Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000/Vinnandi hendur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Vinnandi hendur
Störf kvenna á útvegsbændaheimilum í Vestmannaeyjum


Séra Bára Friðriksdóttir

Það hefur runnið mikið vatn til sjávar síðustu öldina þegar hugsað er til verklags og vinnuaðstæðna. Á fyrri hluta tuttugustu aldar voru útvegsbændaheimilin mörg í Vestmannaeyjum. Í dag hvá yngri kynslóðirnar og spyrja:
„Útvegsbændaheimili, hvað er nú það?“ Þannig varð mér við þegar ritstjóri blaðsins bað mig að skrifa um störf kvenna á útvegsbændaheimilum í Vestmannaeyjum. Eftir að hafa tekið þrjár heiðurskonur tali um uppvöxt þeirra á útvegsbændaheimilum er ég margs vísari. Ég fyllist þakklæti fyrir vinnukonurnar á mínu heimili, þær þvottavél og uppþvottavél. Ég sé einnig að nútímafólk hefur fyrir margt annað að þakka, þvílíkt vinnuhagræði hefur tækniöldin fært okkur. Um leið skapast nútímafólki rými til að nota orku sína og tíma í fleiri þætti en tækifæri gáfust til fyrr á öldum. Annað hefur tapast með auknum hraða, eldri kynslóðir geta betur metið hvers er að sakna.
Heimildarkonur mínar eru Anna Þorsteinsdóttir í Laufási, Sólveig Ólafsdóttir frá Þinghól og Erla Eiríksdóttir frá Eiríkshúsi. Þær drógu upp mynd af löngu horfnum heimi sem þarft er að festa á blað svo að arfur undangenginna kynslóða glatist ekki. Hér verða verkefni kvenna á útvegsbændaheimilum rakin.
Verkahringur árið um kring skoðaður og kryddað með hversdagssögum úr bernskuminningum Önnu, Sólveigar og Erlu.

Útvegsbændaheimili
Til að varpa ljósi á hvað útvegsbændaheimili stóð fyrir, má segja að þar hafi farið fram útgerð, verið stundaður búskapur og nytjar eyjanna nýttar. Þar var bátur til útræðis, kró niðri við höfn auk fjárhúss, fjóss og hlöðu. Þó voru ekki allir útvegsbændur með skepnur. Á útvegsbændaheimilum var jafnan margt til heimilis. Auk foreldra og barna bjuggu aðgerðarmenn, sjómenn og vinnufólk hluta eða lungann úr árinu á heimili útvegsbóndans. Þegar fólk fór að reskjast voru engin elliheimilin þannig að gamalmenni sem tengdust útvegsbændafjölskyldunni eyddu þar síðustu æviárunum. Ekki var óalgengt að 20 til 30 manns byggju á heimilinu að jafnaði. Þar var vinnukona sem dvaldi vetur langt eða allt árið um kring. Gjarnan voru tvær vinnukonur, önnur bjó á heimilinu til margra ára en hin kom alltaf yfir vetrartímann. Þar var einnig fastur vinnumaður til að sinna skepnunum. Á annatímum gat bæst við vinnufólk og var þetta algengur fjöldi vinnufólks á útvegsbændaheimilum.

Vertíðin
Upp úr áramótum fóru sjómenn, aðgerðar og beitumenn að streyma að ofan af landi og bjuggu þeir á heimili útvegsbóndans meðan á vertíð stóð en hún hófst í lok janúar og stóð til 11. maí. Sængurföt, sængur, handklæði og matur voru lögð til handa aðkomumönnunum. Verkefni kvenna var að setja í bitakassana. Á hverju kvöldi var raðað í trékassana kjötbita, feitum fugli, brauði, grautarskál og stundum eggjum. Þetta höfðu sjómennirnir til matar. Eins var aðgerðarmönnum færður biti og kaffi niður í kró. Sums staðar var farið með bakkelsi niður í skip þegar það lagði að, allt í höndum kvennanna og börnin hjálpuðu til. Það var hefð fyrir því að afli á sumardaginn fyrsta tilheyrði konum sjómanna. Þann dag komu bátarnir allir inn með flöggum. Sjómönnunum voru færðar pönnukökur helst með rjóma niður í skip og fagnað saman yfir fengnum afla. Það þurfti að elda ofan í mannskapinn daglega og veita duglega því fólk þurfti orkuríka fæðu til að takast á við erfið verk og vosbúð. Sólveig minnist þess að máltíðir hafi verið á öðrum tímum en í dag. Á morgnana fengu allir hafragraut eða skyrhræring.

