Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Júlíus Hallgrímsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Júlíus Hallgrímsson


Júlíus Hallgrímsson

Júlli Hallgríms, eins og hann er kallaður, fæddist í Sætúni við Bakkastíg 28. ágúst 1921 og verður því 86 ára í ágúst n.k. Hann var annað barn foreldra sinna, þeirra Ástu Jónasdóttur frá Akranesi og Hallgríms Guðjónssonar frá Sandfelli hér í Eyjum. Eldri er Jóna Laufey alltaf kölluð Eyja, fædd 1920. Hún hefur lengi búið í Reykjavík. Fjölskyldan flutti snemma að Grímsstöðum við Skólaveg en það hús byggðu þau Ásta og Hallgrímur. Þeirra naut ekki lengi við, Ásta dó 1923 þegar Júlli var tveggja ára og Hallgrimur 1925. Hallgrímur var skipstjóri og átti vélbátinn Ingólf hálfan á móti Gunnari Ólafssyni á Tanganum. En þetta sumar, 1925, voru þeir Gunnar að láta smíða fyrir sig stærri bát, Geir goða, hérna í Eyjum. Hafði Hallgrímur þá eftirlit með smíðinni ásamt öðrum störfum m.a. að sækja olíu í tunnum til Reykjavíkur. Einhverju sinni á leið þaðan hefur hann fallið útbyrðis og drukknað en ekki er vitað með hvaða hætti. Hann var einn í stýrishúsinu þegar vélstjórinn fór fram í að laga kaffi en þegar hann kom til baka var Hallgrím hvergi að fínna. Júlli man því ekkert eftir foreldrum sínum. Lífið fór því hörðum höndum um þau systkinin Eyju og Júlla þegar þau voru lítil börn. Þegar Ásta dó, kom Vilhelmína, systir hennar, þá tæplega tvítug, strax frá Akranesi og tók að sér heimilið. Þau Hallgrímur felldu hugi saman, giftust og eignuðust dótturina Ástu 1924.

Net við Hlíðarveg.

Hún hefur eins og Eyja lengi verið búsett í Reykjavík. En Hallgríms naut ekki lengi við eins og áður hefur komið fram. Sambúð þeirra varð því stutt. Vilhelmína tók þá að sér að ala upp þau systkinin, þrjú, til fullorðinsára, fyrst á Grímsstöðum, síðan á Þingeyri við Skólaveg eftir að hún hafði skipti á því húsi og Grímstöðum við Sigurjón Sigurðsson, skip stjóra og síðar fisksala. Ein kom Vilhelmína börnunum til fullorðinsára, án utanaðkomandi hjálpar, eins vel og kostur var á. Með heimilisstörfunum vann hún í fiski eins og tök voru á til þess að framfleyta þeim. Júlli segir að Vilhelmína, sem hann kallaði alltaf mömmu, hafi algjörlega fórnað sér fyrir þau systkinin meðan þau höfðu þörf fyrir. Hann segist vera, ævilangt, í mikilli þakkarskuld við hana. Bernskuárin voru góð og þeim leið öllum vel. Oft, eftir skóla, á daginn, var að sjálfsögðu farið á bryggjurnar, í beitu skúrana og annað þar sem eitthvað um var að vera. Þar var leikvöllurinn og því ekki mikill tími í heimalærdóminn, eins og gengur, hjá frískum strákum á barnaskólaaldri. Raunar mátti engum tíma fórna í hann. Það var þá ung, glæsileg kona, Auður Guðmundsdóttir frá Hrafnagili, sem bjargaði málunum. Hún varð síðar eiginkona Lýðs Brynjólfssonar skólastjóra. Auður var þá afgreiðslustúlka í Vísi, verslun, þar sem Stefán skósmiður er núna, á horni Brekastígs og Skólavegar. Eftir skóla á daginn, áður en haldið var á bryggjurnar, mættu þeir jafnaldrarnir og vinirnir, Júlli og Óskar Matt., sem átti heima á Byggðarenda skammt frá þarna við Brekastíginn, hjá Auði með heimadæmin sín og héldu svo sína leið. Þegar ævintýri dagsins voru liðin, komu þeir aftur í Vísi til Auðar sem var auðvitað búinn að reikna allt fyrir þá sem með þurfti og stundum sitthvað fleira sem skila átti í skólann næsta dag. Þá var eftirleikurinn hægur. En það versnaði stundum laglega í því þegar Halldór Guðjónsson, skólastjóri, fór sjálfur að kanna snilli þeirra félaga uppi við töflu í skólanum. Þá fataðist þeim stærðfræðiflugið svo um munaði þannig að hrapi var nær.

