Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Rannsóknir á rauðátu við Vestmannaeyjar

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Hildur Pétursdótttir, líffræðingur
Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðingur
Hafsteinn Guðfinnsson, sjávarhaffræðingur

Rannsóknir á rauðátu við Vestmannaeyjar

Hildur Ástþór Hafsteinn Sdbl. 1999.jpg

Á árinu 1997 og fram á vorið 1998 stóð Hafrannsóknarstofnunin að rannsóknum á rauðátu austan við Vestmannaeyjar. Rannsóknir þessar tengjast alþjóðlegu verkefni um vistfræði rauðátu í Norður-Atlantshafi. Átta Evrópuþjóðir vinna saman að verkefninu og er það styrkt af Evrópusambandinu. Verkefnið skiptist í nokkur undirverkefni og fjallar eitt þeirra um lífsferla rauðátu í Norður-Atlantshafi og hvernig þeir tengjast árstíðabreytingum í umhverfisþáttum og þörungavexti.
Í alþjóðlegu rannsóknunum hafa verið tekin sýni undan ströndum Noregs, Shetlandseyja, Færeyja og Íslands og einnig hefur veðurskipið Mike verið nýtt til sýnatöku í miðju Noregshafi. Til að auðvelda samanburð á milli svæða var sýnataka og úrvinnsla með svipuðu sniði á þeim öllum.

Kort sem sýnir athugunarstöðvar við Eyjar.

Af hverju Vestmannaeyjar?
Þegar kom að því að velja sýnatökusvæði við Ísland urðu stöðvar nálægt Vestmannaeyjum fyrir valinu. Ástæðan var sú að við Eyjar er eitt aðalhrygningarsvæði flestra okkar mikilvægustu nytjafiska en rauðátan er mikilvæg fæða fiska fyrst eftir að þeir byrja að taka til sín fæðu á lirfu- og seiðastigi og því er mikilvægt að fá haldgóðar upplýsingar um hana.
Þá skipti það einnig máli að í Vestmannaeyjum er starfrækt útibú Hafrannsóknarstofnunarinnar sem býður upp á góða starfsaðstöðu og hefur til umráða rannsóknarbátinn Friðrik Jesson VE 177 sem nýtist mjög vel við þessar rannsóknir.

Bongo-háfurinn tekinn um borð. Teikn. Sigríður Brynjólfsdóttir
Nokkrar algengar tegundir svifdýra í sjónum við Ísland: 1. rauðáta, 2 slöngustjörnulirfa, 3 rekhyrna, 4. Oithona spp. 5 klaufhali. 6. fiskaegg. 7. þorsklirfa. 8. rekkringla. 9. hrúðurkarlalirfa, 10. krabbalirfa. 11. ljósáta. Athugið að mndirnar eru ekki í réttum stærðarhlutföllum.

Framkvæmd
Fyrsti leiðangurinn var farinn 30. janúar 1997 og síðan var farið með um það bil hálfs mánaðar millibili í rúmt ár. Stundum hamlaði veður þó rannsóknunum og því gat liðið lengri tími milli sýnatakanna. Yfir vor- og sumarmánuðina var reynt að hafa sýnatökur tíðari því þá hrygnir rauðátan og nauðsynlegt að fá nákvæmar upplýsingar á þeim tíma. Síðasti leiðangurinn var svo farinn 7. mars 1998.
Sýnunum var safnað á þremur stöðvum skammt austan við Vestmannaeyjar (1. mynd). Stöðvar 1 og 2 voru teknar í öllum leiðöngrum, en stöð 3 sem er lengst frá landi var aðeins tekin þegar stærri rannsóknarskipin, þau Árni Friðriksson eða Bjarni Sæmundsson áttu leið um svæðið.
Á hverri stöð var dýra- og plöntusvifi safnað með háfum og tekin sjósýni til greiningar á styrk næringarefna og blaðgrænu. Þá voru mæld hiti og selta sjávar.
Til söfnunar á dýrasvifi var notaður Bongo-háfur (2. mynd) Hann er í raun tveir háfar sem eru festir saman. Hvor háfur er 60 cm í þvermál og er möskvastærðin í öðrum 100Um en hinum 200Um. Til að safna átunni var háfurinn látinn síga lóðrétt að botni og dreginn rólega upp að yfirborði aftur. Sýnin voru varðveitt í formalíni þar til unnið var úr þeim.
Úrvinnsla sýnanna fór fram í tilraunastofu Hafrannsóknarstofnunarinnar í Vestmannaeyjum. Þar voru sýnin rúmmálsmæld og rauðátan talin og þroski hennar metinn.

