Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Tvær ferðasögur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
VALMUNDUR VALMUNDSSON



Tvær ferðasögur



Valmundur Valmundsson

Forsaga fyrri ferðarinnar, sem hér verður sagt frá, er sú að norskur maður keypti Suðurey VE 500 af Ísfélagi Vestmannaeyja.Suðurey hét í upphafi Álsey VE 502 og var afhent nýsmíðuð frá Slippstöðinni á Akureyri í mai 1973. Eigandi var Einar Sigurðsson útgerðarmaður og var þetta fimmta skipið sem Slippstöðin smíðaði fyrir hann á árunum 1970 til 1973. Hún var úr stáli 147 brl. með 765 hestafla MWM aðalvél. Allar íbúðir, eldhús og borðsalur voru í afturskipinu en frammi í voru eingöngu geymslur fyrir veiðarfæri og varahluti. Árið 1980 var byggt yfir hana í Skipalyftu Vestmannaeyja og tókst vel. Skipstjóri í upphafi til 1981, var Ólafur M. Kristinsson, núverandi hafnarstjóri Vestmannaeyjahafnar. Þá var róið með troll, þorskanet og einnig farið á loðnu og síld. Hraðfrystistöð Vestmannaeyja var sameinuð Ísfélagi Vestmannaeyja undir nafni Ísfélagsins í janúar 1992 og 19. mai það ár fékk hún nafnið Suðurey og einkennisstafina VE 500. Jóhann Halldórsson útgerðarmaður keypti hana 1. nóvember 1995 og gerði út, lengst á snurvoð, lítilsháttar á troll og net. Haraldur Sverrisson var þá með bátinn. Ísfélagið keypti hana aftur 30. mai 2002 og átti til ársloka þess árs þegar Norðmaðurinn Ketil Thorsen keypti hana. Ketil ætlaði að nota hana til þess að búa í og starfa en hann vinnur fyrir alþjóðaráðgjafafyrirtækið Accenture.
Áður en farið var héðan frá Eyjum, lét Ketil innrétta svefnklefa, bað og hreinlætisaðstöðu frammi í skipinu en eldhúsið og borðsalinn aftur í ætlaði hann að nota áfram. Öll spil, nema akkerisspilið, voru tekin úr skipinu hér en við fórum með trollspilin út.

Álsey VE 502 kemur nýsmíðuð frá Akureyri 1973

Eftir ýmsar aðrar lagfæringar hér í Skipalyftunni, sem gengu vel, var lagt úr höfn hinn 13. mars 2003 og var ferðinni heitið til Gluckstadt í Þýskalandi með viðkomu í Esbjerg á vesturströnd Jótlands í Danmörku. Í áhöfn voru: Undirritaður, skipstjóri, Halldór Jón Andersen, stýrimaður, Jón Einarsson, vélstjóri og Davíð Einarsson, vélavörður. Allir kokkuðu eftir því hvernig á stóð með önnur störf. Í Esbjerg seldi Ketil togspilin og ýmislegt dót frá skipinu var skilið þar eftir. Eftir stutta dvöl í Esbjerg var haldið suður með Danmörku til Þýskalands upp fljótið Elbu til Gluckstadt, Lukkustaðar, eins og fyrirhugað var. Gluckstadt er á bakborða þegar siglt er upp Elbuna nærri miðja vegu milli árósa hennar og Hamborgar. Gluckstadt var meðal viðkomustaða Guðríðar Símonardóttur og annarra leysingja, á leiðinni úr ánauðinni í Alsír til Kaupmannahafnar eftir Tyrkjaránið 1627. Þegar við nálguðumst áfangastaðinn og sigldum inn fyrir hafnarmannvirki, áttum við von á að þar væri höfn og bryggja fyrir innan en þar var einungis árbakkinn sem við áttum að leggjast að. Dýpið var ekki meira en það að við urðum að jugga Suðureynni fram og til baka til þess að koma henni upp að bakkanum og það tókst að lokum. Þar gengum við frá henni eins vel og okkur var unnt og segja má að vel hafi farið um hana að öðru leyti en því að hún stóð þarna föst á mjúkum botni. Sjávarhæðin þarna inni var alltaf sú sama í lokaðri dokkinni. Ferðin hafði gengið vel enda ákjósanlegasta veður alla leiðina.

