Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Kojuvaktin
Eins og kunnugt er, var Björgunarfélag Vestmannaeyja stofnað 1918. Helsta markmið þess var að kaupa og reka björgunar - og varðskip fyrir Vestmannaeyjar. Þetta gekk eftir og fyrsta björgunar - og varðskip Íslendinga, Þór, kom til Vestmannaeyja 26. mars 1920 og tók til starfa h. 27.
Eftirfarandi útdráttur fannst nýlega, í skjölum Vestmannaeyjahafnar, um störf Þórs, að hluta, fyrsta árið 1920
Sunnud. 28. mars. Botnvörpungurinn Maclay GY 1113 frá Grimsby staðinn að ólöglegum veiðum í landhelgi við sandana. Samin skýrsla um brotið og gefin bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum.
Fimmtud. 1. apríl. Tekinn mótorbátur með netahnút og dreginn til lands (undir Eiðið). Gott veður.
Mánud. 5. apríl. M/b Njáll tekinn með bilaða vél fyrir sunnan Bjarnarey og dreginn inn á Víkina. Veður N. stinningskaldi.
Laugard. 10. apríl. Lagt af stað til Reykjavíkur. Teknir 33 farþegar og póstur.
Í Reykjavík. Sett í skipið loftskeytatæki. Tekið fullt skipið af vörum, 13 pokar af pósti og 13 farþegar, loftskeytamaður, símaviðgerðarmenn og telegrafkabel. Lagt af stað til Eyja h. 20.
Í Vestmannaeyjum. Unnið að viðgerð á sæsímanum frá 23. apríl til 3. maí (incl) þá lokið viðgerðinni og farið með símamennina til Grindavíkur.
Haldið uppi símasambandi með loftskeytatækjum milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur frá 21. apríl til 2. mai (incl).
Haldið til á fiskimiðunum fyrir vestan Eyjarnar og litið eftir bátum og veiðarfærum 6. - 11. mai (incl).
12. mai Teknir 90 til 100 farþegar og póstur og lagt af stað til Austfjarða. Farþegar settir á land á
Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Seyðisfirði. Þaðan farið til Hellisfjarðar.
17. - 19. mai (incl) Unnið við að ná upp baujum og legufærum í Hellisfirði og Mjóafirði. Lagt af stað til Vestmannaeyja h. 20. Og þangað komið 21.
Mai 21. Tekið í Vestmannaeyjum full lest af tómum tunnum 20 til 30 farþegar og póstur og haldið af stað til Reykjavíkur. Þangað komið h. 22. Og skipinu lagt upp.
Að þetta sé samhljóða dagbók skipsins, vottar Friðrik V. Ólafsson stýrimaður.
Þegar skipið kom til Reykjavíkur 22. mai, hefur eftirfarandi verið tekið saman um kolaeyðslu skipsins og skv. henni hefur hún verið tæp 2 tonn á sólarhring.
Mars 26. Eftir í skipinu þegar komið var til Vestmannaeyja 62 smál. kol.
Apríl 17. Teknar í Reykjavík 39 smál. kol.
Apríl 18. Teknar í Reykjavík 5 smál. kol.
Mai 7. Teknar í Vestmannaeyjum úr m/b Skaftfellingi 10 smál. kol.
Samtals: 116 smál. kol
3. mai. Losaðar í land í Vestmannaeyjum (til
bakarans) 1, 5 smál
22. mai: Eftir í skipinu þegar komið var til Reykjavíkur c.a. 1,5 smál.
Öll kolaeyðsla skipsins frá 26/3 - 22/5 113 smál.
113 : 57 dagar = 1,98 eða tæpar 2 smál pr. dag.
ÞESSU TIL VIÐBÓTAR.
Í þetta blað, 1989, ritaði ritstjórinn um Björgunarfélag Vestmannaeyja, m. a. eftirfarandi:
„Kl. 5 síðdegis h. 26. mars 1920 kom Þór í fyrsta skipti til Vestmannaeyja eftir vont veður á leiðinni. Mörg fyrstu ár Björgunarfélagsins var haldið upp á þann dag sem afmælisdag þess.
