Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Helgi M. Sigmarsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Helgi M. Sigmarsson



Helgi Marinó eða Helgi í Hvammi eins og I hann er kallaður hér í Eyjum, fæddist á Akureyri 21. júní 1932. Foreldrar hans voru, Sigmar Hóseasson og Hólmfríður Kristjánsdóttir.
Helgi var yngstur 7 systkina en móðirin dó þegar hann var árs gamall. Honum var þá komið í fóstur til hjónanna, Kristófers Eggertssonar skipstjóra og Helgu Eggertsdóttur frá Kothúsum í Garði. Þau hjón höfðu verið barnlaus en áttu þegar Helgi kom til þeirra tvær kjördætur, Elísabetu Fjólu og Hjördísi, þær voru því Kristófersdætur. Elísabet Fjóla var héðan úr Eyjum, dóttir Oddnýjar Erlendsdóttur og Magnúsar Magnússonar bátasmiðs sem bjuggu inni á Flötum. Hjördís, var úr Reykjavík, Steingrímsdóttir. Þarna voru þau saman eins og 3 systkini á góðu heimili hjá góðu fólki. Kristófer var frægur síldarskipstjóri mörg sumur Norðanlands á Bjarka o.fl. skipum. Þegar Helgi var 5 ára skildu fósturforeldrarnir en hann var áfram hjá Helgu og fluttist með henni til Reykjavíkur 7 ára 1938.
Minnistætt er Helga vorið 1940 þegar Bretarnir hernámu landið. Vegna stríðshættu sá Rauði Krossinn um að koma börnum til dvalar í sveit. Helgi var mjög heppinn, var sendur að Bjarnastöðum í Bárðardal á frábært heimili. Þar var hann í 2 ár, gekk í skóla, leið vel og lærði að vinna eins og hann segir.
Vorið 1942 var fóstri hans, Kristófer, giftur aftur, hafði keypt Hótel Tindastól á Sauðárkróki og vildi fá Helga til sín sem varð. Kristófer tók líka Hjördísi kjördóttur sína til sín. Ásamt skrifstofustörfum hjá Sauðárkróksbæ var hann lóðs þegar þarna var komið.

Vorið 1944 fór Helgi í vegavinnu, verið var að leggja veg um Siglufjarðarskarð. Legið var við í tjöldum en matast í bragga þar sem góð matráðskona eldaði í mannskapinn. Verkfærin voru skófla, haki og hjólbörur.

Fjölskylda Helga. Efri röð f.v.: Kristófer Helgi Helgason, Hólmfríður Helga Helgadóttir, Sólrún Helgadóttir, Sigmar Helgason, Guðjón Viðar Helgason, Jóna Þorgerður Helgadóttir. Fremri röð f.v.: Helgi M. Sigmarsson, Guðbjörg Helgadóttir, Guðrún Guðjónsdóttir

Árið 1946 fór Helgi alfarinn til Reykjavíkur. Þar fór hann í vinnu hjá Steingrími Arnasyni sem leigði Hraðfrystistöð Reykjavíkur af Einari Sigurðssyni. Í byrjun árs 1949 réði hann sig á nýsköpunartogarann Röðul GK 518 frá Hafnarfirði til Vilhjálms Árnasonar skipstjóra, sem var landsfrægur aflamaður og einn af eigendum skipsins. Þeir voru 40 á og fiskuðu í salt. Þennan vetur var mikið verið á Selvogsbankanum í miklu fiskiríi, allt stór hraunafiskur. Þá voru enn 12 og 6 tíma vaktir, 12 á dekki og 6 í koju, svo það tók í. Helgi segir, að þarna hafi, að honum einum undanskyldum verið þaulvanir og klárir menn. Hann var þarna eini óvaningurinn.
Eftir vertíðina á Röðli fór hann á síld með Kristófer fóstra sínum sem þá var orðinn skipstjóri á Ófeigi RE. Það var Ingólfur h/f á Ingólfsfirði á Ströndum, sem hafði keypt Ófeig frá Vestmannaeyjum, þar sem hann hét Sæfell í eigu Sæfells h/f. (Frásögn af ferð með Sæfellinu frá Fleetwood til Vestmannaeyja er á bls. 43). Þetta sumar lönduðu þeir á Ófeigi aðallega á Ingólfsfirði en það var ekki oft, þetta var síldarleysissumar.
Þarna um borð var mikill rottugangur, þær voru um allt skip, í íbúðunum og hvar sem var, öllum til ama og leiðinda. Einu sinni í brælu lágu þeir á Ingólfsfirði, þegar mannskapurinn datt allhressilega í það. Áflog brutust út vegna peningaspils sem mikið var spilað um borð og líka vegna tveggja stelpna sem voru kokkar hjá þeim. En hvernig sem á því stóð, þá sást engin rotta um borð eftir þessa nótt, svo segja má, að ekki hafi til einskis verið barist.
Næstu tvær vetrarvertíðir réri Helgi í Sandgerði, á línu, á 35 tonna báti, Brimnesi frá Patreksfirði og þessi sumur var hann á síld á Sverri EA. Þá lá leiðin á togarana. Fyrst á Pétur Halldórsson til Einars Thoroddssens og á Þorstein Ingólfsson til Þórðar Hermannssonar. Á honum fengu þeir 410 tonn af umsöltuðum saltfiski úti af strönd vestur Grænlands á 26 dögum. Hann var líka á Skúla Magnússyni með Ingólfi Stefánssyni og Þormóði goða með Hans Sigurjónssyni. Þessi skip voru í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Mest var fiskað í salt en farið í karfa og annað ísfiskirí, annað slagið. Hann var líka á Jóni forseta með Eggerti Klemenssyni og Mars með Markúsi Guðmundssyni. Alls var Helgi á annan áratug á þessum skipum. „Mér líkaði alltaf vel við síðutogarana. Í langflestum tilvikum var mjög góður mannskapur á þeim á þessum árum. Skipin voru svolítið misjöfn. Röðull, Skúli Magnússon og Jón forseti voru erfiðir að því leyti að þeir voru blautir, en allt voru þetta mjög góð ferðaskip.“ Þetta voru svokölluð Beverley skip, smíðuð í Beverley í Englandi.
Eftir togaramennskuna lá leiðin uppá Akranes, þar sem hann var 2 ár á Höfrungi 2. hjá Garðari Finnssyni. Síðan til Reykjavíkur á Sólrúnu frá Bolungarvík, Árna Magnússon RE og Arnar RE hjá Hrólfi Gunnarssyni. Hann var líka á Guðmundi Þórðarsyni RE hjá Haraldi Ágústssyni, þeir höfðu verið hásetar saman á Pétri Halldórssyni.

