Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Starf vélstjórnarbrautar FÍV 2003-2004

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
GÍSLI EIRÍKSSON


Starf vélstjórnarbrautar Framhaldsskólans 2003-2004


Gísli Sig. Eiríksson

Starf vélstjórnarbrautar Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum hófst með setningu skólans þann 22. ágúst síðastliðinn. Á þessarri önn var boðið upp á nám til 1. stigs vélstjórnar, sem gefur réttindi til vélavarðar eftir einnar annar nám, einnig var boðið upp á nám til 2. stigs vélstjórnar. Á vélavarðabraut stunduðu ellefu nemendur nám alla önnina og útskrifuðust 10 þeirra 20. des. með vélavarðarréttindi. Í námi til 2. stigs voru 7 nemendur sem allir luku sínum áfanga. Kennarar við brautina voru eins og undanfarin ár þeir Karl G. Marteinsson og Gísli Sig. Eiríksson.
Vorönnin hófst svo þann 5. jan. Þar voru 13 nemendur sem stunduðu nám á 2. stigi, en þrjár annir þarf til að ljúka því að loknu vélavarðarnámi. Þá var einnig boðið upp á vélgæslunánskeið fyrir smábátasjómenn, en samkvæmt lögum sem sett voru 31. mars 2003 þurfa nú allir sem stunda smábátasjómennsku að hafa vélgæsluréttindi. Í þessu námi sem er 65 kennslustundir voru 8 manns þar sátu saman bæði lögfræðingar og trillukarlar sem allir höfðu skoðanir á hlutunum þeir luku allir námi með glæsibrag.
Á þessu skólaári fóru vélstjórnarnemar tvær ferðir með Herjólfi í boði Samskips til að kynnast störfum vélstjóra og skoða bæði vélar og vélbúnað við eðlilegar aðstæður ásamt því að gera ýmsar mælingar og tilraunir í sambandi við námið, tókust þessar ferðir í alla staði mjög vel. Í ferðalok færðu þeir Arnar Sigurðsson yfirvélstjóri og Elliði Aðalsteinsson hverjum nemanda vandaðan kíki að gjöf frá Samskip. Við færum þeim Samskipsmönnum bestu þakkir fyrir ferðina, viðurværið um borð og gjöfina í lok ferðar. Ennfremur var farið í skoðunarferð um borð í b/v Vestmannaey þar sem vélar og tæki voru skoðuð undir góðri leiðsögn Guðmundar A. Alfreðssonar útgerðarstjóra, sérstök áhersla var lögð á austursskilju sem og kæli og frystibúnað, en kælitækni er nokkuð stór hluti af vélstjórnarnáminu. Þökkum við þeim hjá Berg Huginn fyrir að gera okkur þetta mögulegt, en þeir hafa oft í gegnum tíðina stutt við bakið á vélstjórnarbrautinni. Þá færðu olíufélagið ESSO og vélaumboðið Afltækni nemendum vélabækur o.fl. að gjöf hafi þeir og þökk fyrir. Nokkur umræða hefur verið um kennslu til 3. stigs hér í Eyjum, og hafa Viska, Útvegsbændafélagið, Menntafélagið og Framhaldsskólinn átt í viðræðum um það, er þá um fjarnám að ræða, en hluti námsins væntanlega kennt hér við Framhaldsskólann þó ekkert sé endanlega ákveðið þegar þetta er skrifað, er þetta frábært tækifæri fyrir starfandi menn til að bæta við menntun sína og réttindi og vonandi að sem flestir notfæri sér það. Ég vil benda ungu fólki á að skoða vel vélstjórnarnámið og þá möguleika sem það gefur hvort heldur er til starfsréttinda eða sem grunn fyrir áframhaldandi nám í tæknigreinum. Við í Framhaldsskólanum viljum á þessum tímamótum óska sjómönnum gæfu í starfi og til hamingju með daginn.
Gísli Sig. Eiríksson
Vélfr.