Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2001/ Í kjölfar víkinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson


Í kjölfar víkinga


Guðjón Ármann Eyjólfsson

Minningaár
Síðasta ár 20. aldarinnar, aldamótaárið 2000, var okkur Íslendingum mikið minningaár.
Eitt þúsund ára kristni í landinu var minnst með þjóðhátíð á Þingvöllum 2. og 3. júní en einnig voru mikil hátíðahöld í tilefni siglingaafreka Íslendinga og landafunda í Vesturheimi, Grænlandi og Vínlandi, á Þjóðveldisöld. Landafundanna, um árið 1000, var minnst með hátíðahöldum á Íslandi og Grænlandi og vestanhafs í Kanada og Bandaríkjunum. Sigling víkingaskipsins Íslendings, sem undir skipstjórn Gunnars Marels Eggertssonar sigldi vestur um hafið í kjölfar forfeðranna, hinna miklu landafundamanna og landkönnuða Þjóðveldisaldar, Bjarna Herjólfssonar, Eiríks rauða og Leifs heppna Eiríkssonar, ber hæst í hugum okkar Íslendinga. Skipinu sigldi níu manna áhöfn, 8 karlar og ein kona, Ellen Yngvadóttir. Skipverjar voru allir Vestmannaeyingar, nema Ellen og því sérstök ástæða að kynna tilefni þessarar siglingar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja. Það var snjöll hugmynd hjá Gunnari Marel að hafa þessa glæsilegu konu með í hópnum en hún lauk 30 rúmlesta skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík vorið 2000 með sérstakri prýði.

Ein hin fyrsta úthafssigling

Greinarhöfundur og víkingaskipið sem afhent var Alþjóðasiglingamálastofnuninni í London

Um siglingar landnámsmanna og Íslendinga á Þjóðveldisöld skrifaði Kristján Eldjárn forseti Íslands í Sögu Íslands 1974 : „Og það er undarlega áhrifamikið að hugsa til landnemanna sem óþekktra og nafnlausra manna, sem koma siglandi og róandi austan af hafi, veðurbitnir og sæbarðir, skyggnandi hendi fyrir auga, skimandi til landsins, sem átti að fóstra þá og börn þeirra. Þeir komu reyndar úr einni fyrstu úthafssiglingu sem saga mannkyns kann frá að greina. Án þess að vita af því voru þessir menn að drýgja eina hina mestu hetjudáð, og litla grein hafa þeir getað gert sér fyrir því að þeir voru að leggja grunninn að þeirri sögu sem gerst hefur á Íslandi síðan og er enn að gerast. Afrek þeirra var sameiginlegt afrek margra, hárra og lágra. Nafnleysið fer þeim vel á þessari glæstu siglingu. Og þeir sverja sig í ætt sem vér þekkjum“

Fundur Grænlands og landnám frá Íslandi
Af siglingum íslenskra sæfara eru miklar sögur. Gunnbjörn Úlfsson var einn landnámsmanna. Um eða eftir 900 sá hann Grænland í vestri og var landið eftir það nefnt Gunnbjarnarsker þar til Eiríkur rauði gaf því nafnið Grænland „því að hann kvað það mjög mundu fýsa menn þangað ef landið héti vel."* Á 10. öld sigldi hópur Íslendinga undir forystu Snæbjarnar galta til austurstrandar Grænlands en ekki varð þar neitt úr landnámi frá Íslandi.
Eiríkur rauði, sem nam Grænland og Ari fróði nefnir „breiðfirskan mann“, hefur verið hinn mesti ofstopamaður. Hann verður landflótta úr Noregi sakir víga en kvænist góðri konu, Þjóðhildi Jörundsdóttur, og byggir sér bæ að Eiríksstöðum hjá Vatnshorni í Dölum vestur. Þaðan hrekst hann þó einnig á brott vegna mannvíga og illdeilna og fer út í Öxney á Breiðafirði. Í Breiðarfjarðareyjum lendir hann aftur í vígaferlum og var dæmdur sekur og útlægur á Þórsnesþingi. Eiríkur fór þá að leita landa og fann Grænland árið 983. Hann sneri aftur til Breiðafjarðar og lofaði mjög landkosti á Grænlandi. Í Grænlendingasögu er sagt frá því að sumarið 985 eða 986 lagði floti 25 skipa út frá Breiðafirði og Borgarfirði til Grænlands. Mörg skipanna fórust á leiðinni „fjórtán komust út þangað, sum rak aftur, en sum týndust.“*

