Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000/Vélstjórafélag Vestmannaeyja 60 ára
Aðdragandinn að stofnun Vélstjórafélags Vestmannaeyja var að 1930 var starfandi vélstjóradeild innan Sjómannafélags Vestmannaeyja. Hún var síðan lögð niður þegar allir sjómenn í Vestmannaeyjum sameinuðust í einu félagi við stofnun Sjómannafélagsins Jötuns 1934. Fljótlega fór að bera á óánægju vélstjóra innan Jötuns, þar sem þeir töldu að sérmálum vélstjóra væri ekki sinnt sem skyldi, og vildu þeir því stofna vélstjóradeild innan félagsins en fengu ekki. Þetta leiddi því til stofnunar Vélstjórafélags
Vestmannaeyja þann 29. nóv. 1939, þar sem vélstjórar töldu hag sínum betur borgið í fagfélagi sem ynni að sérhagsmunamálum vélstjóra til sjós og lands, enda segir í fyrstu lögum félagsins: „Tilgangur félagsins er að efla félagsstarf vélstjóra og auka þekkingu þeirra á starfinu og yfirhöfuð að efla og viðhalda hag félagsmanna og sjá um eftir mætti að félagsmönnum sé ekki gert órétt í því sem að vélstjórn lýtur.“ Fyrsta stjórnin var kjörin á stofnfundinum en hana skipuðu: Páll Scheving formaður, Guðjón Karlsson ritari, Ísleifur Magnússon gjaldkeri, Kjartan Jónsson varaformaður, Guðmundur Ketilsson varagjaldkeri og Gestur Auðunsson vararitari.
Helstu baráttumál félagsins auk kjaramála hafa verið menntunar og atvinnuréttindamál. Á stofnfundinum var t.d. samþykkt tillaga til Alþingis og ríkisstjórnar um hækkun réttinda úr 250 hö í 400 hö og að aflagður yrði smiðjutími til inngöngu í vélskólann. 1968 beitti félagið sér, ásamt bæjaryfirvöldum og öðrum, fyrir því að komið yrði á 1. stigs. kennslu í Vestmannaeyjum og svona mætti lengi telja.
Fyrstu þrjú ár félagsins var það ekki bundið neinum heildarsamtökum, en 1942 var samþykkt að ganga í Alþýðusamband Íslands. Var félagið aðili að því þar til síðla árs 1972 að samþykkt var úrsögn úr ASI og var hugmyndin að ganga til liðs við FFSI, sem reyndar varð ekki fyrr en 1975, þar sem gosið setti starfsemi félagsins úr skorðum eins og flest annað hér í Eyjum. Innan FFSÍ var svo félagið til 1991 er það sagði sig, úr þeim samtökum, þar sem vélstjórar alrnennt töldu hag sínum betur borgið utan blandaðra samtaka.
Reyndar höfðu þreifingar um samstarf allra vélstjórafélaga á landinu hafist 1983 og gengið á ýmsu. 1992 gerði Vélstjórafélag Vestmannaeyja, fyrst allra vélstjórafélaga, samstarfssamning við Vélstjórafélag Íslands og fylgdu önnur vélstjórafélög í kjölfarið. Í framhaldi af því voru svo sjúkrasjóðir félaganna sameinaðir. Það var svo í apríl 1999 að samþykkt var á aðalfundi að fram færi atkvæðagreiðsla um að taka skrefið til fulls og sameina alla vélstjóra í einu félagi. Þetta var samþykkt með 70% greiddra atkvæða, en 92% félagsmanna tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.
Þann 1. nóv. 1999 var svo félagið aflagt í skilningi laga um stéttarfélög og vinnudeilur, en þess í stað gert að deild innan Vélstjórafélags Íslands, og eru nú nær allir vélstjórar í landinu sameinaðir í einu félagi.
Stjórn deildarinnar skipa nú: Gísli Eiríksson, formaður, Hjálmar Guðmundsson, varaformaður, Ólafur Guðmundsson, ritari, [[Gústaf Ó.
Guðmundsson]], gjaldkeri, og Guðmundur Alfreðsson meðstj.