Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Starf vélstjórnarbrautar FÍV 1998-1999

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Ólafur Guðmundsson

Starf vélstjórnarbrautar FIV skólaárið 1998-1999

Ólafur Guðmundsson

Ritstjóri blaðsins fór þess á leit við undirritaðan að hann setti niður á blað eitthvað um starfsemi vélstjórnarbrautar Framhaldsskólans á því skólaári sem nú er að líða, og ætla ég að verða við þeirri bón eftir bestu getu og samvisku.
Á skólaárinu var einn fastráðinn kennari í vélfræðigreinum við skólann, Karl G. Marteinsson, sem kennir, og kennt hefur mörg undanfarin ár, verklega vélfræði og smíðar. En stundakennarar í vélfræðigreinum voru tveir, undirritaður þ.e. Ólafur Guðmundsson og Eyþór Harðarson sem kennir rafmagnsfræði,
Þar sem ekki hefur tekist að fastráða kennara í bóklegum faggreinum á vélstjórnarbraut að skólanum síðastliðin tvö ár, held ég að á engan sé hallað þó ég segi að Kalli sé kjölfestan í því starfi sem fram fer í „kjallaranum", þ.e. í faglegum greinum við vélstjórnarbrautina, og væri ekki gott ef hans nyti ekki við.

Karl Marteinsson

Á haustönn var eingöngu kennt á vélavarðarbraut, eða fyrstu önn vélstjórnarnáms. Nemendur voru 14, og að auki 2 utanskóla. Í lok annar útskrifuðust 13 sem vélaverðir, en þar af voru 5 nemendur við stýrimannabraut skólans. Þeir hófu nám á vélavarðabraut á vorönn 1998, en luku því nú á haustönn, og stunduðu það með stýrimannanáminu, og ljúka þeir 2. stigi stýrimannanáms nú í vor, og vonandi reynist þetta þeim góður viðauki við aðalnámið.
Nú á vorönn er kennsla á fyrstu önn 2. stigs vélstjórnarnáms, en 2. stig er alls þrjár annir. Nemendur á vélstjórnarbraut eru 7, en að auki 4 nemendur sem eru í bóklegri vélfræði á málmiðnabraut og 1 sem er utanskóla í kælitækni.
Á vorönn '98 útskrifuðust 4 nemendur með lokapróf 2. stigs. Hæstu einkunn í vélfræðigreinum náði Orri Jónsson og hlaut hann Vélstjóraúrið að launum.
En nú að öðrum, en kannski ekki alls óskyldum málum, það er sjómannamenntun og verklegri menntun yfir hófuð í Vestmannaeyjum.

Fanney Jóna Gísladóttir stundar nám á vélstjórnarbraut Framhaldsskólans

Nú í vor er útlit fyrir hik, og jafnvel lok á stýrimannanámi hér í Eyjum, þó vonandi verði svo ekki. Ráða þar mestu breytt lög um stýrimannaskóla, og fræðslu skipstjórnarmanna. Einnig eru að ganga í gegn, um þessar mundir, breytingar á málmiðnabraut. Þær breytingar gera skólum eins og Framhaldsskólanum hér í Eyjum erfiðara um vik við að halda þessu námi úti, og reyndar virðist það vera undarleg árátta menntamálayfirvalda að teygja allt sérnám á Reykjavíkursvæðið.
Það er staðreynd að fólk sem þarf í burtu til náms, skilar sér ekki allt til baka, jafnvel þó atvinnutækifæri séu ekki síðri hér en annars staðar, eftir að námi þess lýkur. Því er það ekki síður áhyggjuefni fyrir vinnuveitendur, og atvinnulífið yfir höfuð, en skólayfirvöld.
Og ekki getur talist gott fyrir byggðarlag sem byggir nær allt sitt á útgerð og fiskvinnslu, að sjá á eftir allri sjómannafræðslu burt úr bænum.
Því hlýtur það að vera brýnt að þeir, sem málið varðar, og ekki síst vinnuveitendur og skólayfirvöld í bænum, standi sem fastast að baki skólanum, og reyni að hlúa að, efla, og helst að bæta við, það sér- og fagnám sem við skólann er rekið.

Von mín er sú að svo megi verða, þó hræddur sé ég um að það geti orðið þungur róður, jafnvel bara að halda í horfinu, og margir þurfi að leggjast á árar til að árangur náist. Og þó að það kunni að teljast dýrt að halda slíku námi úti, má ekki horfa í þann kostnað einan, því það er býsna margt sem fæst til baka, ekki hvað síst fyrir byggðarlagið.
Vestmannaeyjum 1.mars 1999
Ólafur Guðmundsson, vélstjóri

Uppskipun með gamla laginu.