Aðalsiglingaleiðir norrænna manna, landnema Íslands og íslenskra landafundamanna, á Þjóðveldsöld, um og eftir árið 1000

Eystri- og Vestribyggð á Grænlandi

Hluti af miðunarskífu sem fannst i rústum nunnuklausturs í Siglufirði Uunartoqfirði í Eystribyggð sumarið 1948. Danskur skipstjóri Carl V Sölver, kom síðar mönnum á sporið, að þetta væri hluti af kompásskífu með 32 strikum

Eiríkur rauði gerðist síðan höfðingi yfir Grænlandi og bjó að Brattahlíð í Eiríksfirði (liggur gegnt Narssarsuaq) ásamt Þjóðhildi konu sinni sem var kristin og reisti fyrstu kirkjuna á Grænlandi. Rústir þessarar fornu kirkju, sem nefnd hefur verið Þjóðhildarkirkja, fundust ásamt kirkjugarði norrænu landnemanna sumarið 1961. Af þeirri kirkju var byggð eftirlíking sem vígð var s.l. sumar með mikilli hátíð að Brattahlíð af biskupum Grænlands, Íslands og Danmerkur að viðstöddum þjóðhöfðingjum þessara landa.

Sigling Bjarna Herjólfssonar frá Eyrarbakka
Í Grænlendingasögu er skemmtileg og lífleg frásögn af siglingum Bjarna Herjólfssonar sem var sonur Herjólfs Bárðarsonar og Þorgerðar konu hans, sem bjuggu á Drepstokki á Eyrarbakka. Þau fluttu til Grænlands og settust að á Herjólfsnesi í Eystribyggð. Bjarni Herjólfsson kom frá Noregi til Eyrarbakka (Eyrar) það sama sumar (985 eða 986) „er faðir hans hafði brott siglt um vorið.“* Bjarni ákvað þá að sigla áfram til Grænlands og þótti það djarflegt fyrirtæki þó að allir skipverjar fylgdu honum og mælti þá Bjarni : „Óviturleg mun þykja vor ferð þar sem enginn vor hefir komið í Grænlandshaf“. „En þó halda þeir nú í haf þegar þeir voru búnir og sigldu þrjá daga, þar til er landið var vatnað (þ.e. horfið í sæ), en þá tók af byrina og lagði á norrænur og þokur, og vissu þeir eigi hvert að þeir fóru og skipti það mörgum dægrum. Eftir það sáu þeir sól og máttu þá deila áttir (þ.e. finna réttar áttir) og ræddu um með sér hvað landi þetta mun vera en Bjarni kvaðst hyggja að það mundi eigi Grænland.“*
Sigldi Bjarni framhjá landinu, „og sáu það brátt, að landið var ófjöllótt og skógi vaxið og smáar hæðir á landinu, og létu landið á bakborða og létu skaut (þ.e. seglskaut) horfa á land.“*
Þetta mun að öllum líkindum hafa verið það land sem nefnt var Markland en fær heitið Labrador um 500 árum síðar. Bjarni Herjólfsson sigldi síðan norður með Labrador og jafnvel allt norður undir Baffinseyju. Þeir fóru hvergi í land heldur sigldu í blásandi byr til Grænlands og tóku land á

Herjólfsnesi. Um Bjarna Herjólfsson var sagt er hann sagði frá þeim löndum sem hann hafði fundið á leið sinni frá Íslandi til Grænlands: „að þótti mönnum hann verið hafa óforvitinn og fékk hann af því nokkurt ámæli.“*

Leifur heppni sér land í Ameríku. Málverk eftir norska málarann og rithöfundinn Christian Krohg

