Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Hugleiðing um L.Í.Ú. 60 ára
Hugleiðing um Landsamband íslenskra útvegsmanna 60 ára
Þegar Landssamband íslenskra útvegsmanna var stofnað þann 17. janúar 1939, voru nokkur útvegsmannafélög starfandi í landinu.
Elst þeirra var Félag íslenskra botnvörpuskipaeiganda, sem var fyrsta vinnuveitendafélag á landinu stofnað 9. febrúar 1916.
Útvegsbændafélag Vestmannaeyja var eitt af þeim elstu stofnað 20. október 1920, en hét þá Útvegsbænda-og vinnuveitendafjelag Vestmannaeyja en því nafni var fljótlega breytt.
Fyrsti formaður L.I.U. var kjörinn Kjartan Thors forstjóri og útgerðarmaður í Reykjavík en fyrsti framkvæmdastjóri var ráðinn Jakob Hafstein lögfræðingur. Fljótlega kom upp togstreita á milli eigenda togara og báta og varð hún til þess að á árinu 1944 var ákveðið að skipta sambandinu i tvær deildir, þ.e. deild fyrir eigendur togara og aðra fyrir eigendur báta. Þessi ágreiningur mun fyrst og fremst hafa stafað af því að í þá tíð var heimiluðum afla skipt á milli togara og báta og töldu báðir aðilar sig hlunnfarna og bera skarðan hlut frá borði, og ef til vill hafa landhelgismál eitthvað spilað inn í.
Fljótlega. eftir að samtökin voru stofnuð, áttuðuð forsvarsmenn þeirra útvegsmannafélaga sem starfandi voru, sig á því að þarna var á ferðinni hagsmunafélag, sem yrði sterkara eftir því, sem fleiri væru með, og gengu í samtökin. T.d. var samþykkt á fundi í Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja 12. júní 1945 að ganga í L.I.U. Önnur útvegsmannafélög, sem síðar voru stofnuð gengu yfirleitt í samtökin, þannig að L.I.U. varð fljótlega allsterkt hagsmunafélag innan sjávarútvegsins, þó alla tíð hafi ýmsum útvegsmönnum fundist að samtökin sýndu stjórnvöldum, á hverjum tíma, ekki nóga hörku í hagsmunabaráttu sinni.
Innkaupadeild
Á aðalfundi L.Í.Ú. haustið 1944 var Sverrir Júlíusson útvegsmaður úr Keflavfk kjörinn formaður samtakanna, en hann var úr hópi bátamanna. Umsvif samtakanna jukust fljótlega og strax haustið 1945 var stofnuð innkaupadeild. Henni var ætlað það hlutverk að útvega veiðarfæri fyrir fiskiskipaflotann, en fyrstu árin eftir lok síðari heimstyrjaldar var oft erfitt að ná í nothæf veiðarfæri erlendis frá. Rekstur þess fyrirtækis gekk vel og skilaði það sínu hlutverki og var það starfrækt til ársins 1993, en þá sáu öflugar veiðarfærasölur um innflutning allskonar veiðarfæra, og var ekki talin ástæða til að standa í verslunarsamkeppni.
Millifærslukerfi
Á árunum 1944 til 1960 var rekstur útgerðar yfirleitt mjög erfiður og átti rangt skráð gengi oft stóran þátt í því. Mikið af starfi forsvarsmanna L.I.U. fór þá í það að reyna að knýja stjórnvöld hverju sinni, til þess að leiðrétta ranglætið og endaði það oftast með því að samið var um einhvers konar millifærslu og uppbótakerfi, sem hafði það í för með sér að fiskverð var annað og hærra til útgerðar en sjómanna en það skapaði aftur leiðindi á milli þeirra stétta og erfiðleika í öllum kjarasamningum. Þetta kerfi hélst til ársins 1960 en þá var allt viðskiptafrelsi aukið.
Verðlagsráð sjávarútvegsins
Breytingarnar 1960 urðu til þess að samningar við sjómenn tóku verulegum breytingum, en það varð til þess að oft reyndist erfitt að ná samkomulagi um fiskverð. Sú togstreita varð til þess að Verðlagsráð sjávarútvegsins var stofnað árið 1961. Aðild að því áttu fulltrúar útgerðar og sjómanna öðru megin borðs en jafnmargir fulltrúar fiskvinnlu hinum megin. Sjaldnast náðu þessir aðilar samkomulagi um verð og tók þá við sérstök yfirnefnd, skipuð jafnmörgum fulltrúum frá báðum deilendum og oddamanni, sem lengst af var forstjóri þjóðhagsstofnunnar. Oddamaður ákvað fiskverðið með öðrum hvorum, kaupendum eða seljendum en að sjáfsögðu var hann fulltrúi stjórnvalda, svo þau voru óneitanlega með puttana í málinu. Þetta fyrirkomulag var við lýði til ársins 1992, er fiskverð var gefið frjálst. Í nokkur ár var stuðst við markaðsaðstæður hverju sinni, en á síðasta ári var því miður horfið frá því með lögunum um verðlagsstofu skiptaverðs og Kvótaþing.
