Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Þættir úr þróun íslenskra fiskiskipa
Nýlega kom út bókin, Þættir úr þróun íslenskra fiskiskipa, eftir Hjálmar R. Bárðarson, skipaverkfræðing, skipaskoðunarstjóra 1954 - 1970 og siglingamálastjóra 1970 - 1985. Útgefandi er Völuspá útgáfa ehf. á Akureyri. Í stórum dráttum er í þessari bók rakin gerð íslenskra fiskiskipa frá áraskipaöld til seinni tíma. Það er mikill munur á hinum gömlu skarsúðuðu fiskiskipum bændasamfélagsins og síðari tíma skipum. Þessi munur sést vel í þessari bók þar sem fyrst og fremst er rætt um þróun íslenskra fiskiskipa þau rúm 30 ár sem höfundur var skipaskoðunar - og siglingamálastjóri frá 1954 til 1985. Þar kemur fram að fyrsti plankabyggði báturinn var Emma VE 219, 16 brúttórúmlestir, sem faðir höfundar, Bárður G. Tómasson, fyrsti íslenski skipaverkfræðingurinn, hannaði og smíðaði á Ísafirði 1919. Þessi smíðaaðferð var líka kölluð sléttsúð eða kantsett hér í Eyjum.. Upphaflega átti Johan Reyndal í Vestmannaeyjum þennan bát en lengst af áttu Emmu þeir Björn Bjarnason í Bólstaðarhlíð og Eiríkur Ásbjörnsson báðir í Vestmannaeyjum. Eyjólfur Gíslason á Bessastöðum var með Emmu í 9 ár, mikill sjósóknari og aflamaður, sem aldrei hlekktist á, á þessum litla báti. Hann réri á línu og netum á veturna og snurvoð á sumrin. Eyjólfur sagði oft að Emma væri listaskip.. Hún var talin ónýt og brennd 6. janúar 1968. Þar lauk farsælli siglingu, þessarar happafleytu, eftir nær hálfa öld lengst af á Eyjamiðum.
Í bókinni er sagt frá upphafi skipasmíða fyrir Íslendinga í Austur - Þýskaland. Þar voru 50 fiskiskip smíðuð á árunum 1957 til 1967, 75 til 268 tonn að stærð, öll eftir teikningum Hjálmars. Þau dreifðust á hinar ýmsu hafnir landsins og reyndust mjög vel. Í nafnaskrá yfir þau í bókinni sést að 10 þeirra hafa átt heimahöfn hér í Vestmannaeyjum um lengri og skemmri tíma og reyndust öll vel. Þess má líka geta að Lóðsinn okkar, sem kom nýsmíðaður frá Vestur - Þýskalandi 1961, var eftir teikningum og smíðalýsingu Hjálmars. Hann var seldur héðan árið 2000 eftir góða reynslu af honum í tæp 40 ár.
Á auðskilinn hátt er stöðugleiki skipa kynntur. Hleðslutilvik síldarskips frá sjöunda áratugnum útskýrð þannig að auðvelt er að sjá hvað um er að ræða við hinar ýmsu aðstæður um borð. Fyrir tilverknað Hjálmars varð Ísland fyrst Norðurlanda að taka upp stöðugleikaútreikninga á nýjum fiskiskipum. Það varð tilefni þess að kennsla í stöðugleika var aukin í stýrimannaskólunum svo nemendur gætu betur notfært sér stöðugleika- gögnin um borð í skipunum sínum.
Í seinni hluta bókarinnar er ítarefni til frekari fróðleiks. Þar er margt gagnlegt og fróðlegt að finna sem höfundur miðlar til lesenda af þekkingu og reynslu sem hann öðlaðist í mikilvægum störfum í áraraðir til öryggis íslenskum sjómönnum.
Í bókinni er fjöldi mynda, margar héðan úr Eyjum, frá Sigurgeiri Jónassyni, ljósmyndara. Þær eru ekki síst skemmtilegar fyrir okkur hér í Eyjum en þar má sjá nokkra af austurþýsku bátunum okkar í innsiglingunni fyrir eldgosið. Af þeim sést hvernig Ytri höfnin var eitt öldurót alveg að hafnargörðunum þegar austanbrælur voru. Og á kápu er mynd af Ófeigi 2. VE 324 á leið til hafnar í brælu, glæsileg mynd.
Undirritaður fagnar útkomu þessarar bókar og óskar höfundi til hamingju með hana.
Hún hlýtur að vera kærkomið lesefni eldri sjó - og útgerðarmönnum sem vel muna bátana og skipin frá þeim tíma sem efni bókarinnar nær yfir. Og þeir yngri hafa ábyggilega gaman af að kynnast efni hennar.
Það var þarft verk að skrifa og gefa út þessa bók. Myndir og efnið allt er áhugavert, vel fram sett og vel úr garði gert.