Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2002/ Nýsmíðuð skip til Eyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Nýsmíðuð skip til Eyja


Frá 29. júní 2001 til 18. mars 2002 komu 3 nýsmíðuð skip til Eyja:
Huginn VE 55, Guðni Ólafsson VE 606 og Stígandi VE 77.
Það er mikilvægt að fá þessi öflugu skip í flotann. Vonandi eiga þau öll eftir að gera það gott mörg komandi ár. Eigendum þeirra og áhöfnum eru sendar árnaðaróskir.
Einnig áhöfnum og eigendum annarra skipa sem talin eru hér að framan og keypt hafa verið hingað að undanförnu. Allt styrkir þetta atvinnu - og mannlíf hér í Eyjum.

HUGINN VE 55

Huginn VE 55

Huginn var smíðaður í Asmar skipasmíðastöðinni í Talcahuno Chile og afhentur þar í byrjun júní 2001. Skipatækni hannaði skipið. Hann er 68,30 m að lengd, breiddin er 14,00 m., og hann er 2392 bt með 5870 ha MAK aðalvél. Ljósavélar eru 2 frá Caterpillar, 1300 og 500 ha. Siglinga - og fiskileitartæki eru aðallega frá Friðriki Á. Jónssyni og Ísmar og fjarskiptatæki frá Radiomiðun. Skipið er búið til nóta - og flottrollsveiða. Sex sjókældar lestar eru í skipinu, þrjár í hvorri síðu, og milli þeirra eins og steis, er frystilest. Aftari hluta hennar er hægt að nota sem sjókælilest. Á vinnsludekki er fyrirhugað að koma fyrir vinnslulínum fyrir uppsjávarfisk. Pressur eru nú þegar um borð fyrir frystitæki og -lest.
Siglingin frá Chile tók 26 daga með 2,5 sólarhringa stoppi við Panamaskurðinn vegna viðhaldsvinnu í skurðinum sjálfum. Þeir stoppuðu Iíka 1 sólarhring í St. John á Nýfundnalandi og tóku þar olíu.
Hingað til Eyja kom Huginn 29. júní 2001 og hélt til kolmunnaveiða 8. júlí. Til áramóta fiskuðust 35000 tonn, allt í flottroll frá Hampiðjunni. Aflaverðmæti var 302 miljónir.
Aflinn fékkst fyrir sa land og s af Færeyjum. Var honum ýmist landað þar eða á Seyðisfirði. Mest komu úr skipinu 2113 tonn.
Eigandi Hugins er Huginn ehf, útgerðarhjónin Kristín Pálsdóttir og Guðmundur lngi Guðmundsson, fyrrverandi skipstjóri, og fjölskyldur þeirra. S.R. mjöl hefur nú eignast hlut líka. Þetta er fjórði Huginn VE 55, sem þau eignast frá árinu 1959, og þriðja nýsmíðin. Skipstjóri er Guðmundur Huginn sonur þeirra, yfirstýrimaður og afleysingaskipstjóri er bróðir hans Gylfi og yfirvélstjóri Willum Andersen.
Eftir síðustu áramót fór skipið á loðnu og eldri Huginn, sem nú heitir Huginn VE 65, fór einnig á loðnu undir skipstjórn Gylfa.
Fjölskyldan er mjög ánægð með skipið, allan frágang og fyrirkomulag og viðskiptin við skipasmíðastöðina í Chile enda hefur allt um borð reynst vel. Umboðsaðili er B.P. skip.

