Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2001/ Íslendingur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
GUNNAR MAREL EGGERTSSON


Íslendingur


Gunnar Marel Eggertsson

Vorið 1994 ákvað undirritaður að byggja víkingaskip. Eftir förina á víkingaskipinu Gaia '91 sveið sú staðreynd að ekki væri til víkingaskip á Íslandi, hjá þeirri þjóð sem helst hefur ástæðu til að þakka

Íslendingur ferðbúinn í höfninni í Búðardal

þessum farkostum tilveru sína. Til Íslands fluttust frá árinu 874 og fram á miðja tíundu öldina 60 til 70 þúsund manns og var þá hver landskiki uppsetinn. Það segir okkur að hingað fluttust mörg þúsund manns á hverju ári, allir á víkingaskipum. Þó að hlægilegt sé er eins og árétta þurfi og minna á að ekki einn einasti kom með flugi, allir komu með víkingaskipum, konur, börn og karlar, það er raunveruleiki. Þetta gerðist fyrir rúmum þúsund árum.
Við Íslendingar höfum átt það til að líta þetta merkilega tímabil í sögu okkar kómískum augum og jafnvel vanvirða. Kannski er það ástæðan fyrir því að ekki hefur verið til víkingaskip sem mögulegt er að sýna ferðamönnum sem hingað koma, til uppfræðslu á því á hvernig farkostum við, siglingaþjóðin Íslendingar, komum hingað í upphafi.
Frá því smíði Íslendings hófst var ákveðið að sigla honum til Ameríku á þúsund ára afmæli siglinga þeirra Bjarna Herjólfssonar og Leifs Eiríkssonar til Vínlands, annað kom aldrei til greina. 1998 kom Einar Benediktsson, sendiherra, á vegum landafundanefndar að máli við undirritaðan og spurði hvort menn væru tilleiðanlegir að sigla skipinu til Ameríku árið 2000. Honum var tjáð að það hefði alltaf verið tilgangurinn með smíðinni. Létti Einari greinilega við þessa yfirlýsingu og hvatti til að sótt yrði um fjárveitingu frá Landafundanefnd til siglingarinnar sem var og gert.
Undirbúningur siglingarinnar hafði staðið yfir meira og minna frá upphafi smíðanna að segja má og hófst lokaspretturinn eftir áramótin '99-'00 þegar áhöfnin hafði verið valin.

Siglt frá Reykjavík 17. júní 2000. Áhöfnin í forgrunn

Úr vanda var að ráða þegar kom að því að velja áhöfnina. Ekki það að ekki væri nóg til af hæfum mönnum, íslenskir sjómenn eru jú bestu sjómenn í heimi, heldur hitt að margir hinir ágætustu menn höfðu haft samband og beðið um pláss. Líklega hefði ekki verið vandamál að manna fleiri skip ef á hefði þurft að halda. Niðurstaðan varð sú að hafa menn, sem þekktust, um borð og höfðu verið saman á sjó áður. Það eru nefnilega ótrúlegustu smáatriði sem geta vaxið og orðið að ófreskjum þetar dvölin um borð fer að skipta mánuðum, jafnvel þó menn telji sig fullþroskaða og getir mætt hverju sem er. Þess vegna er mikilvægt í för sem þessari að sem flestir viti hvað það er að búa þröngt um borð í skipi undir miklu vinnuálagi.

Í áhöfnina völdust eftirfarandi með undirrituðum: Jóel Gunnarsson stýrimaður, Stefán G Gunnarsson, Herjólfur Bárðarson, Elías V Jensson, Hörður Guðjónsson, Hörður Adólfsson, Pálmi Magnússon og Ellen Ingvadóttir. Ellen valdist sem fulltúi þeirra kvenna sem sigldu með í árdaga.