Frægðarför Leifs hins heppna

Áttaviti og miðunarskífa víkinga, teikning byggð á skífunni sem fannst í Siglufirði (Uunartoq) og sjá má á blaðsíðunni hér á móti

Leifur Eiríksson keypti all nokkru síðar skipið af Bjarna og fór með hálfan fjórða tug manna í mikla frægðarför til hinna nýju landa sem Bjarni hafði fundið í vestri. Í þeim leiðangri reisti hann Leifsbúðir á norðurodda Straumeyjar við Straumeyjarsund og bjargaði 15 mönnum, sem höfðu brotið skip sitt og komist upp á sker. Eftir þetta var hann nefndur Leifur hinn heppni.

Allt bendir til þess að rústir sem Norðmaðurinn Helge Ingstad og kona hans, Anne-Stine Ingstad fundu árið 1960 þar sem heitir L'Anse- aux-Meadows, nyrst á Nýfundnalandi við Fagureyjarsund (Strait of Belle Isle), séu rústir Leifsbúða. Með rannsókn kolefnasambanda C-14, reyndust mannvistarleifar í rústunum vera frá því um árið 900.

William O'Neil framkvæmdastjóri Alþjóðamálasiglingastofnunarinnar t.v. og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra virða fyrir sér líkanið af íslenska víkingaskipinu

Þorvaldur Eiríksson, Karlsefni og Guðríður

Alþjóðasiglingamálastofnun á syðri bakka Thamesár í Lundúnaborg

„Á landnámsöld voru meiri siglingar um norðurhöf en um aldaraðir síðan,“ skrifar Jón Jóhannesson prófessor í Íslendingasögu.
Þorvaldur Eiríksson, sonur Eiríks rauða og Þjóðhildar konu hans í Brattahlíð á Grænlandi, og hjónin Þorfinnur karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir eru ásamt þeim sem fyrr eru nefndir hin stóru nöfn í sögu landafunda Íslendinga í Vesturheimi á Þjóðveldisöld.
Guðríður Þorbjarnardóttir var fædd að Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Hún var áður gift Þorsteini Eiríkssyni, bróður Þorvaldar og Leifs hins heppna.
Vínlandsför Leifs vakti mikla athygli og umræðu á Grænlandi „og þótti Þorvaldi bróður hans (þ.e. Leifs), of víða ókannað hafa verið landið.“* Þorvaldur fór síðan með þrjá tugi manna í leiðangur frá Grænlandi til hinna nýfundnu landa og Vínlands í vestri og hafði vetursetu í Leifsbúðum (L'Anse Aux Meadows). Þorvaldur sneri ekki aftur heim úr þeirri för. Hann féll fyrir örvaroddi í skærum við frumbyggja landsins sem í Íslendingasögum eru nefndir Skrælingjar. Þorvaldur var grafinn þar vestra á Krossanesi, sem Páll Bergþórsson heldur fram að hafi verið á Bretoneyju, rétt við austurströnd Nýja Skotlands (Nova Scotia), sunnan Lárensflóa.

„Og er hér örin“

Leifur Eiríksson, sonur Íslands, fann Vínland. Frá Bandaríkjunum Norður-Ameríku til íslensku þjóðarinnar á eitt þúsund ára afmæli Alþingis 1930

Í Grænlendingasögu segir frá því er Þorvaldur særðist í bardaga við frumbyggja landsins og varð það hans bani. „Ég hef fengið sár undir hendi“, segir hann, „og fló ör milli skipborðsins og skjaldarins undir hönd mér, og er hér örin, en mig mun þetta til bana leiða“*....
Um 1950 fannst örvaroddur í bæjarrústum að Sandnesi á Grænlandi, þar sem Þorsteinn Eiríksson bjó. Danski mannfræðingurinn Jörgen Meldgaard álítur þennan örvarodd vera sams konar þeim sem Indíánar í Labrador notuðu á örvar sínar. Örvaroddinn telur hann enn eina sönnun fyrir landnámi hinna fornu Grænlendinga á meginlandi Norður-Ameríku og staðfesti fundurinn frásagnir íslenskra fornsagna af landafundunum í Vesturheimi og hvernig dauða Þorvaldar bar að.
Þorsteinn Eiríksson vildi fara til Vínlands eftir líki Þorvaldar bróður síns. Um vorið lét hann í haf til Vínlands ásamt Guðríði konu sinni og hálfum þriðja tugi manna. Þau lentu í hafvillum og „velkti úti allt sumarið og vissu eigi hvar þau fóru.“ * Loks náði Þorsteinn og skipverjar hans landi í Lýsufirði í Vestribyggð og þar andaðist Þorsteinn og margir skipverjar hans litlu síðar úr sótt. Þessi lýsing segir mikla sögu um siglingar fornmanna, sem voru oft erfiðar og áhættusamar.

