Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Jákup á Biskupsstöð
Jacob var frægur bátasmiður í Klakksvík í Færeyjum. Frá árinu 1895 smíðaði hann báta þar úti fyrir Vestmannaeyinga. En aldamótaárið 1900 kom hann til Eyja og smíðaði báta hér undir Skiphellum til 1905. Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ vann með honum við smíðina.
Í bók sinni Formannsævi í Eyjum segir Þorsteinn í Laufási á bls. 32 m.a.:
„Fyrsta vertíðarskipið með færeysku lagi var byggt hér í Eyjum af Færeyingnum Jakob Biskopsto frá Klakksvík í Færeyjum árið 1900. Sex árum síðar var aðeins eitt eða tvö af hinum gömlu skipum í gangi, og á næstu sex árum þar á eftir höfðu mótorbátarnir algerlega rutt færeyisku vertíðarskipunum úr vegi, en smærri bátar með þessu lagi hafa verið hér í notkun síðan. Að sjálfsögðu voru settar í þá vélar. Þetta bátalag hefur reynst hér ágætlega. Bátarnir voru bæði fallegir og góðir“.
Og í bók sinni Skáldað í skörðin segir Ási í Bæ á bls. 20 og 21 eftirfarandi:
„Ég var í Klakksvík í Færeyjum haustið 1965 og kynntist þar prýðismanni, Robert Joensen. Hann var bæjarritari og fróðleiksmaður um þjóðleg efni og hefur skrifað margar bækur á því sviði. Einn dag bauð hann mér að koma með sér í róður. Hann geymdi farkost sinn í skýli sunnan á Eiðinu sem bærinn stendur á. Þegar hann opnar skýlið, blasir báturinn við og ég rek upp stór augu. Þarna er komið nákvæmlega handbragðið þeirra feðga, afa og pabba. Svo ég spyr: Hvaðan er þessi bátur? Róbert fer að hlæja og segir: Nei, hann er ekki eftir abba tín í Litlabæ, heldur Jakup úr Biskupsstuvu. Þá rann upp fyrir mér ljós. Handbragð Jakups hafði ég aldrei séð áður, en hann var einhver snjallasti bátasmiður Færeyja fyrr og síðar. Skömmu eftir aldamótin var hann fenginn til að smíða báta fyrir Eyjamenn, en hann tók afa sér til aðstoðar og faðir minn mun einnig hafa komið við sögu þó ungur væri. Af Jakup lærðu þeir ekki aðeins færeyska bátalagið með hinni einstöku fögru bogalínu, heldur líka handbragð meistarans svo ekki mátti á milli sjá hvað var hvers. Þessa sögu þekkti Róbert ekki síður en ég (sem hafði gleymt henni) og kannaðist vel við þá feðga. Því má bæta við að mönnum líkaði svo vel færeyska lagið á smærri og stærri bátum að ekki leikur neinn vafi á að þeir hefðu orðið allsráðandi í verstöðinni ef vélbátarnir hefðu ekki rutt sér til rúms um þetta leyti“.
Afi Ása og pabbi, voru hinir þekktu bátasmiðir, Ástgeir Guðmundsson og Ólafur Ástgeirsson í Litlabæ í Vestmannaeyjum.