Gunnar Marel splæsir strekkibönd á vantana, í Ólafsvík áður en lagt er í hann

Tilgangur ferðarinnar var landkynning, í tilefni af því að um eitt þúsund ár voru liðin síðan Bjarni Herjólfsson og Leifur Eiríksson sigldu til Vínlands, ásamt því að gera tilraun til að rétta af þann leiða misskilning hjá nokkrum af hinum Norðurlandaþjóðunum að Leifur Eiríksson hafi ekki verið íslenskur maður.
Í janúar 2000 fréttist af sænska víkingaskipinu Skíðblaðni sem sigla skyldi til Ameriku með viðkomu á Hjaltlandi, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Ætlun þeirra var að koma til fyrstu hafnarinnar í Ameríku um leið og Íslendingur. Þannig var ásetningur þeirra að ná athygli til jafns við Íslending og nýta sér til fulls alla þá forvinnu sem Íslendingar höfðu unnið. Reyndar fóru þeir fram á að fá að vera samskipa yfir hafið frá Íslandi. Þetta kom eins og reiðarslag yfir Landafundanefnd og töluverður skjálfti fór um kerfið. Átti að leyfa þeim að spila með og dreifa þar með athyglinni frá Íslandi eða sniðganga eins og hverjar aðrar boðflennur. Landafundanefnd sendi eins konar njósnara til Svíþjóðar til að grenslast fyrir um hversu alvarlega þyrfti að taka fréttunum. Einnig var haft samband við hinn norska vin siglingar Íslendings og sérfræðing um víkingaskip, Jón Godal. Vitað var að hann hafði nýlega verið í Svíþjóð að aðstoða þá við segl og annað. Hann upplýsti að undirritaður hefði aldrei gefið út að Íslendingur væri eftirlíking af Gaukstaðaskipinu eins og gert var um það sænska. Taldi hann að þeir kæmust ekki langt aðallega vegna þess að skipið væri hreinlega ekki haffært sökum lélegrar smíði. Að þessu samanlögðu við það sem njósnarinn hafði að segja eftir dagsparts kynningu við áhöfnina um borð, þar sem tilvonandi sjómenn voru reykjandi eitthvað allt annað en venjulegt tóbak og kjölfestan aðallega bjór, var af undirrituðum létt. Landafundanefnd hafði áfram áhyggjur og taldi ástæðu til að vera við öllu búin. Viðurkennt er að gott sé að eiga bjór en okkur í áhöfn Íslendings fannst líklegt að þegar og ef þeir létu úr höfn ættu þeir ekki mörgum skyrtum eftir að slíta. Tóku nú við áhyggjur af því að þeir yrðu sér að aldurtila, frekar en hinu að þeir kæmust á leiðarenda.
17. júní rann upp með yndislegu veðri svo að halda mátti að forfeðurnir og máttarvöldin hefðu verið sammála um að gera þjóhátíðardaginn efti-minnilegri en aðra rigningarsama fyrirrennara. Fyrir hádegi þennan merka dag vorum við Hörður Guðjóns um borð að gæta að hvort ekki væri allt að verða sjóklárt. Búið var að stilla Íslendingi upp við flotbryggjuna þar sem kveðjuathöfnin átti að fara fram og beið hann þar eins og með hátíðlegum blæ eftir athöfninni. Vegna hjátrúar og andstyggðar stýrimannsins á tölunni níu en ekki af sömu ástæðu og Hrafna-Flóki hafði Höddi tekið tvo hrafnsunga úr laupi austur við Hornafjörð og fært þá um borð til að í áhöfn væru ellefu en ekki níu þegar lagt yrði af stað frá Reykjavík. Húktu þeir þarna frammi í stafni á priki og möluðu eins og kettlingar af vellíðan vegna þess að nýbúið var að gefa þeim vel útilátið af svínakjöti að éta svo að þeir færu nú ekki að garga í miðri forsætisráðherraræðunni. Ekki þarf nú að kenna Litlabæjarkyninu að meðhöndla fiðurfénaðinn dauðan eða lifandi.
Kemur þá þarna flaumósa maður, spariklæddur með hvítflibba, og er ábúðarmikill. Steig hann um borð án þess að biðja leyfis eða gera áður grein fyrir sér og lá mikið á brjósti. Kvaðst hann vera frá Umhverfisráðuneytinu, einhverju verndarráði villtra fugla, og að samkvæmt lögum værum við í algjöru leyfisleysi með hrafnsungana um borð. Líklega hafði hann fregnað af hrafnsungahaldinu ógurlega í blöðum. Ef við skiluðum þeim ekki í hreiðrið eins og hann sagði eða í hendurnar á lögmætum yfirvöldum varðaði það við lög. Við gætum búist við handtöku og jafnvel kyrrsetningu Íslendings. S.s. við værum í verulega slæmum málum. Við Höddi litum hvor á annan. Hvað var nú svona flibbadúi eiginlega að slá sér hér á brjóst? var hægt að lesa úr gáttuðum augum Hödda. Það var þá maður, mátti næstum heyra hann hugsa. Skyldi hann vera á mála hjá Greenpeace? Maðurinn hafði nú þegar fengið okkur báða þversum upp á móti sér. Eftir fasi hans, framkomu og diguryrðum að dæma mátti halda að glæpir sögunnar væru hjóm eitt samanborið við hrafnsungahald um borð í víkingaskipi. Ef maður setur sig í spor Hrafna-Flóka hefði hann annaðhvort gert manninn höfðinu styttri á staðnum eða tekið hann til að moka flórinn ef hægt hefði verið að nýta hann til þess. Við Höddi létum okkur nægja að munnhöggvast við manninn um hríð, sögðum honum beinskeytt að hér eftir sem hingað til tækjum við hrafnsunga hvar og hvenær sem okkur sýndist um það fengi hann ekki rönd við reist. Hrafnarnir yrðu með frá Reykjavík. Með það fór manngarmurinn, hneyktur en greinilegt var á fasi kauða að málinu var fráleitt lokið.
Ólýsanleg væntumþykjutilfinning til íslensku þjóðarinnar fór um hugann þegar líða tók að brottför. Fólk tók að streyma á bryggjuna og þegar upp var staðið voru 25-30 þúsund manns dreifðir um hafnarsvæðið m. a. úti á hafnargörðunum til að fylgjast með. Á flotbryggjuna þar sem Íslendingur lá ferðbúinn, var Karlakór Reykjavfkur kominn til að syngja okkur kveðjusöng. Forsætisráðherrar Íslands og Nýfundnalands og Landafundanefnd ásamt sendiherrum og öðru föruneyti voru þarna til að votta virðingu sína við brottför Íslendings.
Brian Tobin forsætisráðherra Nýfundnalands talaði og Davíð Oddsson forsætisráðherra lauk máli sínu með því að afhenda íslenskan stein sömu gerðar og fannst í sögualdarrústunum fyrir tveim árum á Nýfundnalandi og voru notaðir til að kveikja með eld. Það er að sjálfsögðu táknrænt að fara aftur, þúsund árum seinna, með jaspis yfir hafið á víkingaskipi. Þessir steinar sanna að Íslendingar voru í Ameríku fyrir þúsund árum vegna þess að slíkir finnast ekki annars staðar í heiminum en á Fróni og ekki voru þeir þarna í rústunum af öðrum ástæðum en að menn tóku þá með sér héðan í árdaga.
Þetta var tregablandin kveðjustund ástvina og kunningja undir silkimjúkum söng Karlakórs Reykjavíkur sem ómaði þegar áhöfnin á Íslendingi steig um borð. Menn komu sér fyrir hver á sínum stað og hrafnarnir í einu merkilegasta rúminu um borð nefnilega á lyftingunni frammi í stefni. Við höfðum ákveðið að hífa seglið upp inni við bryggju og sigla út höfnina án þess að setja vél í gang. Þetta tókst mjög vel og við sigum út á ytri höfn hæfilega hratt til að geta veifað á móti miklum húrrahrópum sem fylltu loftið, Alls staðar var fólk eins langt og augað eygði með fram strandlengjunni austur með Skúlagötunni og vestur í Gróttu voru bílar flautandi.
Á eftir okkur kom töluverður fjöldi báta og skipa, m.a. tvö frönsk seglskip sem voru í Reykjavikurhöfn vegna kappsiglingar hingað til Íslands. Guðjón Ármann Eyjólfsson frá Bessastöðum, skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík var um borð í öðru þeirra veifandi.
Menn voru djúpt snortnir af öllum þessum hlýhug, sem næstum var áþreifanlegur, frá fólki. Þarna upplifði undirritaður mikinn létti og leið jafnvel eins og hann hefði kannski verið að gera rétta hluti síðustu sex árin.

Höfuðborgin hvarf aftur undan og fyrstu hvalirnir gerðu vart við sig vestur við Jökul. Ákveðið var að stoppa í Stykkishólmi þar sem við gætum lagfært og endanlega klárgert Íslending áður en farið væri til Búðardals.

Lagt frá bryggju í Garner Brook á vesturströnd Nýfundnalands. Greinarhöfundur við stýrið

Að sigla gegnum röstina inn Hvammsfjörð er ævintýri út af fyrir sig en engum ráðlegt í fyrsta skipti nema hafa lóðs. Þetta gerðu þeir í árdaga vélalausir. Hvergi er minnst á í sögunni að það hafi verið vandkvæðum bundið. Í Búðardal var farið með okkur eins og kóngafólk. Allur viðgjörningur og gestrisni þeirra Dalamanna var frábær. Þeir áttu í okkur hvert bein meða á dvöl okkar þar stóð. Ekki er hægt að tíunda alla viðburði þar í svo stuttri grein en Vestmannaeyingurinn Sigríður Theodórsdóttir frá Nýjabæ, sem er ferðamálafulltrúi Vesturlands, hélt vel í taumana og skipulagði heimsókn okkar ásamt heimamönnum af einurð og rökvísi.

Við vorum kvaddir með miklum hátíðahöldum og svo vildi til að félag eldri borgara í Vestmannaeyjum var þarna á ferðalagi. Afhenti það okkur kaþólskan kross mjög fallegan sem við hengdum upp í kokkhúsinu, áhöfninni til mikillar andlegrar uppbyggingar á leiðinni vestur. Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson og fleiri héldu ræður og leysti ráðherra síðan landfestar þegar við fórum áleiðis til Ólafsvíkur. Við biðum af okkur brælu í Ólafsvík enda vorum við eiginlega viku of snemma á ferðinni til að leggja í hann til Grænlands. Flestir í áhöfninni fengu til sín betri helminginn til síðustu samvista áður en haldið yrði yfir hafið enda nógur tími. Sumir töldu sig mjög heppna að lenda á færeyskri Ólafsvöku þarna á meðan við biðum og ekki ónýtt að geta rætt málin „á færeysku“. Í heimsóknum okkar til Stykkishólms, Búðardals og Ólafsvíkur var ég ásamt, Hödda og Jóel, kvaddur oftar en tíu sinnum til yfirheyrslu hjá Sýslumanninum í Búðardal, Lögreglunni í Stykkishólmi og Ólafsvík vegna hins ófyrirgefanlega glæps að hafa tvo hrafnsunga í haldi um borð í víkingaskipinu Íslendingi.
Bæði sýslumaðurinn og lögreglan afsökuðu sig í bak og fyrir, fyrir að yfirheyra okkur og fannst þetta greinilega í meiralagi pínlegt en þeir höfðu sínum skyldum að gegna gagnvart yfirvaldinu sem hafði kært okkur og var í þetta skiptið Umhverfisráðuneytið. Það vom þá kveðjur frá þeim bæ eða hitt þó heldur. Er nema von að spurt sé, hve hátt getur heimskan stigið? Það er ekki eins og hrafninn sé alfriðaður. Í raun er leyfilegt að skjóta hann hvar og hvenær sem er. Halló. Hrafninn telst til vargfugla á Íslandi!!! Málið komst í erlenda fjölmiðla og náttúrulega þá íslensku. Alls staðar þurfti maður að skammast sín þar sem þetta bar á góma en tekið skal fram að það var ekki fyrir hrafnana.

Áhöfnin framan við Eiríksstaðabæ í Haukadal. Talið f.v.: Pálmi, Herjólfur, Hörður, Höddi, Jóel, Gunnar, Elli, Stefán Geir og Ellen

Hugmyndin var alltaf sú að skilja þá svörtu eftir í Ólafsvík sem við gerðum, enda tilganginum náð með 11 í byrjun ferðar. Sennilega hefðum við lent í erfiðum málum með fuglana fyrir vestan vegna umhverfismála og smithættulagabókstafa sem maður nennir ekki einu sinni að hugsa út í hvað þá meir. Það er pirrandi að vakna á hverjum morgni við hrafnagarg að ekki sé talað um gúanóið og óþrifnaðinn af þeim. Það hlýtur að hafa verið orðið nokkuð subbulegt um borð á stundum hjá þeim fornmönnunum eftir stundum meira en viku túra. En vel að merkja þá var allt að því lífsnauðsynlegt fyrir þá að hafa þennan annars skemmtilega fugl með í för.
Undirritaður þorir að veðja að Höddi á Hvoli, í blásaklausum peyjaskap sínum, vissi ekkert um framhaldið þegar hann gægðist með nefið upp fyrir laupsbarminn til að handsama hrafnsungana í júníbyrjun árið 2000.
4.júlí, 2000, kl. 00:06 var lagt af stað frá Ólafsvík áleiðis til Grænlands. Framan af var siglingin tíðindalítil nema að einstaka hvalur rak upp trjónuna og blés, hægur andvari og næstum byrleysa. Stefnan var sett í vestur líkt og forfeðurnir gerðu. Á þeirri stefnu er komið að austurströnd Grænlands allnorðarlega þegar lagt er upp frá Snæfellsnesi. Þetta þjónar eiginlega þríþættum tilgangi. Í fyrsta lagi nýtist straumurinn sem flytur ísinn suður með austurströndinni og norður með vesturströndinni. Í öðru lagi er styttra norður á bóginn ef sterk sunnan eða suðvestan átt skellur á við Hvarf eins og ekki er óalgengt þar um slóðir. Í þriðja lagi og ekki síst er þannig áreiðanlegt að hitta á landið til að lesa sig með ströndum þess líkt og þeim var svo lagið í árdaga. Búið var að raða niður á vaktir, 4 á annarri vaktinni og 5 á hinni. Staðnir voru 6 og 6.
Það var notalegt að vera kominn af stað úr hinu vitfirrta stressi reddinganna í höfuðborginni og allt komið í fasta rútínu, hlutirnir gengu sinn vana gang. Tekið skal fram hér að Íslendingur sigldi samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun sem varð að fylgja eins og um strandferðaskip væri að ræða. Á öllum áfangastöðum voru skipulögð hátíðarhöld sem skyldu byrja þegar Íslendingur kæmi í höfn. Bæjarstjórar, borgarstjórar, sendiherrar og alls konar fyrirfólk upp í kónga, drottningar og forseta biðu eftir að skipið kæmi. Dagurinn og klukkan hvað voru ákveðin mörgum mánuðum fyrirfram og eins gott að standast tímaáætlun. Formlegir viðkomustaðir voru 25, þar af 10 á Nýfundnalandi. Augljóst var að þetta yrði mikil keyrsla á mannskapnum og hvíldartími í lágmarki. Vegna þessarar stífu áætlunar var ekki hjá því komist að keyra vélar til að standast hana.

Við komum að ísröndinni nokkuð norðarlega og sigldum suður með henni í ágætu veðri. Við reyndum að taka ískort frá ísrannsóknarstöðinni á Suður-Grænlandi. Kom þá í ljós að radarinn þar, sem notaður er til að áætla ísinn, var bilaður. Við vorum með ískort sem þegar var orðið fjögurra daga gamalt og sýndi ísjaðarinn í 45 mílna fjarlægð í suður frá Hvarfi. Við vorum komnir í um 40 mílur frá Hvarfi þegar stefnan fór að verða vestlæg. Greinilegt var að töluverður sjór var úti fyrir ísnum fyrir sunnan og vestan Grænland. Við vorum búnir að sigla með ísinn á stjórnborða frá því um morguninn og komum nú að ísjaðri á vestlægri stefnu um kl: 19:00. Hann lá í norður, suður og virtist frekar gisinn. Fylgdarskipið, Hríseyjan EA, var fyrir framan okkur og fór inn í ísinn til að litast um. Við slógum af á Íslendingi og haft var á orði við skipstjórann að best væri að halda sig algjörlega fyrir utan helvítið til að hafa hann alveg á hreinu. Hann taldi sig sjá í radarnum að þetta væri einungis örmjó, gisin, spöng sem örstutt væri í gegnum og við yrðum á fríum sjó skammt fyrir vestan hana. Þar sem hann var vanur togaramaður að vestan og sjálfsagt búinn að berjast mikið við ís, beit undirritaður á agnið eftir svolitla umhugsun og ákveðið var að stytta sér leið í gegnum spöngina enda vorum við í um 45 mílna fjarlægð í suður frá Hvarfi og freistandi að trúa því að ísinn hefði ekki rekið mikið sunnar en síðasta ískort sýndi.
Þetta kostaði 9 klukkustunda baráttu við að halda Íslendingi ofansjávar. Nokkrum sinnum lenti Íslendingur upp á ís en einhvern veginn skröltum við af honum aftur. Síðan og botninn gengu óhuggulega mikið í bylgjum, drifið á b.b. vélinni brotnaði þegar það rakst í ísinn. Allir voru að sjálfsögðu úti með krókstjaka, árar, prik og fjalir til að stjaka ís frá.