Landnám á Vínlandi
Eftir lát Þorsteins Eiríkssonar giftist Guðríður Þorbjarnardóttir Þorfinni karlsefni sem var farmaður, ættaður úr Skagafirði og „stórauðugur að fé.“.* Karlsefni fór vorið eftir til Vínlands ásamt Guðríði konu sinni með „sex tugi karla og konur fimm“. „Þeir höfðu með sér alls konar fénað, því að þeir ætluðu að byggja landið, ef þeir mættu það,“* segir í Grænlendingasögu. í Eiríks sögu rauða er sagt mun ítarlegar frá ferðum Þorfinns karlsefnis og að í leiðangri Karlsefnis hafi verið þrjú skip og fjöldi leiðangursmanna hafi verið 140- 150 manns. Þarna ber nokkuð á milli en Eiríks saga rauða vegsamar ættir Snorra, sonar Karlsefnis og Guðríðar, og er sennilega að hluta rituð í þeim tilgangi en biskupar voru frá þeim komnir.
Þau Þorfinnur Karlsefni og Guðríður byggðu sér bæ á Vínlandi og lét Karlsefni „gera skíðgarð rammlegan um bæ sinn og bjuggust þar um. Í þann tíma fæddi Guðríður sveinbarn, kona Karlsefnis, og hét sá sveinn Snorri“*. Á kortinu hér að ofan er í vinstra horni með teikningu og í stuttum texta minnt á landnám þeirra hjóna og sveininn Snorra, sem er fyrsti hvíti maðurinn sem fæddist í Ameríku. Í vinstri hendi heldur Karlsefni á hringlaga skífu, sem gæti verið siglingatæki þeirra tíma, miðunarstika eða sólskífa.

Karlsefni og Guðríður dvöldu á Vínlandi í þrjú eða fjögur ár en sneru þá aftur til Grænlands og eftir stutta dvöl þar héldu þau til Íslands. Þorfinnur karlsefni og Guðríður reistu bú að Glaumbæ í Skagafirði og eru miklar og merkar ættir komnar frá þeim og Snorra syni þeirra. Eftir andlát Þorfinns karlsefnis gerðist Guðríður nunna og fór í pílagrímsför til Rómaborgar. Hún hefur því vafalaust verið víðförulst kvenna og karla á miðöldum. Sumir hafa velt því fyrir sér hve afdrifarík áhrif það hefði haft á veraldarsöguna ef þekking Guðríðar á löndum og siglingaleiðum milli Grænlands og meginlands Norður-Ameríku hefði orðið heyrinkunnug í Evrópu um hennar daga, nokkru eftir árið 1000.

Ferðir Guðríðar Þorbjarnardóttur. „Mesti ferðagarpur miðalda.

Aðrar ferðir til Vínlands
Auk þeirra ferða sem hér hefur verið getið er í sögunum um Vínlandsferðir getið um ferð Freydísar Eiríksdóttur, sennilega um 1012. Sú frásögn virðist nokkuð í ætt þjóðsagna og er dregin sterkum dráttum. Árið 1121 fór Eiríkur upsi Gnúpsson Grænlandsbiskup til Vínlands. Nærtækasta skýringu á þessari ferð telur Páll Bergþórsson vera að norskur silfurpeningur, sem fundist hefur í Mainefylki, sé „að hann hafi verið úr fórum Eiríks upsa“.

