Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2001/ Varnek Nikulásson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Varnek Nikulásson


Varnek Nikulásson fæddist árið 1936 á Sunba í Færeyjum. Sunba er syðsta byggðin á Suðurey, og því syðsti bær Færeyja, suður undir Akrabergi. Þegar Varnek átti heima á Sunba voru þar um 500 íbúar en núna hefur þeim fækkað eitthvað. Þarna er lítil trillubátahöfn og hefur trillubátaútgerð verið aðalatvinnuvegurinn, mest með handfæri. Allur afli er unninn í salt í landi. Að auki áttu flestir kú og kindur sér til lífsviðurværis. Hafnarskilyrði eru slæm og háir það sjósókninni.

Varnek kemur upp í brú á Breka og gefur Magna skipstjóra skýrslu um troll sem er í henglum

Næsta byggð við Sunba er Vogur. Þar búa um 1800 manns. Þangað er nú ekið í gegnum jarðgöng á 15 mínútum. Aður en jarðgöngin komu var þetta klukkustundar akstur og yfir fjall að fara. Varnek byrjaði 12 ára að róa með pabba sínum á trillu og 13 ára fór hann á Vestur-Grænland á skútu. Hún hét Salteyra, var 100 rúmlestir með 100 hestafla vél sem kom henni 7 sjómílur í logni. Auðvitað notuðu Færeyingarnir að auki segl. Með þeim og vélinni tók siglingin frá Vogi til Rafns-stóreyjar, sem er um 70 sjómílur fyrir sunnan Færeyingahöfn á Vestur-Grænlandi, 14 sólarhringa.
Salteyra var móðurskip fyrir 2 trillur sem þeir fluttu með sér til Grænlands. Ahöfnin var 20 manns og lagðist skútan fyrir akkeri við fyrrnefnda eyju. Á hvorri trillu voru 3 og 4 karlar sem fiskuðu með handfærum, með gamla laginu, sísal, sökku, ballansi, taumum og önglum. Oft lönduðu trillurnar tvisvar á dag og stundum fullfermi. Varnek vann oftast um borð í skútunni þar sem allur aflinn, sem var þorskur, var flattur í salt og umsaltaður. Stundum var fiskurinn svo ofarlega í sjónum að rétt þurfti að slaka ballansinum niður fyrir yfirborðið þar sem hann tók.
Einu sinni þetta sumar lönduðu þeir úr skútunni í fraktskip sem kom til Færeyingahafnar.
Úthaldið tók um 3 mánuði og var aflinn um 150 tonn af fullstöðnum saltfiski. Næstu 3 ár á eftir var Varnek á skútunni Suðurlandi frá Porkeri. Porkeri er næsti bær við Vog, utar með Vogsfirði. Á veturna voru þeir á handfærum við suðurströnd íslands og söltuðu um borð. Mest voru þeir á Selvogsbankanum og hér við Eyjar. Hingað til Eyja kom Varnek í fyrsta skipti 1950 þegar hann var á þessari skútu, og þá á hverjum sunnudegi. Aldrei var staðið við færi á færeysku skútunum á sunnudögum. Þá var legið hér frá laugardagskvöldi til sunnudagskvölds. Hér leist honum strax vel á sig. „Allt fullt af fiski og lífi," eins og hann segir. Hér heimsótti hann alltaf Jóhann móðurbróður sinn og Guðlínu í Framnesi. Einnig Bettý systur Jóhanns og Stefán í Akurey. Hann hitti þó sjaldnast nógu vel þá Jóhann og Stefán því næg var vinnan í Vinnslustöðinni. Hann heimsótti líka Lása Færeying og Steinunni á Vesturveginum. Lási var frá Sunba. Á sumrin voru þeir á þessu skipi á færum við vestur Grænland og söltuðu allt um borð. Ahöfnin á Suðurlandinu var 18 menn.
Varnek kom til íslands í nóvember 1955, ásamt fleiri Færeyingum sem réðu sig á salt á síðutogarann Jón Þorláksson RE. Þeir voru stutt þar og fóru á annan síðutogara, Mars RE, sem einnig fiskaði í salt.
Á honum lentu þeir í miklu flottrollsfiskiríi á Selvogsbankanum. Aðalfiskiríið var á nóttinni og svo var legið í aðgerð allan daginn þar sem 12 menn flöttu.
Í febrúar 1957 kom Varnek til Eyja. Þar réði hann sig á Björgu, 17 tonna handfærabát, sem Haraldur Jóhannsson frá Grímsey átti og var með. Hann var þá búsettur hér. Ahöfnin auk Haralds voru 4 Færeyingar. Þessa vertíð fengu þeir 230 tonn, þorsk og ufsa, sem öllu var landað hér í Eyjum. Í vertíðarlok keypti Haraldur aðra Björgu 27 tonn að stærð. Varnek var samtals hjá honum í 3 ár. Þeir voru hérna í Eyjum á veturna en norðanlands á sumrin. Á þessum báti söltuðu þeir aflann um borð bæði fiskinn og hrognin í tunnur.

