Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000/Kojuvaktin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Kojuvaktin


Jóhann Jónsson (f. 1840 - d. 1906)
Sandaformaður og bóndi á Krosshjáleigu í A -Landeyjum. Orðaleppar hans vöktu athygli. T. d. lýsti hann veðrinu svona: „Hreint allur himinninn austan frá lambhúsinu hans Lása (bóndi á Krossi) og vestur fyrir hesthúsið mitt, var eins og kolsvartur ketilbotn, nema svolítil helvítis glufa sem rétt mátti henda hundi út um,“
Jóhann þótti góður formaður. Skip hans hét Svanur og var sexæringur.
Stundum versnaði sjór er leið á dag. „Landmaður“ gaf þá merki um að mál væri að lenda. Jóhann á Svani var á leið í land og beið lags á legunni. Sjór aðgæsluverður.
Einum háseta Jóhanns sýndist vera lag og segir: „Eigum við ekki að róa í Jesú nafni?“ „Hreint ekki að róa í Jesú nafni“ segir Jóhann og er byrstur. Í því kemur ólag. Er þeir voru lentir segir Jóhann: „Fallega hefði farið ef við hefðum róið í Jesú nafni. Allt farið út í hafsauga og margdrepið okkur.“

Pétur Petrusarson (f. 1841 -d. 1893)
Sandaformaður og bóndi á Krosshjáleigu A -Landeyjum. Pétur var formaður á sexæringi sem hét María. Hann átti líka vorbát (4 manna far).
Sólveig systir hans, réri stundum með honum á vorbátnum. Eitt sinn er þau voru að ýta á flot fékk aldraður maður að fljóta með, og studdi hann að framan en hafði ekki að komast upp í bátinn. Solveig lagði upp árina til þess að hjálpa karlinum um borð. Það var til þess að þau fá uppslátt. Þá sagði Pétur: „Þú áttir að láta djúngans karlinn hanga.“
Djúngans var mesta blótsyrði í Krosshjáleigu.
Eitt sinn lenti Pétur í vondum sjó og hafði verið vísað frá, en lenti samt.
Séra Sveinbjörn á Krossi var í sandi. Hann átaldi Pétur fyrir þessa lendingu.
Sagði að þetta væri að freista drottins, og skipið hefði verið rétt komið fram yfír sig.
Þá sagði Pétur: „En þá þyngdi mér bara dálítið á skutinn og það dugði.“
Eyjamenn fengu stundum torf af landi vegna vöntunar á torfvelli. María kom með torffarm og sýndist sumum ekki áhættulaust og það á ekki veigameira skipi, Segir þá einhver: „Aum er fleytan þín Pétur minn.“ „O, sei, sei, nei. Þegar torfið heldur að innan og sjórinn að utan, er hún María mín eins og stálskip, já, alveg eins og stálskip“.

Hróbjartur Guðlaugsson (f. 1876 - d. 1957)
Hróbjartur var sonur Guðlaugs Nikulássonar í Hallgeirsey, víða þekktur, sem snilldarformaður í hálfa öld. Hróbjartur, kallaður Hrói var formaður við sandinn. Áður var hann háseti hjá Páli í Ey. Skip Páls hét Lukkureynir, sexæringur.
Hrói var oft orðheppinn. Hann átti lengi heimili sitt í Landlyst hér í bæ hjá Guðmundi skósmiði syni sínum og hans fjölskyldu. Eitt sinn rakst skrifari á hann á götu í myrkri að kvöldi dags í rafmagnsbilun. „Í ystu myrkrum enginn sér aðgreining höfðingjanna,“ sagði Hrói.
Fyrir mörgum árum kom sú frétt í einu bæjarblaðanna að Hróbjartur í Landlyst væri látinn. Þá um kvöldið gekk einn af góðborgurum bæjarins niður að Landlyst til að votta góðu vinafólki samúð sína. En honum brá nokkuð en gladdist um leið því að „líkið“ sjálft kom til dyra. Heimildarmaður blaðsins hafði ekki reynst trúverðugur.
Þessar sögur eru frá Haraldi Guðnasyni fyrrverandi bókaverði og Landeyingi.