Landnám norrænna manna á Grænlandi

Á Grænlandi dafnaði í rúmar þrjár aldir blómlegt samfélag í landnámi íslenskra og norrænna manna sem höfðu sest þar að eftir að Eiríkur rauði fann landið árið 983. Vestribyggð var í Lýsufirði (Amaralik) og fleiri löngum fjörðum, suður og inn af höfuðstaðnum Nuuk (Godthaab) þar sem er sléttur sjór og lygn. Eystribyggð var á Suður-Grænlandi nálægt Narssarsuaq, skammt norðan og vestan við Hvarf. Byggðin þar var mun fjölmennari. Á blómatíma byggðar norrænna manna á Grænlandi voru þar um 300 bæir, 16 kirkjur og tvö klaustur en Grænlandsbiskup sat í miðri Eystribyggð á biskupssetrinu Görðum (Igaliku), innst í djúpum firði, sem heitir Einarsfjörður. Um miðja 12. öld fór loftslag kólnandi á Íslandi og norðurslóðum og varð meðalhiti lægstur á tímabilinu 1250 -1350. Urðu þá harðindi og ísaár og siglingar ekki eins tíðar og verið hafði um og skömmu eftir landnám Grænlands. Allir aðdrættir urðu mjög erfiðir og auk þess sóttu Inúítar (eskimóar) í norðri að byggðum norrænna manna. Á fyrstu áratugum 15. aldar, sennilega árið 1410, var síðasta sigling frá Grænlandi til Íslands og Vestur-Evrópu. Um 1500 var mannlíf norrænna manna gersamlega horfið á Grænlandi og aðeins rústir einar eftir í Eystri- og Vestribyggð. Það er mönnum enn hulin ráðgáta hvernig þetta gerðist.

Víkingaskipið þar sem það hvílir á íslenskum gabbrósteini í Alþjóðasiglingamálastofnunni í London

Líkan af víkingaskipi og „Vínlandskort“
Kortið, sem fylgir þessari grein, er teiknað af Ingólfi Björgvinssyni auglýsingateiknara. Það er að baki líkani af víkingaskipi sem var afhent Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) í London við hátíðlega athöfn hinn 21. nóvember s.l., árið 2000, til að minnast siglingaafreka og landafunda Íslendinga sem er getið hér að framan. Alþjóðasiglingamálastofnunin (International Maritime Organization, skammstafað IMO) er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og eru um 160 þjóðir, hvaðanæva að úr heiminum, aðilar að IMO og koma til funda í London allt árið um kring til að fjalla um siglingamál og öryggi á höfunum.
Þetta er mikill heiður fyrir Íslendinga og blasir líkan víkingaskipsins ásamt kortinu við augum allra sem koma til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í Lundúnum. Skip víkinga, langskipið og knörrinn, eru ein fullkomnnsta gerð skipa sem nokkum tíma hefur verið smíðuð í Evrópu. Frá Noregi fengum við og forfeður okkar hina miklu og ríku hefð í skipasmíðum sem kemur svo glæsilega í ljós í Gaukstaðaskipinu og Ásubergsskipinu, sem eru vÍkingaskip er fundust í víkingagröfum í Noregi og eru þekkt um allan heim. Ingólfur Björgvínsson teiknari lýsir þessu prýðilega í hægri hlið kortsins.
Þorleifur Vagnsson módelsmiður og fyrrverandi sjómaður smíðaði líkanið, en hjónin Margrét Ragnarsdóttir og Sigurður Hrafn Þórólfsson silfursmiður sáu um rá og reiða skipsins, Margrét saumaði seglin en Sigurður, sem er þekktur módelsmiður skipa úr silfri og gulli, gerði reiðann og smíðaði blakkir og mastur. Líkan Þorleifs er listasmíði og sómir skipið sér vel í sölum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar þar sem það fékk endanlegan sess við hliðina á geimskipinu Explorer.
Það er vel við hæfi að líkan af fyrstu skipunum, sem sigldu yfir opið úthaf frá Noregi og Bretlandseyjum til Íslands og þaðan til Grænlands og Ameríku, sé við hlið eins af fyrstu geimskipum 20. aldarinnar. Líkanið er 160 sentimetra langt, 50 sentimetrar á breidd og 90 sentimetrar á hæð. Það hvílir á gabbrósteini sem var látinn halda óreglulegri lögun sinni og steinninn þannig valinn að stýri skipsins um stjórnborða nýtur sín. Skipið, seglbúnaður, rá og reiði, er smíðað með Gaukstaðaskipið að fyrirmynd en það fannst í Noregi árið 1880 að Gaukstað við Oslófjörðinn vestanverðan (Vestfold). Guðmundur Víðir Guðmundsson trésmíðameistari smíðaði vandaðan kassa utan um líkanið og gekk frá því til flutnings frá Íslandi til Bretlands og var það vandaverk.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti skipslikanið við stutta en hátíðlega athöfn í Lundúnum hinn 21. nóvember s.l. að viðstöddum William A. O'Neill aðalframkvæmdastjóra Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, Þorsteini Pálssyni sendiherra í London og nokkrum fleiri gestum.

