Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000/Minningabrot

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Minningabrot


Þröstur Sigtryggsson

Þegar maður er kominn á áttræðisaldur finnst manni stundum að maður viti alla skapaða hluti rétt eins og á táningsaldrinum. Það reynist svo oft rangt. eins og þá. Manni finnst líka að ekkert hafi fallið í gleymsku þangað til upp koma atvik er minna mann á eitthvað löngu liðið. Þannig var er ég las bók Ólafs landlæknis. Einn kaflinn heitir „Þröstur húkkar Hercules“. Þar segist Ólafur eitt sinn hafa verið staddur á Keflavíkurflugvelli í Vestmannaeyjagosinu. Þá hafi ég birst þar allt í einu og spurt hvort hann væri á leið til Eyja. Er hann játti því hafi ég sagt honum að fylgja mér, farið út á flugbraut í veg fyrir Hercules flutningavél, er var á leið í flugtak og rétt út hægri handlegg með þumalinn upp í loftið. Vélin hafi stöðvað, rennt niður stiga, við um borð og áfram til Eyja. Ólafur hefur eftir mér að ég hafi iðulega notað þessa aðferð ef ég þurfti að fara eitthvað.

Þessu man ég nú ekkert eftir, en það minnir á atvik er gerðist á Reykjavíkurflugvelli seint í febrúar 1973. Eg hafði verið settur í að aðstoða við flutning og móttöku búslóða frá Eyjum fljótlega í byrjun gossins. Mér var því boðið í skoðunarferð til Eyja ásamt Ólafi og fleiri fulltrúum Almannavarnaráðs með fokkervél Gæslunnar. Er ég kom á völlinn hafði förinni verið frestað óákveðið vegna gjósku er barst inn yfir flugbrautina. Þá sá ég að Hallgrímur er flaug þá mikið á milli lands og Eyja var að aka út á flugbrautina hinumegin á sexunni sinni (DC-6). Ég hringdi í snatri í flugturninn og bað þá spyrja Hallgrím hvort hann vildi taka mig með. Það var auðsótt. Ég hljóp því út á braut, sexan kom á móti mér og þeir renndu niður stiga. Gæsluvélin kom svo til Eyja seinna sama dag og ég fór með þeim til baka. Einhver sagði þá að ég hefði farið á puttanum til Eyja. Þetta er nú líklega kveikjan að sögu Ólafs en svona breytist/lagast margt í minningunni hjá Ólafi eins og öðrum!
Því eldri sem ég verð, því meira sé ég eftir að hafa ekki haldið dagbók. Eitt sinn hélt ég að það sem maður myndi ekki þegar maður yrði eldri væri ekki þess virði að muna það. Og svo yrði maður ekki í vandræðum með að skálda í eyðurnar. Nú er ég á annarri skoðun. En sumt gleymist seint. Svo er um fyrstu vaktina mína á varðskipi sem stýrimaður. Þetta var seint í maí 1954, þá nýútskrifaður, nýgiftur henni Dúru Palla krata og nýskráður 3. stýrimaður á varðskipið Þór hjá Eiríki Kristóferssyni. Við höfðum farið frá Reykjavík kl 2000 og ég tók við vaktinni við Reykjanes, kl. 2330 í Húllinu. Pétur heitinn Jónsson yfirstýrmaður sýndi mér hvar við vorum, sagði að ég ætti að setja stefnuna 4 sml S af Geirfuglaskeri og síðan áfram austur um. Hann sýndi mér í radarinn, fékk staðfest að ég væri klár á hann og að gefa ætti þokubendingar eftir þörfum, en þarna var svarta þoka. Síðan bauð Pétur góða vakt og var farinn.
Nú fór ég í radarinn, sem var á 6 sml. skala, skipti yfir á 12 og svo á 3 sml.
En þá fór að kárna gamanið. Þar voru nokkur dauf endurvörp framundan á bæði borð, er ekki sáust á hinum skölunum. Ég held ég hafi tekið þó nokkur andköf því ég hélt við værum að koma inn í trilluhóp. Mér datt í hug að stoppa eða láta kallinn vita og þar með upplýsa að ég réði ekki við siglinguna. Ekki væri betra að lenda í árekstri við trillu á fyrstu vaktinni sinni og gera þar með jafnvel út af við allar vonir um frama sem yfirmaður hjá Gæslunni. Aþekkar hugsanir flugu í gegn um hug minn meðan ég rýndi í radarinn og reyndi að gera mér grein fyrir hvort hætta væri á árekstri, meðan sjálfvirka þokubeljan baulaði, truflandi mjög að mér fannst. Nú, ég slapp við árekstur við fyrstu trilluna, sem næst var stefnunni og líka þá næstu, en ekki grillti í þær fara aftur með síðunni. Það er svo óþarfi að orðlengja þetta meira. Angistinni létti svo smám saman er ég sá að endurvörpin voru frá því er hvítnaði í öldu í SA golukalda, er rann á þegar við komum suður fyrir nesið. Og ég held að ég hafi að mestu verið búinn að jafna mig á vaktaskiptum.