Starfsmenn Nets. Efri röð f.v.: Július Hallgrimsson, Guðjón Magnússon, Finnbogi Ólafsson. Fremri röð f.v.: Óskar Haraldsson, Sigfús Sveinsson, Hallgrimur Þóróarson, Þórður Sveinsson.


Strax, fimm ára gamall, fór Júlli í sveit á sumrin að Byggðarhorni sem var stórbýli á milli Stokkseyrar og Selfoss. Húsbændur voru Ingibjörg Sigurðardóttir og Gissur Gunnarsson. Fjölmenni var á heimilinu, börnin vom sextán, yngstur Sigurður (Siggi Gissurar) sem margir muna hérna í Eyjum. Þekktur borgari hér til margra ára. Júlli segir að þau hjónin og öll börnin þeirra hafi tekið sér einstaklega vel líkt og hann væri þeirra eigin sonur. Viðurværið var allt eins og best varð á kosið. Engu til sparað í þeim efnum. Bústofninn var um 300 ær, 20 kýr og svipað af hrossum. Strax, veturinn eftir fermingu, bauð Sigurður Gunnarsson á Tanganum Júlla vinnu í Lifrarsamlaginu. Þar var unnið á tveimur vöktum allan sólarhringinn, frá sjö á morgnana til sjö á kvöldin og frá sjö á kvöldin til sjö á morgnana. Vikulega var skipt á vöktum og var kaupið 225 krónur á mánuði. Hann gat því fljótt farið að létta undir með heimilisrekstrinum á Þingeyri. Þarna var Júlli á veturna og áfram í sveitinni á sumrin til sextán ára aldurs að sjómennskan hófst. Fór hann þá norður á síld á Leó, sem var 39 tonn að stærð, með Þorvaldi Guðjónssyni (Valda Guðjóns) föðurbróður sínum, kunnum aflamanni hér í Eyjum til margra ára. Þeir vom sextán um borð á snurpunót með tvo nótabáta í eftirdragi. Kojuplássið var ekki meira en það að tveir voru um hverja koju. Hann var svo áfram með frænda sínum á veturna á trolli og síld á sumrin. Árið 1943 fór hann á stýrimannanámskeið Fiskifélags Íslands hér í Eyjum. Það var haustmánuðina og gaf 120 tonna skipstjórnarréttindi. Sumarið eftir var Júlli með Hrafnkel goða á síld norðanlands og svo stýrimaður hjá Júlíusi Sigurðssyni (Júlla í Skjaldbreið) á Þorgeir goða sem oft var kallaður draugurinn, trúlega af því að skrokkurinn og lunningarnar voru svartar á litinn. Þeir voru á trolli á veturna og síld fyrir norðan á sumrin. Hann var líka með Júlla á Garðari sem Gísli Magnússon átti. Og áfram á honum með Óskari, syni Gísla, og líka á Álsey eftir að þeir feðgar eignuðust hana. Þegar úthaldi á Álsey lauk og til miðs árs 1947, í rúmt ár, var Júlli á togaranum Skallagrími RE 145. Hann var gamall síðutogari, 403 tonn, gerður út frá Reykjavík og átti Kveldúlfur (Thorsaramir) skipið. Júlli var eini Vestmannaeyingurinn þarna um borð og líkaði vel. Fiskað var í ís og oftast siglt með aflann á England. Ágætis frí voru þá því aðeins fjórir hásetar sigldu hverju sinni. Hinir áttu frí. Aflabrögðin voru misjöfn eins og oft vill verða, gat fiskiríið tekið allt að 16 dögum. Þegar Helgi Helgason fór nýr á síld í júlí 1947, réðist Júlli þangað. Þetta var síldarleysissumar en þeir á Helga Helgasyni voru aflahæstir þótt úthaldið byrjaði seint hjá þeim. Um það leyti sem því lauk, í byrjun september var Elliðaey, fyrri togari Bæjarútgerðar Vestmannaeyja að koma nýr frá Englandi til Eyja og réðist Júlli þangað um borð og var þar í nokkur ár. Oftast var siglt með aflann á England og Þýskaland en seinni árin voru farnir svokallaðir skraptúrar þegar landað var ísfiski hér heima og síðar var ýmist verið á salti - eða ísfiskveiðum. Þarna var gott að vera á nýju og glæsilegu skipi. Mikil umskipti voru til hins betra frá Skallagrími og bátunum sem Júlli hafði verið á, sérstaklega varðandi íbúðir og vinnuaðstöðu. Eftir togaramennskuna fór Júlli aftur stýrimaður á bátana fyrst á Ver og síðan á Jötun. Þá var róið með línu og net. Það var svo í nóvember 1956 þegar Júlli og fjölskylda voru nýflutt í nýbyggt húsið sitt að Heiðarvegi 54 að hann veiktist illa, fékk blóðtappa í vinstri fótinn. Hann var strax fluttur til Reykjavíkur og þaðan til Danmerkur þar sem gerð var aðgerð á honum milli jóla og nýars. Það bætti ástand hans til muna en aldrei síðan hefur hann náð sér að fullu. Að læknisráði hætti hann þá til sjós. Milli úthalda hafði Júlli unnið í netum hjá Ingólfi Theodórssyni og eftir áfallið allt árið til 1963. Þá urðu þáttaskil. Það ár stofnuðu þeir vinnufélagarnir hjá Ingólfi Júlli, Óskar Haraldsson mágur hans og Finnbogi Ólafsson veiðarfæragerðina Net h/f. Starfsemin byrjaði á Geirseyri í húsi útgerða Bergs og Kap. Þar var aðallega unnið að uppsetningu og viðgerðum á nótum. Þarna unnu oftast um 10 menn. Fljótt hófu þeir félagar byggingu húss undir starfsemina við Hlíðarveg. Þangað var flutt 1966 í myndarlegt og gott hús. Árið 1968 fóru, þeir nokkrir félagarnir frá Neti, til Boston í Bandaríkjunum og þjónustuðu íslensk skip sem stunduð þar síldveiðar. Óskar Haraldsson dó snöggt og fyrirvaralaust árið 1985 og varð öllum, sem hann þekktu, harmdauði. Þá varð uppstokkun í félagsskapnum. Bræðurnir, synir Júlla, Hallgrímur og Haraldur, netagerðarmeistarar og synir Óskars, Haraldur, netagerðarmeistari og Hörður, viðskipta fræðingur eignuðust fyrirtækið og eiga það enn. Bræðurnir og Haraldur höfðu frá því þeir byrjuðu að vinna starfað þar. Árið 1995 keyptu þeir netaverkstæði Njáls og Sigurðar Inga á Eiðinu. Síðan hefur starfsemin verið á þessum tveimur stöðum. Vinna við botn- og uppsjávartroll er á Hlíðarveginum og nótavinnan á Eiðinu. Júlli vann þarna fram yfir áttrætt, síðustu misserin hálfan daginn og enn mætir hann á hverjum degi til sona sinna og annarra starfsmanna í kaffi og spjall um daginn og veginn. Það er hressandi og alltaf er eitthvað að frétta.
Hinn 24. mai 1947 giftist hann Þóru Haraldsdóttur frá Nikhól hér í Eyjum. Þau áttu fyrst heima á Hásteinsvegi 56 hjá Brynjólfi Guðlaugssyni og Rósu Stefánsdóttur og frá 1956 í eigin húsi, Heiðarvegi 54, sem þau byggðu og þar er Júlli núna einn. Þau eignuðust tvo drengi Hallgrím 1946 og Harald 1947. 1966 urðu þau fyrir mikilli sorg þegar þeim fæddist andvana dóttir. Þóra dó 1991 og hefur Júlli verið einn í húsinu síðan. Hann segist eiga einstaklega góða fjölskyldu, strákarnir, tengdadæturnar og barnabörnin vilji allt fyrir hann gera. Þrátt fyrir háan aldur og erfiðisvinnu lengst af þar sem hann gaf aldrei neitt eftir, er hann æði vel á sig kominn. Eins og margt frændfólkið hans frá Sandfelli er hann léttur, líflegur og kátur maður sem á auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á flestum málum. Þess vegna hefur öllum liðið vel í návist hans bæði á sjó og landi æði langa starfsævi, fyrr og síðar.

Frár brytjaður í brotajárn.