Í hádeginu var kaffi og brauð en klukkan þrjú var heit máltíð. Aftur kaffi klukkan fimm og léttur málsverður um sjöleytið, gjarnan grautur enda tíðin þá ekki kölluð grautaröld að ósekju. Að endingu var kvöldkaffi fyrir alla. Kvölds og morgna þurfti að mjólka kýr. Vinnukonan fór í það með vinnumanninum en að öðru leyti sá hann um gegningar. Vinnukonurnar höfðu verkaskiptingu. Þá vikuna sem önnur fór í fjósið eldaði hin. Það þurfti að kveikja upp í kolamaskínunum við fyrstu dagsskímu, hreinsa öskuna frá fyrri degi, bera kol í þær, henda gjalli og geyma ösku til dagsloka en þá var hún lögð á glóðina til að halda hitanum lengur í henni. Þetta var í verkahring kvennanna. Rifjast ósjálfrátt upp ljóð Davíðs Stefánssonar „Ég finn það gegnum svefninn, að einhver læðist inn, með eldhúslampann sinn, ég veit að það er konan sem kyndir ofninn minn.“

Saltfiskþurrkun

Áður en vertíð lauk var fiskurinn vaskaður. Það var einnig verk kvennanna.
Karlarnir báru saltfiskinn úr stæðunum til þeirra niður í krærnar. Þar stóðu full kör af sjó. Konurnar vöskuðu og himnudrógu fiskinn í akkorði. Margar náðu að vaska 500 til 700 fiska á dag. Verkið var erfitt og kalsamt. Þær voru með hendurnar á kafi í köldum sjónum frá morgni til kvölds. Einhver myndi víst setja út á slíkar vinnuaðstæður í dag.
Eftir vöskun báru karlarnir fiskinn í stakk og stráðu salti í. Þegar búið var að þurrka fiskinn á stakkstæðunum fór hann í 50 kílóa pakka. Aftur tóku konurnar við þurrum saltfiskinum og saumuðu striga utan um pakkana svo að hann væri tilbúinn til útflutnings.

Verkahringur vikunnar
Í minningu kvennanna var ofninn alltaf heitur, stöðugt verið að baka, flatbrauð, kökur, vínarbrauð og snúða. Þó minnist Anna þess að föstudagar hafi verið helgaðir bakstri á kökum og hveitibrauði fremur öðrum dögum. Þar stýrði húsfreyjan búi og sá til þess að allt gengi. Silfrið var fægt hálfsmánaðarlega Á mánudögum var þvottur lagður í bleyti.
Mikil vinna beið því upp úr klukkan þrjú aðfararnótt þriðjudags varð vinnukonan að kveikja undir þvottapottinum svo að nóg væri af heitu vatni til þvotta.
Önnur þvottakonan eyddi lunganum af deginum í að þvo á brettum af heimilisfólkinu. Þvottadagurinn var langur og mikil erfiðisvinna. Til að létta daginn bakaði húsfreyjan eða hin vinnukonan klatta og bar fram með rabbabarasultu, handa þvottakonunum og öðru heimilisfólki til tilbreytingar.
Daginn eftir var gengið frá þvottinum. Á fimmtudögum máttu vinnukonumar eiga frí seinnipartinn. Það frí var ekki nærri alltaf tekið. Á föstudögum voru, auk bakstursins, allir gluggar sápuþvegnir. Þörfin var meiri fyrir öran gluggaþvott þegar kolaeldavélar voru einar um að verma húsin. Til gamans má geta að 8 eldstæði voru í Laufási, en þar voru 14 herbergi. Auk þessara föstu verka vikuna um kring fylgdi dagleg tiltekt og frágangur. Á sumum heimilum voru búnar til sápur eftir þörfum.

Útvegsbœndafjölskvldan Sigurðar Ingimundarsonar og Hólmfríðar Jónsdóttur frá Skjaldbreið. Fremsta röð f.v.: móðir Sigurðar, Sigríður Rósa, Hólmfríður, Pálmi, Sigurður, Kristinn, Júlíus og Friðjón. Miðröð f.v.: Ágústa Arnadóttir, bróðurdóttir Sigurðar, ólst upp í Skjaldbreið. Af sjó- og vinnumönnum þekkjast aðeins tveir, í miðröð annar frá hœgri Brynjólfur og annar frá vinstri í öftustu röð Guðni Sigurðsson frá Norðfirði. Sigurður var alla tíð mikill fiskimaður og harður sjósóknari

