Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Caladonian skipaskurðurinn í Skotlandi
Segja má að þessi skemmtilegi skipaskurður skeri hálendi Skotlands í sundur í tvennt. Caladonian skurðurinn liggur nokkurn veginn í norð-austur / suð-vestur stefnu, gengur inn úr botni Merry Firth í norð austri og endar 60 mílum suð-vestar í Loch Linnhe flóanum, við Forth Willams. Þetta er mikið mannvirki sem tengir saman Norðursjó og Atlantshafið. Styttir siglingaleiðina mjög mikið og meira en það, þá losna sjófarendur smærri skipa við mjög hættulega og erfiða siglingaleið, sem Pentlands fjörðurinn er oft. Sérstaklega veðrum þar sem mikill straumur fylgir oft. A þeim slóðum sökk t.d. Drangajökull um árið.
Skurðurinn er 96,6 km ( 60 mílur) langur, þar af eru um 35,4 km eða um 22 mílur, sem grafa þurfti með mannshendinni einni saman. Þetta tengir saman tvö stór vötn Loch Ness og Loch Lochy. Caladonian skipaskurðurinn er mikið mannvirki, sem byrjað var að byggja 1803 en mun fyrr var farið að huga að þessum hlutum, eða á öndverðri 18 öldinni (um 1726)
Verkið sjálft tók 19 ár, frá 1803 til 1822 er hann var opnaður með pomp og prakt. Skurðurinn var byggður af Highland Clearances og skapaði mjög mikla vinnu sem ekki veitti af á þessum tíma. Frumkvöðull og yfirmaður byggingarinnar var ungur Skoti að nafni Thomas Telford.
Framkvæmdin þótti mikið verkfræðilegt afrek og var Thomas virkilega lofaður fyrir vel skipulagt og frábært verk. Auðvitað var ekki tækjunum fyrir að fara á þessum tíma, sjálfsagt lítið annað en skófla og haki ásamt hjólbörum eða einhverju slíku.
Hæst liggur skurðurinn í 106 feta hæð yfir sjávarmáli svo ekki veitir af að hafa góða skipastiga til að ferðast um skurðinn. Hæsti punkturinn er við Loch Oich en þaðan rennur vatnið í báðar áttir jafnt. Ekki þarf að leggja eins mikinn kostnað í að fá nægt vatn í skurðinn eins og víða er í heiminum. Nægt vatn er ávallt þarna. Lítil not fyrir auka vatnsveitur til að fylla hólfin í skipastigunum.
En skipalokurnar eru 29 talsins og 10 vængjabrýr. Lokurnar og brýrnar eru að öllu leyti með sjálfvirkar opnanir og lokanir, þó tekur ávallt töluverðan tíma að komast áfram í gegnum lokurnar, sérstaklega á háannatímanum yfir sumarið. Jafnan eiga flutningaprammarnir allan forgangsrétt fram yfir skemmtibátana.
Hámarks leyfilegur siglingahraði um skurðinn er 5 mflur á klst, og alstysti tíminn að fara frá
Norðursjónum út í Atlantshafið er 14 klst. Þá þarf allt að ganga vel upp en skemmtisiglingabátum er eðlilegt að fara þetta á þremur dögum.
Skurðurinn er mikið notaður af skemmtiferðafólki á eigin bátum, eða leigubátum, sem auðvelt er að fá til t.d. vikusiglinga. Mjög falleg siglingaleið. En einnig er töluverð umferð fiskiskipa og jafnvel einnig herskipa. Alltaf er töluverð umferð af stórum úthafsskútum sem stytta sér gjarnan leið í ferð sinni yfir hafið til Ameríku.
Sigling Fagrakletts um skurðinn í lok seinni heimstyrjaldarinnar 1945, undir skipstjórn Jóns Sæmundssonar, hlýtur að teljast merkileg. Sennilegt er að fá íslensk skip hafi farið þessa fögru leið síðan.
Kvæði vinar míns, Benedikts Sæmundssonar, lýsir þessari ferð á skemmtilegan hátt. (Sjá Sjómannadagsblað Vm. 2004 bls. 79.)
Caladonian skipaskurðinum er mjög vel við haldið, og má t.d. geta þess að frá október s.l. ár til mars / apríl þetta árið hefur skurðinum verið lokað og eytt í viðgerðir og endurnýjun um 2 milj. punda eða jafnvirði vel yfir 250 milj. kr.
Allstór skip geta farið um skurðinn, en aðaltakmörkin eru dýpið í stigunum, sem er grynnst 4,11 metrar. Stysti stiginn er tæpir 46 metrar og breiddin um 11 metrar. Einnig má hæð masturs ekki vera yfir 27,5 metrar, (Inverness).
Skurðurinn er mjög vel búinn siglingamerkjum svo segja má að mjög auðvelt og aðgengilegt sé að leigja sér bát til að sigla um þennan mjög svo fallega skurð og njóta skoska landslagsins.
Bátaleiga er á báðum endum hans þar sem hægt er að fá báta sem taka heilu fjöldskyldurnar. Algengt verð fyrir vikuna er c.a. £600,00 til £ 900,00 fyrir báta sem taka 4 til 6 manns. Þetta verð er fyrir mai mánuð.
Svo vona ég að margir eigi eftir að ferðast um einn fallegasta skipaskurðinn í allri Evrópu. Bestu kveðjur frá Bretlandi.