Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Hugvekja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Steingrimur Ágúst Jónsson


Hugvekja


Steingrímur Ágúst Jónsson

Sjómannsferill minn er ekki langur, spannar aðeins tvö og hálft sumar. Þó tel ég mig hafa ýmislegt lært á þeim tíma sem hefur dugaö í lífinu til þessa dags.

Aðeins nýorðinn sextán ára hélt ég í fyrsta túrinn á gömlum síðutogara. Sá var ekki mikið fyrir augað en happafleyta og heimur minn sumarlangt. Ég steig inn í heim sem ég hafði einungis heyrt af en upplifði nú. Fjarvera frá fjölskyldu og vinum var ný reynsla og í þeirra stað var hópur af ókunnum mönnum sem deila þurfti kjörum með. Samheldni og vingjarnleiki, þessa kosti fékk ég að reyna því ekki var ég burðugur í fyrstu. Mér var vel tekið, hjálpað, kennt og strítt, allt í því jafnvægi að í minningunni er þetta góður tími.
Eitt af því, sem ég lærði, var að stýra eftir áttavita. Skipstjórinn sagði mér til (þarna var ekki sjálfstýring) og ég fékk að spreyta mig. Mér fannst ég bara ná nokkuð góðum tökum á stýrinu en eftir dágóða stund tók hann mig með sér aftur á keis og sýndi mér kjölfarið, það var allt í hlykkjum. Hann sagði að núna skipti það ekki máli en stundum væri um líf og limi að tefla að geta stýrt beint.
Seinna, á leið úr sölutúr, ég og annar háseti á stímvakt, skipstjórinn búinn að segja nákvæmlega til um stefnuna og vara okkur við bauju neðst í fljótinu. Hann bregður sér frá. Við vorum ekki eins nákvæmir og hann því allt í einu birtist baujan og við stefnum beint á hana. Ekki veit ég hvernig en baujan leið fram hjá án þess að snerta skipið. Við töluðum lengi um þetta og vissum að það var ekki árvekni okkar og samviskusemi sem hafði bjargað.
Áratugir líða. Eg átti samtal við aldraðan mann sem orðinn var lúinn og saddur lífdaga. Hann talaði um það að nú væri kominn tími til að kveðja þennan heim. Ég spurði hvort hann væri tilbúinn að mæta skapara sínum og hvort hann hefði gert Jesú að leiðtoga lífs síns. Það birti yfir honum og hann sagði af festu, að sem ungur maður hefði hann tekið þá stefnu og ákvörðun og það hefði ekki breyst síðan. Ég kynnti mér lífsferil þessa manns og komst að því að hann hefði verið farsæll í lífinu, ekki án áfalla en án þess að missa fótanna á hálli braut lífsins.
Það skiptir máli að setja sér stefnu í lífinu og að feta hana af samviskusemi. Engin lífsstefna er farsælli en sú sem Jesús Kristur setur fram. Að elska Guð og virða og að meta náungann eins og sjálfan sig með því að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Sá, sem hefur þessa lífsstefnu, mun sigla örugglega fram hjá ýmsum þeim hættum sem okkur eru búnar í lífinu. Lífíð verður aldrei þannig að ekki gefi á og móti blási. En, ef við höfum með okkur þann, sem er eins og skipstjóri, sem þekkir leiðina, getum við siglt lífsfleyinu af öryggi gegnum lífsins ólgusjó og náð að lokum eilífðarströndum.
Margir ætla að þeir geti kúvent begar hættan birtist framundan og þannig bjargað sér en aftur er þar lærdómur frá sjómennskunni. Skipið þarf sinn tíma til að bregðast við, það getur verið of seint að snúa ef ekki hefur verið gætt að hvert leiðin liggur.
Lífið er dýrmætt og við berum ábyrgð gagnvart okkur sjálfum og ástvinum okkar. Því er nauðsynlegt að gá að hvert sú leið liggur sem við höfum valið. Er hún vís til farsældar og blessunar fyrir þá sem hana fara? Jesús Kristur kennir okkur lífsveginn m.a. á bennan hátt í Jóhannesarguðspjalli 17:3: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Ég bið sjómönnum bess að beir verði farsælir í starfi og einkalífí. Að þeir komi heilu og höldnu að landi og að þeir nái að stýra lífi sínu, sjálfum sér og ástvinum til farsældar.
Drottinn blessi sjómenn og ástvini þeirra.
Steingrímur Ágúst Jónsson
Forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar í Vestmannaeyjum