Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Grandakaffi selur Sjómannadagsblað Vm.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SIGMAR ÞÓR SVEINBJÖRNSSON


Grandakaffi selur Sjómannadagsblað Vm.


Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Grandakaffi við Grandagarð er einn af þeim stöðum sem selt hafa Sjómannadagsblað Vestmannaeyja í fjöldamörg ár með góðum árangri. Grandakaffi er veitingastaður sem selur góðan mat, ekki er hægt annað en að nefna sérstaklega hina frægu kjötsúpu sem þar er á boðstólum og þar er boðið upp á indælis kaffi, brauð og margt annað sem selt er á góðum veitingastöðum og sjoppum. Þarna geta menn lesið nýjustu dagblöðin og oftast lendir maður í góðu spjalli um þau mál sem maður hefur áhuga á.

Ásdís Einarsdóttir og Sigurður Rúnar Gíslason

Þeir, sem einkum versla við Grandakaffi, eru sjómenn, útgerðarmenn, löndunargengi og þeir sem vinna við viðgerðir og hin ýmsu viðhalds- og þjónustustörf við höfnina og einnig nágrannar og leigubílstjórar. Margt af þessu fólki er í fæði á staðnum og þeir sem ég hef rætt við eru ánægðir bæði með þjónustu og mat. Það er einhver léttleiki yfir staðnum svo að manni líður vel að vera þar. Það er þess vegna, held ég, sem menn koma aftur og aftur.
Grandakaffi var stofnað 25. mars 1984 og er því orðið rúmlega 20 ára. Áður en Grandakaffi varð til, var þarna rekið baðhús sem lagt var niður eftír að skipin stækkuðu og betur var búið að sjómönnum um borð. Hjónin Sigurður Rúnar Gíslason og Ásdís Einarsdóttir reka Grandakaffi og eru jafnframt stofnendur og eigendur. Rúnar, sem er rafvirki, á ætt sína að rekja til Vestmannaeyja. Foreldrar hans eru Gísli Jóhann Sigurðsson rafvirki og kona hans Svana Eyjólfsdóttir. Frændfólk Sigurðar Rúnars er kennt við Vegamót og er Hjálmar Guðnason loftskeytamaður með meiru (Hjalli á Vegamótum) frændi hans.
Faðir Sigurðar Rúnars, Gísli Jóhann Sigurðsson, dvaldi oft í Vestmannaeyjum á sumrin í æsku og þegar hann hafði aldur til, lærði hann á árunum 1931 til 1937 rafvirkjun hjá frænda sínum Haraldi Eiríkssyni sem rak verkstæði og raftækjaverslun í Vestmannaeyjum í áratugi. Haraldur og Gísli voru systkinasynir en móðir Gísla, Hjálmrún Hjálmarsdóttir, var hálfsystir Eiríks Hjálmarssonar kennara á Vegamótum (d. 1931), sem kvæntur var Sigurbjörgu Rannveigu Pétursdóttur (d. 1946). Gísli Jóhann vann einnig nokkrar vertíðir sem rafvirki í Eyjum hjá Haraldi Eírikssyni eftir að hann kláraði rafvirkjanámið.

Eins og áður segir hefur Rúnar verið ótrúlega duglegur við að selja Sjómannadagsblað Vestmannaeyja á liðnum árum.

Fjölskyldan: Sigurður Rúnar Gíslason, Ásdís Einarsdóttir, Íris Guðmundsdóttir, Gunnhildur Grétarsdóttir, Einar Örn Sigurðsson, og drengirnir heita Kári og Unnar Yngvarssynir

Í Grandakaffi koma margir Eyjamenn og fólk sem hefur verið í Vestmannaeyjum á vertíðum hér áður fyrr. Ótrúlega margir halda tryggð við Eyjarnar vegna þess að þeir eiga þaðan góðar minningar og margt af því fólki kaupir Sjómannadagsblaðið. Mér er minnistætt þegar ég eitt sinn kom inn á Grandakaffi að handrukka fyrir blaðið. Rúnar var sjálfur ekki við, eins og reyndar oft áður, en Ásdís kona hans var við afgreiðslu. Ég tók upp nótubókina og sýndi henni að ég hefði látið þau fá 40 blöð rétt fyrir Sjómannadag sem þau höfðu kvittað fyrir. Hún samþykkti það og spurði hvað hún ætti að borga mér. Ég spurði hana á móti hvort hún væri með einhver blöð sem hún vildi skila.

„Nei,“ sagði hún, „það eru engin blöð eftir hér.“

Grandakaffi við Grandagarð

„Þið eruð ótrúlega dugleg að sela blöðin,“ segi ég.
„Já,“ segir Ásdís, „ástæðan fyrir því að blöðin eru uppseld, er sú að Rúnar hljóp hér um allar bryggjur á Sjómannadaginn og seldi öll blöðin, þetta gerði hann þrátt fyrir að hér væri fullt af fólki og nóg fyrir hann að gera við að afgreiða en í Grandakaffi er mikið að gera á Sjómannadaginn enda margt fólk við höfnina á þessum degi.“
Ég hafði á tilfinningunni að hún hefði kannski ekki alveg verið sátt við þetta framferði eiginmannsins, enda var þetta ekki í eina skiptið sem hann fór með bunka af Sjómannadagsblöðum Vestmannaeyja til að selja á bryggjunni þegar mest var að gera, en Ásdís brosti samt þegar hún sagði mér frá þessu.
Þegar ég spurði Rúnar um þetta sagði hann hlæjandi: „Ég var bara í uppvaskinu.“
Þessu samtali okkar Ásdísar lauk með því að ég spurði hvað þau tækju í sölulaun. „Við látum það ganga upp í auglýsinguna,“ sagði hún, en þau hjónin hafa einnig styrkt blaðið í mörg ár með auglýsingu.
Ég var sáttur með þessi málalok og tók við greiðslunni, fékk mér kaffi og jólaköku og fór síðan út í sólskinið ánægður með viðskiptin við Grandakaffi eins og ávallt áður.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson