Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2009/Heilsuátakið um borð í Álsey VE

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SONJA SIF JÓHANNSDÓTTIR Forvarnafulltrúi TM


Heilsuátakið um borð í Álsey VE


Borgþór yfirsmiður líkamsræktarsalarins um borð

Í vetur var tekin ákvörðun um að senda áhöfnina á Álsey VE í heilsuátak. Frumkvæðið átti Sonja Sif Jóhannsdóttir sem hafði unnið að meistaraverkefni sínu hjá útgerðarfyrirtækinu Brimi hf. árið 2007. Verkefnið sneri að heilsu sjómanna en í rannsóknum hennar kom fram að almennt væri heilsufari sjómanna verulega ábótavant. Eftir námið hefur hún haldið áfram með verkefnið og tók nú fyrir strákana um borð í Álsey. Sjómannadagsblaðið heyrði í þeim Sonju, Ólafi Einarsson, karlinum í brúnni á Álsey og mikilvægasta manni hvers skips á sjó, sjálfum kokkinum, Kristófer H. Helgasyni.
Óskastaðan að taka allan flotann i gegn
Sonja vinnur nú hjá Tryggingamiðstöðinni og fellur átak sem þetta undir hennar verksvið. „Já, ég er forvarnarfulltrúi hjá Tryggingamiðstöðinni og þetta er vinnan mín, að vera með heilsueflingu um borð í þeim skipum sem tryggja hjá okkur. Þannig að það eru áhafnir hringinn í kringum landið að gera góða hluti.“
Af hverju Álsey VE? „Ísfélagsmönnum er umhugað um sína starfsmenn, við ákváðum í sameiningu að byrja á einu skipi og Álsey varð fyrir valinu. Vonandi byrjum við á hinum fljótlega. Strákarnir á Álsey eru einstaklega hressir og jákvæðir og því afskaplega gaman að vinna með þeim.“
Hún segir að átakið hjá útgerðinni Brimi hafi gengið mjög vel. „Þetta var mastersverkefni mitt í íþrótta- og heilsufræðum sem bar yfírskriftina „Heilsa sjómanna“. „Ég fylgdi báðum áhöfnum á Guðmundi í Nesi eftir í 6 mánuði, fór með þeim á sjó og markmiðið var að bæta mataræðið í gegnum kokkana og auka hreyfingu þeirra bæði á sjó og í landi. Þetta gekk eftir og niðurstöður voru mjög jákvæðar.“

Hún segir að strákarnir um borð í Álsey hafi verið teknir í alls konar skoðanir og próf áður en átakið hófst. Stefnt sé að því að taka strákana aftur í þessi próf núna fyrir sjómannadaginn. „Það verður fróðlegt að sjá árangurinn þá, því þeir hafa verið mjög duglegir hingaö til.“

Líkamsræktarsalurinn á millidekkinu farin að taka á sig mynd.


En ætlarðu aö taka allan flotann í gegn?
„Já. þaö er óskastaðan, enda veitir ekki af því að efla heilsuvitund sjómanna eins og annarra lands- manna sagði Sonja að lokum og er boðin velkomin heim til tíðindamanns Sjómannadagsblaðsins til að taka hann aðeins í gegn.

Strákarnir duglegir að skjóta hver á annan
Ólafur Einarsson, skipstjóri á Álsey, segir það hafa verið jákvæða þróun fyrir alla um borð að taka þátt í átaki Sonju.

„Þetta var sem sagt þannig að Sonja Sif Jóhannsdóttir setti sig í samband við Ísfélagið í framhaldi af svipuðu verkefni sem hún var að vinna fyrir Brim. Í framhaldi af því, eftir einhverjar fæðingarhríðir, þá er allt liðið hjá okkur tekið í skoðun. Við byrjuðum uppi á spítala þar sem við fórum í blóðfitumælingu, fitumælingu, hjartalínurit, blástur og allsherjar skoðun. Eftir það var svo farið í þrekpróf í Hressó. Eftir það lágu fyrir niðurstöður fyrir hvern og einn. Þegar þessu var lokið fór Sonja yfir niðurstöðurnar, bæði með hópnum og svo hverjum og einum. Mér fannst þetta í raun og veru vera aðalmálið að fá að vita hvar þeir stóðu og svo var það undir hverjum og einum komið hvað þeir gerðu.“

Borgþór Yngvarson og Einar Ottó Högnason hafa lyft fleiri tonnum í vetur. Ein spónaplata í viðbót þótti lítið mál.