Fyrstu rassmótorarnir
Á vorin og sumrin, utan vetrarvertíða, stunduðu margir róðra á opnum bátum, sem þeir knúðu áfram með árum og seglum.
Stefán Guðlaugsson í Gerði, mikill og farsæll skipstjóri á vélbátum í 49 ár, það er löng starfsæfi á stjórnpalli, lengst af á bátum með nafnið Halkion, var trúlega sá fyrsti sem fékk sér rassmótor (utanborðsmótor) hér í Eyjum. Þetta var í kringum 1926, Ólafur Ástgeirsson í Litlabæ gekk frá honum í skut báts Stefáns. Gerði hann gat með afturstefninu, þar sem mótorinn gekk niður. Þetta var tveggja strokka tvígengisvél, sænsk og hét gerðin Penta. Bensíntankurinn var áfastur vélinni. Reyndar var eldsneytið bensín blandað með smurolíu.
Svinghjólið lá ofan á þessum mótorum, og voru tveir tappar upp úr því til þess að snúa hjólinu og þar með vélinni í gang. Þá trillaði í henni. Sagt er að Stefán hafi kallað bátinn trillu í samræmi við gangsetninguna. Síðan festist það nafn við þessar fleytur, og eins og kunnugt er, kallast síðan allar svona mótorfleytur trillur.
Óli á Völlunum, húsið hét reyndar Ólafsvellir, (það var næsta hús fyrir vestan Geitháls við Strandveg), var með þeim fyrstu að fá sér rassmótor í bát sem hann átti. Á þessum mótorum voru sjö hraðastillingar áfram. Einu sinni þegar hann var á sjó í Vesturflóanum, brældi af austri. Þegar karl kom í land, var hann spurður, hvernig hefði gengið heim á móti veðrinu. Hann svaraði: „Ég hafði það í sjöunda píning, en þá brakaði og brast í hverju bandi.“

Þetta er frá Jóni í Sjólyst.

Gunnar Ólafsson (f. 1864 - d. 1961)
Gunnar Ólafsson, kaupmaður og útgerðarmaður á Tanganum, fluttist ásamt eiginkonu og 6 börnum frá Vík í Mýrdal til Vestmannaeyja 1909. Í Vík hafði hann starfað við verslun J. P. T. Brydes. Ungur maður hafði hann stundað sjóróðra frá Stokkseyri og úr Garðinum. Í upphafi ársins 1910 hóf hann eigin atvinnurekstur hér, og vegna þess þurfti hann að fara til Reykjavíkur í bankaerindum í upphafi þess árs. Þegar þeim var lokið, kom sú staða upp að engin ferð var til Eyja fyrr en eftir eina viku eða jafnvel lengri tíma..
Gunnar vissi að íslensku togararnir komu við í Reykjavík að lokinni veiðiferð, áður en haldið var til Englands í söluferð. Hann fór því snemma morguns næsta dag til þess að gæta að togaraferð. Hittist þá svo á að togarinn Mars, skipstjóri Hjalti Jónsson, Eldeyjar Hjalti, var að leggja að bryggju með fullfermi af ísuðum fiski, sem fara átti á breska markaðinn. Gunnar hafði samband við Hjalta og bað hann að leyfa sér að vera með til Eyja. Hjalti tók því vel, og sagði að það væri sama sem enginn krókur fyrir sig. En hann sagðist hvorki leggjast fyrir akkeri né skjóta skipsbáti sínum á flot til þess að flytja Gunnar í land. Sigla átti að áliðnum degi. Ef Gunnar gæti útvegað sér bát mætti hann koma með hann um borð og hafa hann á dekkinu þar til komið yrði til Eyja. Mundi hann þá einfær á bátnum í land. Allt gekk það að óskum. Gunnar fann bát og eiganda hans og gerði kaup. Báturinn kostaði 250 krónur með 2 árum og austurtrogi.. Hann réri honum yfir að Marsinum, þar sem hann var tekinn um borð, skömmu áður en lagt var úr höfn í Reykjavík. Gunnar átti ljómandi nótt um borð hjá Hjalta skipstjóra, enda veður eins og best varð á kosið. Þegar vottaði fyrir dagsbrún við sjóndeildarhring, morguninn eftir stoppaði Marsinn á ytri höfninni i Vestmannaeyjum. Hásetarnir skutu báti Gunnars á flot. Hann kvaddi Hjalta, þakkaði skipverjum fyrir hjálpina og réri í land.
Svona gátu menn þurft að bjarga sér í samgönguleysi gamla tímans, og ekki var um að ræða að ná sambandi milli lands og Eyja með neinum hætti nema með bréfaskriftum eða skilaboðum sem gátu tekið langan tíma að berast.
Þessi frásögn er úr Endurminningum Gunnars Ólafssonar sem kom út 1948.
Að lokum undir svefninn.
Úr gullkornabók Stýrimannaskólans
í Vestmannaeyjum.
Spurt á prófi í siglingafræði: „Hvernig á að taka lárétt horn?“ Svar: „Lárétt horn er venjulega tekið með sextanti, en ef hann er ekki til staðar, má nota smjörpappír“.

