gera við lagnirnar. Ég var svo heppinn að fá að vinna með þeim bræðrum í því sem og öðrum verkefnum samfara minni sjómennsku.
Í desember árið 2003 höfðum við verið í verkefnum hér heima í Eyjum. En svo kom að því að við fengum verkefni fyrir Reykjavíkurborg. Það átti að fara að mynda allar neðansjávar klóaklagnir fyrir borgina sem voru þá svo til nýjar. Báturinn, sem við vorum með, var Addi á Gjábakka VE 220, sem var 27 tonna plastbátur, og var það ágætis bátur að mörgu leyti. Ekki fór reyndar mikið fyrir nýjustu græjum í brúnni en við reyndum að notast við það sem um borð var þó svo að það væri komið til ára sinna. Um borð var eldgamall Raymarine kortaplotter með agalega lélegum sjókortum og töluðum við oftast um að hann sýndi einungis útlínur landsins en í þessu sama tæki var einnig radar, tveir góðir dýptarmælar, sjálfstýring og kompás. Þetta hafði alveg dugað okkur og meira en það því við vorum ætíð að vinna á meðan bjart var og vorum við ekki í neinum úthafssiglingum. Við vorum auk þessa tækja með lítið GPS-tæki sem við brúkuðum við vinnuna á vatnslögnunum.

Addi á Gjábakka VE 220.

Þann 18. desember spáði rjómablíðu og var tekin ákvörðun um að þann dag ætluðum við að nota til þess að sigla bátnum til Reykjavíkur. Samkvæmt veðurspá átti að vera alger stilla um kvöldið og nóttina og var planið að sigla yfir nótt. Addi var þá staddur í bænum og ætluðum við Gunni að sigla bátnum til Reykjavíkur saman og hitta Adda þar og hefja vinnu strax um morguninn.
Seinni part dags héldum við niður í bát með nesti og nóg af kaffi. Á leið út úr höfninni ákváðum við að skipta siglingunni til helminga á okkur og ætlaði Gunni að taka fyrstu vakt og ræsa mig við Reykjanestá. Ég fór beint niður og horfði á fréttatímann og dreif mig svo í koju. Það var örlítill kaldaskítur við Eyjar svo að báturinn valt talsvert fyrsta klukkutímann eða svo. En eftir það datt á þessi rjómablíða sem veðurstofan hafði sagt til um og ég steinsofnaði.
Eftir miðnætti ræsti Gunni mig á vakt því við vorum komnir að Reykjanestá og hálfnaðir til Reykjavíkur. Ég var hálfundrandi á því hversu fljótt við höfðum náð í Röstina því Addinn gekk yfirleitt ekki meira en rúma 7 hnúta. Gunni sagði að sjórinn hafði verið eins og heiðartjörn alla leiðina og stekt fall með okkur svo að báturinn hafði verið að sigla rúma 8 hnúta alla leið. Eftir smáspjall í brúnni fór Gunni niður að leggja sig og ég tók við.

Gunnlaugur Erlendsson áður en lagt var í ferðina.

Þegar við fórum fyrir Reykjanestána þá var fallið svo sterkt að báturinn fór yfir 9 hnúta og var ég að spá í ræsa Gunna til þess að sýna honum hverslags hraðbáti við værum á en leyfði honum frekar að sofa. Enda var ég útsofinn en Gunni orðinn syfjaður og sofnaði nánast strax og hann lagðist á koddann.
En Adam var ekki lengi í paradís því þegar við vorum passlega komnir úr Röstinni þá bætti heldur í sjóinn og hraðinn datt niður í þetta venjulega eða um 7 hnúta. Einnig fór aðeins að bæta í vind og það byrjaði að snjóa. Þegar við vorum staddir fyrir utan Sandvíkina var farið að bæta enn meira í vindinn og báturinn farinn að velta talsvert enda kom vindurinn beint úr vestri og við sigldum í norður og þar af leiðandi með vindinn og ölduna beint á hlið. Eitthvað rumskaði Gunni við það að báturinn var farinn að láta illa en sneri sér á hina hliðina og reyndi að sofna aftur.

Gunni, áður en brælan skall á.

Þegar við vorum komnir aðeins norður fyrir Sandvíkina fór að bæta enn meira í vindinn og snjóaði nú grimmt svo að algerlega varð blint. Báturinn valt vel í þessum aðstæðum enda engin sjóborg og höfðu margir orðið sjóveikir sem unnu með okkur á Addanum. Fljótlega var sjólagið orðið það leiðinlegt að ég fór að beita bátnum aðeins meira í vestur og upp í vindinn. Svo tók ég stefnuna aftur inn til landsins og fór mun betur á því þannig. Mér var nefnilega ekki alveg sama hvernig Gunni svæfi.
Þegar við vorum komnir að Sandgerði var veðrið orðið mjög vont og talsvert mikill sjór. Gunni greyið átti ekki gott með svefn í þessum veltingi en þráaðist við í kojunni í von um að hann næði að rotast. En mér var bara ekki farið að lítast á blikuna og fannst ég svikinn af veðurstofunni með veðrið. Þeir höfðu spáð algeri blíðu en nú vorum við staddir í skítaveðri.
Þegar við vorum fyrir utan Sandgerði hafði Gunni gefist upp í kojunni og var kominn upp í brú, úrillur, ósofinn og langaði í vindil. Við fengum okkur kaffibolla og að reykja og ræddum um veðrið og sjólagið, sem okkur var hreint ekkert farið að lítast á. Við héldum áfram að krossa leiðina eða sigla til skiptist með sjóinn skáhallt á hornið að framan og svo snúa undan. Alger snjóbylur var nú kominn og sífellt bætti í ölduna. Við fórum því að tala um það hvort við ættum ekki bara að renna inn til Sandgerðis og bíða veðrið af okkur þar. Við fórum að gramsa í sjókortunum um borð því kortaplotterinn var jú ekki upp á marga fiska. Við vorum ekki með nein sjókort af þessu svæði og hvorugur okkar hafði nokkum tímann siglt báti inn til Sandgerðis svo að okkur leist ekkert alltof vel á þá hugmynd við þessar aðstæður. Við ákváðum því að halda ferðinni áfram og sigla með sama hætti norður fyrir Garðskaga en þá kæmumst við á lensi inn á Faxaflóa.

