Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Hugvekja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SÉRA FJÖLNIR ÁSBJÖRNSSON



Hugvekja


Eitt sinn var Jesús á gangi meðfram Galíleuvatni, þá sá hann tvo bræður sem voru að kasta neti í vatnið en þeir voru fiskimenn. Þetta voru bræðurnir Símon Pétur og Andrés. Hann kallaði til þeirra og sagði þeim að fylgja sér og þá myndi hann kenna þeim að veiða menn. Þeir stóðu umsvifalaust upp og fylgdu honum.

Séra Fjölnir Ásbjörnsson

Pétur og Andrés höfðu atvinnu af fiskveiðum og þeir hafa gert sér grein fyrir því að það yrði ekki eintóm ánægja að veiða menn. Þeir vissu að fiskveiðar gátu verið erfiðar bæði á líkama og sál og aldrei var hægt að vita fyrir víst hvort eitthvað skilaði sér í netin samt stóðu þeir umsvifalaust upp og fylgdu honum. Þeir hafa verið röskir menn. Var nokkur ástæða til að ætla að mannaveiðar væru auðveldari en venjulega fiskveiðar? Sú varð heldur ekki raunin og örlög þessara bræðra urðu að lokum þau að Pétur var krossfestur á hvolfi en Andrés grýttur og krossfestur. Í ljósi þess er það einstakt hversu fúsir þeir voru að fylgja honum og halda áfram að fylgja allt þar til yfir lauk.
Með þessum hætti kemur kall Guðs yfirleitt til okkar, í hversdagslegum aðstæðum okkar við hverdagsleg störf. Kannski kallar hann okkur til að vera á sama stað og sinna störfum okkar í hans nafni, kannski kallar hann okkur til nýrra starfa og nýrra verkefna en höfum það hugfast að vatnið sem við siglum á er heimurinn, báturinn sem ber okkur, er kirkjan og beitan er orð guðs. Hugsa þarf vel um bátinn, stækka hann og endurbæta eftir föngum, það er nauðsynlegt til þess að sinna því verkefni sem okkur er falið. Það er ætlast til að við siglum og veiðum.
Boð Krists um að veiða menn nær til allra kristinna manna og er eins takmarkalaust og kristin trú er sjálf. Þeir, sem trúa því að Kristur hafi eitthvað að segja við okkur í lífinu, eitthvað að gera fyrir okkur og með okkur í lífinu, vilja segja öðrum frá honum. Þeir, sem trúa því að hann sé lífið sjálft, geta ekki orða bundist þangað til allt líf geislar af hans lífi. Öll okkar samskipti eiga að bera hans merki, allar okkar hugmyndir og öll okkar viðskipti eiga að vitna um hann þá mun hvert hné beygja sig fyrir honum og sérhvert hjarta verða fangað í lifandi neti kærleika og trúar.
Hann sagði við þá: „Komið og fylgið mér, og ég mun láta yður menn veiða." Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum. (Mt 4.19)
Með kærri kveðju,


Sr. Fjölnir Asbjörnsson