Voru allir tilbúnir í slaginn? „Já, það vildu allir auðvitað vita hvar þeir stæðu gagnvart blóðfitunni og því öllu. Svo er auðvitað bara hver og einn sinn einkaþjálfari í þessu. Við byrjuðum í vetur og þetta hefur gengið mjög vel. Sonja tók líka mataræðið aðeins fyrir um borð og hún og Kristó fóru saman yfir mataræðið. Hún kom líka að því að velja tæki í þessa fínu aðstöðu sem við höfum búið okkur um borð. Það eru nokkrir laghentir í áhöfninni og þeir smíðuðu bara líkamsræktarherbergi á millidekkinu. Þar erum við með hlaupabretti, hjól, lóð og æfingastöð. Menn eru auðvitað misduglegir að nýta þetta en þessi tæki eru nýtt. Það er líka pressa á þeim sem fara minnst, það er auðvitað skotið aðeins á þá og svona fjör í kringum þetta. Menn eru ekki að keppa sín á milli en strákarnir eru duglegir að skjóta hver á annan, en allt í gríni auðvitað.“

Í mælingu á Hressó. Anna Dóra Jóhannsdóttir tók strákana á Álsey í þrekpróf en burðarvirki gólfsins í Hressó var kannað sérstaklega áður en prófið fór fram.

Ekkert betra en að fara í ræktina

Óli segir að menn séu ekkert að slaka á þó þeir séu í landi. „Þetta er okkur í sjálfsvald sett, hvað menn gera þegar þeir eru í landi. Við þetta spjall í upphafi og þessi próf þá varð hugarfársbreyting hjá mörgum sem fylgir þeim auðvitað þegar í land er komið. En eins og ég sagði áðan þá er þetta bara undir hverjum og einum komið að hugsa um heilsuna. Það er enginn neyddur til að gera eitthvað sem hann vill ekki.“ Sérðu einhvern mun á mannskapnum? Eru menn duglegri um borð?
„Það er auðvitað svo skammt liðið síðan við byrjuðum og það var svo sem ekkert undan neinu að kvarta varðandi vinnulagið um borð. En maður sér náttúrulega að þarna eru nokkrir sem hafa tekið þetta fastari tökum og hafa virkilega lagt af.“
Óli segir að hann hafi áður upplifað það að vera með svona líkamsræktaraðstöðu um borð og því þekki hann þetta vel. „Það er auðvitað alveg frábært að vera með svona þegar þú ert lengi í burtu, jafnvel einhverjar vikur úti á sjó og jafnvel rólegt yfir veiðunum. Þá er ekkert betra en að geta farið í ræktina og púlað aöeins. En mesta breytingin var mataræðið um borð. Við löguðum það aðeins en sleppum okkur auðvitað aðeins. En við höfum minnkað þetta sósusull eins og var hér á árum áður.“

Hvað með þig persónulega, hvernig finnst þér átakið ganga?
„Fyrir mig var þetta kannski ekkert nýtt. Ég hef alltaf hugað vel að heilsunni, hef hreyft mig þegar ég hef haft tök á og hugað að mataræðinu. En mér finnst þessi hugarfarsbreyting svo jákvæð. Það var nauðsynlegt fyrir okkur að fá utanaðkomandi aðila til að taka á þessu með okkur enda erfiðara fyrir vinnufélaga að segja hver öðrum til. En ég vona auðvitað að þetta sé komið til að vera. Þetta er lífsstíll og nú erum við með aðstöðuna til að halda þessu áfram,“ sagði Óli að lokum.

Hin glæsilega aðstaða um borð í Álsey.