SEINNI FERÐIN

Það var svo í ágúst 2003 að Ketil hafði samband við undirritaðan og Jón, vélstjóra, og bað okkur að koma til Gluckstadt og sigla Suðureynni með sér til Stokkhólms þar sem henni væri ætlaður framtíðarstaður. Við ákváðum að slá til þrátt fyrir að ástandið á skipinu gæti verið miður gott vegna þess að Ketil hafði ekki sett aðalvélina í gang síðan við skildum við hann í mars. Jón hafði kennt honum það áður en við skildum en hann hafði ekki kjark til þess enda aldrei komið nálægt slíkum vélum. Eftir smá undirbúning héldum við til

Suðurey VE 500 ex Álsey seld til Svíþjóðar 2003 eftir 30 ár á Eyjamiðum

Kaupmannahafnar laugardaginn 13. september og tókum eiginkonurnar með, Björgu Baldvinsdóttur konu undirritaðs og Þórlaugu Steingrímsdóttur konu Jóns einnig kom með Arnheiður Pétursdóttir, Heidi, frænka Þórlaugar. Þegar við höfðum komið okkur fyrir á hóteli við Istegade, var farið að skoða borgina í blíðskaparveðri. Um kvöldið voru tónleikar Stuðmanna í Tívolí en uppselt var löngu áður og þangað komumst við ekki. En seinna um kvöldið náðum við í miða á ball hjá þeim í næturklúbbnum Anton. Það er ábyggilegt að enginn hinna 1200 gesta, sem þar voru, hafi orðið fyrir vonbrigðum. Allir virtust skemmta sér mikið vel. Óhætt er að segja að þarna hafi verið stemming eins og best gerist á íslensku sveitaballi og það úti í Kaupmannahöfn. Þeir félagarnir í Stuðmönnum stóðu sig frábærlega og þegar við yfirgáfum klúbbinn um þrjúleytið voru þeir enn á fullu. Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur með 20 stiga hita. Eftir hádegið kom Ketil til okkar á hótelið og með honum var Svíi, Jesper Pettersen að nafni. Hann átti að vera stýrimaður í ferðinni, menntaður navigator hjá sænska hernum.

AFTUR TIL GLUCKSTADT
Fljótlega var lagt af stað, í góðum bíl, suður til Þýskalands og Gluckstadt. Þangað var komið á sunnudagskvöldinu eftir ánægjulega ferð. Suðurey hafði tekið nokkrum stakkaskiptum frá því við skildum við hana. Öll nýmáluð að utan og búið var að hreinsa allt af millidekkinu og mála þar allt. Strax var hafist handa við að undirbúa skipið fyrir siglinguna og var unnið fram á nótt. Jón og Ketil voru í vélinni, við Jesper yfirfórum tækin í brúnni og skipulögðum fyrirhugaða ferð eftir kortum og loggbókum. Konurnar tóku til hendinni og þrifu vistarverur, eldhús og borðsal hátt og lágt og kom þá í ljós að þær voru hin efnilegustu messaefni til sjós. Morguninn eftir, mánudagsmorgun, var störfum haldið áfram við undirbúning ferðarinnar. Skipt var um smurolíu á öllum vélum og sett í gang og ekki bar á öðru en aðalvélin og báðar ljósavélarnar möluðu eins og ánægðir kettir. Ketil og Jesper fóru með messaguttunum í land til að kaupa kost til ferðarinnar og eitthvað af drykkjar-vörum því heitt var í veðri. Um hádegið kom sá sjöundi úr áhöfninni um borð, þýskur skipstjóri, Hans Baudsus, maður á sjötugsaldri og ætlaði hann að lóðsa okkur um Kílarskurðinn. Hann hafði unnið um sumarið við að skvera millidekkið á Suðurey. Þar með má segja að áhöfnin hafi verið orðin nokkuð fjölþjóðleg, Norðmaður, Svíi, Þjóðverji og fimm Íslendingar. Ekki nóg með það, Heidi er að einum fjórða Dani og Björg að einum fjórða íri.
Hans hafði verið á þýskum togurum á Íslandsmiðum og átti góðar minningar um land og þjóð, sérstaklega um Vestmannaeyjar. Árið 1970 slasaðist hann og var hér á Sjúkrahúsinu í þrjár vikur. Minntist hann þess sérstaklega hvað allir voru boðnir og búnir að létta honum dvölina þrátt fyrir tungumálaerfiðleika. Smalað var saman bókum á þýsku og blik kom í augu hans þegar hann talaði um allar fallegu stelpurnar á Sjúkrahúsinu.