Þegar Helgi var á Árna Magnússyni og Arnari lönduðu þeir stundum síld í Vestmannaeyjum. Strax hrifu Eyjarnar hann. „Hér var svo mikið líf og mikil vinna,“ segir hann. Reyndar hafði hann komið hingað áður, og þá í 1. skipti, þegar hann var á Pétri Halldórssyni. Þeir komu hingað með fullfermi af karfa á þjóðhátíðarsunnudegi og komust þeir þá inn í Dal. Þessi kynni af Eyjunum urðu til þess að fjölskyldan flutti hingað til Eyja sumarið 1964. Kona Helga, Guðrún Guðjónsdóttir frá Reykjavík, var strax tilbúinn og stefnan var sett hingað. Enn þann dag í dag eru þau þakklát og ánægð fyrir þá ákvörðun, hér hefur þeim liðið vel ásamt 7 börnum sem þau hafa eignast. Fyrstu 3 árin áttu þau heima fyrir ofan hraun í Gvendarhúsi, en keyptu þá neðri hæðina í Hvammi af Árna Finnbogasyni, síðan hefur Helgi verið kenndur við Hvamm. Þau keyptu síðar efri hæðina og risið. Núna nýlega hafa þau selt Hvamm og eru orðin tvö, eins og í upphafi, í fallegri íbúð í Foldahrauni.

Síðutogarinn Jón forseti

Hér í Eyjum byrjaði Helgi á Gjafari hjá Rafni Kristjánssyni, síðar á Elliðaey hjá Gísla Sigmarssyni, Bergi með Sævaldi Pálssyni, Sindra, Klakki og Gídeon með Helga Ágústssyni. Hann var líka á Kap í nokkur ár. Utgerðarmennirnir þar, Einar Ólafsson skipstjóri og Ágúst Guðmundsson vélstjóri, eru þeir albestu menn sem hann hefur verið hjá, að öllum öðrum ólöstuðum, segir Helgi.
S.l. haust eftir 54 ár til sjós tók Helgi pokann í síðasta skipti í land. Hann var þá á Jóni Vídalín hjá Sverri Gunnlaugssyni. Mjög gott pláss. Þar var hann kokkur eins og hann hefur verið síðustu 15 árin af ferlinum, en háseti fram að því að mestu leyti.
Mestu aflahroturnar sem Helgi lenti í var á saltinu á Vestur Grænlandi eftir 1950, alveg ótrúlegt mok. Eins var á karfanum við Nýfundnaland meðan það stóð í lok sjötta áratugarins, mikil aflahrota.
Tvisvar sinnum misstu þeir út menn á Pétri Halldórssyni. Fyrra skiptið voru þeir að taka það á Halanum í vondu veðri. Það var eldri maður góður vinur Helga, þrælgóður og klár togaramaður til margra ára. Í seinna skiptið voru þeir á siglingu við Reykjanesið í vondu veðri þegar mann tók útbyrðis. Það var líka eldri maður, þaulvanur og klár á öllu til sjós. Þetta var erfitt að takast á við eins og nærri má geta, að horfa á eftir félögum sínum í hafið og geta ekkert gert. Með Helga á Pétri Halldórssyni var Jón Jónsson í Ólafshúsum héðan frá Eyjum. „Hann er mér minnisstæður, greindur karl, sem sagði okkur skemmtilegar sögur“.
Það er öruggt að Eyjarnar eignuðust góðan hóp góðs fólks, þegar þau hjónin Helgi og Guðrún fluttust hingað fyrir 40 árum. Frábært fólk sem hefur reynst þessari byggð vel. Góðir sjómenn eru þessari byggð ómetanlegir. Það er ekki nokkur vafi. Vonandi þróast mál þannig að eftirsótt verði fyrir unga sjómenn að flytja hingað með fjölskyldur sínar eins og skeði í tilfelli Helga Sigmarssonar á sínum tíma. Vegni honum og hans fólki alltaf sem best.