Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Klipperinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
FRIÐRIK ÁSMUNDSSON


Klipperinn


Þegar gufuskipin hófu siglingar á 19. öldinni, ógnuðu þau tilveru seglskipanna gömlu sem stolt sigldu um úthöfin. Útgerðarmenn þeirra leituðu þá leiða til þess að halda rekstri þeirra áfram og til varð klipperinn. Klipper er komið af ensku sögninni, „to clip“, að klippa eða skera og er skírt svo vegna þess að þegar önnur skip lyftust á öldu og sigu í öldudali, klauf klipperinn, skar hana í sundur. Skrokkurinn var straumlínulagaður, fínn kassastuðull, og stefnið hvasst. Klipperinn var alltaf þriggja mastra og seglabúnaðurinn var geysimikill, allt miðað við að gera hann sem hraðskreiðastan. Hverju mastri fylgdu ferköntuð rásegl og milli þeirra var komið fyrir eins mörgum stagseglum og hægt var. Fram á bugspjótið var jagari og klýfar. Á aftasta mastri var gaffalrá með segli (messa).



Dagleg störf um borð í klipper

Það var rétt fyrir miðja 19. öldina sem smíði klipperanna hófst í Bandaríkjunum í Nýja - Englandi og New Orleans og í Englandi við Clyde fljótið og í Aberdeen. Þeir voru frá 500 tonnum að stærð til þess stærsta, Great Republic, sem var 4357 tonn. Í léttum byr náðu þeir 5 til 6 sjómílna hraða og þegar bætti í vind 12 til 14 sjómílna hraða og dæmi var um allt að 18 sjómílna hraða. Frægasta sigling klippers er talin vera þegar Flying Cloud sigldi 374 sjómílur á 24 tímum, 15,6 sjómílur að jafnaði á klukkustund. Þetta var í ferð frá New York til San Francisco á tæpum þremur mánuðum sem þótti með ólíkindum.

CUTTY SARK

Cutty Sark var breskur klipper. Smíði hans lauk 26. nóvember 1869 hjá Scott og Lintons í Dumbarton við Clydefljótið í Skotlandi. Stærðin var 2133 tonn og lengdin var 85,33 m. Hann var fyrst í tesiglingum frá Kína en frá 1883 til 1895 í ullarsiglingum frá Ástralíu og sigldi fyrir Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku og setti hraðamet á þeirri leið þegar hann kom á leiðarenda eftir 72 daga siglingu. Seglin, rásegl, stagsegl, jagari, klýfar og messi voru 34, alls um 3 þúsund fermetrar.

Benedikt Sæmundsson, vélstjóri, frá Fagrafelli hér við Hvítingaveginn, búsettur á Akureyri til fjölda ára (f. 7.okt. 1907-d. 3.okt. 2005, nærri 98 ára),sjá minningargrein á bls. 91). Árin 1995, 1996, 1998, 2000, 2003 og 2004 birtust ljóð eftir hann í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja

Árið 1895 hætti útgerðin rekstri hans vegna samkeppni við gufuskipin og var hann þá seldur til Portúgals. Síðar keypti enskur skipstjóri hann og gaf bresku stjórninni árið 1922. Hann er nú eini klipperinn af nokkur hundruðum sem smíðaðir voru á seinni hluta 19. aldar og er varðveittur í upprunalegri mynd í þurrkví í Greenwich í London frá 10 desember 1954. Þangað kemur árlega fjöldi ferðamanna að skoða þetta glæsilega seglskip og um þessar mundir hafa 15 miljónir manna lagt leið sína þangað í þeim tilgangi.

Teikning af Cutty Sark með öll segl uppi

Heimildir
Skipabók Fjölva
The Story of Cutty Sark eftir Frank G. G. Carr
Ferðabœklingar um Cutty Sark.


Sjómannadagsblað Vestmannaeyja