Aflatryggingarsjóður
Í marga áratugi voni starfandi, samkvæmt lögum, ýmiss konar sjóðir, er tengdust fiskveiðunum. Áhugi og álit útvegsmanna á þessum sjóðum var ákaflega misjafnt, sem vonlegt var, þar sem tekna til sjóðanna var aflað með útflutningsgjaldi, en það varð til þess að af sumum útgerðum var tekið heilmikið fé, sem rann í þessa sjóði, en aðrar útgerðir voru nánast fastir áskrifendur að bótum og niðurgreiðslum. Aflatryggingarsjóður starfaði eftir lögum, sem voru þannig að landinu var skipt í ákveðin bótasvæði, sem hvert hafði sína aflaviðmiðun. Eftir hvert úthald var síðan reiknað út, eftir aflabrögðunum, hvort þetta eða hitt svæðið væri bótaskylt, og varð útkoman á stundum þannig að bátar með ákveðið veiðarfæri eða af ákveðinni stærð væru bótaskyldir, en aðrir ekki. Þetta olli oft ágreiningi og bauð upp á misnotkun, og heyrðust ýmsar sögur í því sambandi. Þá voru lögin og reglugerðir um þennan sjóð, þess eðlis, að þó afli væri almennt tregur á einhverju úthaldi, og því full ástæða til bóta, gátu jafnvel þrír eða fjórir bátar, sem öfluðu mjög vel, orðið til þess að heil verstöð varð af bótum, þar sem meðaltalsreglan var notuð. Það leyndi sér ekkert á þessum tíma, að það voru alltaf sömu útgerðirnar, sem bæturnar fengu, aðrir fengu aldrei neitt, en voru sífellt að leggja í púkkið. Sem sagt ósanngjarn sjóður.
Vátryggingasjóður
Vátryggingasjóðurinn var nauðsynlegur vegna þess að baslið í útgerðinni, á þeim tíma, var það mikið, að stór hluti útvegsmanna gat aldrei klárað reikningu sína, og þá var það látið sitja á hakanum, sem ekki var innheimt með hörku, og við þessa sjóðstofnun var ástandið orðið þannig hjá fjölda útgerða að gjaldþrot blasti við, vegna margra ára uppsafnaðra vátryggingaskulda af skipunum. Eitthvað varð að gera, og má segja að þessi sjóður hafi verið nauðsynlegur, enda gjörbreyttist ástand þessara mála með tilkomu hans. Það eina, sem menn settu út á þennan sjóð var að þeir, sem fiskuðu vel, og voru því með hátt aflaverðmæti, luku oft við að greiða árstryggingu skipa sinna á fjórum til sex mánuðum. Þó var haldið áfram að láta þá greiða út árið. Þessar umframgreiðslur fengu þeir að vísu til baka, en ekki fyrr en seint á árinu. L.l.Ú. sem annaðist þessi mál og var milliliður á milli sjóðs og útgerðar, lá með þetta fé á sínum vöxtum, oft í nokkra mánuði, og var það á þessum tíma stór þáttur í fjárhagslegri velgengni samtakanna.
Olíusjóður
Olíusjóðurinn var illa liðinn, enda ósanngjarn, vegna þess að með tilkomu hans fóru útgerðir að greiða mjög mishátt olíuverð, og fullyrt var, og reyndar reiknað út, að bátar, sem fiskuðu mjög vel, en eyddu lítilli olíu, greiddu bensínverð fyrir hvern olíulítra, sem þeir eyddu. Þetta var t.d. all algengt með báta, sem stunduðu veiðar með þorskanetum og áttu stutt á miðin, eins og tíðkast hér í Vestmannaeyjum. Þessu sjóðakerfi, sem ýmsir kenndu við sukk, var iðulega mótmælt, en ekki hlustað á. Það var ekki aflagt að fullu fyrr en árið 1986.
'Aðalfundur L.Í.U. í Vestmannaeyjum
Á aðalfundi L.Í.Ú. haustið 1969 þegar, samtökin voru 30 ára, bauð þáverandi formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, samtökunum að halda aðalfund sinn árið 1970 í Vestmannaeyjum, og var það boð þegið. Þessi aðalfundur var haldinn 5., 6. og 7. nóvember 1970, og var vel sóttur. Þetta var í fyrsta skipti sem aðalfundur samtakanna var haldinn utan Reykjavíkur. Fundurinn þótti takast mjög vel, en meðal annars, sem þar gerðist var að Sverrir Júlíusson lét af formennsku eftir 26 ára heillaríkt starf en í hans stað var kjörinn Kristján Ragnarsson. Tók hann við formannsstarfinu 7. nóvember 1970 og hefur jafnan verið endurkjörinn síðan, og sýnir það best hvaða álit útvegsmenn hafa haft á störfum Kristjáns. Nokkrir aðalfundir L.Í.Ú. hafa síðan verið haldnir á landsbyggðinni.