Spurt á sama prófi: „Hvað eru hornvitar?“
Svar: „Það eru vitar sem eru á hverju landshorni, Annað svar: Hornvitar nefnast svo, af því að þeir gefa þokumerki úr lúðri (horni) á tveggja mínútna fresti.“
Enn eitt svar: „Vitar sem hægt er að nota til að taka lárétt horn.“
Spurt á prófi í heilsufræði: „Hvað á að gera við mann sem hefur misst meðvitund?“ Svar: „Draga úr honum tunguna.“
Texti úr dönskuprófi sem átti að þýða á íslensku: „Hun lod finger glide over læberne mens hun tænkte paa ham.“
Þýðing: „Hún renndi fingrunum ástríðufullt yfir lærin meðan hún hugsaði um hann."
Á stærðfræðiprófi í I. stigi var lagt fyrir dæmi um mánaðarlaun kennara og útgjöld hans. Sami kennari sló svo víxil og endaði á að fara túr á togara til að redda málum. Síðan átti að reikna út hlutinn hans o. fl. Í lokin var bætt við spurningunni: „Ætti hann að fara annan túr?“
Sýnishorn af svörum:
„Já endilega. Þeir hafa gott af því þessir kennarar.
Ef hann ætlar að fórna sér næsta vetur í að troða visku sinni í misjafnlega heimska nemendur, þá held ég að hann ætti að klára sumarið á togaranum.
Já, af því að hann er kennari þarf hann þess. En leiðbeinendur hafa það betra, er það ekki?
Já alveg hiklaust, þó ekki væri nema bara til þess að safna peningum fyrir næsta vetur, svo hann geti lagt fram stærðfræðipróf, án þess að barma sér í því.
Og fórna kennarahugsjóninni? Ef afkoman er ekki betri á yfirlýstu lágmarksverði Sæma mundi best sálartetri Sennilega í Hveragerði.
Myndin hér að ofan birtist i Dagskrú fyrir skömmu. Ásgeir Jónsson. bróðir Bjarna heitins í Garðshorni, hefur sent eftirfarandi skýringu við myndina:
Þetta er áhöfn Sverris EA. T.f.v.: Einar Jóhannesson, Sighvatur Bjarnason, skipstjóri og bassi, Kristján Gunnarsson, I. stýrimaður. Guðjón Kristinsson, háseti, Torfi Lýður, háseti, Einar Jónsson, háseti, Sigurður ?, Sigurjón Jónsson, fyrrum skipstjóri á Suðurlandi. Ásgeir Jónsson, háseti.
Áður en skipið komst i eigu Íslendinga hét það Smyrill og tilheyrði flokki flutningaskipa. Á þeim tíma sem Smyrill var i millilandasiglingum voru skip þess tima hönnuð sem vöruflutninga- og farþegaskip. Aðbúnaður allur fyrir skipshöfnina var því frábrugðið því sem maður átti að venjast á öðrum skipum síldveiðiflotans. Við hásetarnir bjuggum allir á öðru plássi og nutum þess.
Yfirmenn skipsins svo og vélstjórar og matsveinn höfðu allir sína sér klefa.
Árið 1938 var Sighvatur Bjarnason skipstjóri og nótabassi á þessu skipi.
Eigandi þess var búsettur á Akureyri og hét Sigurður. Þegar ég rifja upp kynni mín af þeim mœta manni Sighvati Bjarnasyni fyllist hugur minn virðingu og þakklœti til hans. Ég var fyrst með Sighvati árið 1935 á Minni frá Akureyri, árið 1936 á Hring frá Siglufirði. Árið 1937 eru Erlingur 1 og Erlingur II saman um nót og urðu skipverjar Sighvats þá hlutahœstir yfir flotann.
FRIÐRIK ÁSMUNDSSON

Myndin hér að ofan birtist i Dagskrá fyrir skömmu. Ásgeir Jónsson. bróðir Bjarna heitins í Garðshorni, hefur sent eftirfarandi skýringu við myndina:Þetta er áhöfn Sverris EA. T.f.v.: Einar Jóhannesson, Sighvatur Bjarnason, skipstjóri og bassi, Kristján Gunnarsson, I. stýrimaður. Guðjón Kristinsson, háseti, Torji Lýður, háseti, Einar Jónsson, háseti, Sigurður ?, Sigurjón Jðnsson, fyrrum skipstjóri á Suðurlandi. Ásgeir Jónsson, háseti.Áður en skipið komst i eigu Íslendinga hét það Smyrill og tilheyrði flokki flutningaskipa. Á þeim tíma sem Smyrill var i millilandasiglingum voru skip þess tima hönnuð sem vöruflutninga- og farþegaskip. Aðbúnaður allur fyrir skipshöfhina var því frábrugðinn þvi sem maður átti að venjast á öðrum skipum síldveiðiflotans. Við hásetarnir bjuggum allir á öðru plássi og nutum þess. Yfirmenn skipsins svo og vélstjórar og matsveinn höfðu allir sína sér klefa.Árið 1938 var Sighvatur Bjarnason skipstjóri og nótabassi á þessu skipi. Eigandi þess var búsettur á Akureyri og hét Sigurður. Þegar ég rifja upp kynni mín af þeim mœta manni Sighvati Bjarnasyni fyllist hugur minn virðingu og þakklœti til hans. Eg var fyrst með Sighvati árið 1935 á Minnifrá Akureyri, árið 1936 á Hring frá Siglufirði. Árið 1937 eru Erlingur 1 og Erlingur II saman um nót og urðu skipverjar Sighvats þá hlutahœstir yfir flotann.