SIGLT Á KÍLARSKURÐl

Eigandinn og skipstjórinn ræða saman. F.v.: Ketill Thorsen og Valmundur Valmundsson

Um klukkan 16.00 var allt orðið klárt og var þá lagt í hann. Það tók um klukkustund að mjaka Suðureynni frá árbakkanum. Í fyrstu haggaðist hún ekki en með smá skakstri fram og aftur hafðist að koma henni út í fljótið. Þá tók við tveggja tíma sigling niður eftir Elbu til Brunsbuttel sem er við suðvesturenda Kílarskurðarins. Þar var lagst að bryggju, fyllt upp af olíu og síðan beðið næsta morguns því betra er að sigla Kílinn í björtu þá er minni stórskipaumferð en á nóttunni. Eftir mat, á ágætu veitingahúsi í Brunsbuttel, var tappa skotið úr kampavínsflösku og skálað fyrir fyrirhugaðri siglingu næsta dag.
Það var svo þriðjudaginn 16. september kl. 06.00 að landfestar voru leystar í Brunsbuttel og haldið áleiðis í gegnum Kílarskurðinn. Svartaþoka var og sást varla fram fyrir stefni, kom sér þá vel að radarinn var í góðu lagi og siglt var á hægri ferð.
Kílarskurðurinn er 250 metra breiður þar sem hann er breiðastur en mjókkar niður í 50 metra. Alls konar þrengingar eru á allri leiðinni og þar er siglt eftir umferðarljósum sem stjórnað er frá radarstöðvum í landi. Þar gildir yfirleitt sú regla að stærri og djúpristari skip hafi forgang. Þegar leið á morguninn, létti þokunni. Skrítið var að sjá bílaumferð rétt við borðstokkinn og fólk á göngu í góða veðrinu. Það var létt að sigla þarna um undir öruggri stjórn Hans hins þýska. Kl. 12.30 komum við til Kílar við norðausturenda skurðarins. Þar biðum við í lásnum í hálfa klukkustund meðan okkur var slakað niður um einn og hálfan metra. Hans Baudsus fór nú frá borði og hélt til síns heima. Það var ánægjulegt að kynnast þessum ágæta aldna sjómanni og kvöddumst við með virktum.

TIL STOKKHÓLMS

Í Kaupmannahöfn á leið til Þýskalands. F.v.: Arnheiður, Þórlaug, Jón, Valmundur og björg að niðurlotum komin eftir búðarráp

Siglingin norðaustur Kílarfjörðinn var skemmtileg, mikil umferð stórra skipa og seglskútna. Vegna þess hve illa sést fram fyrir stefni á Suðureynni, þurftum við að vera á útverði uppi á brúarþaki í traffíkinni. Það var nokkuð stífur suðvestanvindur og unun var að fylgjast með seglskútunum og siglingahæfni þeirra. Manni fannst þær nánast geta siglt beint upp í vindinn og ekki þvældust þær fyrir þarna á afmarkaðri siglingaleiðinni norðaustur úr skurðinum. Það var gott skyggni og vel sást yfir til Þýskalands og Danmerkur. Eftir þrif á efra þilfari var slegið þar upp grillveislu um kvöldið í stafalogni og nærri 20 stiga hita svo enginn hélst við neðan þilja fyrr en undir miðnætti en þá hafði kólnað og við komin í sænska landhelgi.
Um sjöleytið morguninn eftir vorum við komin að norðurenda eyjarinnar Bornholm. Þar krussuðu háhraðaferjur fyrir okkur á 40 hnúta hraða en við vorum á okkar 10. Enn var mjög gott veður, sól og hiti og var deginum eytt í ýmis störf svo að allir höfðu nóg að starfa. Um klukkan 15.00 komum við að aðskildu siglingaleiðunum undan suðurodda Ölands. Þar var mikil umferð í báðar áttir. Við sigldum þar þvert yfir til að stytta okkur leið og gekk það vel. Þó þurftum við að stoppa nokkrum sinnum til að víkja fyrir skipum. Eftir að við vorum komin yfir aðskildu leiðirnar, flaug strandgæslan yfir og kallaði á okkur. Þeir héldu að við værum norskt fiskiskip, þekktu fánana ekki betur en það blessaðir. Þeir vildu vita hvaðan við værum að koma og hvert ferðinni væri heitið. Því var svarað greiðlega og var okkur þá tilkynnt að við mættum búast við heimsókn frá strandgæslunni og tollinum þegar við kæmum til Stokkhólms, þar væri hert eftirlit eftir morðið á utanríkisráðherranum, Önnu Lindt. Að lokum báðu þeir okkur að tilkynna okkur við innsiglingarbaujuna í skerjagarðinn.

