Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Íslenskur skipasmiður í Ástralíu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ELÍAS J. FRIÐRIKSSON


Íslenskur skipasmiður í Ástralíu


Elías J. Friðriksson.

Árið 2005 dvaldi ég ásamt fjölskyldu minni í eitt ár í borginni Perth á vesturströnd Ástralíu. Meðan á dvöl okkar stóð, kynntumst við manni að nafni Gunnar Víkingur og konu hans Margaret. Gunnar er skipasmiður og á skipasmíðastöð sem smíðar sannkallaða lúxus smábáta sem einungis er á færi vellauðugra að eignast.

Á NORÐFIRÐI
Gunnar fæddist í Reykjavík 1954 en foreldrar hans fluttust til Norðfjarðar ári síðar og ólst Gunnar þar upp til 15 ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan til Perth. Gunnar er elstur átta alsystkina en fyrir hafði móðir hans átt 3 börn. Móðir hans, Guðrún Einarsdóttir, eignaðist því 11 börn og það á aðeins 15 árum. Faðir Gunnars, Gunnar Matthías Þórarinsson, var lærður skipasmiður og starfaði sem slíkur á Norðfirði.
Þegar Gunnar var að alast upp á Norðfirði, var þar mikið líf og fjör. Um þetta leyti voru góð síldarsumur og allt snerist um að salta síld. Í bænum voru 6 eða 7 síldarplön og var Gunnar mikið að þvælast á þeim og fylgjast með. Hann varð síðan fljótt þátttakandi í atvinnulífinu. Ellefu ára byrjaði hann að vinna á Pósthúsinu og Símstöðinni sem bréfberi með skóla og á hverju sumri, frá 11 ára aldri til 15 ára aldurs, fór hann í sveit á sumrin að Krossi í Berufjarðarsveit. Fjölskyldan stækkaði ört á þessum árum og eignuðust foreldrar hans næstum því barn á hverju ári frá 1954 til 1964 og því æði líflegt á heimilinu.

Gunnar Víkingur, íslenskur skipasjmiður í Perth.

Til Ástralíu
Milli 1960 og 70 var mikil eftirsókn eftir faglærðu fólki til starfa í Ástralíu. Þetta varð til þess að mjög margar fjölskyldur fluttust þangað héðan frá Íslandi. Þau hjónin Guðrún og Gunnar ákváðu að flytja með allan krakkaskarann til Ástralíu. Fóru þau því, 10 manna fjölskyldan, til Perth á vesturströnd Ástralíu og komu þangað í febrúar 1969.
Þetta varð, eins og vænta mátt, mikil breyting fyrir fjölskylduna og reyndist töluvert erfitt fyrir alla að aðlagast í byrjun. Smátt og smátt aðlagaðast þó fjölskyldan lífinu þar syðra. Eftir stutta skólagöngu í Ástralíu, fór Gunnar fljótlega að vinna, fyrst til að byrja með við byggingar en 16 ára gamall fór hann að læra skipasmíðar hjá sama fyrirtæki og pabbi hans vann hjá í Perth. Aðallega voru skemmtibátar smíðaðir en einnig var einn og einn humarbátur smíðaður í þessari skipasmíða- stöð. Allir voru þessir bátar smíðaðir úr plasti.

SKIPASMÍÐASTÖÐ
Árið 1982 stofnaði Gunnar sína eigin skipa smíðastöð. Fyrst í stað byrjaði hann að gera við báta en síðan fór hann að smíða skemmtibáta fyrir fólk á Perth svæðinu. Einnig vann fyrirtæki Gunnars, sem undirverktaki, fyrir stærri skipa smíðastöðvar sem smíðuðu stórar snekkjur sem seldar voru til Evrópu og Ameríku. Gunnar smíðaði þá yfirbyggingarnar úr plasti og sá stundum um innréttingarnar í þær. Upphaflega ætlaði Gunnar að smíða bátana úr áli og skýrði því fyrirtækið sitt VIKAL, þ.e. þrír fyrstu stafirnir úr eftirnafni sínu en tveir þeir síðustu með skírskotun til áls. Hins vegar hefur aldrei verið smíðaður bátur úr áli hjá Gunnari heldur hafa allir hans bátar verið smíðaðir úr plasti.

Myndirnar sýna framleiðsluna hjá Vikal skipasmíðastöðinni.