Sundmaginn í útflutning
Fyrir tíma einnotavæðingarinnar var allt nýtt. Skemmtilegt dæmi um það var nýting á sundmaga.
Þessi þunna himna sem liggur með hrygg fisksins var þrifin. Konurnar sátu klofvega á setbekk í eldhúsinu á meðan slor og óhreinindi voru skoluð burt. Síðan fór sundmaginn í saltpækil fram á vor. Þá var allt útvatnað og loks var hann breiddur upp til þerris á húsþök. Þá þurfti að hafa vökul augu og fráa barnsfætur nærri ef skyldi hvessa, því sundmaginn var léttur og oft þurftu börnin að hlaupa um túnin til að hirða upp hálfþurran sundmagann. Fyrir sundmagann fengu konumar aukapening, prívat fyrir sig. Þær lögðu verkaðan sundmagann inn hjá kaupmanninum. Þar var hann sekkjaður og síðan sendur til útflutnings. Úr honum var unnið matarlím o.fl. Sundmaginn var verkaður frá degi til dags og var setið heilu dagana við að verka ef mikill afli barst að landi. Erla á góðar minningar frá sundmagaútgerð sinni sem barn. Þá voru börnin fengin til að hjálpa til við að hreinsa sundmagann heima. Valgerður Sæmundsdóttur var alltaf að dobbla stelpurnar til að verka með sér sundmagann fyrir háhælaða skó. Mamma Erlu komst svo að orði: „Það er eitthvað betri sundmaginn hjá Valgerði en heima.“ Spenningurinn af að fá að eiga gamla spariskó af frú Valgerði hafði sitt aðdráttarafl.

Annir vor og sumar
Þegar vertíðinni lauk fóru sjómenn og aðgerðarmenn til síns heima þegar leiði gaf upp í sandinn. Þá tók við stórhreingerning hjá konunum. Allt var tekið í gegn, hátt og lágt.
Á vorin tók garðvinnan við, því allir voru með kálgarða. Karlmennimir pældu upp beðin með handafli einu og mokuðu geilar en konur og börn komu kartöflunum niður. Þegar kom að uppskeru lagðist allt heimilisfólk á eitt við að taka upp kartöflurnar. Það sama átti við í heyskapnum. Það lögðust allir á eitt við að koma heyjum inn en oft tók langan tíma að þurrka hey í Eyjum.

Í maí var farið að þurrka saltfiskinn. Fiskurinn var lagður til þerris á stakkstæðin og síðan stakkaður. Upp úr klukkan sex á morgnana var farið út að breiða ef ekki var áfall. Börnin lögðu sinn skerf í þá gríðarlegu vinnu að stakka og breiða. Það voru jafnvel til sérstakar fiskbörur fyrir börnin. Systir Önnu, sem nú er nálægt tíræðu vildi ung vinna sér inn peninga. Þá var hagkvæmara að leggja til vinnu hjá öðrum en foreldrunum. Afi hennar útvegaði henni vinnu. Hún bar fiskinn að stakknum ásamt pilti, jafnaldra sínum. Þegar kom að útborgunardegi fékk hann 13 aura á tímann en hún 10 aura. Telpan var ekki hrifin af þessum viðskiptum og gerði uppsteit. Fór til afa síns og benti honum á óréttlætið. Afi fór til vinnuveitandans og hún fékkjöfn laun á við strákinn, enda búin að skila sömu vinnu.

Það var fleira gert á sumrin en að stakka fiski og heyja. Snemma sumars var farið til eggjatöku. Það kom í hlut kvenna að hreinsa eggin og grafa þau í jörðu á vissan hátt en þannig voru þau geymd svo að þau skemmdust ekki. Í júlí hófst lundaveiðin og stóð fram í miðjan ágúst. Þegar karlarnir vom heim komnir með lundann tóku konumar við. Fyrst þurfti að reyta hann. Þar reið á sterku handafli og voru oft lúnar hendur kvenna eftir að hafa eytt heilu dögunum í að reyta fugl. Síðan þurfti að kryfja hann, taka svíra og bak frá og salta hann í tunnu en þannig geymdist hann í forðabúri heimilisins langt fram eftir vetri og alltaf jafn gómsætur. Í 18. viku sumars hófst fýlatíminn. Fýll og súla voru veidd af kappi í vikutíma. Vegna fitu var fylla fýlsins meyrari en í lunda. Einnig var fiðrið fastara fyrir, svo að nærri má geta að reyting fýlsins hafi reynt á. Að því loknu skáru konumar svírann frá en leyfðu öðru af fílnum og súlunni að saltast í tunnu. Það sem ekki var notað af fuglinum var sett út í hænsnagarðinn. Þar voru svírinn og bakið látin maðka svo að hænurnar gætu étið maðkinn. Börnunum fannst gaman að setjast upp á hól og fylgjast með hænunum rífa í sig maðkinn um leið og hann birtist í hræinu. Aldrei komst hann langt í dagsbirtunni án þess að vera étinn af gráðugri hænu. Fuglatekjan var mjög annasamur tími bæði fyrir karl og kvenpeninginn. Á sama tíma þurfti að huga að heyjum því þurrkun á heyi tók langan tíma og þurfti mikla yfirlegu. Síðasta verk sumarsins var að taka upp úr kartöflugörðunum. Þar lögðu allir sem vettlingi gátu valdið, sitt á vogarskálarnar.