Veðrið hafði leikið við okkur alla leiðina en undir morgun, fimmtudaginn 18. september, fór að blása af vestsuðvestri, aftan á bakborðshornið. Ekki var nú betur sjóbúið hjá messaguttunum en svo að allt fór af stað í eldhúsi og borðsal, þar brotnuðu könnur og diskar en ekkert alvarlegt á ferðinni. Til sjós gengur þetta ekki eins fyrir sig og í eldhúsinu heima. Suðurey bar sig vel í brælunni en valt nokkuð vegna þess að aldan kom aftan til á hornið. Vindur var um 10 til 15 m á sek. og það kalla Svíarnir storm.Viðvaranir gullu sífellt við í stöðinni enda margir smábátar og skútur á ferð. Um klukkan 13.00 komum við að Almagrunnvitanum, þar byrjar stórskipaleið í gegnum skerjagarðinn til Stokkhólms. Við vorum búnir að setja siglinguna, í gegnum skerjagarðinn, út í korti og í siglingartölvuna og reyndist hún vera um 62 sjómílur. Stefnubreytingarnar í kortinu eru 42 en hafa líklega verið á annað hundrað þegar upp var staðið. Nú tók við sigling innan um sker og eyjar, fallegasta sigling sem við höfðum upplifað. Á flestum eyjum og skerjum er byggð og sagði Jesper okkur að þarna væri dýrt að búa og að efnamenn ættu yfirleitt alla hólmana sem eru fjöimargir af öllum stærðum. Á sumum rúmast varla meira en einn húskofi.

Hægra megin við borðið eru frá vinstri Valmundur, Jesper Petterson, Ketil Thorsen og Hans Baudsus. Man einhver eftir honum á Sjúkrahúsinu hér í Eyjum 1970?

Dýpið á siglingaleiðinni kom á óvart, frá 70 og niður fyrir 100 faðma dýpi. Jesper styrimaður sagði okkur frá því að þegar hann var í sænska flotanum, hefði hann margoft lent í leit að rússneskum kafbátum í skerjagarðinum. Það er ekki skrítið að þeir hafi ekki fundist, leiðirnar, sem hægt er að fara, skipta þúsundum og dýpið víðast mjög mikið svo að víða var hægt að leynast. Við trúðum því varla að Rússarnir hefðu verið að laumast þarna á tímum kalda stríðsins en Jesper fullyrti að svo hefði verið þó þeir hefðu ekki náð neinum. Létum við gott heita því maðurinn var traustur og engin efni til að rengja hann. Við mættum fjöldanum öllum af skipum og mörg sigldu fram úr okkur. Við vorum á stórskipaleið. Það var tignarlegt að sjá stóru ferjurnar og skemmtiferðaskipin ösla fram úr okkur eða mæta þeim á 30 hnúta hraða og kannski ekki nema 10 metrar á milli. Klukkan 21.00 um kvöldið var lagt að bryggju í Stokkhólmi. Tollarar komu um borð og voru forvitnir um ferðir okkar og sérstaklega hvað Ketil ætlaðist fyrir með skipið. Þeir fengu greið svör og voru allir pappírar snarlega stimplaðir í bak og fyrir. Að því loknu bauð Ketil allri áhöfninni upp í gamla bæinn í Stokkhólmi þar sem etið var og drukkið fram eftir kvöldi. Daginn eftir fórum við Íslendingarnir í bílaleigubíl til Vexjö, til vina okkar sem þar búa, gistum eina nótt og héldum síðan yfir stóru brúna til Kaupmannahafnar og þaðan heim 20. september.Þá voru liðnir átta dagar frá því við komum þangað frá Íslandi á útleið.

Við Jón, vélstjóri, höfum tvisvar sinnum farið til Stokkhólms eftir þessa ferð til þess að vinna um borð í Suðureynni sem nú er komin á sænska skipaskrá. Enn heitir hún Suðurey. Ketil fannst að nafnið ætti að haldast á henni enda fallegt gott íslenskt skipsnafn. Það er orðin mikil breyting á hlutverkum hjá þessu ágæta skipi frá því það var fiskiskip hér í Eyjum í 30 ár og til dagsins í dag þar sem hún er íbúð og vinnustaður eigandans þegar hann dvelur við störf í Stokkhólmi. Þegar hann er annars staðar gætir maður hennar og er sá jafnframt að innrétta millidekkið þar sem komið verður fyrir ýmiss konar aðstöðu m. a. sánaklefa. Samstarf og viðskipti við Ketil Thorsen voru öll hin ánægjulegustu og gott er að vita af Suðureynni í höndum hans. Með siglingakveðju.

Valmundur Valmundsson