Við komuna til Povidence í Bandaríkjunum. F.v.: Elías, Hörður, Pálmi og Jóel

Það var svo skrítið að það var eins og Íslendingur sogaðist upp að ísjökunum, einhvern veginn unnu straumurinn og vindurinn þannig saman. Við vorum kannski í 50 - 100 metra fjarlægð frá ís þegar skipið byrjaði allt í einu að hendast út á hlið í áttina að honum og erfitt að finna stað þar sem best væri að Íslendingur rækist á hann. Öðru hvoru heyrðist brakhljóð, sem betur fer var, þegar betur var að gáð, prik eða fjöl sem skellt hafði verið á milli byrðings og ís áður en áreksturinn varð að brotna.
Herjólfur Bárðarson hélt upp á og tók að lokum með sér heim mölbrotinn þykkan krossviðarbút sem hann setti á milli í eitt skiptið og má örugglega þakka honum að þá kom ekki gat á Íslending. Raunverulega má líkja byrðingnum við eggjaskurn þegar ís er annars vegar.
Það var myrkur, mikill straumur, sterkur vindur, töluverður sjór og þoka nær allan tímann. Loksins komumst við út úr ísnum í um 65 mílna fjarlægð frá Hvarfi og ótrúlegt en satt, Íslendingur í heilu lagi, óskaddaður og pottþéttur eftir öll átökin.

Þarna reyndi fyrst á mannskapinn sem stóð sig eins vel og unnt var að hugsa sér, engin panik, allir sem einn, samtaka í að bjarga sér með æðruleysi út úr þessum óhuggulegustu hremmingum sem hægt er að ímynda sér að lenda í.