200 sjómílur
Eftir miðja þessa öld, jókst mjög ásókn útlendinga á fiskimiðin við landið. Fjöldi erlendra togskipa, sem voru vel búin til fiskveiða og afkastamikil, á þess tíma mælikvarða fóru að skafa land: grunnið, allt upp að fjöruborði. Forsvarsmenn þjóðarinnar sáu fljótt hvílík vá fylgdi þessari ásókn, og hófu baráttu fyrir útfærslu landhelginnar, en það stríð varð bæði langt og strangt. Á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum unnust ýmsir áfangasigrar, en loks árið 1976 fæst viðurkenning fyrir 200 sjómílna fiskveiðilögsögu. Töldu þá flestir að málið væri í höfn, og að öll rányrkja væri úr sögunni, en annað kom í ljós. Á þessum árum höfðum við sjálfir komið okkur upp stórum flota mjög fullkominna fiskiskipa og tækninni bæði í fiskileitartækjum og veiðurfærum hafði fleygt svo fram, að þeir, sem best til þekktu töldu að þessi skip gætu nánast tortímt hvaða fiskistofni sem væri.
Svört skýrsla
Fljótlega varð því að fara að takmarka aðgang að veiðunum, og var það gert með ýmsum hætti. Þær aðgerðir skiluðu þó ekki miklum árangri, því að á árinu 1983 kom út „svört skýrsla" frá Hafrannsókarstofnun, en með henni er lagt til að þorskafli á árinu 1984 fari ekki yfir 200 þúsund lestir. Mörgum brá í brún við þessa skýrslu. en frammámenn í þessum málum, þar á meðal stjórn L.Í.Ú. sáu að hverju stefndi, og varð það til þess að á Fiskiþingi haustið 1983, var samþykkt, að leggja til við stjórnvöld, að lögleitt yrði ákveðið fiskveiðistjórnarkerfi með veiðistýringu á öllum helstu tegundum nytjafiska. Þetta gekk eftir og hefur þessi stjórn verið á fiskveiðunum síðan, þó með ýmsum breytingum.
Kvótakerfi
Kerfið byggðist á því að heildaraflakvóti var settur á hvert skip, og var miðað við aflareynslu hvers og eins á árunum 1981, 1982 og 1983. Auðvituð urðu margir trítilóðir út af þessari skömmtun, og töldu flestir að á sinn hlut væri gengið, og að hann væri alltof rýr. Fjölmennir fundir voru haldnir til þess að mótmæla kerfinu. en stjórnvöld héldu sínu striki að mestu, og smám saman sættu menn sig við og lærðu að stýra sínum rekstri, eftir þessum breyttu aðstæðum. Að vísu heyrast enn þá óánægjuraddir, en þeim hefur fækkað. Þó er í dag rekinn sterkur áróður gegn kerfinu, en hann beinist einkum að hinu frjálsa framsali.
Sterkir í 60 ár
Eftir að samþykktum L.Í.Ú. var breytt, árið 1963, færðist meira líf í félagsstarfið. Fámenn útvegsmannafélög voru sameinuð, og til urðu sterk landshlutafélög, sem urðu miklu virkari í heildarsamtökunum.
Ekki er hægt að segja annað en að Landssamband íslenskra útvegsmanna hafi farnast vel í 60 ár, og hafa aðeins þrír formenn stýrt samtökunum, allan þennan tíma. Ekki er þó hægt að segja að lognmolla hafi ráðið ríkjum, því hér áður fyrr, þegar Útgerðarbaslið var algert, ár eftir ár, og endar náðu aldrei saman. létu útvegsmenn út um allt land í sér heyra, og skömmuðust út í forsvarsmenn samtakanna fyrir linkind við stjórnvöld, og kröfðust þess að rekstrargrundvöllurinn yrði lagfærður. Það kom t.d. nokkrum sinnum fyrir, að á félagsfundum í Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja komu fram tillögur um úrsögn úr L.Í.Ú., en aldrei náðu þær þó meirihlutafylgi.
Nú á síðari árum hefur þessi áánægja minnkað mikið, og ég held að í dag skilji allir útgerðarmenn, að það eina sem dugir gegn hinum gegndarlausa áróðri og óhróðri um þessa stétt, sé algjör samstaða, og að allir fylki sér um samtök okkar, Landssamband íslenskra útvegsmanna.
Magnús Kristinsson
útvegsbóndi