Minnst landafunda í vestri og siglingar Íslendings

Stytta af Leifi Eirikssyni eftir bandaríska mvndhöggvarann Stirling Calder. Höggmyndin stendur framan við Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti.önnur stytta af Leifi Eiríkssyni er framan við eitt stærsta sjóminjasafn í Bandaríkjunum í Newport News í Virginíufylki

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tók strax sérstaklega vel í þá hugmynd að minnast landafunda Íslendinga með þessum hætti. Eg undirritaður kom þarna við sögu og var sérstaklega ánægjulegt að vinna að þessu verkefni ásamt þeim sem hér hafa verið nefndir og starfsfólki Samgönguráðuneytisins. Hér vil ég sérstaklega geta Ragnhildar Hjaltadóttur skrifstofustjóra og Helga Jóhannessonar, lögfræðings í ráðuneytinu, sem átti ekki minnstan þátt í að þetta tókst vel og allt gekk upp sem sagt er.
Líkan af vikingaskipi í æðstu stofnun siglingamála í heiminum þar sem allar siglingaþjóðir heims koma til funda minnir ekki aðeins umheiminn á framlag þjóðar okkar og nonænna manna til siglinga og landafunda í Norðurhöfum heldur einnig á siglingu vfkingaskipsins Íslendings til Vesturheims sumarið 2000. Gunnar Marel Eggertsson og áhöfn hans voru þá nýkomin úr mikilli frægðarför frá Íslandi alla leið til New York. Sigling Íslendings til Grænlands og Ameríku var staðfesting á landafundum forfeðra okkar og sannleiksgildi íslenskrar sagnaritunar. Vegna siglingar Íslendings sumarið 2000 er þessi táknræna gjöf til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar okkur Íslendingum mun meira virði en ella hefði verið.

Sigling og smíði Íslendings
Smíði víkingaskipsins Íslendings og síðan siglingin yfir hafið er aðdáunarvert framtak og í sjálfu sér afrek. Koma skipsins var hápunktur hátíðahalda alls staðar þar sem Íslendingur kom að landi vestanhafs. Á kortinu era sýndar siglingaleiðir íslensku sæfaranna sem fundu lönd í vestri. Fylgt er lýsingum Grænlendingasögu sem skráð er að minnsta kosti 100 árum fyrr en Eiríks saga rauða og því nær atburðum og talin öruggari heimild. (Jón Jóhannesson, Jakob Benediktsson, Þórhallur Vilmundarson).

Guðjón Ármann Eyjólfsson


Heimildir: 1. Grœnlendingasaga og Eiríks saga rauða. Íslenskar fornsögur II. bindi. Íslendingasögur. Útg. Skuggskjá 1969.
2. The Vinland Voyages - a historical survey. Þórhallur Vilmundarson - Iceland Review 3. árg. I. tbl. 1965.
3. Vínlandsgátan — Páll Bergþórsson. Útg. Mál & menning Reykjavík 1997.
4. Íslendingasaga I. Þjóðveldisöld - Jón Jóhannesson . Útg. Almenna bókafélagið 1956.

  • Tilvitnanir í Grœnlendingasögu.