GUÐNI ÓLAFSSON VE 606

Guðni Ólafsson VE 606

Guðni Ólafsson er smíðaður í Huangpu í Gauangzhou shipyard í Kína. Fengur ehf í Hafnarfirði hannaði skipið. Lengdin er 51,20 m.. breiddin 12,2 m og stærðin 1508 bt. Aðalvélin er Caterpillar 2360 ha og 2 ljósavélar eru um borð einnig Caterpillar. Ganghraði í reynsluferð var mældur 15,0 sml. Hann er sérútbúinn til botn - og flotlínuveiða (túnfiskveiða), einnig er möguleiki á að stunda netaveiðar. Línubúnaðurinn er frá Mustad í Noregi. Þrjú þilför eru í skipinu og tvær frystilestar, önnur vegna túnfisksins og frystir að -55° C. en hin -30° C. Vinnsluþilfar er á 1. dekki og sjálfvirk stærðarflokkun fisks á 2. dekki. Siglinga - fiskileitar - og fjarskiptatæki eru frá Friðriki A. Jónssyni og Radiómiðun. Nýtt forrit og útfærsla á straumloggi sýnir skipstjóra hvar línan leggst á botninn, hverju sinni, niður á allt að 1000 m dýpi. Þessi búnaður er frá Radiómiðun.
Íbúðir eru fyrir 26 menn, 4 í eins manns klefar, en hinir eru fyrir 2 menn hver. Átján verða í áhöfn. Farið verður í 1. túrinn á heimamið til þess að reyna nýjan búnað. Síðan verður leitað fyrir sér utan landhelginnar á Reykjaneshrygg og við Rockall. Aflinn verður heilfrystur um borð.
Skipið kom til Eyja 13. febrúar 2002. Komið var við á Hawaiieyjum, Bermúdaeyjum og í New York.
Skipstjóri á Guðna Olafssyni er Sigmar G. Sveinsson og yfirvélstjóri Magnús Lórenzson.
Eigandi Guðna Olafssonar er Ístún. Aðaleigendur þess eru: Sæhamar Vestmannaeyjum, Skeljungur, Burðarás. Sjóvá Almennar, Þróunarfélag Íslands og Hekla, öll í Reykjavík.
Alls eru hluthafar 13 og er Guðjón Rögnvaldsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, framkvæmdastjóri.

STÍGANDI VE 77

Stígandi VE 77

Stígandi VE 77, sérhannað tog- og tún-fiskveiðiskip, kom nýr til Eyja 18. mars 2002 eftir 36 daga siglingu frá Kína. Hann var smíðaður þar hjá Guangzhou Huangpu shipyard. Ráðgarður ehf í Reykjavík hannaði skipið í samráði við eigendur og áhöfn. Stígandi er 1448 bt, lengdin er 53,95 m og breidd 11,20 m í skipinu er MAN B&W 2800 ha aðalvél og ljósavélar eru 2 frá Caterpillar, 1160 ha og 216 ha. Togkraftur er 40 tonn og ganghraðinn var 13,5 sml í reynsluferð. Tvö þilför eru í skipinu, vinnslu- og togþilfar. Á þilfari fyrir ofan, framantil í skipinu, eru flestar íbúðir. Kojur eru fyrir 25, 2 eins manns klefar, hinir eru tveggja manna. Að auki er sjúkraklefi með 2 kojum. Þrjár lestar eru í skipinu. Fremst er -55° C lest fyrir túnfisk, fyrir aftan hana -30° C lest og aftast ferskfisklest. Brimrún sá um að útvega og setja upp öll siglinga-, fiskleitar- og fjarskiptatæki.

Sérstök smíðasaga
Í upphafi var Stígandi 41,95 m og aðalvélin 1500 ha. Þannig var hann sjósettur með tóma tanka. Þá gerðist það við bryggju í Kína að skipið tók að halla, sjór rann inn um neðri túnfisklúguna og hann sökk. Útgerðin gerði þá nýjan smíðasamning við skipasmíðastöðina þar sem ákveðið var að lengja skipið um 12 m. Ný aðalvél og nýr gír komu um borð einnig voru ný skrúfa og skrúfuhringur sett á skipið. Röra- og rafmagnslagnir, asamt innréttingum voru rifnar úr skipinu og nýjar komu í staðinn. Ákveðið var að skipið fengi nafnið Ófeigur VE 325 en þegar Ófeigur 2. sökk 5. des. s.l. var ákveðið að gefa skipinu nafnið Stígandi VE 77.
Eigendur eru Stígandi ehf, hjónin Viktor Helgason og Stefanía Þorsteinsdóttir og fjölskyldur þeirra.