Dýrasvifið
Rauðátan er fullvaxinn um 3 mm að lengd. Hún telst til dýrasvifsins, en það eru smáar lífverur, sem halda síg að mestu í efri lögum sjávar, rekur með straumnum og hafa litla sem enga hreyfigetu (3. mynd)
Dýrasvifið nærist á þörungum og er síðan sjálft nauðsynleg fæða annarra lífvera svo sem fisklirfa fyrst eftir að þær fara að taka til sín fæðu, hvala og ýmissa uppsjávarfiska, til dæmis loðnu og síldar. Dýrasvifið gegnir því mjög mikilvægu hlutverki í fæðukeðjum hafsins, þar sem það „flytur" framleiðslu svifþörunganna til dýra ofar í fæðukeðjunni.
Dýrasvifssamfélagið er mjög tegundaríkt og inniheldur fulltrúa flestra dýrafylkinga (3. mynd).
Krabbaflær (Copepoda) og ljósátur (Euphausiaeea) eru mikilvægustu svifdýrin í sjónum við Ísland, en rauðátan tilheyrir einmitt fyrrnefnda hópnum. Rauðátan er mjög algeng í sjónum við Ísland og reyndar öllu Norður-Atlantshafi. Í hafinu hér við land er hún um 60-90% af öllum svifdýrum miðað við fjölda.

Árstíðabreytingar á heildarfjölda rauðátu frá 30. janúar til 11. ágúst 1997. Myndin sýnir meðaltöl frá stöðvum 1 og 2. Staðsetningar stöðvanna eru sýndar á korti bls. 20
Bongo-háfur kemur úr sjó og tekinn um borð. Hafsteinn Guðfinnsson sjávarlíffræðingur að störfum. Mynd: Hildur Pétursdóttir

Árstíðabreytingar rauðátu við Vestmannaeyjar
Úrvinnsla sýna stendur nú yfir og er langt komið að greina átusýni sem komu í 200 Um háfinn. Þar sem úrvinnslu er enn ekki lokið er á þessu stigi ekki hægt að gefa tæmandi yfirlit yfir niðurstöðurnar, heldur verður hér einungis tæpt á helstu atriðum.
Á 4. mynd er sýndur meðalfjöldi rauðátu á stöðvum 1 og 2. Í febrúar og mars var stofn rauðátunnar í algjöru lágmarki (u.þ.b. 300-1000 dýr/m2) en þá voru dýrin í vetrardvala. Í apríl byrjaði vöxtur átunnar og í byrjun júní náði fjöldinn hámarki (u.þ.b. 100000 dýr/m2). Eftir það fækkaði dýrunum og um miðjan júní var rauðátan í mikilli lægð (u.þ.b. 28000 dýr/m2). Síðan jókst átumagnið aftur í lok júní og í byrjun júlí var annað hámark (u.þ.b. 90000 dýr/m2). Dýrunum fækkaði síðan er leið á júlímánuð og í ágúst fundust aðeins fáein dýr í sýnunum.
Með því að fylgjast með fjölda mismunandi þroskastiga rauðátu má fá upplýsingar um hrygningu hennar. Þegar fyrstu sýnin voru tekin í lok janúar voru flest dýrin í vetrardvala en í lok febrúar og mars fannst mikið af kynþroska dýrum í sýnunum. Í apríl og maí var mikið af ungviðisstigum sem bendir til að vorhrygning rauðátu hafi farið fram um það leyti. Dýrin sem þá klöktust út voru flest orðin kynþroska í maí og júní og hrygndu fljótlega á eftir. Fjöldahámarkið í júní-júlí stafar af miklum fjölda ungviða frá þessari síðari hrygningu rauðátunnar.
Þannig endurspegla fjöldahámörkin tvær kynslóðir rauðátu sem vaxa upp austur af Eyjum. Fyrri kynslóðin klaktist aðallega út í apríl og maí, en hin síðari í júní.
Eins og áður sagði hafði rauðátunni fækkað mikið í lok rannsóknanna og greinilegl að dýrin voru að hefja vetrardvalann en þá færa þau sig niður í dýpri sjávarlög og veiðast því síður.

Lokaorð
Þó að ekki sé búið að vinna úr öllum gögnum hafa þegar fengist ómetanlegar upplýsingar um lífsferil og árstíðabreytingar rauðátu á þessu mikilvæga svæði. Sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar annars staðar við landið en í þeim voru sýnatökur mun strjálli en í þessari rannsókn. Þess vegna er líklegt að rannsóknirnar við Vestmannaeyjar veiti nákvæmari og fyllri upplýsingar um lífsferil og hrygningu rauðálu en eldri rannsóknir. Að lokinni fullnaðarúrvinnslu allra sýna verða niðurstöðurnar bornar saman við fyrirliggjandi vitneskju um rauðátu bæði hér við land og á nálægum hafsvæðum.

Ástþór Gíslason sjávarlíffræðingur
Hildur Pétursdóttir líffræðingur
Hafsteinn Guðfinnsson sjávarlíffræðingur