Hér í Eyjum kynntist Varnek Maríönnu, konunni sinni. Hún var þá afgreiðslustúlka í vefnaðarvöru-verslunni Framtíðinni. Hún er frá Gjögv sem er nyrst í Færeyjum svo Eyjarnar allar voru á milli þeirra þar til þau komu hingað og hittust í fyrsta skipti. Hér hafa þau búið sæl og hamingjusöm síðan, að undanteknum gostímanum, þegar þau áttu heima í Grindavík. Þau eru mikil fyrirmyndarhjón sem eiga 2 börn, löngu uppkomin og barnabörnin eru 7.

Varnek á æskuslóðum í Sunba

Maríanna kom um svipað leyti og Varnek til íslands árið 1955. Fyrsta árið vann hún á Vífilsstöðum en skrapp ein í vikufrí til Vestmannaeyja sumarið 1956. Hér leist henn svo vel á sig að hún sótti um vinnu á Sjúkrahúsinu í þessari ferð. Það gekk eftir og fór hún þá suður og lauk veru sinni á Vífilsstöðum. Frá fyrstu tíð hefur hún ekkert séð nema Eyjarnar eins og hún segir og getur engan annan stað hugsað sér til að búa á. Það var mikið lán fyrír Eyjarnar að þau Varnek settust hér að.
Eftir 5 ára búsetu fengu þau íslenskan ríkisborgararétt.
Eftir veruna á Björgu var Varnek í 7 ár á Ófeigi 2. hjá Óla í Skuld, einnig á Gideon, Gullbergi, Sigurbáru, Klakki og síðustu 16 árin bátsmaður á skuttogaranum Breka. Hann var 2 ár á Sæbjörgu hjá Hilmari Rós. Annað árið, árið 1969, fiskuðu þeir á vetrarvertíðinni 1655 tonn í 74 róðrum, að meðaltali rúm 22 tonn í róðri.
Þeir hófu róðra 2. janúar á línu, verkfall skall á 19. janúar og stóð í mánuð. Fengu þeir 60 tonn á línuna. Byrjuðu á netum 26. febrúar og voru að til 14. mai. Þeir voru með netin á Eyjólfsklöpp fram í miðjan mars og fengu þar 400 tonn af ufsa. Síðan á Þjórsárhrauni og vestan við Þjórsárósa. Enduðu svo á Jónshrygg. Þessi mikli netaafli um 1600 tonn fékkst í 8, 15 neta trossur.
Allir um borð í Breka segja að Færeyingurinn sé frábær karl. Varla hægt að fara út í sjó án þess að hafa hann með bæta þeir við. Þessir rúmlega tvítugu standast honum hvergi snúning og svo er hann mikið góður félagi. Þeim ber saman um að hann uni sér helst aldrei hvíldar. Fyrir nokkrum árum tók hann sig til og parketlagði öll gólf í skipinu, klefa, ganga, borðsal og biú.
Þetta vann hann allt á snöpum og stímum þegar enga vinnu var að hafa í veiðarfærum eða á annan hátt við rekstur skipsins. Það hlýtur að vera mikils virði fyrir útgerðina, að hafa svona mann um borð og Eyjunum eru svona karlar mikil verðmæti.