Árið 1993 komst Gunnar í kynni við mann sem var mjög frægur fyrir teikningar og hönnun á snekkjum. Það varð til þess að Gunnar var fenginn til að smíða tvo smábáta fyrir mann sem var með 70 metra langa snekkju í smíðum. Oft eru snekkjurnar svo stórar að þær fá ekki hafnarpláss, einnig vilja eigendur þeirra vera út af fyrir sig og vilja ekki leggja snekkjum sínum í höfunum. Smábátarnir eru því notaðir til að ferja eigendur og gesti þeirra milli snekkjanna og lands. Smábátarnir verða því að vera í samræmi við lífsstandard eigendanna og glæsi- leika snekkjanna. Þessir tveir bátar, sem Gunnar smíðaði í byrjun, voru mjög vel heppnaðir, gríðarlega vandaðir og vöktu mikla athygli.

Vikal, skipasmíðastöð Gunnars Víkings.

Upp frá þessu fóru hjólin heldur betur að snúast hjá Gunnari og hefur hann síðan eingöngu unnið við að smíða þessa glæsismábáta fyrir snekkjur auðkýfinga. Bátarnir, sem eru á bilinu 8 til 19 metra langir, eru með öllum hugsanlegum þægindum og eru með frágang eins og í dýrustu bílum. Það má með sanni segja að þeir séu sannkallaðar fljótandi limmósínur. Gríðarleg vinna fer í hvern bát og nefnir Gunnar sem dæmi að í átta metra langan bát fari u.þ.b. 20 þús. vinnustundir. Eru bátarnir algjörlega unnir frá upphafi til enda í skipasmíðastöð Gunnars, allt frá því að steypa skrokka bátanna upp í það að bólstra sæti þeirra. Við smíði þessara báta þarf oft að finna lausnir á ýmsum óskum kaupendanna, t.d. um aðgengi fyrir hjólastól og einn vildi að hægt væri að aka Range Rovernum úr snekkjunni í bátinn. Sumir vilja, t.d. að bátamir opnist að framan svo hægt sé að ganga beint úr þeim upp á strönd.

Hluti af innréttingu í lúxus skemmtibáti.


Hjá Gunnari vinna 40 til 50 manns að staðaldri en starfsmannafjöldinn hefur jafnvel farið upp í 100 manns. Verkefnastaða fyrirtækisins er mjög góð og undanfarið hafa þeir verið að smíða báta fyrir fólk í Hollywood, Mexikó, Rússlandi og Arabíu.

Skemmtibátur frá Vikal.

ÖLL FJÖLSKYLDAN í ÁSTRALÍU
Gunnar er kvæntur og á þrjú börn. Honum finnst taugin til Íslands sterk og kemur nokkuð oft til Íslands núorðið og heldur góðum tengslum við ættingja sína og vini hér. Móðir og systkini Gunnars búa öll í Perth utan einn bróðir sem býr í Adelaide. Faðir hans er fallinn frá. Gunnar talar frábæra Íslensku enda tala þau systkinin alltaf saman á gamla móðurmálinu. Þeim hefur öllum gengið vel og starfa við hinar ýmsu atvinnugreinar í atvinnulífinu, hafa tveir bræður hans starfað mikið hjá honum í skipasmíðastöðinni.
Gunnari finnst gott að vera Íslendingur í Ástralíu og finnst honum Ástralir og Íslendingar vera líkir að sumu leyti. Hann nefnir því til stuðnings að þegar tvítugur sonur hans dvaldi hér um nokkurra mánaða skeið, fyrir nokkrum árum, hafði hann orð á því þegar hann kom til baka að honum fyndist sem Íslendingar væru líkari sér að mörgu leyti en Ástralir.
Það var ánægjulegt að kynnast Gunnari og fjölskyldu. Þetta er vinalegt og elskulegt fólk. Skömmu áður en við, fjölskyldan, héldum til Íslands, bauð hann okkur í sumarhús sem þau hjónin eiga skammt fyrir sunnan Perth. Þar áttum við góða helgi með Gunnari og Margaret á frábærum stað í fallegu umhverfi. Áður höfðum við verið í heimsókn á fallegu heimili þeirra í Perth ásamt öðrum Íslendingum sem þar búa. Þar er allt með miklum myndarbrag eins og allt annað í kringum Gunnar Víking. Í skipasmíðastöð hans er allt til fyrirmyndar svo eftirtekt vekur hjá þeim sem þangað koma.
Þessu var öllu ánægjulegt að kynnast.
Elías J. Friðriksson.

Hann er glæsilegur þessi.