Gunni, ósofinn og þreyttur eftir hamagang næturinnar:

Á milli þess að halda sér í stólnum reyndi maður að hella upp á kaffi en það gekk fremur brösulega. Allt var komið á rú og stú um borð í bátnum og það sem ekki var skrúfað eða boltað fast var komið út úr skápum og skúffum og rúllaði um öll gólf. Það kom svo að því að við nenntum hreinlega ekki að tína þetta lengur upp.
Þegar við vorum komnir rétt norður fyrir Sandgerði var veðrið orðið mjög vont og komin alvöru bræla. Snjókomunni hafði slotað aðeins og sá maður fram fyrir stefni á milli þess sem aldan brotnaði yfir bátinn. Við höfðum talað um það í gríni fyrr um nóttina að þetta væri ekki orðið hættulegt fyrr en við gætum ekki kveikt i vindlinum út af veltingi.
En svo gerist það sem fékk hárin til þess að rísa. Þegar við vorum orðnir passlega öruggir um það að veðrið væri sennilega að skána og að það færi ágætlega á þá finnum við hvernig báturinn tekur frekar djúpa bakborðsveltu. Og í sömu andrá skellur brot á bakborðshliðina á bátnum með miklu afli svo að báturinn leggst nánast alveg á stjórnborðshliðina. Ég hafði setið í stólnum stjórnborðsmegin með gluggann opinn og var hallinn á bátnum svo mikill að ég snerti sjóinn með hægri hendinni sem lafði út um gluggann. Gunni hékk á bekknum eins og hann væri í rennibraut og restin af því sem var ekki nógu vel skrúfað eða boltað fast, flaug af stað. Okkur fannst eins og báturinn væri að fara hringinn og flugu einhver blótsyrði út um munnvikin á okkur. En báturinn lagðist ekki meira í borðið heldur var eins og hann færi með öldutoppnum eins og brimbretti. Maður reyndi eins og maður gat að teygja sig í stýrið og stangirnar en hallinn var svo mikill að það tók á. En svona lá báturinn í einhverjar 20-30 sekúndur þar til hann datt aftur yfir og réttist við. Þá var beygt upp í ölduna og slegið aðeins af ferðinni og haldið sjó á meðan við náðum áttum. Við vorum aðeins hvekktir eftir þessa rússibanaferð og manni leið ekkert alltof vel, en það hefði getað farið verr. Vélin hékk í gangi allan tímann og var ótrúlegt hvemig báturinn lagðist um 50-60 gráður en stoppaði þar og rann með öldunni.

Tobbi hress, enda náði hann að sofa fyrr um kvöldið...


Á þessum tímapunkti var bara dólað upp í ölduna og svo siglt aftur að landi. Þessi ferð sem átti að verða þægileg skemmtisigling í góðu veðri hafði heldur betur breyst. „Vitleysingar þarna á veðurstofunni,“ var sagt þarna um nóttina auk annara vel valinna fúkyrða sem fást ekki birt. En svo kom að því að veðrið fór aðeins að lagast og komumst við að Garðskagavita. Sá leggur sem átti að taka okkur um tvo og hálfan tíma hafði tekið okkur rúma átta tíma. Við ætluðum að vera um 16-17 tíma á leiðinni til Reykjavíkur en allt steíndi í rúman sólarhring. En þegar við komumst norður fyrir Garðskaga þá var veðrið orðið með skaplegasta móti og renndum við í rólegheitunum inn til Reykjavíkur og vorum þar passlega þegar vinnudeginum var að ljúka.
Eftir að við komum í land var kíkt á heimasíðu Veðurstofunnar til þess að athuga hvað væri eiginlega að frétta á þeim bænum. Spáin var jú mjög góð en það var sagt að einhver smálægð hefði myndast út af Faxaflóa og hún olli þessum sviptingum í veðrinu. Samkvæmt athugunum þá voru vestan 24 m/s þegar veðrið var verst og kafaldsbylur. Ef veðurspáin hefði sagt fyrir um þetta þá hefðum við aldrei lagt í hann frá Eyjum þennan dag. En það er oft gott að vera vitur eftir á nema að það drepi mann, þá gefst ekki tækifæri til þess að læra af reynslunni.