Á þessum árum réðist oft um borð fólk úr hinum ýmsu atvinnugreinum í landi.
Leigubílstjóri er var aðstoðarmaður í vél kom eitt sinn upp í brú er skipið var á siglingu út af Vestfjörðum, horfði góða stund á Eirík skipherra með sína 4 borða og sagði svo: „Heyrðu Eiríkur, hvað ertu lengi að brenna til Reykjavíkur?“ Eiríkur snéri sér að stýrimanninum og spurði hvað maðurinn hefði eiginlega verið að segja. Þá var oft talað um að brenna hitt og þetta á bílum. En leigubílstórinn gafst ekkert upp. Hann gekk alveg að skipherranum og sagði hærra en áður: „Heyrðu Eiríkur , get ég nokkuð fengið að taka aðeins í hann hjá þér?“. Þá vék Eiríkur af stjórnpalli án þess að segja orð.
Eiríkur varð samt ekki oft orðlaus.En það kom fyrir. Steingrímur Matthíasson var lengi loftskeytamaður hjá Gæslunni. Hann var með stærri og þreknari mönnum og var orðheppinn mjög. Eiríkur, sem var talinn aðgætinn í peningamálum hefur varla náð Steingrími nema í öxl. Það var eitt sinn að morgni er Steindi kom fram í brú nýrakaður og þveginn, í nýrri eða nýlegri blárri skyrtu og með neftóbaksbaukinn á milli handanna, og leið greinilega mjög vel í alla staði sem Eiríki fannst víst að hann þyrfti að slá eitthvað á þessa vellíðan. Hann mældi Steinda með augunum hátt og lágt, háðslegur á svip og sagði svo:

„Hvernig er það Steingrímur, er ekki erfitt að ná í passlega skyrtu á þig? Hvaða númer notarðu eiginlega af skyrtum?“. „Heyrðu Eiríkur " sagði Steindi. “Ég nota númer 17 og þær fást alls staðar,en ég er ekki eins og sumir, sem kaupa tveimur númerum of stórt til að geta klippt framan af ermunum í bætur.“ Þessi orðaskipti urðu ekki fleiri og Eiríkur fór niður til sín, Steindi fékk sér í nefið, kímdi og mér sýndist honum líða mjög vel áfram.

Skipherranum er fleira til lista lagt en sjómennska og tónsmíðar eins og myndin af Heklugosinu í vetur sýnir