Skerum af hér og þar

Eins og allir vita er mikilvægasti meðlimur hverrar áhafnar kokkurinn en Kristófer Helgason, kokkur um borð í Álsey, fékk aukna ábyrgð í átakinu sem nú er í gangi. Kristó, eins og hann er kallaður, segist hafa fengið marga góða punkta hjá Sonju en áður en að átakinu kom, hafi hann verið meðvitaður um hollar matarvenjur.
„Mér leist strax mjög vel á þessa hugmynd að fara allir saman í átak. Maður var í sjálfu sér ekkert að breyta mjög miklu í eldamennskunni enda hef ég reynt að vera meðvitaður um hversu mikið menn geta leyft sér í góðgætinu. Auðvitað fékk ég punkta um hvað mætti betur fara og við skárum fínt af á matseðlinum. Við minnkuðum t.d. bakkelsi og kex er nánast horfið úr matsalnum. Allt snarl á milli mála hefur líka stórlega minnkað og er nánast horfið. Ég reyni líka að klípa af eins og ég get, tek prósentulægri osta, fituminni mat og við skerum af hér og þar.“

Kristófer segist hafa orðið var við miklar hugarfarsbreytingu hjá skipverjum eftir að átakið fór af stað. „Það er alltaf talað um þetta sem átak en ég vil nú frekar kalla þetta hugarfarsbreytingu. Þetta snýst um að hugsa öðruvísi um mat og vera með öðruvísi áherslur í mataræðinu. Ég held að allir hafi verið sáttir við að prófa þetta enda er þetta sameiginlegt átak. Ætli það séu ekki bestu meðmælin með þessu átaki að nú, nokkrum mánuðum eftir að við byrjuðum, þá er helvítis kokkurinn ennþá um borð,“ sagði Kristó og hló.
Hann segir ennfremur að hugarfarsbreytingin sé vitanlega misjöfn milli skipverja. „Sumir voru auðvitað meðvitaðir um mataræðið á meðan aðrir voru það ekki. Svo taka menn misjafnlega á svona átaki. En við erum t.d. með sjoppu hér um borð og salan þar hefur hrunið. Ég bakaði mun meira en áður og þá var barist um sneiðarnar. En núna er alltaf afgangur ef ég baka.“
Eruð þið þá að leyfa ykkur eitt og annað þrátt fyrir átakið?
„Já, við fáum okkur alltaf eitthvað gott þegar einhver á afmæli. Svo borðum við auðvitað góðan mat um helgar en hann þarf ekkert að vera fitandi. En við leyfum okkur stundum eitthvað gott til að brjóta upp rútínuna, sérstaklega ef veiðar ganga illa.“

Kristófer Helgason, kokkur, við grillið. Sjálfsagt að grilla eitthvað rosalega hollt.

Olíusparnaður í sumar
Kristó segir að aðstaðan um borð til líkamsræktar sé orðin mjög góð. „Nú erum við komnir með líkamsræktarklefa. Hann breytti helling fyrir okkur og hann hefur verið vel nýttur enda góð tæki þarna. Annars er það mín skoðun að mataræðið sé stærsti þátturinn í þessu. Ég gæti trúað að þetta sé 70% mataræði og 30% hreyfing. Menn geta auðvitað alveg sloppið í gegnum daginn án þess að bæta einhverju á sig án þess að taka mataræðið eitthvað sérstaklega í gegn. En menn hér um borð eru mjög meðvitaðir um mataræðið eins og ég sagði áðan. Sem dæmi hefur ávaxta- og grænmetisát aukist gríðarlega, bæði með öðrum mat og sem snarl. Ég vona bara að þessi hugarfarsbreyting sé komin til að vera. Þetta er orðinn hálfgerður lífsstíll og þótt menn fari í land þá hætta þeir ekkert að hugsa út í þessa hluti. En lykilatriði í þessu hjá okkur er að þetta eru engar öfgar. Við löguðum aðeins til í mataræðinu og menn minnka kannski skammtana hjá sjálfum sér.“
Hefurðu orðið var við einhverjar breytingar í kjölfar átaksins?
„Menn eru kannski hressari en kannski helst að það hefur orðið gífurlegur olíusparnaður í rekstri skipsins og stefnir í enn meiri sparnað þar í sumar,“ sagði Kristó að lokum, hlæjandi.

Júlíus G. Ingason