Haustið kom með húmi
Er haustaði var farið að slátra. Verk kvenna voru að gera matinn kláran fyrir veturinn. Lömbin sem komu úr úteyjum breyttust í slátur, lundabagga, kæfu og súpukjöt. Öll varan var fullunnin á heimilinu af konunum til heimilisins.
Hverri salttunnunni komið fyrir í forðabúrinu svo að nóg væri af mat þegar húsið færi að fyllast af vertíðarfólki upp úr áramótum. Þegar sláturtíð lauk var byrjað að standsetja tau fyrir sjómenn. Stagað var í sængurver og handklæði ef með þurfti og séð til þess að nóg væri til af öllu. Að þessu afloknu var farið að huga að jólahreingerningu. Undirbúningur jóla fólst í ítarlegum þrifum og miklum bakstri. Hér hefur ekkert verið minnst á hannyrðir en þær hafa fylgt störfum kvennanna á liðnum öldum.. Telpum var fljótt haldið við hannyrðir. Það var verið að prjóna eða sauma til daglegs brúks, þar að auki var setið við að bródera jólagjafirnar en útsaumaðar svuntur voru ekki óalgengar í jólapökkum fyrir stúlkur. Ein slík svunta er minnisstæðasta jólagjöf sem ein af heimildarkonum mínum fékk sem barn.
Ekkert hefur verið minnst á uppeldi barnanna en því sinntu konurnar meðfram öðrum verkum. Þau lærðu fljótt að leggja til vinnu í smáviðvikum hér og þar. Skildu að framlag þeirra var metið og nauðsynlegt. Þrátt fyrir það var alltaf nógur tími til leikja. Föstu vinnukonurnar, ömmurnar og afarnir sem voru á bæjunum gegndu einnig hlutverki uppalenda. Húsfreyjurnar stýrðu búi og börnum en húsbóndinn sá um stjórn á útgerð og skepnuhaldi.
„Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.“
Ekki verða öll störf kvenna á útvegsbændaheimilum rakin en með þessu yfirliti á ársverkum þeirra má sjá að ekki mátti falla verk úr hendi svo að hlutirnir gætu gengið upp. Sjómennskan var ekki gerleg nema af því að heima fyrir voru iðnar konur sem gengu í allt sem gera þurfti svo að hægt væri að róa til fiskjar. Á sama hátt gátu konurnar ekki án karlanna verið því eins og alþjóð veit þá hafa fiskveiðar verið lífæð þjóðarinnar á liðnum öldum, Að fá að kíkja inn um gáttir fortíðar er fróðlegt. Líf og starf kynslóðarinnar sem nú safnast brátt til feðra sinna hefur verið eins öld fram af öld. Á tuttugustu öldinni ruddi tæknin sér til rúms í lífi þjóðarinnar með afdrifaríkum afleiðingum. Við erum komin svo langt frá handþvottinum ógurlega að nútímafólk skilur ekki hvað það á að þakka þvottavélinni. Það er nauðsyn að líta um öxl, þekkja ræturnar sem þjóðin er sprottin úr svo að við getum styrkt það sem máli skiptir og kastað því sem burt má fara. Til þess að svo megi verða þurfum við líka að horfa fram á veg og taka opin en varkár á móti nýrri tækni sem getur fleygt okkur enn fram á veginn.
Með þessum greinarstúf legg ég og heimildarkonur mínar eitt lóð á vogarskálarnar til að varðveita verklag og verkefni genginna kvenna, svo að við lærum að meta og þakka það sem við höfum í dag og að verkahringur þeirra hverfi ekki algjörlega gleymskunni.
Séra Bára Friðriksdóttir prestur í Landakirkju

Arinbjörn Hersirs RE 1. - Úr myndasafni Jóhanns Bjarnasonar