Krummarnir hans Hödda á Hvoli

Þó að fylgdarskipið hafi verið nálægt, var oft hægt að sjá að erfitt yrði að komast um borð í það vegna íss, sjógangs og þoku. Líka var klárt að skipstjórinn hefði mátt hafa sig allan við til að týna okkur ekki í myrkrinu og þokunni jafnvel hangandi utan á klaka eða einhvers staðar á milli í björgunarbáti við þessar líka aðstæðurnar.
Þegar út úr ísnum var komið tók við haugasjór sem var viðvarandi meðan farið var suður og vestur fyrir ísinn. Síðan héldum við okkur klárlega fyrir utan þennan forna fjanda og eftir tvo til þrjá daga vorum við komnir upp undir Grænland að vestanverðu þar sem forfeðurnir kölluðu í Eystri-byggð. Grænland er hrikalega fagurt með sín bláu, háu, kuldalegu fjöll og jökulinn sitjandi ofan á öllu saman. Maður undrast þá bíræfni að nefna landið svo hlýlegu nafni. Hann lét sér víst ekki allt fyrir brjósti brenna sá sem það gerði heldur settist að og dró að sér margmenni frá gamla Fróni. Talið er að stofninn hafi verið orðinn 5 - 8000 manns rétt fyrir árið 1500 þegar hann hvarf. Sennilega vita fáir Íslendingar að þarna eru um allt húsarústir frá þessum tíma. Veggir af húsum hálfuppistandandi síðan þessir landar okkar, sem eitt sinn tóku sig upp og fluttu til Grænlands, af öllum stöðum, voru þarna. Eiríkur rauði hlýtur að hafa verið góður pólitíkus og meira til lista lagt en að drepa menn. Verið getur að hann hafi verið öfundaður, kannski af garpskap eða viturleika nema hvort tveggja hafi verið.
Íslendingur seig inn á fjörð með snarbröttum mörg hundruð metra háum hamraveggjum. Fyrsti viðkomustaður var Narsaq, um 6000 manna bær. Þegar siglt hefur verið inn langan fjörð á Grænlandi með miklum rekís og komið er að miðnætti undrast maður að þar sé yfirleitt bær eða nokkurt líf, svo kuldalegt er um að litast þó liðið sé á júlímánuð.
En þegar Íslendingur nálgaðist bryggjuna upphófust mikil fagnaðarlæti og húrrahróp. Töluvert af fólki hafði safnast þarna saman. Okkur til undrunar mátti heyra öskrað hásri röddu á íslensku: „Róiði helvítis aumingjarnir ykkar“. Þarna var þá landinn mættur, vel hressir strákar, í laxveiðiferð eins og þeir kölluðu það.
Þarna biðum við þangað til við áttum að sigla inn Eiríksfjörðinn sem er rétt við hliðina og að Brattahlíð þar sem hátíðarhöldin skyldu fara fram. Það er ólýsanleg tilfinning að sigla inn þennan fjörð á víkingaskipi vitandi það að nákvæmlega þessa leið fóru þeir feðgar Eiríkur og Leifur, fyrir 1000 árum á mjög svipuðum skipum. Ekki er komist hjá því að gera sér í hugarlund hvernig lífið hafi verið í raun og veru hjá þessu fólki og um leið og gæsahúðin hríslast eitt augnablik, er eins og það sé áþreifanlega nærri.
Farið var í það að gera Íslending kláran í að sigla upp að Brattahlíð þennan löngu fyrirfram ákveðna hátíðisdag. Snurfusað, þrifið, meðal annars borin viðarolía á mastur og byrðing enda eins gott því vitað var að Margrét Danadrottning og Hinrik prins ásamt herra Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands og fleira fyrirfólki voru komin þarna. Dagurinn rann upp og Íslendingur átti að renna að bryggjunni nákvæmlega kl: 14:00, áhöfnin ganga í land og taka í hendur þjóðhöfðingjanna og annars mektarfólks. Allt gekk þetta upp eins og til var ætlast. Eftir allar serímoníurnar var ákveðið að sigla með konungshjónin og forseta vorn þvert yfir fjörðinn og aftur til baka. Leyst var frá landi og strikið tekið þvert yfir. Golan lá inn fjörðinn og við höfðum uppi allan dúkinn, 130 fermetrana. Þegar við höfðum siglt út á miðjan fjörð, kom Hinrik prins aftur í og bað um að fá að stýra. Það var auðfengið og kom í ljós að karlinn var vel að sér í siglingum. Lítið þurfti að útskýra fyrir honum annað en að hann ætlaði ekki að trúa því að hægt væri að sigla nokkuð upp í vind. Vegna þess að það er meiri áhætta ætlaði undirritaður ekki að gera það þarna með svo dýra og merkilega farþega innanborðs. Konungsskipið Dannebrog sem var dvalarstaður konungshjónanna meðan á heimsókninni stóð lá utar í firðinum og bað yfirhirðsveinn hjónanna um að við skiluðum þeim hjónum þangað á Íslendingi. Þetta var töluvert upp í vind og undirritaður neitaði á þeim forsendum að það væri of margt fólk um borð og erfitt um vik ef skyndilega þyrfti að rútta seglinu til. Taldi hirðsveinninn, með nokkrum þjósti, að þetta væri fyrirsláttur. Við gætum einfaldlega ekki farið svo nálægt vindi. Þetta var náttúrulega ekki hægt, sýna varð þeim í tvo heimana. Þetta væri tilfellið og var nú undirrituðum nóg ögrað. Beygt var upp í og ákveðið að láta vaða á súðum ef þurfa þætti til að sannfæra aðalinn. Prinsinn varð yfir sig hrifinn og hissa þegar hann komst að raun um að við vorum að fara upp undir 35 gráður frá vindi og við gátum skilað þeim heim undir Dannebrog. Ólafi, Íslandsforseta, var boðið að stýra en hann baðst undan því. Þess má geta hér að konungsfólkið kom á óvart vegna þess hve alþýðlegt og viðkunnanlegt það var. Hver hefði annars trúað því að Stebbi Geir í Gerði, Höddi á Hvoli og Herró, í undirgefni og auðmjúkri hjálpsemi, ættu eftir að leggjast hver um annan þveran niður undir dekk með drottningunni til að skýla henni við að kveikja sér í rettu? Ekki ég.
.Á Grænlandi fréttist að Skíðblaðnir hinn sænski hefði komist til Shetlandseyja og þar hafi skipstjórinn og áhöfn hans hlaupist á brott og ekki spurst til síðan. Þó það.
Eins og áður kom fram voru viðkomustaðirnir 25 og lauk ferðinni í New York 5. október s.l. Þar var Íslendingur til sýnis til 25. þ.m. Mikill mannfjöldi kom alla daga að skoða skipið. Þar með lauk þessu verkefni okkar að sigla víkingaskipi til Ameríku til að minnast 1000 ára siglingaafmælis þeirra Bjarna Herjólfssonar og Leifs Eiríkssonar. Ferðin var ströng en ánægjuleg. Öllum, á viðkomustöðum Íslendings, eru sendar kveðjur og ánægjulegt samstarf við Landafundanefnd er þakkað hér.

Gunnar Marel Eggertsson.