Um störf skipsins til miðs árs 1926, þegar ríkið eignaðist hann er þetta til. Þar vantar tvö fyrstu árin. Skip tekin í landhelgi 65, sektir samtals kr. 490 þús., þar fyrir utan afli og veiðarfæri gerð upptæk. Á sama tíma fór hann 80 sinnum að leita að bátum og dró 40 í land með 200 til 300 manns. Auk þess flutti hann oft vörur og fólk og þegar sæsíminn slitnaði voru loftskeytatæki skipsins notuð til að ná sambandi í land. 1920 var kostnaður við útgerð skipsins 84 þús. og greiddi bæjarsjóður hann. Eftir það greiddi bæjarsjóður 40 þús. á ári til miðs árs 1926. Alls veitti bæjarsjóður 450 þús. til þessa starfs. Andvirði sekta og landhelgisbrota námu stærri upphæð eða 490 þús og svo aflinn og veiðarfærin, sem allt rann í ríkissjóð. Ríkið hefur því stórgrætt á skipinu meðan það var í eigu Vestmannaeyinga. Hlutverk Þórs var líka að gæta veiðarfæra Eyjabáta fyrir ágangi erlendra veiðiþjófa, bar það góðan árangur. Hann hífði oft upp netahnúta sem bátarnir réðu ekki við. Allt kom það í veg fyrir mikið afla - og veiðarfæratjón. Á vetrarvertíðinni 1921 var skipslæknir á Þór. Var það vegna slasaðra og sjúkra sjómanna sem kynni að verða bjargað. Þegar Björgunarfélagið hætti rekstri Þórs 30. júní 1926 og ríkið yfirtók reksturinn, var gerður samningur sem skuldbatt ríkið til þess að hafa varð-og björgunarskip stöðugt hér á vetrarvertíðum. Gekk svo til þar til við eignuðumst Lóðsinn 1961. Þau urðu endalok Þórs að hann strandaði á Sölvabakkaskerjum í Húnaflóa 21. desember 1929. Mannbjörg varð en skipið ónýttist. Nýting skipsins hér var einstæð. Hann var fyrsta björgunar - og varðskip Íslendinga og fyrsta hafrannsóknarskipið. Koma hans hingað til Eyja var upphaf mjög merks mannúðarstarfs.
Hinn 9. júní 1979, sem bar upp á sjómannadag, var vígður minnisvarði sem Björgunarfélagið lét gera í Friðarhöfn. Froskkafarar höfðu náð skrúfunni af skipinu. Hún var lagfærð og komið fyrir á hlöðnum stalli. Landhelgisgæslan gaf áletraðan skjöld, um þennan frumherja, sem komið var fyrir á stallinum.“
Í þessu blaði í fyrra var, í KOJUVAKTINNI, sagt frá LEIÐARVÍSI FYRIR MATSVEINA Á ÍSLENSKUM FISKISKIPUM, sem Útgerðarmannafélag Reykjavíkur gaf út 1909.
Til viðbótar því sem þar er, er eftirfarandi m.a.
l. Hrísgrjónagrautur úr vatni. Þegar vatnið sýður í pottinum, eru grjónin látin út í með dálitlu af salti, og látið sjóða eins og áður er sagt. Handa 18 mönnum þarf 4 pd. af hrísgrjónum.
2. Saltkjöt. Brytja skal 9 pd. af saltkjöti, vel vötnuðu, nokkuð smátt, og láta í pottinn, ásamt 6-8 kartöflum, 3 stórum laukum og dálitlum pipar (0,5 teskeið). Hella síðan í vatni, en ekki meira en svo að vel fljóti yfir. Kartöflurnar skal flysja hráar í köldu vatni og láta í pottinn ásamt lauknum, flysjuðum og smásöxuðum. Piparinn skal láta í 0,5 stundu áður en tekið er ofan. Þess skal vandlega gætt að hafa ekki vatnið í pottinum meira en svo, að vel fljóti yfir svo vatnið verði nærri því soðið burt þegar tekið er ofan.
3. Saltkjötssúpa. Kjötið er lagt í vatn þegar þess er þörf og þvegið tvisvar í heitu vatni. Þegar sýður, er kjötið látið út í með grjónunum (mjölinu) og soðið þangað til að það er orðið meyrt. Í saltkjötssúpu ætti helst að láta dálítið áf rófum eða káli. Ef kjötið er svo salt að súpan verði of sölt, má sjóða nokkuð af kjötinu sér. Handa 18 mönnum þarf 2 pd. af grjónum.
4. Nýr fiskur. Þegar búið er að verka fiskinn vel, skal skera hann í nokkuð þykk stykki, skola þau því næst úr köldu vatni (sjó) og láta þau í pottinn þegar vatnið (sjórinn) sýður. Þegar beinin eru laus í fiskinum, skal taka pottinn ofan og hella í hann dá-litlu af köldu vatni (sjó). Þá verður fiskurinn fastari í sér.
NAUÐSYNLEG ÁHÖLD O.S.FRV.
Aldrei ætti að nota pokastriga til að þvo eða þurrka matarílát eins og hefur tíðkast því að þá verða þau loðin af hárum. Í stað þess ætti að hafa hörléreftsþurrkur, eins og 0,5 - 0,75 al. á stærð. 4 slíkar þurrkur í senn. 2 kaðalþurrkur (þvæla), 2 pottþyrla (mjólkurþyrla), 2 pottsköfur, 1 fiskspaða, 1 ausu og 2 litla bursta stórgerða (eldhúsbursta).
Matsveinninn gæti þess ávalt að vera hreinn um hendur. Svuntu úr smágerðum striga ætti hann að bera framan á sér þegar hann er við matreiðslu. Aldrei ætti hann að vera við fiskidrátt meðan hann er við matreiðslustörf.