Eitt sinn er ég kom niður í mat eftir morgunvaktina kl. 1230 var verið að ræða hvort heppilegra væri að menn væru grannholda eða þéttir á velli eins og Steingrímur. Mér fannst halla á andstæðinga Steinda og þar sem ég tilheyrði grennri flokkinum, fann orðið nokkuð til mín sem yfirstýrimaður, þá þótti mér við hæfi að binda snarlega endi á þessar heimskulegu umræður með gáfulegri dæmisögu: „Segjum að við séum að flýja upp bratta fjallshlíð undan sameiginlegum óvini Steingrímur minn. Hvor okkar heldur þú nú að yrði á undan?“ Það stóð ekki á svarinu. „Þú yrðir langt á undan góði. Þú yrðir svo miklu hræddari.“
Hér er ein úr fluggæslunni. Þá var skipherra yfirmaður á flugstöð Gæslunnar og á því lék enginn vafi. Í flugskýlinu vann um tíma snaggaralegur strákur, sem hafði mikinn áhuga á að rækta alla vöðva og vonaðist þá til að ganga betur í augun á stelpunum. Til að ná meiri árangri tók hann inn prótein í duftformi. Í þetta sinn var skipherrann virðulegur og myndarlegur ungur maður, er allir báru virðingu fyrir. Eitt sinn í kaffitíma var stráksi búinn að bjóða nokkrum protein, sem þeir þáðu ekki. Þá settist hann hjá skipherranum. „Viltu ekki prótein?“ spurði stráksi. „Nei takk“, sagði skipherrann. „Blessaður maður, fáðu þér prótein. Það stækkar á þér tittlingurinn og allt“ sagði stráksi. Skipherranum varð orða vant en margir áttu erfitt með að skella ekki upp úr.
Haraldur Jóhannesson vélstjóri, bróðir Einars á Lóðsinum sem margir Vestmannaeyingar kannast eflaust við, var oft samskipa mér eftir að ég var orðinn skipherra, bæði á Þór og Óðni. Halli var veiðmaður fram í fingurgóma og hafði unun af að segja öðrum frá viðburðaríkum veiðiferðum, jafnvel þó þær enduðu ekki allar eins og til var ætlast í upphafi.
Halli taldi að veiðieðlið hefði verið sér meðfætt en ekki áunnið og því til sönnunar sagðist hann í barnæsku hafa varið öllum stundum í fjörunni eða á bryggjunum þrátt fyrir ströng bönn og harðar refsingar. Það var svo á táningaaldrinum að hann fékk sumarvinnu hjá vegavinnuflokki er vann við brúarsmíði uppi á Héraði. Þar bjuggu þeir í tjöldum en timburkofa var slegið utan um sementið. Fljótlega eftir að Halli kom í búðirnar hóf hann könnun á lífríki árinnar með veiðiskap í huga. Og það bar sannarlega vel í veiði. Stutt frá tjöldunum var lágur foss og neðan við hann var stærðar hylur fullur af silungi. En þá kom babb í bátinn. Ekkert veiðarfæri var til í búðunum. Hvorki öngull né netstubbur. Halla leið vægast sagt mjög illa við þessar aðstæður og bar sig upp við verkstjórann, er líka var ráðalaus. Nokkm seinna var farið að sprengja fyrir undirstöðum brúarinnar, og þá fékk minn maður hugljómun. Fyrst datt honum í hug að bjarga í laumi eins og tveimur túpum í þetta nauðsynja verk, en missti fljótlega kjarkinn. En þegar fréttist að flokkurinn fengi helgarfrí, leystist málið nánast sjálfkrafa. Allir ætluðu heim nema Halli, kokkurinn, er var frá Hornafirði og hundurinn hans. Og Halli fékk leyfi hjá verkstjóranum fyrir tveim túpum, hvellettu og vatnsþéttum kveikjuþræði, en hann mátti ekki sprengja fyrr en klst. eftir að allir voru farnir. Halli sagðist hafa verið máttlaus í hnjánum og þurr í kverkunum af spenningi meðan hann beið eftir að þeir dröttuðust af stað.
Og þá var farið í að útbúa veiðarfærið. Hann batt túpurnar saman og batt þær svo um hálfan metra frá spýtu, sem átti að vera flotholt fyrir sprengjuna, því Halli taldi sig vita að veiðarfæri af þessari gerð yrði að springa á nákvæmlega réttu dýpi. Hann stakk hvellettunni í aðra túpuna og tengdi svo þráðinn. Síðan fór hann niður að fossinum, horfði með velþóknun á bráðina og ákvað að bomban yrði að lenda í sem næst miðjum hylnum til að ná fullkomnum árangri. Og þegar tíminn var kominn kveikti Halli í þræðinum og henti öllu saman út í. Kastið var mjög gott, akkúrat á réttan stað og það heyrðist smá svamp þegar fjölin lenti. En það heyrðist líka annað skvamp.
Hundurinn kokksins, sem karlarnir höfðu vanið á að sækja alls konar dót út í ána var kominn á svæðið og var ákveðinn í að hafa gaman af þessari spýtu og hann hafði að engu hróp og köll Halla um að snúa við. Fyrst datt honum í hug að bíða eftir hvutta og taka sprengjuna af honum. En við nánari hraðhugsun komst hann að þeirri niðurstöðu að veiðarfærið gæti sprungið of snemma og ráðlegast að komast sem lengst í burtu. Halli tók því til fótanna í átt að tjaldbúðunum en sá svo út undan sér að seppi var kominn upp úr með spýtuna í kjaftinum og stefndi að sama marki. Hann ætlaðist greinilega til að Halli tæki við öllu saman og vildi fá þakkir fyrir. Þó að túpurnar sem dingluðu á milli framfótanna á hvutta tefðu för hans nokkuð, dró ört saman með þeim þó Halli segðist handviss um að hafa slegið mörg heimsmet í spretthlaupi. Seppi var búinn að ná Halla löngu áður en hann náði að sementsskúrnum og hann bjóst við að springa í loft upp á hverri stundu. Hann komst þó inn í skúrinn og skellti á eftir sér. Þá kvað við ógurleg sprenging. Skúrhurðin hrökk af hjörunum og augu Halla fylltust af sementi. Kokkurinn kom æðandi og vildi fá að vita hvað skeð hefði. Halla varð í fyrstu fátt um svör, en þegar þeir fundu skottið af hundinum við eldhústjaldið, varð hann að segja allt af létta. Kokkurinn sættist á 30 króna skaðabætur og hét því að þegja um atburðinn. Skottið var það eina sem fannst af hundinum.
Þessi minningabrot verða ekki fleiri hér að sinni.
Ég sendi öllum sjómönnum mínar bestu kveðjur með þökk fyrir ánægjuleg samskipti á liðnum árum.
Þröstur Sigtryggsson.

Starfsferill.
Þröstur fæddist að Núpi í Dýrafirði 7. júlí 1929 og ólst þar upp. Hann hóf sjómennskuferilinn á síld á Jökli VE með frænda sínum Valdimar Kristinssyni skipstj. og bónda frá Núpi 1947. Hann réðist viðvaningur til Landhelgisgæslunnar 1949, stýrim. 1954 og skipherra 1960. Hann hætti hjá Gæslunni haustið '90, kenndi við Grunnskóla Þingeyrar til vors '92, réri á eigin trillu, Palla krata, sumrin '93 og '94. Svo dældi hann bensíni á bíla (bíldælingur) til '97 en hefur síðan átt heima í Vestmannaeyjum og gert mest lítið.
ARNÞÓR HELGASON