Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Starf vélstjórnarbrautar Framhaldskólans 2005-06
Á vorönn 2005 voru 11 nemendur við nám á öðru stigi vélstjórnar og luku 6 þeirra námi með ágætisárangri.
Raftækjavinnustofan Geisli veitti eins og undanfarin ár, við útskrift úr öðru stigi, vandaðan fjölsviðsmæli í verðlaun fyrir bestan árangur í rafmagnsfræðigreinum og hlaut þau að þessu sinni Ágúst Halldórsson. Skipalyftan verðlaunaði með diggitalskífmáli fyrir bestan árangur í málmsmíði og hlaut Ágúst þau einnig. Vélstjóraúrið frá Vélstjórafélagi Vestm. fékk Gunnar Bergur Runólfsson. Færum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir höfðinglegar gjafir sem eru nemendum og skólanum hvatning til betra starfs.
Karl G. Marteinsson sem verið hefur burðarás vélstjórnarbrautarinnar í 25 ár eða frá árinu 1980, lét af störfum eftir vorönnina. Færum við honum bestu þakkir fyrir frábært og óeigingjarnt starf hans í þágu vélstjórnarmenntunar í Vestmannaeyjum.
Haustönnin var sett þann 22. ágúst og brá þá svo við að allt of fáir, eða einungis þrír nemendur, voru skráðir til náms á 1. stig vélstjórnar svo að ekki var grundvöllur til að fara af stað með það nám þetta haustið en 1. stig er yfirleitt aðeins kennt á haustönn. Hins vegar voru 7 nemendur skráðir í grunndeild rafiðnaðar og var þeim þrem, sem hugðu á nám til vélstjórnar, gefinn kostur á að taka rafmagnsfræðiáfanga vélstjórnarbrautarinnar sem P nemendur og lauk einn þeirra honum. Kennarar við grunndeildina eru Guðjón Jónsson og Jón Á. Ólafsson auk undirritaðs. 2 nemendur voru á öðru stigi og lauk annar þeirra því. Í fjarnámi til þriðja stigs, sem er í samstarfi Fjöltækniskóla Íslands og Framhaldsskólans, voru 4 nemendur. Í grunndeild rafiðna luku 6 nemendur áföngum sínum á þessari önn sem lauk þann 17. des.
Vil ég hvetja þá, sem hugsa sér að stunda nám í vélstjórn eða ná sér í fagréttindi, til að sækja tímanlega um skólavist þar sem mjög bagalegt væri fyrir okkur hér í Eyjum ef þessi möguleiki til réttindaöflunar félli niður í Vestmannaeyjum. Vorönnin hófst svo þann 4. jan. 2006 og hafði verið ákveðið að kenna 1. stig vélstjórnar í fyrsta skipti á þeirri önn vegna fjölda umsókna. 13 nemendur stunda það nám, tveir nám á öðru stigi og fjórir eru í fjarnámi þriðja stigs auk þess sem 20 nemendur 10. bekkjar eru í valáfanga í málmsmíði.
Nám á vélstjórnarbrautinni er nokkuð fjölbreytt, vélar eru gangsettar og framkvæmd bilanaleit, farið er yfir vinnslumáta og uppbyggingu vélanna, auk vélakerfa og helsta vélbúnaðar, hann tekinn í sundur og skoðaður auk þess sem farið er yfir daglegan rekstur hans. Í rafmagnsfræðinni er farið yfir helstu lögmál raffræðinnar, lestur teikninga, gerðar mælingar og tilraunir auk bilanagreiningar. Í málmsmíðinni eru æfingar með handverkfærum, smíðaðir ýmsir minni hlutir og æfingar eru í log- og rafsuðu auk þess sem farið er yfir uppbyggingu, meðferð, umgengnis- og varúðarreglur verkfæra sem notuð eru. Á önninni fóru nemendur, ásamt kennara, um borð í togarann Sunnu KE, skoðuðu þar vélarnar og vélbúnaðinn ásamt frágangi á rafmagnstöflu o.fl. Til stendur að fara einnig venjubundna æfingaferð með Herjólfi. Tveir fulltrúar nefndar þeirrar, sem er að endurskoða allt verknám í landinu, komu til Eyja og var skipst á skoðunum við þá um hvernig því námi væri best fyrir komið.
Mikil vöntun er á tækni- og iðnmenntuðu fólki á vinnumarkaðnum í dag og því góðir atvinnu- og tekjumöguleikar á þeim vettvangi. Rétt er því að benda ungu fólki á að skoða þennan möguleika vel. Að endingu óska starfsmenn Framhaldsskólans sjómönnum auðnu og farsældar um ókomna tíð og til hamingju með daginn.